133. löggjafarþing — 51. fundur,  15. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[15:43]
Hlusta

Frsm. minni hluta menntmn. (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Þetta er í raun sjöunda umræða um þetta mál, ein var háð á þarsíðasta þingi og síðan datt málið milli þils og veggjar af ástæðum sem menn vissu kannski ekki mikið um þá en munu hafa verið athugasemdir frá hinni frægu Eftirlitsstofnun EFTA. Á síðasta þingi voru hafðar þrjár umræður um málið en þeirri þriðju slitið í miðjum klíðum. Það kunna að hafa verið svipuð rök fyrir því en þó olli e.t.v. meiru um það að foringi stjórnarliðsins þá var orðinn nokkuð móður á ferli sínum og þurfti að losna og frumvarpið um Ríkisútvarpið hf. var þá ekki talið nógu merkilegt til að hindra þann mikla atburð. Síðan er þetta þriðja umræðan núna í vetur eftir hrakfarir málsins fyrir jól. Miðað við þetta, miðað við gögn þau sem fram hafa komið í málinu, miðað við vinnubrögð menntamálaráðherra og starfsmanna hennar í ráðuneytinu sem m.a. var rætt um áðan, miðað við gang mála í menntamálanefnd, þaðan sem málið hefur verið tekið fimm sinnum gegn atkvæðum stjórnarandstöðuþingmanna af því að í hvert af þeim fimm skiptum var um það að ræða að málið hafði aldrei verið klárað, hafði aldrei verið sinnt af þeirri athugunar-, umræðu- og rannsóknarskyldu sem sett er á nefndirnar — þegar þetta er allt haft í huga er eins og einhver þjóðsagnaleg ógæfa hvíli yfir þessu máli öllu.

Að því leytinu til gengur maður kannski ekki alveg nægilega glaður til þessa leiks. Við höfum í þessum sex umræðum lýst skoðunum okkar á frumvörpunum, lýst skoðunum okkar á Ríkisútvarpinu og fjölmiðlavettvangi og farið mikinn. Stundum hefur forseta fundist að við færum fullmikinn og kvartað hefur verið yfir því af hálfu stjórnarliða og hæstv. menntamálaráðherra að hér sé talað of mikið en stjórnarliðar hafa hins vegar lagt lítið til mála. Þeir hafa haldið stuttar ræður, innihaldslitlar ræður, efnistómar ræður sumar (ÖS: Eins og ræða formanns menntamálanefndar áðan.) og farið fram undir stjórn menntamálaráðherrans og annarra forustumanna Sjálfstæðisflokksins af einsýni í málinu, alltaf jafnsannfærðir eftir hverja vendingu sem málið tekur, alltaf jafnsannfærðir um að þeir hafi rétt fyrir sér vegna þess að þeir þurfa ekki að hugsa sjálfir. Þeir breyttu úr sf. í hf. eins og að drekka vatn, og síðan úr hf. í ohf. eins og það væri sjálfsagt að halda þeirri vatnsdrykkju áfram.

Stundum minnir þetta ferli hjá stjórnarliðum nánast á sjúklega þráhyggju, þetta er pólitísk þráhyggja, einhver særður metnaður sem stendur þarna að baki og greinilega einhvers konar viðkvæmt samband milli stjórnarflokkanna og einstaklinganna innan þeirra sem kemur í veg fyrir að þeir hreinlega hætti þessu.

Við höldum að fram undan sé slys, fram undan sé slys ef þetta frumvarp verður að lögum um starfsemi Ríkisútvarpsins, slys í íslenskri pólitík og íslensku þjóðlífi. Við vitum ekki enn þá hversu alvarlegt það verður vegna þess að hversu sem hátta mun til með lög og hvað sem þau eru merkileg veldur mestu hver á heldur. Það skiptir máli hverjir eru í forsvari hjá Ríkisútvarpinu, skiptir máli hverjir þar eru í stjórn, skiptir máli hvaða ríkisstjórn er að völdum, skiptir máli hvaða menntamálaráðherra situr á stóli, en þetta slys gæti orðið býsna alvarlegt.

Það sem ég ætla mér að gera í upphafi umræðunnar er að sýna það sem við höfum svo sem áður sagt að þetta slys er ekki óhjákvæmilegt, hægt er að komast hjá þessu slysi. Það eru til aðrar leiðir. Það er svo sérkennilegt núna í þessari umræðu að fram eru komin tvö framhaldsnefndarálit og ég hyggst gera grein fyrir öðru þeirra, en hið fyrra fékk kynningu sína áðan. Það var lesið upp. Það er satt að segja þannig að efnisatriði þess kæmust fyrir í tiltölulega stuttu sms-skeyti. Þó að helmingur framhaldsnefndarálitsins fjalli um hverjir hafi komið fyrir nefndina og helmingur ræðu formanns menntamálanefndar hafi fjallað um hvað margir fundir voru haldnir er eins og ekkert hafi gerst, enginn árangur hafi orðið af því nefndarstarfi.

Í nefndarálitinu er talið upp að nefndin hafi ,,fjallað um málið og fengið á sinn fund Val Árnason, skrifstofustjóra í menntamálaráðuneyti, Sigurbjörn Magnússon hrl., Gunnar Björnsson, skrifstofustjóra starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytis, Sigurð Þórðarson og Jón Loft Björnsson frá Ríkisendurskoðun, Ara Edwald, forstjóra 365 miðla, Magnús Ragnarsson frá Skjá einum, Guðmund Gylfa Guðmundsson, framkvæmdastjóra fjármáladeildar Ríkisútvarpsins, Þorstein Þorsteinsson, forstöðumann markaðssviðs Ríkisútvarpsins, Baltasar Kormák frá Sambandi íslenskra kvikmyndaframleiðenda, Pál Gunnar Pálsson forstjóra og Guðmund Sigurðsson, aðstoðarforstjóra Samkeppniseftirlitsins, Árna Stefán Jónsson, varaformann Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, og Halldóru Friðjónsdóttur frá Bandalagi háskólamanna, Áslaugu Björgvinsdóttur, dósent við Háskólann í Reykjavík, Sigurjón Högnason frá ríkisskattstjóra, Ólaf E. Friðriksson, Ingva Má Pálsson frá fjármálaráðuneyti og Jón Vilberg Guðjónsson og Guðmund Árnason, ráðuneytisstjóra frá menntamálaráðuneyti“. Næsti efnislegi punkturinn er sá að meiri hlutinn leggi til tvenns konar breytingar á frumvarpinu, væntanlega eftir alla þessa yfirferð. Í öðru lagi er um að ræða breytingu á tilvísun í 98. gr. tekjuskattslaga sem var vitlaus og er búin að vera það í þrjú ár. Það er auðvitað okkur að kenna í menntamálanefnd, þó held ég ekki beinlínis við okkur að sakast vegna þess að þegar um svona frumvörp er að ræða treystir maður embættismönnum menntamálaráðherra til þess að hafa þetta rétt. Það var Sigurjón Högnason hjá ríkisskattstjóra sem bar þau boð frá starfsmönnum þar að hér væri vitlaust vísað þannig að meiri hlutinn leggur það til að vísað sé rétt. Ber að fagna þeirri einörðu og skörpu afstöðu hjá meiri hlutanum.

Hins vegar er lagt til að gildistímanum verði breytt, eðlilega, því að hinn fyrsti gildistími frumvarpsins er horfinn og annar gildistíminn er nokkrum dögum undan. Það er það eitt sem er niðurstaðan af öllum þessum fundum og viðræðum við allt þetta fólk í meiri hluta menntamálanefndar. Ég skil það vel að hv. þm. Össur Skarphéðinsson, sem ekki er í nefndinni þótt hann hafi átt þess kost að sitja tvo fundi hennar núna í þinghléinu, skuli sakna þess að ekki sé meira í nefndarálitinu um samræðurnar við allt þetta fólk og um öll þau efnisatriði sem fram komu, og auðvitað sérstaklega það sem varð helsta umfjöllunarefnið og það sem upp kom um helstu nýjungarnar í starfi nefndarinnar nú, nefnilega álitamálunum gagnvart samkeppnisrétti og Evrópureglum. Það er heldur vesælt að hegða sér svona, að nánast eins og að nenna ekki eða vilja ekki skýra frá því sem gerðist á fundum nefndarinnar, þeim álitamálum sem þar komu upp og hvernig þau stóðu þegar meiri hlutinn ákvað að taka málið út gegn atkvæðum minni hlutans, ekki vegna þess að við værum á móti málinu því að það kemur ekki í veg fyrir að mál sé afgreitt út heldur vegna þess að þau hafa ekki verið nægilega rannsökuð. Það hefði kannski verið betra og nær fyrir meiri hlutann og formann nefndarinnar, hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson, að lýsa þessu til að geta þá betur varist þeim ábendingum okkar að málið hafi ekki fengið nægilega umfjöllun í nefndinni sem fram kom m.a. í umræðu áðan um störf þingsins og síðan um fundarstjórn forseta með þeim hætti að þessari umræðu bæri hreinlega að fresta þangað til nefndin hefði fengið ráðrúm til að fjalla betur um málið. Hins vegar að bíða eftir síðasta bréfinu frá ESA, lokabréfinu sem embættismenn menntamálaráðuneytis og fjármálaráðuneytis sögðu okkur nú í annað sinn á tæpu ári að vænta mætti og að það yrði ákaflega jákvætt og þar með væri málunum nánast lokið gagnvart Ríkisútvarpsmálunum hjá ESA, nánast lokið vegna þess að þeim getur ekki lokið formlega fyrr en framkvæmdastjórn Evrópusambandsins gengur frá tilteknu máli sem ég ætla að ræða síðar og hins vegar þangað til frumvarpið verður að lögum.

Það er sem betur fer svo að öfugt við það sem framhaldsnefndarálit meiri hluta menntamálanefndar gefur til kynna komu upp nýir fletir á málinu, margir nýir fletir núna milli 2. og 3. umr., í þinghléinu um jólin og áramótin þegar menntamálanefnd fundaði. Í rauninni er þetta sínýtt mál vegna þess að það er það yfirgripsmikið að þegar í það er farið koma upp nýir fletir á því hvar sem á því er snert. Þess vegna þarfnast það mikils undirbúnings. Ef það hefði verið stefnan frá upphafi máls, að á þarsíðasta þingi hefði verið tekin sú ákvörðun að fara vel í málið, sætum við kannski ekki uppi í þessum vandræðum sem við erum í núna. Þau vinnubrögð voru ekki viðhöfð vegna þess að frá upphafi hefur átt að keyra málið í gegn og ljúka því með eins litlum umræðum og veseni og hægt var vegna þeirrar pólitísku þráhyggju og vegna þess særða metnaðar sem með einhverjum hætti hefur algjörlega að óþörfu blandast inn í umfjöllunina um málið.

Við erum auðvitað að fjalla núna, við 3. umr. um þriðja frumvarpið og líka við 1. umr. um fyrsta frumvarpið, um merkileg efni, um fjórða valdið í landinu, um ljósvakamiðlana sem eru nú orðnir sterkari en prentmiðlarnir hvað sem síðar verður í þróun á markaði á þeim vettvangi þar sem allt er nú að renna saman, um eina af grunnstoðum lýðræðisskipanarinnar í landinu og á Vesturlöndum öllum og víðar, sem betur fer, um heiminn. Við erum líka að tala um kjarnastofnun í félagsfræðilegum skilningi í menningarmálum og í félagsmálum. Við erum að tala um fyrirbæri, Ríkisútvarpið, sem við getum kallað stofnun eða fyrirtæki eftir því sem við viljum sem í raun og veru snertir mjög marga þætti í íslensku samfélagi, snertir menntun og fræðslu, þess vegna allt skólakerfið og allt uppeldi í landinu og snertir líka viðskiptavettvanginn og atvinnulífið á fleiri en einn veg. Það snertir líka heimilislíf manna og tómstundir fólksins í landinu. Þess vegna ber okkur að fara mjög vel og varlega í gegnum mál sem upp koma um Ríkisútvarpið, halda vel á þeim af einurð en líka að stíga skref fyrir skref og vera ekki með óðagot þegar um þetta er að ræða.

