133. löggjafarþing — 51. fundur,  15. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[15:13]
Hlusta

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að vekja athygli manna á því að mér finnst eins og þessum spurningum hafi einhvern tíma áður verið varpað fram til mín í umræðu um Ríkisútvarpið. Þær eru með öðrum orðum ekki nýjar af nálinni og ég gæti svo sem bent hv. þingmanni á að lesa gamlar ræður mínar eða gömul svör mín við spurningum.

Spurt er um einkavæðingu Ríkisútvarpsins og spurt hvort sú leið sem hér sé farin geri einkavæðingu Ríkisútvarpsins auðveldari. Ég held að svarið við þeirri spurningu sé að hvorki þessi breyting né einhver önnur skipti einhverju þar um. Það þyrfti alltaf lagabreytingu til að einkavæða Ríkisútvarpið, það skipti engu máli hvort það yrði gert að sjálfseignarstofnun eða hlutafélagi eða einhvers konar öðruvísi fyrirtæki. Það þyrfti alltaf að koma til sama lagasetningin hvort sem um væri að ræða hlutafélag, opinbert hlutafélag eða sjálfseignarstofnun.