133. löggjafarþing — 51. fundur,  15. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[15:36]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég lýsi óánægju minni með framvindu þessarar umræðu. Hér hafa komið fram mjög alvarlegar ásakanir í þinginu um vinnubrögð ríkisstjórnarinnar, um vinnubrögð hæstv. menntamálaráðherra.

Hér hefur verið upplýst að mikilvægum gögnum sem snúa að þessu máli hefur verið haldið leyndum fyrir þinginu, fyrir menntamálanefnd þingsins. Fulltrúar stjórnarmeirihlutans í nefndinni hafa tekið undir að hér sé um alvarlega brotalöm að ræða.

Það hefur einnig komið fram að fyrir lágu spurningar, fyrirspurnir frá Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, frá 24. nóvember sem var ósvarað þegar ríkisstjórnin ætlaði að knýja málið í gegnum þingið fyrir jólahlé í desembermánuði.

Við fáum engar upplýsingar um það af hálfu menntamálaráðherra eða frá formanni menntamálanefndar þingsins hverju þetta sæti og hvort þau hefðu virkilega verið tilbúin að samþykkja frumvarpið áður en þessi gögn lágu fyrir. Er það virkilega svo? Ég veit að formanni menntamálanefndar var hreinlega ekki kunnugt um þetta mál. Mér léki forvitni á að vita hvort hann hefði verið reiðubúinn til að samþykkja málið ef hann hefði vitað um þessa málavöxtu. Ég geri ráð fyrir að hæstv. menntamálaráðherra hafi vitað um málið.

Síðan er hitt að hér hafa komið fram á opinberum vettvangi mjög misvísandi upplýsingar og staðhæfingar gagnvart starfsmönnum Ríkisútvarpsins. Annars vegar er þeim sagt innan veggja þeirrar stofnunar að réttindi þeirra verði í engu skert en það er ósagt látið hvað gerist eftir að kjarasamningar renna út.

Nú heyrum við það frá formanni menntamálanefndar Alþingis að hreinlega sé ekkert vitað um það hvort yfirleitt verði samið við stéttarfélög í Ríkisútvarpinu. Honum virðist meira umhugað um að virða hinn einstaklingsbundna rétt.

Hver er andhverfan við það? Það er væntanlega hinn félagslegi réttur. Það er aðkoma stéttarfélaga að kjarasamningum. Þetta finnst mér alvarleg tíðindi. Við hinu fáum við aldrei nein svör, hvað verði um réttarstöðu og samningsstöðu nýráðinna starfsmanna.

Hitt er náttúrlega alltaf jafnhlægilegt, að verstu málin sem hafa komist inn í þingið hafa kallað á flesta fundina. Aðstandendur þeirra hafa yfirleitt stært sig af því að hafa haldið marga fundi og fengið marga gesti á þá.

Hver var afstaða þessara gesta? Er ekki staðreyndin sú að meiri hlutinn var andvígur (Forseti hringir.) þessum frumvörpum? Sú er staðreynd málsins.