Forseti. Við stöndum um þessar mundir á tímamótum í sögu Ríkisútvarpsins og í sögu ljósvakamiðlanna á Íslandi, á tímamótum sem ég hygg að síðari tíma sagnfræðingar líti á sem jafnmerkileg og þau tímamót sem hér urðu árið 1930 þegar Ríkisútvarpið var stofnað, eða í kringum það ár því að Ríkisútvarpið var ekki fyrsta útvarpið sem upp kom á Íslandi, tímamót sem hugsanlega eru jafnmerkileg og á sjöunda áratugnum miðjum þegar sjónvarpið kom fram, sendi fyrst út á Íslandi, tímamót sem á sinn hátt eru alveg örugglega ekki síðri en árin 1985–1986 þegar einkaleyfi Ríkisútvarpsins var afnumið og nýir ljósvakamiðlar komu fram. Þessi tímamót eru algjörlega eðlileg og við hefðum þurft að taka þetta mál til umræðu miklu fyrr. Það er í raun ekki okkur til vegs þegar frá líður að hafa á þessum tímamótum, sem fyrirsjáanleg voru og allir áttu auðvitað að stuðla að og taka þátt í, að hafa ekki borið gæfu til að beita betri vinnubrögðum og ná höndum saman um þá þróun sem við viljum hafa á næstunni í þessum efnum.

Ég held að það sé mikilvægt að hefja þessa umræðu hér af okkar hálfu, stjórnarandstæðinga, með því að segja alveg skýrt að það þarf að breyta lögum um Ríkisútvarpið. Það þarf að hefja það á ný til vegs og virðingar. Það þarf að stuðla þar að ákveðinni nýsköpun miðað við breytta tíma og nýjar kröfur. Það er rétt. Þess vegna ættum við að fagna því að fram séu nú komin þrjú frumvörp um Ríkisútvarpið. Það skiptir máli að vinna að þessu en því miður hafa vinnubrögð menntamálaráðherra og þessarar ríkisstjórnar ekki verið þannig að við náum að haga okkur með reisn á þessum tímamótum, heldur hjökkum við að sumu leyti í þessu fari sem við höfum verið í í þrjú ár.

Af hverju þarf að breyta lögum um Ríkisútvarpið? Af hverju eiga stjórnmálamenn nú að vinna að því að skoða fjölmiðlavettvanginn, ljósvakavettvanginn sérstaklega, og breyta þar almennum aðstæðum, m.a. með nýsköpun á Ríkisútvarpinu?

Það er auðvitað vegna þess, svo að ég telji upp nokkrar af ástæðunum, að nú eru liðin meira en 20 ár síðan einkaleyfi Ríkisútvarpsins til útvarpssendinga var afnumið en Ríkisútvarpinu hefur ekki á þessum langa tíma verið mörkuð ný stefna eða því beint á nýja braut. Það hefur orðið eftir af ýmsum ástæðum, m.a. þeim að stjórnmálaflokkum og stjórnmálamönnum á Íslandi hefur ekki tekist að ná saman um þetta mikilvæga efni sem í nágrannaríkjunum er þó venja og hefð, jafnvel í nágrannaríki okkar, Bretlandi, þar sem flokkar sem nánast bíta hver annan á barkann í heitum stjórnmálaátökum hafa borið gæfu til þess allt frá því löngu fyrir stríð, í gegnum stéttaátök og mikinn slag að halda saman um það sem þeim finnst vera dýrmæt þjóðareign, BBC, almannaútvarpið í Bretlandi.

Þetta hefur ekki verið gert, að marka Ríkisútvarpinu nýja stefnu eða beina því á nýja braut. Þess vegna hefur Ríkisútvarpið að sumu leyti villst af þeirri braut sem það hefði átt að halda sig á og að öðru leyti ekki fengið nægan stuðning til þess að gera það sem það hefur viljað gera með metnaði almannaútvarps.

Í öðru lagi, og þetta tengist allt, eru stjórnarhættir á Ríkisútvarpinu miðað við núverandi lagaramma og þær hefðir sem þar hafa komið upp og skipulag allt flókið og sennilega ekki nógu skilvirkt. Skipting ábyrgðar og valds hefur ekki verið á hreinu. Það er ekki Ríkisútvarpinu að kenna, heldur lögunum um það. Við vitum að það hefur oft og tíðum ekki verið ljóst hver hefur valdið og hver ber ábyrgðina. Er það útvarpsstjóri? Eru það framkvæmdastjórar? Eru það aðrir stjórnendur, t.d. fréttastjórar? Eða eru það menn í útvarpsráði, menn í menntamálaráðuneyti eða annars staðar í samfélaginu?

Í þriðja lagi höfum við upplifað sérstaklega — í raun og veru er það merkilegt — eftir breytingarnar 1985 aukin flokkspólitísk afskipti í ráðningarmálum og í dagskrá. Það var mögulegt með útvarpsráði sem kjörið er hér á þingi, hefur dagskrárvald, ráðningar og áhrif á ráðningar og með því að menntamálaráðherrann ræður útvarpsstjóra og reyndar framkvæmdastjórana líka. Því miður er það flokkur, Sjálfstæðisflokkurinn, sterkasti flokkurinn hér lengi, sem nánast setti sér þetta að stefnumáli og hefur haft þessa stefnu í tvo, þrjá áratugi. Það er nánast hægt að tímasetja þetta. Ætli það hafi ekki verið um 1980 sem Hannes Hólmsteinn Gissurarson bar sjálfstæðismönnum þau boð, hinn mikli Jóhannes skírari frjálshyggjunnar í Sjálfstæðisflokknum, að nú ætti Sjálfstæðisflokkurinn að ná sér í menntamálaráðuneytið og sitja þar sem lengst. Eitt af því sem hann taldi auðvitað fram í því efni var það að Sjálfstæðisflokkurinn þyrfti að beita áhrifum sínum á Ríkisútvarpinu og það hefur hann svo sannarlega gert.

Í fjórða lagi er það svo að það er hæpið, það viðurkenna held ég allir sem eitthvað hafa skoðað það mál, að núverandi fyrirkomulag Ríkisútvarpsins standist samkeppnisrétt og standist Evrópureglur um samkeppni á fjölmiðlamarkaði og um stöðu Ríkisútvarpsins. Úr því er hægt að leysa á margan veg. Hér er ein leiðin, sennilega sú versta, í þessu frumvarpi en þær eru margar fleiri til. Hins vegar er þetta auðvitað ástæða og hefur verið nokkra hríð fyrir því að breyta lögum um Ríkisútvarpið og koma því af stað undir nýjum formerkjum.

Þetta eru nokkrar ástæður. Við í Samfylkingunni og við í stjórnarandstöðunni höfum lýst því yfir hér á þinginu að við viljum betra ríkisútvarp. Við viljum ríkisútvarp sem tekur ákveðna forustu á ljósvakavettvangi, í þjónustu við áheyrendur og áhorfendur á Íslandi, ríkisútvarp sem unir ekki við að vera í eilífri samkeppni við markaðsstöðvarnar, við hinar stöðvarnar, einkastöðvarnar — almennu stöðvarnar sem væri kannski nær að kalla þetta þannig að maður reyni að nota orð sem ekki er gildishlaðið og lýsir tiltölulegri hlutlægni. Ríkisútvarpið á ekki að setja sér að markmiði að vera í samkeppni við þær um áhorf á einstaka þætti og dagskrána í heild til þess fyrst og fremst að geta selt fleiri auglýsingar eða fengið meiri kostunartekjur heldur á það að taka sér sérstöðu, eða réttara sagt viðurkenna sérstöðu sína og sinna verkefnum sínum í samræmi við hana, vera almannaútvarp með áherslu á íslenskt efni, áherslu á efni fyrir börn og unglinga, svo að dæmi séu tekin, áherslu á að vera spegill þjóðlífsins í leik og starfi.

Það er rétt að muna það nú við 3. umr. um þriðja frumvarpið um Ríkisútvarpið frá menntamálaráðherra, sf., hf. og ohf., að flokkar stjórnarandstöðunnar hér voru á undan stjórnarflokkunum að bera fram tillögur um Ríkisútvarpið á þessu kjörtímabili.

Ég nefni tillögu samfylkingarmanna. Þar var ég 1. flutningsmaður, naut þess heiðurs, frá þarsíðasta þingi. Ég nefni þingsályktunartillögu Frjálslynda flokksins sem ég kann ekki að tímasetja en ég hygg að hafi komið fram á fyrsta þingi þessa kjörtímabils. Ég nefni frumvarp VG um breytingar á núverandi lögum sem að vísu kom fram á eftir fyrsta frumvarpinu um Ríkisútvarpið. Öll þessi þrjú þingmál lýsa því að stjórnarandstaðan, hver flokkur um sig vissulega, sýndi þessum málum ekki bara áhuga heldur knúði á um þær breytingar sem þörf væri á í þessum efnum.

Í öllum þessum þingmálum þegar þau eru skoðuð er samhljómur þótt flokkarnir haldi auðvitað sínum sjónarmiðum til haga í þeim málum sem þeir bera fram hver um sig. Það er merkilegt, líka í ljósi þeirra fullyrðinga formanns menntamálanefndar sem ég heyrði í gær í sjónvarpssal, að stjórnarandstæðingar gætu trútt um talað því að þeir gætu ekki komið sér saman um nokkurn skapaðan hlut í þessu efni. Þegar menn skoða þessi frumvörp og fara yfir þær umræður — hvað var það, 78 klukkutíma umræður — sem hér hafa farið fram um frumvörpin þrjú og umræðan um þingmál stjórnarandstöðunnar, í umræðu sem er held ég bara reyndar þingmál Frjálslynda flokksins, heyra menn að það er meiri samhljómur í stjórnarandstöðunni en stundum heyrist í stjórnarliðinu, a.m.k. þegar grannt er hlustað.

Ég vil í framhaldi af þessu, áður en ég kynni nefndarálitið (les: okkar í minni hlutanum) eða framhaldsnefndarálitið, sem ég hyggst lesa á eftir og skýra í einstökum köflum utan lestrar, koma því hér til skila að þessi ræða er bæði um það frumvarp sem hér liggur fyrir og til þess að benda á að til eru aðrar leiðir, nýjar leiðir, betri leiðir í ríkisútvarpsmálum en sú sem hæstv. menntamálaráðherra stendur hér fyrir. Þess vegna ætla ég að fjalla aðeins um hugmyndir sem við samfylkingarmenn kynntum á blaðamannafundi fyrir upphaf 2. umr. núna í desember, hugmyndir í fimm liðum þar sem dregin var saman stefna okkar í þessu og miðuð við það að hægt væri að bera hana beint saman við það frumvarp sem hér lægi fyrir.

Ég hygg að aðrir stjórnarandstæðingar geti tekið undir margt og jafnvel flest af því sem þarna var kynnt þótt þeir kysu sumir e.t.v. aðra framsetningu á forgangsröð og geri sjálfsagðar athugasemdir við einstaka atriði. Það sem meira er, ég held að mjög margir stjórnarliðar hér á þinginu og utan þess taki í hjarta sínu undir flest af því sem við samfylkingarmenn sögðum í byrjun desember og er í samræmi við það sem við höfum áður haldið fram á öllu þessu kjörtímabili um Ríkisútvarpið.

Hvað var það sem við bárum fram? Hvað var það sem við vildum, og viljum? Því má lýsa með þremur orðum: Almannaútvarp, sjálfstæði, styrkur eða afl.

Við viljum, forseti, að Ríkisútvarpið sé raunverulegt almannaútvarp, að sjálfsögðu í víðri merkingu þess orðs, sinni almannaþjónustu í fréttaflutningi, í menningarmiðlun og menningarumfjöllun, leggi rækt við lýðræðislegt hlutverk slíks fjölmiðils, leggi áherslu á fjölbreytni í íslenskri fjölmiðlun, taki upp merki þar sem almennu miðlarnir hafa látið það falla eða aldrei náð í það gagnvart t.d. sérstökum hópum af ýmsu tagi. Marktækt er að nefna innflytjendur okkar og útlenda verkamenn en einnig t.d. börn og unglinga. Við viljum líka að það hafi svigrúm til að höfða til almennings alls með skemmtun og afþreyingu sem er nauðsynleg hverri heildstæðri útvarps- og sjónvarpsstöð.

