133. löggjafarþing — 51. fundur,  15. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[15:22]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. formaður menntamálanefndar segir að stjórnarmeirihlutinn vilji ekki blanda sér í samningamál og ekki svipta starfsmenn, eða framtíðarstarfsmenn Ríkisútvarpsins, samningsrétti. Þetta eru furðulegir útúrsnúningar og skilaboð til fólks sem núna stendur frammi fyrir því í stofnunum eins og Matís ohf. þar sem stjórnin neitar að ræða við stéttarfélögin og fólki er gert að skrifa undir einstaklingsbundna ráðningarsamninga sem það fær jafnvel ekki að sjá og stéttarfélögin fá ekki að sjá. Þetta er framkoman og stéttarfélög og starfsfólk vilja fyrirbyggja svona framkomu. Þess vegna hefur spurningum verið beint til stjórnenda, til hæstv. ráðherra, menntamálanefndar og meiri hlutans þar.

Útvarpsstjóri hefur lýst því yfir gagnvart starfsmönnum að réttindin verði ekki skert að undanskildum biðlaunaákvæðum sem verði háð sólarlagi. Að öðru leyti haldist réttindin. (Forseti hringir.) Í nefndinni segir hann hins vegar að þegar (Forseti hringir.) kjarasamningar renni út sé allt óljóst og engin fyrirheit hægt að gefa. Eru þetta heilindi í framkomu við starfsfólkið?