133. löggjafarþing — 51. fundur,  15. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[15:30]
Hlusta

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er rétt að hæstv. forseti getur ekki ráðið því hvað þingmenn segja í ræðustólnum. Því var hér haldið fram að framsöguræða mín hefði verið þess eðlis að ég hefði ekki svarað lykilspurningum og væri svo máttfarinn í þessu máli að ég stæði varla í lappirnar.

Ég segi á móti, frú forseti, að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hljómar eins og rispuð plata. Það eru alltaf sömu, gömlu lummurnar sem koma frá þessum hv. þingmanni hér í ræðustóli hins háa Alþingis í þessu máli, aftur og aftur.

Við meðferð þessa máls höfum við fengið, og ég fór yfir það, Pál Gunnar Pálsson og Guðmund Sigurðsson (ÖS: Ég var þá.) frá Samkeppniseftirlitinu til að fjalla um samkeppnismál. (Gripið fram í.) Við ræddum líka við fulltrúa frá fjármálaráðuneytinu og menntamálaráðuneytinu um samkeppnismál. Við fengum Ólaf E. Friðriksson til að fjalla um Evrópuréttarreglur á sviði samkeppnisréttar. Ég vil líka taka það fram að í umræðu hér á síðasta þingi fengum við fulltrúa frá Samkeppniseftirlitinu og skrifuðum langa passusa í nefndarálit og framhaldsnefndarálit um samkeppnisrétt, um evrópskan samkeppnisrétt og samspil þessa og þess frumvarps sem við erum að ræða hér. Efnislega hafa þessi frumvörp ekkert breyst þegar litið er til samkeppnisréttarins.

Frú forseti. Hafi ég ekki svarað spurningunni, sem ég svaraði reyndar neitandi áðan, segi ég, frú forseti: Við í stjórnarmeirihlutanum teljum okkur vera á þurru landi (Gripið fram í: Nei.) hvað varðar þetta frumvarp með hliðsjón af reglum íslensks samkeppnisréttar annars vegar og hins vegar hvað varðar evrópskan samkeppnisrétt. (ÖS: Þú veist nú betur.)

Yfir þetta er farið í greinargerð með frumvarpinu. Þetta hefur verið farið yfir áður í nefndarálitum og þetta hefur komið fram í umræðum í nefndinni, t.d. í samtölum okkar og samræðum við Pál Gunnar Pálsson, hvað varðar íslenska samkeppnisréttinn. Hvað varðar ummæli Ólafs E. Friðrikssonar varðandi Evrópuréttinn skrifaði hann lokaritgerð í lögfræði við Háskólann í Reykjavík einmitt um þessi mál, evrópskan samkeppnisrétt á sviði fjölmiðlunar.

Þegar menn koma hér upp, frú forseti, og halda því fram að þetta hafi ekki verið rætt í nefndinni eru þeir annaðhvort að segja vísvitandi rangt frá eða hafa ekki fengið upplýsingar frá samflokksmönnum sínum sem hafa þó sótt fundi í nefndinni til að ræða sérstaklega þessi atriði.

Ég vona að með þessari ræðu minni sé hv. þm. Össur Skarphéðinsson, 1. þm. Reykv. n., orðinn fróðari um (Forseti hringir.) meðferð nefndarinnar á þessum sviðum málsins.

(Forseti (RG): Forseti á mjög erfitt með að átta sig á að nokkur hlutur í ræðum þingmanna snúi að fundarstjórn forseta. Þær hafa verið um framvindu mála í menntamálanefnd og þær umræður er vissulega hægt að taka í umræðunni sjálfri.)