Við viljum enn fremur að Ríkisútvarpið sé öflugur fjölmiðill, sterkur miðill. Það þarf að tryggja Ríkisútvarpinu tekjur til metnaðarfullrar dagskrárgerðar í sjónvarpi og hljóðvarpi. Það má ekki láta það veslast upp úti í horni í fátæktarbasli eins og verið hefur og er nú einn af þeim liðum sem ég hefði átt að telja upp áðan þegar rök voru að því færð að við hefðum átt fyrir löngu að taka það upp að stefna á nýsköpun Ríkisútvarpsins sem verið hefur, sérstaklega hin síðustu 10–12 ár, að skilja það eftir í almennu og sértæku fátæktarbasli. Það má ekki vera þannig ríkisútvarp eða almannaútvarp að það hirði upp þá bita eina sem aðrir skilja eftir eða líta ekki við.

Það er að okkar hyggju m.a. hlutverk Ríkisútvarpsins að taka að sér forustu á ljósvakavettvangi og fjölmiðlavettvangi, ekki til þess að vera númer 1, heldur til þess að fylgja fram ákveðnum stefnumiðum almannaútvarps, að vera spegill þjóðlífsins eins og ég sagði áðan, að opna samfélagið fyrir nýjum straumum, vera vettvangur umræðu, skapa samkennd með Íslendingum og skilning í samfélaginu á högum hver annars og hverjir annarra, skoðunum hver annars, trúarbrögðum, lífssýn og þess vegna stjórnmálaviðhorfum hver annars.

Til að rækja þetta hlutverk verður Ríkisútvarpið að vera sterkt, sterkt fyrirtæki með djúpar rætur, og það þarf að vera víðtæk samstaða um þess starfsemi meðal almennings sem lítur á það sem sitt útvarp, sem þjóðarútvarp — með fullri virðingu fyrir almennu stöðvunum — víðtæk samstaða milli stjórnmálaflokkanna eins og í langflestum grannlöndum okkar, samanber það sem áður var sagt, og víðtæk samstaða á ljósvakavettvangi og fjölmiðlamarkaði almennt. Nú upplifum við sífelldan skæruhernað milli Ríkisútvarpsins og hinna stöðvanna sem stundum brýst út í hefðbundna orrustu raunar og þar koma fram að sumu leyti réttmætar kvartanir um að Ríkisútvarpið trufli samkeppni og þrengi að öðrum. En það er skylda okkar stjórnmálamanna að búa svo í haginn að þokkalegur friður ríki um starfsemi Ríkisútvarpsins, að aðrir aðilar á markaði viðurkenni þá starfsemi sem þar fer fram og séu sæmilega sáttir við sína stöðu gagnvart Ríkisútvarpinu þótt auðvitað sé það þannig að enginn er bóndi nema hann berji sér.

Í þriðja lagi viljum við að Ríkisútvarpið eigi að vera sjálfstætt bæði gagnvart viðskiptahagsmunum og líka gagnvart stjórnmálaflokkum og stjórnmálamönnum. Sjálfstæðið er beinlínis tilverugrunnur alvörualmenningsútvarps, forsenda þess að geta veitt almenningi öllum þá þjónustu sem til stendur. Dagskrárstefna almannaútvarps, eins og Ríkisútvarpið á að vera, og fréttastefna mega ekki miðast við neitt annað en hagsmuni, þarfir og áhuga almennings, auðvitað ekki hagsmuni einstakra fyrirtækja en heldur ekki mati á því hvað auglýsendum kemur best eða hvað þeim kemur illa. Ítök og inngrip einstakra stjórnmálamanna og jafnvel einstakra stjórnmálaflokka geta orðið banabiti almannaútvarps og eiga að vera þar útilokuð, ekki bara vegna þess að þangað veljist góðir menn og vegna þess að stjórnendur ríkisins séu sanngjarnir heiðursmenn heldur á að útiloka þau eins og framast er unnt með lögum og regluramma Ríkisútvarpsins. Í þessu efni er um að tefla það mikilvægasta sem fjölmiðill getur eignast, það sem myndar sjálft fjöreggið í tilveru almannaútvarps, nefnilega traust áheyrenda og áhorfenda sem bregst ef þeir finna að útvarpið er ekki til fyrir fáeina heldur fer fram á vegum eða með tilliti til viðskiptahagsmuna eða pólitískra hagsmuna. Almannaútvarp, sjálfstætt og sterkt, þetta tel ég að við í stjórnarandstöðu að minnsta kosti séum öll sammála um og raunar mikill meiri hluti Íslendinga. Þessa hugmynd og þessa stefnu berum við þess vegna fram gegn því frumvarpi sem nú er til umræðu hér á þinginu.

Ég ætla að leyfa mér næst að stikla á þeim fimm atriðum sem við í Samfylkingunni settum fram í desemberbyrjun sem framlag til lausnar í deilunni um Ríkisútvarpið hér og nú. Það þarf að vera ljóst að til er önnur leið, eins og ég hef sagt, en sú sem stjórnarmeirihlutinn hefur hrökklast inn á með þessu frumvarpi, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur. Öllum þarf að vera það ljóst að sú leið er auðfarin. Hún er ekki erfið. Hún er ekki torfarin. Þetta er ekki torleiði. Ef þessi leið verður farin er miklu líklegra að það skapist sátt og friður um starfsemi Ríkisútvarpsins en væntanlegt er ef stjórnarfrumvarpið verður samþykkt.

Við lögðum í fyrsta lagi til og leggjum til að Ríkisútvarpið verði sjálfseignarstofnun með eigin stjórn sem Alþingi gæti kosið eins og gert er ráð fyrir í núverandi frumvarpi, en til þess að tryggja að ekki myndist ríkisstjórnarmeirihluti í þeirri stjórn eigi starfsmenn Ríkisútvarpsins þar fulltrúa sem hindrar að sjálfkrafa myndist meiri hluti ríkisstjórnarinnar á hverjum tíma í þessari stjórn Ríkisútvarpsins.

Við teljum líka að almenningur og samtök hans þurfi að eiga aðild að stefnumótun Ríkisútvarpsins með tilstilli stjórnsýslueiningar sem við leyfum okkur að kalla hlustendaþing og gæti komið saman einu sinni á ári. Aðrir hafa notað orðið akademía. Því ráði eða stofnun verði falið ákveðið hlutverk, til dæmis að fara yfir þjónustusamning Ríkisútvarpsins við menntamálaráðherra. Það mætti líka vel hugsa sér að ráðning útvarpsstjóra verði borin undir þetta ráð eða þetta þing. Sjálfsagt væri að þetta þing eða ráð, þessi akademía fengist reglulega við stefnumótun til lengri tíma ásamt starfsmönnum, stjórnarmönnum og að lokum Alþingi. Útvarpsráð í núverandi formi verði hins vegar lagt niður og pólitísk afskipti af innri málefnum afnumin með öllu.

Í þriðja lagi leggjum við til að fjármögnun Ríkisútvarpsins verði blönduð, annars vegar með ríkisframlagi sem má hugsa sér með ýmsum hætti, en hins vegar með auglýsingatekjum eins og nú er, en þó þannig að þær verði takmarkaðar. Við leggjum til þá takmörkun og lögðum til á þessum blaðamannafundi að auglýsingar og kostun verði aldrei meiri en 15–20% af heildartekjum Ríkisútvarpsins hverju sinni.

Í tillögu okkar um Ríkisútvarpið sem almannaútvarp frá þarsíðasta þingi var rakið að nokkrar kröfur þurfi að gera til fjármögnunarleiða fyrir Ríkisútvarpið. Þær þurfa að vera þannig að Ríkisútvarpið hafi í þeirra krafti burði til að vera í forustu á ljósvakamarkaði, þurfa að vera þannig að sjálfstæði Ríkisútvarpsins sé tryggt gagnvart ríkisvaldi og markaðsvaldi, þurfa að vera þannig að tekjur þess séu traustar og stöðugar til langs tíma. Þær þurfa að vera þannig að um fyrirkomulagið ríki þokkalegur friður, bæði meðal almennings og af hálfu almennu stöðvanna. Að auki er æskilegt að fyrirkomulagið sé innan þessa ramma sem skilvirkast og útlátaminnst.

Menn láta stundum eins og nefskatturinn í þessu frumvarpi sé nánast hið eina sem geti tekið við af afnotagjaldinu — útvarpsgjaldinu eins og það heitir — sem hér hefur verið við lýði frá upphafstímum ríkisútvarps. Afnotagjaldið er nú, því miður vil ég segja, á undanhaldi þótt reyndar hafi ýmsar stöðvar, þar á meðal BBC sem hér var áður nefnd, valið þá leið í næstu framtíð sem sína fjármögnunarleið. Ég sé það ekki fyrir mér að afnotagjaldið, jafnvel þó að það geti haldið áfram í nokkur ár enn, sé á vetur setjandi af pólitískum ástæðum en þó einkum af tæknilegum ástæðum sem ég ætla ekki að rekja nú. En það er auðvitað misskilningur að í þess stað sé nefskatturinn einn hugsanlegur.

Í áðurnefndri tillögu okkar samfylkingarmanna nefndum við nokkrar leiðir svona í belg og biðu nánast sem til greina kæmu. Ég bendi líka á greinargóða og ágæta skýrslu Þorsteins Þorsteinssonar markaðsstjóra á Ríkisútvarpinu um afnotagjaldið og hugsanlegar aðrar fjármögnunarleiðir. Ein af þeim er auðvitað fjárveitingar á fjárlögum. Það er haft á móti þeirri leið að sjálfstæði Ríkisútvarpsins sé ekki tryggt nægilega með því móti þar sem mikil fjárhæð yrði til umfjöllunar á hverju hausti og gæti lent illa í pólitískum veðrum og í umfjöllun um afgreiðslu þeirrar fjárveitingar gæti ósvífnum stjórnmálamönnum jafnvel dottið í hug að beita Ríkisútvarpið eins konar fjárkúgun og þess vegna væri þessi leið æskilegust þannig að byggt væri á þjónustusamningum og rammafjárveitingum til langs tíma, til dæmis sjö eða tíu ára í senn þannig að sú hefð skapaðist að hér væri ekki um að ræða ákvörðunarefni þeirrar ríkisstjórnar sem sæti hverju sinni heldur mundu flokkarnir allir taka saman og ná samstöðu um stefnuna í þessu efni ósköp einfaldlega vegna þess að ákvörðunin er tekin fyrir meira en eitt kjörtímabil, tvö og jafnvel þrjú.

Önnur fjármögnunarleið er einhvers konar rásargjald þar sem kemur til greina að taka upp auðlindagjald af útvarpsrásum. Ef það yrði gert er eðlilegt að slíkt gjald yrði einn tekjustofna Ríkisútvarpsins enda drægi þá úr sókn þess á auglýsingamið markaðsstöðvanna eða almennu stöðvanna.

Þriðja leiðin sem nefnd hefur verið — og ég er ekki að draga þær í dilka — er skattur á auglýsingar svipaður og var við lýði hér þegar Menningarsjóður útvarpsstöðva var uppi. Það má hugsa sér að þetta gæti verið ein leið þó ekki verði hún nú vinsæl.

Aðrar leiðir hafa verið nefndar hjá Þorsteini Þorsteinssyni og í skýrslu starfshóps menntamálaráðherra var talað um útvarpsgjald á húsnæði sem hugsanlega fjármögnunarleið fyrir Ríkisútvarpið og þá bæði á íbúðir og atvinnuhúsnæði. Þetta hefur verið útfært, hygg ég, frekar í frumvarpi VG. Það hafa líka heyrst hugmyndir um að Ríkisútvarpið verði fjármagnað með gjaldi sem tengist rafmagnsneyslu á heimilum og er af skattahugmynd að vera ekki ósnjöll og væri þá innheimt á rafmagnsreikningum. Þá þyrfti auðvitað að leiðrétta slíka reikninga vegna húshitunarmála.

