133. löggjafarþing — 51. fundur,  15. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[15:19]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er lykilatriði sem hv. þingmaður hefði að sjálfsögðu átt að taka á í framsöguræðu sinni en hann var þar eins og hvolpur af sundi dreginn og hafði ekki þrek til þess. Þetta er lykilatriði.

Hv. þingmaður sagði í nefndinni, þar sem ég sat á þeim tíma, að Ríkisútvarpið yrði samkvæmt þessum lögum undanþegið samkeppnisreglum vegna þess að hér væri um sérlög að ræða. Jafnframt var í umræðunni vísað til þeirrar staðreyndar að slíkt gilti t.d. um búvörulög sem væru undanþegin samkeppnisréttinum.

Frú forseti. Á þessu er sá reginmunur að landbúnaður er undanþeginn skuldbindingum EES. Það er útvarpsrekstur ekki. Í búvörulögunum er pósitíft ákvæði um undanþágu. Ég spyr hv. þingmann: Af hverju er það ekki í þessum lögum? Hvað veldur því? Teldi hv. þingmaður ekki betra fyrir málstað hans að hafa a.m.k. það vað fyrir neðan veikburða fætur sína í málinu?