133. löggjafarþing — 51. fundur,  15. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[15:21]
Hlusta

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Fætur mínir eru ekki veikburða í þessu máli og ekki heldur undirstöður málsins sjálfs hvað varðar samkeppnishliðina. Ég held að hv. þingmaður verði að skoða gögnin og málið betur en fram kom í þessu andsvari. Hann blandar annars vegar saman íslenskum samkeppnislögum og hins vegar ríkisstyrkjareglum Evrópusambandsins.

Það er ljóst, sem kom fram hjá Páli Gunnari Pálssyni, forstjóra Samkeppniseftirlitsins, að við aðstæður eins og þessar ætti löggjafinn alltaf síðasta orðið. Sérlög, í þessu tilviki þetta frumvarp, ganga framar almennum lögum. Þetta er alveg ljóst og kom líka fram í fjölmiðlum. Það er alveg ljóst. Ég spurði forstjórann, og það væri ágætt að fá sjónarmið hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar til þess, hvort núverandi lagaumhverfi Ríkisútvarpsins bryti gegn markmiðum samkeppnislaga. Ég spurði hvort það gæti verið. Svarið við því var auðvitað já. Auðvitað er það þannig. (Forseti hringir.) Þetta veit hv. þingmaður. (Gripið fram í.)