Þessi upptalning sýnir að auk nefskattsins eru færar margar leiðir og sennilega er heppilegast, eins og við lögðum til, að fara blandaða leið í þessu efni þannig að Ríkisútvarpið þurfi ekki að byggja tekjuöflun sína aðeins á einum stofni heldur hafi úr nokkrum að velja hverju sinni. Það mundi líka þýða að minni tekjur þyrfti frá hverri fjáruppsprettu einn af göllunum við bæði nefskatt og núverandi afnotagjöld er náttúrlega sá að þetta verða hærri upphæðir hér á landi en annars staðar tíðkast þar sem smæðin verður okkur fjötur um fót í þessu efni. Við þurfum sama stofnkostnað í gerð sjónvarpsþáttar og þarf meðal milljónaþjóða. Við þurfum að borga fréttastjóranum sama kaup hér og gert er í sjónvarpi sem nær til 100 milljóna manna og svo framvegis.

Ég dvel við þetta nokkuð vegna þess að ég tel ástæðu til að gera grein fyrir því að við skirrumst ekki erfiða umræðu í tengslum við Ríkisútvarpið. Það er ekki bara það góða sem við viljum tala um heldur líka það erfiða, sem fjármögnun er vissulega. Við höfum líka sett fram, eins og áður kom fram og eins og áður var rakið, stefnu um auglýsingarnar. Við teljum að það sé fær millileið að Ríkisútvarpið geti aflað sér auglýsingatekna með ýmiss konar takmörkun, til dæmis þá sem við nefndum, takmörkun við 15–20% af heildartekjum hverju sinni. Millileið, segi ég, milli þess að hafa engar auglýsingar og að stefna Ríkisútvarpinu á auglýsingamarkað og kostunar eins og verið hefur með þeim afleiðingum sem raun ber vitni, annars vegar á tekjumöguleika almennu stöðvanna eða markaðsstöðvanna og hins vegar með þeim áhrifum sem slík stefna hefur á dagskrárframboð í Ríkisútvarpinu og á, vil ég segja, móralinn þar innan dyra, þann hug sem menn hafa þegar þeir ganga til starfa á hverjum morgni. Ég held að þessi millileið mundi tryggja Ríkisútvarpinu góðar aukatekjur og gæti skapað þokkalega sátt um þátttöku Ríkisútvarpsins á þessum viðkvæma samkeppnismarkaði, að hún stæðist evrópska kvarða, að hún mundi ekki teljast óhæfileg í skilningi samkeppnislaga vegna þess að almennu fjölmiðlarnir eða fjölmiðlarnir á almenna markaðnum kepptu um meginhlutann af auglýsingum og kostun sem til boða væri á Íslandi. Ekki síst væri þetta fyrirkomulag þannig að við mundum losna við að auglýsingasala og kostun hefði þau áhrif á dagskrárstefnu sem nú er venjan. Þá er þessari tekjuumfjöllun lokið.

Í fjórða lagi leggjum við mikla áherslu á almannaútvarpshlutverk Ríkisútvarpsins. Við teljum að það sé tilveruforsenda þess. Við lýstum því í nokkrum orðum í desember og það er ágætt að fara yfir það aftur. Við teljum að dagskrárstefnan eigi að miðast við vandaðan fréttaflutning, menningarmiðlun, fræðslu og lýðræðislega umræðu, að Ríkisútvarpið eigi að stuðla að pólitískri og menningarlegri fjölbreytni, vera spegill íslensks samfélags með sérstaka áherslu á innlenda dagskrárgerð í sjónvarpi, þar á meðal skemmtun og afþreyingu eins og hæfilegt er, að Ríkisútvarpið eigi að stefna að náinni samvinnu við sjálfstæða framleiðendur útvarpsefnis og vera skjól fyrir vaxtarsprota í menningarefnum og umræðu.

Í fimmta lagi nefnum við sérstaklega að Ríkisútvarpið eigi að vera sjálfstætt, það eigi að vera óháð bæði stjórnmálahagsmunum og viðskiptahagsmunum, að starfsmenn þess verði að búa við raunverulegt ritstjórnarlegt frelsi og það verði að sjá til þess að afar skýr aðgreining verði mörkuð í dagskrá Ríkisútvarpsins milli eiginlegrar dagskrár og hins vegar auglýsinga og þar með komið í veg fyrir vonda kostun, því að hún er vissulega misgóð og þarf verulega að taka á í Ríkisútvarpinu, einkum í útvarpinu, í því tilliti.

Þetta er kjarninn í því sem við lögðum fram til umræðunnar um Ríkisútvarpið í desember. Það er mikilvægt að það sé alveg skýrt, þegar fram undan gætu verið slys sem enginn veit hvort hægt er að bæta með einhverjum hætti, að það eru til aðrar leiðir, betri leiðir, einfaldari leiðir, árangursríkari leiðir, skynsamlegri leiðir, sáttaleiðir.

Ég hvet þingmenn til að kynna sér þetta, að geyma þetta í huga sér, því að stjórnarþingmenn sem hyggjast styðja þetta mál geta ekki borið því við, að því samþykktu, að engin önnur leið hafi verið til en að samþykkja þetta þriðja frumvarp menntamálaráðherra um Ríkisútvarpið. Það hefur verið boðið upp á sættir. Það hefur verið boðið upp á aðrar leiðir í þessu máli, eins og ég hef nú farið rækilega yfir í þeim hluta ræðu minnar sem lokið er.

Í nefndarálitinu sem ég fer yfir á eftir er fjallað sérstaklega um tilraunir innan nefndarinnar og utan til að ná sáttum í þessu máli. En það er rétt að vekja strax athygli á því, sem þar er reyndar rakið og við öllum blasir, að í dag er 15. janúar 2007. Umboð þingmanna á þessu þingi og ríkisstjórnarinnar sem byggir völd sín á meiri hluta þessara þingmanna stendur einungis til 12. maí. Því þingmáli sem hér er til umfjöllunar, þessu frumvarpi er ætlað að taka gildi 1. apríl af einhverjum ástæðum. Þá eru 42 dagar þangað til kosnir eru nýir þingmenn og menn mynda nýja ríkisstjórn eða endurnýjaða ríkisstjórn á grundvelli þess meiri hluta sem myndast 12. maí. Sú staðreynd hve lítið er eftir af kjörtímabilinu ætti að verða mönnum til hvatningar um að reyna að breyta um takt í þessu máli, að reyna að ná þeim sáttum sem unnt er, að fresta umfjölluninni allri fram yfir kosningar.

Ef það þykir ekki nógu gott er hægt að fara þá leið sem Björgvin G. Sigurðsson lýsti áðan í umræðunni og er líka rakin í nefndarálitinu, að afgreiða það sem sátt tekst um á þessu þingi en láta hitt bíða þangað til á sumarþingi eða haustþingi með þeirri skuldbindingu, ef menn vilja, að stjórnmálaflokkarnir taki höndum saman um það að afgreiða nýtt frumvarp um Ríkisútvarpið fyrir tiltekinn tíma, t.d. fyrir vorið 2008 eða á þessu ári fyrir næstu áramót.

Það vill svo til að Páll Magnússon hefur bent á hvaða sættir gætu tekist í málinu. Vegna þess að þegar hann kom á fund nefndarinnar í eitthvert skiptið þá sagði hann aðspurður að hlutafélag væri í raun og veru ekki hans helsta áhugamál. Honum væri alveg sama hvaða skammstöfun væri á eftir orðinu Ríkisútvarpið, í nafni stofnunarinnar eða fyrirtækisins. Sér væri í raun og veru sama þó að vinnustaður hans héti Ríkisútvarpið KFUM ef það hefði yfir höfuð einhverja merkingu. Það væri innihaldið, það væri starfsemin sem skipti máli. Þar nefndi Páll tvö atriði eða réttara sagt þrjú. Í fyrsta lagi að það væri klár skipting valda og ábyrgðar innan Ríkisútvarpsins, að útvarpsstjórinn fengi þau völd og ábyrgð sem honum bæru og að það fyrirkomulag sem nú er við lýði, með framkvæmdarstjóra sem eru sérskipaðir af menntamálaráðherra, hyrfi.

Í öðru lagi sagði Páll að sú skipan sem verið hefði um dagskrárvald og afskipti af ráðningum í útvarpsráðinu væri úrelt, hafi hún einhvern tímann átt rétt á sér, og að aðskilja yrði verk- og valdsvið stjórnar annars vegar og útvarpsstjóra og starfsmanna hins vegar. Um þetta eru allir sem ég hef heyrt tala sammála. Allir á þinginu sem hafa skipt sér af þessari umræðu og minnst á þessi efni eru sammála um þetta. Hér er því mjög auðvelt að ná samstöðu um tvö mjög mikilvæg atriði, tvær mjög mikilvægar breytingar á Ríkisútvarpinu. Ég hygg að frumvarpi sem um þetta væri flutt væri hægt að renna í gegnum þingið á nokkrum dögum, eða ef þessu frumvarpi yrði breytt, umræðunni yrði frestað og frumvarpinu skotið til nefndar og þessu breytt, þá væri hægt að afgreiða það þess vegna á morgun með þessu samkomulagi. Þetta kemur nefnilega, eins og Páll Magnússon sagði, hlutafélagskreddunni ekkert við. Það eru heldur ekki Evrópukröfur sem standa til þess að hér verði hlutafélag eða opinbert hlutafélag. Það eiga menn að vita.

Þriðja atriðið sem Páll nefndi var um svigrúm í mannahaldi og einhvers konar lagfæringar á þeim ramma sem um það gilti. Ég skal segja fyrir mig að ég er reiðubúinn að skoða þau mál út af fyrir sig og athuga með hvaða hætti opinberi ramminn á við á almannaútvarpi og hvaða drætti frá almennum vinnumarkaði væri til bóta að innleiða, en þá eingöngu í samráði við starfsmenn og stéttarfélög þeirra. Það væri ekki fyrr en slíkt samráð færi fram að ég gæti gengið til einhvers áfanga í lagasetningu um þau efni. Því vissulega er það svo að það er slæm reynsla af lagasetningu um kjör starfsmanna og starfsrammann við breytingar á opinberum stofnunum eða ríkisfyrirtækjum án samráðs við starfsmenn og stéttarfélög. Það er alltaf að koma betur og betur í ljós.

Tilboði um þetta var hafnað í nefndinni. Við erum í raun og veru orðin ákaflega vön höfnun í þessari nefnd í þessu máli, látum það nánast ekki á okkur fá. Það verða að minnsta kosti engir komplexar í höfðinu á okkur en þeir komplexar gætu hins vegar orðið til í því viðfangsefni sem hér er á ferðinni í Ríkisútvarpinu, á ljósvakavettvangi og í samfélaginu.

Ég held að menn ættu þó að hugleiða þessa leið og aðrar sem til eru til að ná lendingu í þessu máli. Ekki bara vegna þess að þingmenn séu orðnir þreyttir á því, ekki bara vegna þess að það þurfi að klára málið með einhverjum hætti, heldur líka vegna þess að þjóðin hefur hagsmuni í þessu máli sem fjallar um Ríkisútvarpið.

Forseti. Enn eitt áður en ég hef lestur nefndarálits þess sem ég er framsögumaður fyrir og það er að minnast aðeins á aðra af tveimur meginbreytingartillögum sem meiri hluti menntamálanefndar ber hér fram. Hún er um að gildistíminn sé 1. apríl. Fyrsti apríl er reyndar með þeim formerkjum að það mætti halda að hann sé settur þarna inn frumvarpinu til hnjóðs og málinu öllu til nokkurrar háðungar, því að 1. apríl er dagurinn þegar menn hlaupa apríl, er plat- og gabbdagur þegar borgar sig að fara varlega og taka ekki mark á neinu. Ég veit eiginlega ekki hvað ég á að halda um þessa hugkvæmni meiri hluta menntamálanefndar að ætla sér að láta málið taka gildi 1. apríl. En það er varla svo. Hins vegar er sérkennilegt að í haust var gert ráð fyrir að frumvarpið tæki gildi 1. janúar. Væntanlega hefur menntamálaráðherra eða embættismenn hans hugsað sem svo að það mundi geta klárast í desember og þess vegna gæti það tekið gildi 1. janúar.

Við umfjöllun í nefndinni núna var ljóst að það þyrfti heldur rýmri tíma þannig að við 2. umr. gerði meiri hlutinn þá breytingartillögu að málið tæki gildi 1. febrúar. Var þó gert ráð fyrir að það yrði klárað fyrir jól. Það var sem sagt gert ráð fyrir að þetta tæki svona einn mánuð og það væri rúmur tími til að koma þessu af stað. En nú er það 1. apríl.

Maður hlýtur að spyrja hvort hér sé þá miðað við að málinu ljúki ekki fyrr en liðið er á mars ef líða á mánuður eða rúmur mánuður milli gildistöku og samþykktar. Í ljósi síðustu tíðinda er spurningin auðvitað sú hvort þessi rúmi tími sé ásettur til að bíða eftir lokasvarinu frá Eftirlitsstofnun EFTA, hinu fræga 17.2-bréfi. Að vísu beri að samþykkja frumvarpið áður en það kemur, áður en sá lokadómur fellur sem vænst er, en ekki að taka þá áhættu að fresta frumvarpinu í þinginu þangað til.

Það er alveg ljóst, forseti, að ekkert gerist á þessum rúma mánuði, frá 1. apríl til 12. maí, sem ekki getur gerst í sumar eða haust. Þó að þetta sé ekki mikið mál þá eru vinnubrögðin ákaflega furðuleg og lýsa sérkennilegu táknskyni meiri hluta menntamálanefndar að taka þá áhættu að þetta frumvarp verði kallað 1. apríl-frumvarpið. Hugsanlegt er líka að nota eigi þennan tíma frá 1. apríl til 12. maí til flugeldasýninga, blaðamannafunda, milljónaloforða í þeim stíl sem við höfum séð að undanförnu. Þá færi kannski loksins að komast vit í það að einnig þennan tíma, einnig þetta frumvarp eigi að nota til að reyna að skapa framhaldslíf þeirra flokka sem hér hafa setið við stjórn helst til lengi.

Forseti. Nú er komið að því eftir þennan stutta inngang að gera grein fyrir áliti minni hluta menntamálanefndar eftir umfjöllun hennar fyrir 3. umr. Ég ætla að lesa hér framhaldsnefndarálitið með einstaka viðbótum.

Fyrsti kaflinn í þessu áliti heitir Meginatriði máls og hljómar svo:

Umfjöllun menntamálanefndar eftir 2. umr. um þetta frumvarp hefur enn staðfest það álit stjórnarandstæðinga í nefndinni að með því sé ekki skapaður sá starfsrammi sem Ríkisútvarpinu hæfir til frambúðar og þar með ekki sá starfsfriður sem Ríkisútvarpinu er nauðsynlegur. Líklegt er að samþykkt frumvarpsins leiði til enn ákafari deilna en áður um stöðu Ríkisútvarpsins á fjölmiðlavettvangi og jafnvel til málaferla heima og erlendis, ekki síst vegna þess að staða þess gagnvart samkeppnisrétti og sérreglum Evrópuréttarins um útvarp í almannaþjónustu er óljós eins og ágætlega hefur komið fram í umfjöllun nefndarinnar nú í þinghléinu. Með því að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag væri stigið varhugavert skref sem í sambærilegum tilvikum hefur langoftast leitt til sölu viðkomandi stofnunar eða fyrirtækis. Stjórnarhættir þeir sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu opna leið til áframhaldandi flokkspólitískra áhrifa og inngripa. Réttindi starfsmanna Ríkisútvarpsins eru samkvæmt frumvarpinu í uppnámi. Ekki er sennilegt að nefskatturinn sem ætlunin er að taka upp í stað útvarpsgjaldsins efli samstöðu meðal almennings um málefni Ríkisútvarpsins, einkum ef dagskrárframboð þess dregur áfram dám af hagsmunum auglýsenda og kostenda á svipaðan hátt og hjá markaðsstöðvunum.

Í þessu framhaldsnefndaráliti verður einkum fjallað um þá þætti málsins sem nefndin tók fyrir nú í þinghléinu en um afstöðu til málsins almennt umfram það sem að ofan er rakið og til einstakra annarra efnisatriða vísast í nefndarálit okkar fyrir 2. umr. og fylgiskjala þess.

Annar kaflinn í framhaldsnefndaráliti minni hlutans heitir Óvænt málalok í menntamálanefnd.

Afgreiðsla málsins úr nefndinni föstudaginn 12. janúar er hin fimmta frá því að málið var fyrst lagt fram á þarsíðasta þingi, og tvisvar hefur nefndin fengið málið til framhaldsmeðferðar eftir 2. umr. Hefur meiri hluti nefndarinnar í öll skiptin flutt breytingartillögur við frumvarpið. Má af því greina hvernig ástatt hefur verið um málatilbúnaðinn. Enn flytur meiri hlutinn breytingartillögu, annars vegar um gildistíma og hins vegar þarf á einum stað að lagfæra tilvísun í önnur lög. Sú tilvísun hefur verið vitlaus frá því í hittiðfyrra en það uppgötvaðist nú vegna árvekni ríkisskattstjóra og starfsmanna hans.

Nefndarstörf að málinu nú í þinghléi voru talsverð og gengu ágætlega fram á síðustu stund. Þá urðu þeir atburðir að minni hlutinn hlaut að greiða atkvæði gegn því að málið yrði afgreitt úr nefndinni þar sem nefndarmönnum hefði ekki gefist færi á að sinna rannsóknarskyldu sinni um mikilsverðan þátt málsins. Fréttablaðið skýrði frá því föstudaginn 5. janúar að allt árið 2006 hefði ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, haft málefni Ríkisútvarpsins til meðferðar og verið í bréflegum samskiptum við embættismenn fjármála- og menntamálaráðuneyta. Ráðuneytin höfðu neitað dagblaðinu um þau gögn sem þetta vörðuðu, og leituðu fulltrúar stjórnarandstöðunnar eftir því síðdegis þennan dag að nefndinni yrðu afhent öll þessi gögn — á sama hátt og gert var eftir talsvert stapp fyrir réttu ári. Þá var því haldið fram af hálfu ráðuneytanna að samskiptin við ESA væru á lokastigi, og var nefndarmönnum því í haust grunlaust um frekari fréttir af samskiptum við ESA en þær sem áður voru kunnar og fram komu í nýja frumvarpinu. Formaður menntamálanefndar, sem ekki vissi meira um tilvist þessara gagna en aðrir nefndarmenn, brást skörulega við og útvegaði gögnin frá ráðuneytunum, samtals níu bréf, hið nýjasta dagsett 9. janúar 2007. Þessum bréfum var komið í hólf nefndarmanna um kl. 17.30 á miðvikudag og um leið boðaður fundur á fimmtudag kl. 14.15 með embættismönnum úr ráðuneytunum tveimur. Morguninn eftir var farið fram á það við formann nefndarinnar að þeim fundi yrði frestað þangað til nefndarmenn hefðu haft tíma til að kynna sér gögnin og bera þau undir samstarfsmenn sína. Ekki var á það fallist og á fundinum neitaði formaður enn fremur að efna til fundar síðar um ESA-gögnin heldur tilkynnti að lokafundur um frumvarpið yrði haldinn í nefndinni á föstudag.

Formenn þingflokka stjórnarandstöðunnar gripu þá til þess að leita ásjár forseta Alþingis með bréfi 11. janúar en forseti, sem þá var erlendis, hafnaði því með skilaboðum að beita sér fyrir því að skapa nefndarmönnum svigrúm til að kynna sér gögnin og ræða þau á nefndarfundi.

Minni hlutinn telur að hér hafi ekki verið farið fram með þinglegum hætti og greiddi því atkvæði gegn því að málið yrði afgreitt úr nefndinni. Háttsemi þingforseta, formanns menntamálanefndar og annarra fulltrúa stjórnarflokkanna í nefndinni í þessu máli, þar á meðal hv. þm. Kjartans Ólafssonar, er ekki samboðin virðingu þeirra sem kjörinna fulltrúa með sérstakt ábyrgðarhlutverk. Menntamálaráðherra ber þó meginsök og verður að skýra hvers vegna ekki var sagt frá þessum gögnum og þeim samskiptum sem þau lýsa við ESA. Hér er raunar um að ræða mál sem varðar samvinnu löggjafarvalds og framkvæmdarvalds. Það er að sjálfsögðu grafalvarlegt að ráðherra og embættismenn hans haldi upplýsingum frá þingnefnd sem rannsakar mál í umboði þjóðarinnar.

Formaður menntamálanefndar sem ekki vissi meira um tilvist þessara gagna en aðrir nefndarmenn brást skörulega við og útvegaði gögnin frá ráðuneytunum samtals 9 bréf hið nýjasta dagsett 9. janúar 2007. Þessum bréfum var komið í hólf nefndarmanna um kl. 17:30 á miðvikudag og um leið boðaður fundur á fimmtudag kl. 14:15 með embættismönnum úr ráðuneytunum tveimur. Morguninn eftir var farið fram á það við formann nefndarinnar að þeim fundi yrði frestað þangað til nefndarmenn hefðu haft tíma til að kynna sér gögnin og bera þau undir sérfróða samstarfsmenn. Ekki var á það fallist og á fundinum neitaði formaður enn fremur að efna til fundar síðar um ESA-gögnin heldur tilkynnti að lokafundur um frumvarpið yrði haldinn í nefndinni á föstudag. Formenn þingflokka stjórnarandstöðunnar gripu þá til þess að leita ásjár forseta Alþingis með bréfi 11. janúar en forseti sem þá var erlendis hafnaði því með skilaboðum að beita sér fyrir því að skapa nefndarmönnum svigrúm til að kynna sér gögnin og ræða þau á nefndarfundi. Minni hlutinn telur að hér hafi ekki verið farið fram að þinglegum hætti og greiddi því atkvæði gegn því að málið yrði afgreitt úr nefndinni.

Næsti kafli nefndarálitsins ber heitið ESA-gögnin.

Gögnin sem fulltrúar í menntamálanefnd fengu í hendur 10. janúar lýsa samskiptum ESA og ráðuneytanna á árinu 2006 og í upphafi árs 2007, en ESA hefur óskað upplýsinga um rekstur og fjármögnun Ríkisútvarpsins og um fyrirhugaðar lagabreytingar nokkur undanfarin ár í kjölfar málarekstrar á hendur íslenska ríkinu vegna Ríkisútvarpsins.

Ljóst er að fyrirspurnir og athugasemdir ESA hafa haft talsverð áhrif á þróun frumvarpanna þriggja og Evrópureglur um almannaútvarp eru ein af nokkrum ástæðum fyrir því að ríkisstjórnin lagði af stað í þennan leiðangur. Það sætir furðu að menntamálaráðherra skuli hafa staðið svo að verki sem raun ber vitni við kynningu á samskiptunum við ESA. Meðal annars er rætur þjónustusamningsdraga sem fylgja frumvarpinu nú að rekja beint til fyrirspurna og athugasemda ESA frá árinu 2005 og til spurninga stjórnarandstæðinga um þjónustusamninginn á síðasta þingi. Þjónustusamningsdrögin sem kynnt voru í haust reyndust hins vegar svo óljós að fyrirspurnir ESA um ýmsa þætti héldu áfram allt árið 2006 og hafa verið í fullum gangi í vetur á sama tíma og Alþingi og menntamálanefnd þess ræða og rannsaka stjórnarfrumvarpið.

Embættismenn ESA hafa m.a. spurt um tilhögun eftirlits með almannahlutverki Ríkisútvarpsins og óskað sérstaklega eftir að vita um faglega hæfni ríkisendurskoðanda til að annast slíkt eftirlit. Þeir hafa einnig spurt grannt um aðskilnað í bókhaldi milli almannaþjónustuhluta starfseminnar og samkeppnishluta hennar sem m.a. varð til þess að tiltekið ákvæði var flutt í heilu lagi úr 3. gr. yfir í 4. gr. frá einni frumvarpsgerð til annarrar. Má telja líklegt að svör ráðuneytanna, breytingar í frumvarpstexta og framkomin þjónustusamningsdrög nægi ESA að þessu leyti. Óljósara er hvort svör og viðbrögð um eftirlit með auglýsinga- og kostunarsölu og hátterni Ríkisútvarpsins á þeim markaði hafa verið viðhlítandi. Þessi atriði hefur öll borið á góma í umfjöllun nefndarinnar. Það hefði hins vegar auðveldað starf nefndarinnar verulega að geta fylgst með samskiptum ráðuneytanna við ESA nokkurn veginn jafnóðum eins og eðlilegt hefði verið.

Mikilvægt atriði sem um er fjallað í síðari bréfaskiptum ESA við ráðuneytin hefur aldrei verið kynnt eða rætt í nefndinni og er ekki að finna í frumvarpinu eða fylgigögnum þess, svo sem þjónustusamningsdrögunum. Þetta eru reglur um mat sem fara þurfi fram áður en Ríkisútvarpið tekur upp nýja þjónustu á almannaútvarpssviði. Ex ante heitir það á lagalatínu.

Í síðasta bréfi ráðuneytanna til Brussel kynna þau ESA hugmyndir sínar að slíkum reglum, þá er átt við bréf frá 9. janúar 2007, sem skrifað var fyrir tæpri viku, þar sem m.a. er gert ráð fyrir sex mánaða fresti sem líða þurfi frá því að Ríkisútvarpið og menntamálaráðuneytið hafa kynnt þær og ákveðið af sinni hálfu hvort þær samrýmast ákvæðum laga eða þjónustusamnings. Í samræðum við fulltrúa menntamálaráðuneytisins á nefndarfundi 11. janúar kom í ljós að ekki hefur verið ákveðið með hvaða hætti þessar reglur verða settar, hvort þeim verður bætt við í þjónustusamningi, komið fyrir í reglugerð, sem skortir heimild til í frumvarpinu, eða útbúnar sem einhvers konar sérreglur frá ráðherra. Virðist þessi þáttur málsins ekki hafa uppgötvast í ráðuneytinu fyrr en eftir að síðasta RÚV-frumvarp var lagt fram í haust.

Ég ætla að bæta því við þennan kafla sem eðlilegt er að komi fram og lesa fyrir þingheim umfjöllun á minnisblaði sem við fengum frá menntamálaráðuneytinu um ESA-bréfin, sem barst okkur klukkutíma eftir að meiri hluti nefndarinnar hafði tekið frumvarpið út úr nefndinni.

Fyrirsögnin er: Fyrirframmat á upptöku nýrrar þjónustu og útvíkkun almannaþjónustuhlutverks RÚV. Megintextinn er þessi:

„Í bréfi fjármálaráðuneytisins til ESA, dagsettu 9. janúar síðastliðinn, er gerð grein fyrir því með hvaða hætti íslensk stjórnvöld hyggjast standa að svonefndu fyrirframmati áður en ákvörðun er tekin um upptöku nýrrar þjónustu innan skilgreiningar útvarpsþjónustu í almannaþágu, eins og henni er lýst í 3. gr. frumvarpsins og 2. gr. þjónustusamnings.

Gerð er grein fyrir því að RÚV ohf. eða menntamálaráðuneytið kunni að hafa frumkvæði að því að óskað sé að nýrri þjónustu sé bætt við í þjónustusamninginn. Þá ósk ber að birta opinberlega með sex mánaða fyrirvara áður en fyrirhugað er að veita þjónustuna. Við mat á nýrri þjónustu ber að leggja mat á hvort

a) þjónustan falli innan undantekningar 2. mgr. 59 gr. EES-samningsins,

b) falli utan almannaþjónustuhlutverks RÚV eins og það er skilgreint í 3. gr. frumvarpsins,

c) tekið sé tillit til viðeigandi markaða fyrir umrætt efni og fyrirhugaða miðlunaraðferð.

Matið er á höndum menntamálaráðuneytisins sem kallar á aðstoð sérfræðinga frá Samkeppniseftirlitinu, Póst- og fjarskiptastofnun og útvarpsréttarnefnd eftir því sem þörf krefur.

Í svari íslenskra stjórnvalda er matsferlinu lýst nánar þannig að lagt sé mat á menningarlega, lýðræðislega, félagslega þörf á hinni nýju þjónustu eins og slíkar þarfir eru skilgreindar samkvæmt 3. gr. frumvarpsins. Við matið skal jafnframt horfa til þess hversu margir notendur verði að umræddri þjónustu, kostnaði sem fylgir því að bjóða upp á hana“ — þetta er lesið orðrétt — „og hversu frábrugðið hún sé frá þeirri almannaþjónustu sem RÚV býður þegar upp á.

Ráðuneytið mun jafnframt leggja mat á að hve miklu leyti hin nýja þjónusta feli í sér útvíkkun á fyrri almannaþjónustu og að hve miklu leyti sé um algerlega nýja þjónustu að ræða. Horft er til þess að niðurstöður matsins geti orðið þrenns konar:

A. Að þjónusta sem óskað er að taka upp falli þegar undir almannaþjónustuhlutverk RÚV eins og það er skilgreint í 2. gr. samningsins.

B. Að þjónustan falli utan samningsins en sé inna 3. gr. frumvarpsins eða

C. að fyrirhuguð þjónusta falli utan 3. gr. frumvarpsins.

Ef mat leiðir til niðurstöðu A þarf ekki að breyta samningnum, ef mat leiðir til niðurstöðu B er nægilegt að breyta samningnum og ef mat leiðir til niðurstöðu C er talið nauðsynlegt að breyta almannaþjónustuhlutverki RÚV eins og það er skilgreint í lögunum áður en hin nýja þjónusta er tekin upp.

Í framhaldi af framangreindu mati og fram komnum athugasemdum hagsmunaaðila og keppinauta RÚV er gert ráð fyrir því að ráðherra taki ákvörðun um hvort hin nýja þjónusta geti hafist eður eigi.“

Þetta er ekki auðveldur texti, forseti, en þó þannig að það má komast í gegnum hann og ber að þakka fyrir að þessi texti skuli loksins liggja fyrir. Það eru einmitt textar af þessu tagi sem menntamálanefnd hefði þurft að fá reglulega um þessi samskipti ásamt bréfunum. Ef svo hefði verið hefðum við t.d. getað tekið fyrir þennan þátt málsins sem, eins og ég sagði áðan, er algerlega nýr fyrir menntamálanefndarmönnum, einnig hv. formanni menntamálanefndar sem hér situr og fylgist með af mikilli athygli.

Það er athyglisvert við þennan texta að þar eru lagðar til grundvallar skilgreiningar 3. gr. sem eru, eins og hefur verið rakið í öllum fyrri sex umferðum, afar losaralegar þó að þeim hafi heldur fækkað með árunum og spanna nánast allt það efni og allt dagskrárframboð sem eru einasta sjónvarpi íslensku en fyrst og fremst bið ég menn að taka eftir því að með þessum reglum hefur þjónustusamningurinn öðlast glænýtt hlutverk sem ekki er getið um á neinn hátt í lagaákvæðum um hann, sem fóru inn í fyrra eftir kröfur frá ESA og ábendingar frá stjórnarandstæðingum í menntamálanefnd og eru svona síðast í 3. gr. frumvarpsins, með leyfi forseta:

„Menntamálaráðherra og Ríkisútvarpinu ohf. ber að gera sérstakan þjónustusamning um markmið, umfang og nánari kröfur skv. 2. mgr. um útvarpsþjónustu í almannaþágu.“

Staða þjónustusamningsins er ekki skýrð nánar í athugasemdum með frumvarpinu. Þar eru aðallega tínd til þau rök sem hluti menntamálanefndar hafði fyrir honum í nefndaráliti sínu sem voru bara ágæt. Þar segir að hann eigi að tryggja frekar, eins og það er orðað, eftirlit Ríkisendurskoðunar við endurskoðun og eftirlit með fjárreiðum Ríkisútvarpsins og að með þjónustusamningnum sé endanlega tryggt að komið verði til móts við athugasemdir erlendra eftirlitsstofnana um gagnsæi almannaþjónustuhlutverks Ríkisútvarpsins, eins og það er orðað og að samningurinn hjálpaði stjórninni, þ.e. stjórn Ríkisútvarpsins ohf. að gera grein fyrir því í ársskýrslu hvernig skyldum um útvarp í almannaþágu hefði verið sinnt.

Ekkert umfram þetta er að finna um formlegt innihald þjónustusamningsins, ekkert um formlegt innihald hans eða gildi hans. Ákvæðið um þjónustusamninginn virðist ekkert frekar hafa verið íhugað í ráðuneytinu frá því að meiri hluti menntamálanefndar lagði til að breytingartillaga þess efnis yrði samþykkt í þinginu. En þjónustusamningurinn virðist hafa orðið eins konar redding þegar ESA loksins spurði og knúði á um fyrir fram matsreglurnar, um ex ante-regluverkið.

Það vekur athygli að menntamálaráðherra skuli ekki hafa ætlað að segja frá þessum reglum opinberlega meðan frumvarpið er til umfjöllunar í þinginu og meðal þjóðarinnar. Þessi reglusetning, nýja reglusetning, setur í algerlega nýtt ljós bæði skilgreiningar í 3. gr. frumvarpsins um almannaþjónustuna og þjónustusamninginn sem gerður skal samkvæmt henni. Hingað til hefur þjónustusamningurinn — og þetta er mikilvægt — verið kynntur sem sáttmáli um lágmark þeirrar almannaþjónustu sem Ríkisútvarpinu er skylt að veita. Þegar nýja ex ante-regluverkið er sett í samband kemur í ljós að Ríkisútvarpinu er óheimilt að auka þjónustuna á ákveðnum sviðum, almannaþjónustuna, umfram ákvæði þjónustusamningsins. Í þjónustusamningnum felst því þvert á móti hámark þeirrar almannaþjónustu sem veitt skal. Eðlilegt er í framhaldi af þessu að endurskoða nú rækilega ákvæðin í 3. gr. frumvarpsins og íhuga enn fremur vandlega stöðu þjónustusamningsins. Úr því að um hámark er að ræða þarf allt önnur vinnubrögð, faglegri og lýðræðislegri, við gerð samningsins og samþykkt hans, bæði af hálfu ríkisvaldsins og Ríkisútvarpsins en gert er ráð fyrir í frumvarpinu.

Hér kemur fram, forseti, að menntamálanefnd hafi beðið um það minnisblað frá menntamálaráðuneytinu sem ég las áðan, þar sem væri farið skipulega yfir efni bréfanna og segir frá því hvenær það barst. Síðan segir:

Í því kemur fram, sem einnig var sagt frá á fundi nefndarinnar með embættismönnunum, að innan skamms væri von eins konar lokabréfs frá ESA (17.2-bréf á tæknimáli), — sem ég veit að hv. þm. Kjartan Ólafsson skilur vel af því hann stendur í miklum samskiptum ásamt mér við Eftirlitsstofnun EFTA — þar sem „dregnar væru saman athugasemdir ESA og ábendingar um úrræði sem væru til þess fallin að uppfylla kröfur reglna um ríkisstyrki á sviði útvarpsþjónustu í almannaþágu“, eins og þar segir, með leyfi forseta. Að sögn embættismannanna var góð von til þess að ráðuneytin gætu svarað þessu bréfi á fullnægjandi hátt og mundi málinu þá lokið að sinni. Undarlegt má heita að ekki skuli eytt vafa um afstöðu ESA og beðið eftir 17.2-bréfinu áður en úrslit þessa langdregna þingmáls ráðast á Alþingi.

Þetta, forseti, var umræðuefni mitt í umræðum áðan, um fundarstjórn forseta. Ég beini því enn til forseta að íhuga það að samskiptunum við ESA er ekki lokið. Það er ekki uppáfynding okkar í stjórnarandstöðunni eða minni hlutans í menntamálanefnd að þar standi út af, heldur er það beinlínis ábending frá embættismönnum ráðuneytanna til nefndarinnar. Það er algjörlega óskiljanlegt fyrst að það er þannig að vonir þeirra standa til að í þessu lokabréfi, 17.2-bréfinu, verði blessað og signt yfir það frumvarp sem hér er á ferðinni, að stjórnarliðar skuli ekki treysta sér til og hæstv. menntamálaráðherra að bíða ósköp einfaldlega eftir þessu bréfi.

Næsti kafli í framhaldsnefndarálitinu heitir Staða Ríkisútvarpsins gagnvart samkeppnisrétti og Evrópurétti og er meginkafli nefndarálitsins, bæði að lengd og efni.

Umsögn Samkeppniseftirlitsins um ríkisútvarpsfrumvarpið hefur vakið verulega athygli, og vegna ýmissa álitamála í tengslum við hana, umsögn Samkeppniseftirlitsins, var forstjóri Samkeppniseftirlitsins, Páll Gunnar Pálsson, fenginn aftur til fundar við nefndina ásamt aðstoðarforstjóranum, Guðmundi Sigurðssyni. Í umsögninni er m.a. fjallað um stöðuna á auglýsinga- og kostunarmarkaði. Að lokum hennar segir að til að „koma í veg fyrir þá samkeppnislegu mismunun sem af því leiðir að Ríkisútvarpið starfi áfram á markaði fyrir birtingu auglýsinga og á markaði fyrir kostun í frjálsri samkeppni við aðra aðila jafnframt því að hafa tekjur af skattfé til að inna af hendi skilgreinda útvarpsþjónustu í almannaþágu“ komi tvennt til greina, annaðhvort hverfi Ríkisútvarpið með öllu af þeim markaði eða stofnaðar verði sérstakar útvarpsstöðvar á vegum ríkisins eða Ríkisútvarpsins til að keppa á þeim markaði, og séu þær þá reknar án nokkurs ríkisstyrks.

Í umsögninni er tekið fram að Samkeppniseftirlitið taki ekki afstöðu til þess hvort fyrirkomulag sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu sé í samræmi við reglur EES-samningsins um ríkisaðstoð. Það sé annarra, sagði forstjórinn, Eftirlitsstofnunar EFTA og síðan dómstóla. Í umsögninni er miðað við íslensk samkeppnislög sem þó standa á evrópskum grunni. Forstjórinn sagði að löggjafinn gæti vikið til hliðar markmiðum samkeppnislaga með sérlögum og þar með þrengt möguleika Samkeppniseftirlitsins til afskipta af málum, en það væri hins vegar skylda stofnunarinnar að fylgjast með þessum markaði og gera ráðstafanir í samræmi við markmið samkeppnislaga, eins og hann orðar það afar hæversklega.

Hér verður að bæta því við utan nefndarálits að hugtakið sérlög er ekki alveg einfalt fyrirbrigði. Til dæmis hefur verið spurt um það nú undanfarna daga, síðast í ræðustól þingsins í umræðunum áðan, hvort í svokölluðum sérlögum þurfi ekki sérstök undantekningarákvæði frá hinum almennu lögum eins og við höfum mörg dæmi um, jafnvel við sem ekki höfum mikla reynslu af umfjöllun af því að eiga við lög eða setja þau. En hér er ekkert slíkt á ferð. Þess vegna kynni þetta að verða umfjöllunarefni íslenskra dómstóla síðar meir og jafnvel hinna erlendu líka, eða hinna alþjóðlegu.

Um þetta efni segir ritstjóri Fréttablaðsins, Þorsteinn Pálsson — sem einnig var vitnað til í umræðunum áðan og nokkrir kannast ágætlega við á þessum vinnustað vegna þess að hann var einu sinni einn af hinum 63 kjörnu fulltrúum og reyndar formaður stærsta stjórnmálaflokksins sem þá var og er enn um sinn — í leiðara í blaði sínu í gær, með leyfi forseta:

„Engin ákvæði frumvarpsins um Ríkisútvarpið ohf. víkja samkeppnislögum til hliðar með berum orðum eins og til að mynda er raunin varðandi sérlög um ákveðna þætti búvöruframleiðslunnar. Því er ekki unnt að staðhæfa“ — þ.e. væntanlega eins og fulltrúar stjórnarflokkanna gera — „að álit Samkeppniseftirlitsins hafi ekkert gildi.“

Í sama blaði er í dag viðtal við annan lögfræðing, Ástráð Haraldsson, sem ég þekki af góðu einu, um ríkisútvarpsfrumvarpið. Um þetta atriði segir svo í viðtalinu við Ástráð, með leyfi forseta enn á ný. Nú er það blaðamaður sem hefur orðið í upphafi.

„Fram hefur komið að forstjóri Samkeppniseftirlitsins telur ákvæði frumvarpsins um Ríkisútvarpið stangast á við samkeppnislög. Talsmenn stjórnarflokkanna í menntamálanefnd hafa svarað því til að í raun skipti það ekki máli þar sem sérlög gangi framar almennum lögum. Með öðrum orðum nái samkeppnislög ekki til Ríkisútvarpsins. Ástráður hefur efasemdir um þennan lagaskilning og telur raunar að samkeppnisreglurnar séu með vissum hætti tengdar grunngerð samfélagsins. Þeim verði því ekki svo auðveldlega vikið til hliðar. „Það eru því veruleg áhöld um að hve miklu leyti hægt er að undanþiggja tiltekna starfsemi þessum reglum og að minnsta kosti verður það aldrei gert nema með því að segja það berum orðum.““ Þetta er niðurstaða Ástráðs Haraldssonar. Ég endurtek, með leyfi forseta:

„… að minnsta kosti verður það aldrei gert nema með því að segja það berum orðum.“

Þau beru orð vantar í frumvarpið. Það eru því gallar á þeirri staðhæfingu, m.a. formanns menntamálanefndar, að hér skipti samkeppnislögin engu máli þar sem sérlög sem verði úr þessu frumvarpi geti vikið ákvæðum þeirra gjörsamlega til hliðar.

Mig skortir satt að segja þekkingu til að andæfa þessum lögfróðu mönnum. En auðvitað væri fróðlegt að heyra svör annarra lögfræðinga, t.d. lögfræðingsins Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, sem nú er hæstv. menntamálaráðherra, og lögfræðingsins hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar, sem nú er formaður menntamálanefndar, við þessum rökum hinna lögfróðu manna.

Þetta mál allt verður líka að skoða með tilliti til þess sem næst er fjallað um í nefndarálitinu. En þar segir svo:

Fram kom hjá forstjóranum að öll takmörkun sem minnki þá samkeppnislegu mismunum sem af frumvarpinu sprettur væri til bóta. Hugsanlega gæti löggjafinn fundið leið í þessu efni sem ekki ylli Samkeppniseftirlitinu áhyggjum.

Hér er ekki mikið sagt vegna þess að okkur ber að fara varlega sem stöndum að nefndarálitum þegar við fjöllum um samræður á nefndarfundunum. En hér er í raun vísað til orðaskipta minna og forstjóra Samkeppniseftirlitsins út frá lagatextanum í samkeppnislögum um óhæfilega hindrun eða takmörkun á samkeppni, þar sem við ræddum um hvaða þýðingu orðið óhæfileg hefði í þessu samhengi. Og hvort hugsanlegt væri að Ríkisútvarpið gæti haft einhverjar tekjur af auglýsingum og kostun þrátt fyrir þá niðurstöðu sem Samkeppniseftirlitið kemst að í umsögn sinni.

En við samfylkingarmenn höfum, eins og ég lýsti áðan, talað um ákveðnar reglur um þetta og lagt fram til umræðunnar tillögu um 15–20% af heildartekjum Ríkisútvarpsins, að það gæti komið af auglýsingamarkaði og kostunar í sæmilegri sátt við aðra aðila á þeim markaði.

Forstjórinn sagði þá þetta sem lýst er í nefndarálitinu að öll takmörkun, þ.e. takmörkun á óheftri þátttöku Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði, sem minnki þá samkeppnislegu mismunun sem af frumvarpinu sprettur væri til bóta. Þetta er auðvitað óbein ræða og við berum ábyrgð á því hversu rétt er með farið. Ég held að forstjóranum sé ekki gert rangt til með þessari tilvitnun.

Löggjafinn gæti hugsanlega fundið leið í þessu efni sem ekki ylli Samkeppniseftirlitinu áhyggjum. Ég skil þetta svo að takmörkuð þátttaka Ríkisútvarpsins á þessum markaði kynni að vera flokkuð þannig að hún slyppi undan óhæfilega ákvæðinu, sem svo mætti kalla, á ekki ósvipaðan hátt og ESB tekst að tala um að almannaútvarp megi ekki standa í samkeppni á auglýsingamarkaði og skyldum markaði „að því marki sem er ósamrýmanlegt hagsmunum bandalagsins“ eins og það er orðað með hulduhrútsorðfæri sem þeim er tamt í Brussel, en á þetta orðalag er drepið síðar í nefndarálitinu.

Ég ætla ekki að búa til neins konar afstöðu úr þessum orðum fyrir forstjóra Samkeppniseftirlitsins. En þetta er auðvitað mikilvægt því í frumvarpinu sem hér er til umfjöllunar er ekki gert ráð fyrir neins konar takmörkun að þessu leyti. Breytingartillögur meiri hlutans fyrir jólin skipta nánast engu máli. Vissulega var afstaðan fengin fram með þeim takmörkun á auglýsingum á netinu, á vefsíðu Ríkisútvarpsins. En það er auðvitað sama staða og hefur verið undanfarið eftir kæru fyrirtækisins tunga.is frá 2003 eða 2004. Þegar sú kæra kom fram voru auglýsingar rétt nýhafnar á vefsíðunni. Það hefur því aldrei í raun verið við lýði hér á landi.

Hitt er svo nánast hlægilegt sem fólst í annarri breytingartillögu þeirra um að kostunin skuli vera ákveðið hlutfall af breytilegum auglýsingatekjum. Mætti flytja um það langt mál, eins og ég gerði reyndar við 2. umr. og læt hugsanlega eftir mér að gera síðar í þessari umræðu.

Í nefndarálitinu er þetta haft eftir forstjóra Samkeppniseftirlitsins og síðan heldur það áfram með því að enn er vitnað óbeint í þann forstjóra:

Hvað sem því liði mundi Samkeppniseftirlitið fylgjast með rekstri Ríkisútvarpsins með hliðsjón af 11. gr. samkeppnislaga um markaðsráðandi stöðu, 14. gr. þeirra um fjárhagslegan aðskilnað samkeppnisrekstrar og almannarekstrar og 16. gr. um skaðleg áhrif opinberra fyrirtækja í samkeppni og kynni að taka afstöðu í ljósi þessara greina til tiltekinna mála.

Engin tæpitunga er töluð í þessari umsögn. Forstjórinn talar þó varlega um hugsanleg afskipti Samkeppniseftirlitsins af fyrirhuguðu ríkisútvarpshlutafélagi, enda er það ekki háttur þeirrar eftirlitsstofnunar að tilkynna fyrir fram um afskipti sín eða svara spurningum í skildagatíð. Rétt er að hafa í huga að í bréfi ráðuneytanna til ESA 9. janúar sl. er þess sérstaklega getið að Samkeppniseftirlitið eigi að fylgjast með atferli Ríkisútvarpsins ohf. á samkeppnismarkaði og í þessu bréfi er þess ekki getið að samkeppnismarkaður auglýsinga og kostunar sé þar undanskilinn.

Þáttur Samkeppniseftirlitsins í málinu lýsir vel þeirri óvissu sem ríkir um stöðu Ríkisútvarpsins gagnvart innlendum samkeppnisrétti og gagnvart Evrópurétti. Við umfjöllun um þetta mál í vetur hafa stjórnarandstæðingar í menntamálanefnd því lagt áherslu á að fá til fundar óháða sérfræðinga á þessu sviði. Það hefur gengið illa, og koma ástæðurnar ágætlega fram í svari eins þeirra sem beðinn var um að aðstoða nefndina, Stefáns Geirs Þórissonar lögfræðings, en beiðninni til hans fylgdi að hans ósk stutt lýsing þeirra álitamála sem uppi eru. Í svarinu segir þetta:

„Spurningarnar sem varpað er fram snúast um grundvallaratriði á einhverjum flóknustu og vandmeðförnustu sviðum réttarins, þ.e. samkeppnisrétti og Evrópurétti. Til að geta svarað spurningum af því tagi sem varpað er fram í erindi þínu [þ.e. nefndarritara] af einhverju viti þarf jafnvel sérfræðingur á þessum réttarsviðum að leggjast í verulega rannsóknarvinnu. Þar sem ég hef yfirdrifið að gera í starfi mínu sem lögmaður sé ég ekki fram á að geta innt þá vinnu sem þarf af hendi í sjálfboðavinnu, en ég geri, af fyrri reynslu, ekki ráð fyrir að þingið muni greiða fyrir vinnu við undirbúning fyrir slíkan fund hjá nefndinni.“

Þetta svar lýsir reyndar ágætlega erfiðri stöðu þingnefndar í flóknu máli þar sem samvinna við sérfræðinga á vegum framkvæmdarvaldsins er með þeim hætti sem áður greinir.

Ekki skal þó vanmetin heimsókn Ólafs E. Friðrikssonar, lögfræðings og fyrrverandi blaðamanns, sem skrifaði í fyrra, vorið 2006, fróðlega námsritgerð við Háskólann í Reykjavík um ríkismiðla á evrópskum samkeppnismarkaði. Ritgerðin heitir „Ríkisreknir fjölmiðlar á samkeppnismarkaði. Réttarreglur og dómafordæmi Evrópuréttar um ríkisstyrki til sjónvarpsstöðva“. Í ritgerð Ólafs er skilmerkilega lýst tilraunum ríkisstjórna í ESB og framkvæmdastjórnarinnar til að veita ríkisreknum almannaútvarpsstöðvum svigrúm til starfa á menningarlegum, félagslegum og lýðræðislegum forsendum þrátt fyrir strangar reglur sambandsins gegn mismunun á markaði. Ríkisútvarpsstöðvar um alla álfuna urðu illa úti í miklum málaferlum sem hófust á níunda áratugnum, og leiddi þessi þróun sem kunnugt er til þess að Rómarsáttmálanum var breytt með bókun sem kennd er við Amsterdamborg og tók gildi árið 1999. Ríkjunum er gert heimilt og sjálfsagt að styðja almannaútvarp en þó þannig að almannaútvarpsstöðin uppfylli ákveðna fyrirframskilgreinda þjónustukvöð og með þeim hætti að ríkisstuðningurinn og rekstur almannaútvarpsins hafi eins lítil áhrif á samkeppni og viðskiptakjör og unnt er, að því marki sem andstætt sé almannahagsmunum, eins og það er orðað. Þessari ákvörðun var almennt fagnað meðal unnenda almannaútvarps sem afdráttarlausum stuðningi innan Evrópusambandsins við rekstur almannaútvarps. Á hinn bóginn var ljóst að með hinni nýju skipan voru gerðar verulegar kröfur til þess að ríkisútvörp eða ríkisstyrktir ljósvakamiðlar sinntu í raun almannaþjónustu, í nokkuð víðri skilgreiningu sem eðlilegt er – en ekki öðru en almannaþjónustu fyrir þann styrk sem ríkisvaldið legði þeim til. Þá var ákveðið að heimila tekjuöflun með auglýsingum og nú kem ég, forseti, að þeirri umfjöllun sem ég boðaði áðan og tilvitnun hefst:

„svo fremi það hefur ekki áhrif á samkeppni á viðeigandi mörkuðum (t.d. auglýsingar, öflun og/eða sala á dagskrárefni) að því marki sem er ósamrýmanlegt hagsmunum bandalagsins“, en þessi tilvitnun er úr orðsendingu framkvæmdastjórnarinnar sem einkennd er með stöfunum OJ og safnmarkinu ef þetta væri safn C17/4 frá 19. janúar 2001 og má sjá í íslenskri þýðingu Ólafs E. Friðrikssonar í ritgerð hans á bls. 22. Ljóst ætti að vera af þessari stuttu lýsingu að fjölmörg matsatriði standa eftir og er enn þá verið að útfæra þessi meginmarkmið innan Evrópusambandsins svo sem við þekkjum frá athugasemdum og leiðbeiningum frá ESA um Ríkisútvarpið.

Síðan Amsterdam-bókunin gekk í gildi er hafinn nýr málarekstur sem enn er ekki kominn fyrir ESB-dómstólinn, og er því engan veginn víst hvaða reglur gilda í raun og veru um ríkisútvarpsrekstur innan Evrópusambandsins og á Evrópska efnahagssvæðinu.

Hér er áður komið fram að enn vantar á að ESA hafi gengið úr skugga um að formsatriði samkvæmt nýjasta RÚV-frumvarpinu og fylgigögnum þess fullnægi Evrópukröfum. Hitt er þegar ljóst að með frumvarpinu er tekin veruleg áhætta gagnvart málaferlum á grunni Evrópureglna. Líklegt er að fyrir dómstólum yrði þetta m.a. athugað:

1. Hvernig sinnir Ríkisútvarpið almannaþjónustuhlutverki sínu? Starfar það samkvæmt of víðri skilgreiningu á almannaþjónustu þannig að starfsemi þess þrengi að möguleikum annarra á ljósvakavettvangi?

2. Hver er þátttaka Ríkisútvarpsins á markaði auglýsinga og kostunar? Er um að ræða grimmilega samkeppni við keppinautana — og byggist hún á sölu auglýsinga og kostunar í tengslum við dagskrárefni sem fellur illa að almannaþjónustuhlutverki Ríkisútvarpsins?

3. Hvert er svigrúm Ríkisútvarpsins til athafna og viðskipta sem lítt eða ekki tengjast almannaútvarpshlutverki þess? Stofnar það til útsendinga á samkeppnisrásum til að afla auglýsingatekna? Vinnur það gegn öðrum ljósvakastöðvum umfram það sem eðlilegt getur talist við rekstur almannaútvarps, ef til vill gegn einhverri tiltekinni stöð?

4. Hvert er rekstrarform Ríkisútvarpsins? Hefur það að formi til sérstöðu sem hæfir hlutverki þess sem almannaútvarps eða er því valið rekstrarform sem einkum miðast við hefðbundinn samkeppnisrekstur á markaði? Er hætta á að Ríkisútvarpið hf. eða ohf. notfæri sér ávinning hlutafélagsformsins án þess að sæta þeim samkeppnisreglum sem keppinautar í öðrum hlutafélögum verða að gangast undir?

Fulltrúar minni hlutans í menntamálanefnd telja nokkuð ljóst að í frumvarpinu og fylgigögnum þess sé engan veginn búið þannig um hnútana að nýja ohf.-ið standist þetta próf í þessum fjórum liðum – þrátt fyrir margvíslegar ábendingar frá Eftirlitsstofnun EFTA, frá forstöðumönnum markaðsstöðvanna innan lands, frá fræðimönnum og fjölmiðlamönnum og frá stjórnarandstöðunni á Alþingi, bæði í störfum nefndarinnar og í umræðunum sex sem þegar hafa farið fram um RÚV-frumvörp ríkisstjórnarinnar og er þessi hin sjöunda.

Við blasir sú hætta að hin fyrirhugaða skipan standist ekki samkvæmt Evrópurétti, að málaferli leiði til þess að allt þetta mál þurfi að taka upp að nýju. Í stað þess að standa vörð um þjóðarútvarpið með því að skilgreina rækilega almannaþjónustu þess og leggja á ráðin um skynsamlega hlutdeild þess á auglýsingamarkaði er Ríkisútvarpinu stefnt í áhættu af nýjum málaferlum. Ef til vill er það einmitt eitt af markmiðum ýmissa sjálfstæðisflokksmanna því áframhaldandi deilur við, markaðsstöðvarnar íslensku og slæm útreið fyrir Evrópudómstóli gæti auðvitað styrkt þá sem vilja selja Ríkisútvarpið eða leggja það af með öðrum hætti.

Forseti. Ég bæti við að lokum þessa kafla í nefndarálitinu niðurstöðu lögfræðinganna tveggja sem ég vitnaði til áðan um þennan þátt. Þorsteinn Pálsson segir þannig í leiðara sínum um þetta, með leyfi forseta:

„Kröfum samkeppnislaga og skuldbindinga gagnvart Evrópska efnahagssvæðinu hefur því ekki verið svarað með fullnægjandi hætti. Það eru þessi atriði sem setja starfsumhverfi Ríkisútvarpsins í uppnám nái áform ríkisstjórnarinnar fram að ganga.“

Viðtalið við Ástráð Haraldsson sem áður var minnst á ber fyrirsögnina „Ríkisútvarpið ohf. verður vopnlaust gagnvart kærum“. Þar segir Ástráður um ætlaðan aðskilnað samkeppnis- og einkarekstrar, sem lesa má um í 3. og 4. grein frumvarpsins, með leyfi forseta:

„Í frumvarpinu segir að skilja skuli að fjárreiður þeirrar starfsemi sem skilgreind er sem útvarpsþjónusta í almannaþágu og þeirrar sem telst samkeppnisrekstur. Í því felst að tekjur sem fást með afnotagjöldum eða nefskatti og ætlaðar eru til útvarps í almannaþágu má ekki nota til að greiða niður kostnað vegna annarrar starfsemi.

Ástráður segir hugsunina rétta en telur erfitt að sýna fram á að sá hluti rekstrarins sem ekki á að njóta ríkisframlags geri það ekki.“

Hér tekur Ástráður til máls í frétt Fréttablaðsins:

„Þegar Ríkisútvarpið hefur verið leitt út á eyðihjarn einkarekstrar virðast mér menn vera býsna vopnlausir gagnvart gagn- og samkeppnisaðilum sem mundu kæra til Evrópustofnana. Ég álít að það verði mjög erfitt að verjast slíkum samkeppniskærum.“

Fréttin heldur áfram:

„Að mati Ástráðs er ekki nóg að segja í lögum að halda skuli fjárreiðum aðskildum. Með tilliti til lagarammans og aðstöðu Ríkisútvarpsins sé ákvæðið í raun óframkvæmanlegt.“

Nú talar Ástráðar aftur í fréttinni:

„Þess vegna óttast ég, af því að mér finnst vænt um Ríkisútvarpið og vil viðhalda því, að þetta verði upphafið að endalokum þess í þeirri mynd sem við þekkjum það.“

Ég vitna hér til þessara lögfræðinga ekki vegna þess að lögfræðingar séu einu sérfræðingarnir um þetta mál eða vegna þess að við eigum að taka meira mark á lögfræðingum en öðru fólki þó að þessir tveir standi fullkomlega fyrir sínu. Málið er flókið og viðamikið og teygir sig um mörg fræðasvið og um allt samfélagið eins og ég rakti hér í upphafi þó að það sé í grunninn einföld pólitísk spurning um tilvist almannaútvarps, já eða nei. Ég vitna til þessara tveggja lögfræðinga vegna þess að hér er komið að hinu fullkomna sérsviði lögfræðinganna, málarekstrinum sem líklegur er í framhaldi af samþykkt þessa frumvarps. Niðurstaða mín af hugleiðingum þeirra, af samræðunum við Ólaf E. Friðriksson, af lestri ritgerðar hans og af því efni öðru sem ég hef náð að kynna mér um Evrópurétt og samkeppnisrétt og um þróun ríkisútvarpsmálanna innan Evrópusambandsins er sú að hér ríki meiri óvissa en svo að við verði unað í lagasetningu um framtíð Ríkisútvarpsins sem er ein af þjóðareignum okkar, sem er menningarlegur dýrgripur okkar allt frá stofnun sinni fyrir bráðum 77 árum á þjóðhátíðarárinu 1930, stofnunar sem þegar hefur lifað heilan mannsaldur í landinu, haft áhrif á alla Íslendinga, er eitt af kennimerkjum þeirra, er partur af sjálfsmynd þeirra og hluti af samkennd þjóðarinnar.

Ég má ekki gleyma því hér að blálokum þessa kafla sem e.t.v. hefði átt heima í nefndarálitinu en rifjaðist upp fyrir mér þegar ég var að fara yfir einmitt þennan vitnisburð lögfræðinganna tveggja og varðar heimsókn Ólafs E. Friðrikssonar til okkar en þar benti hann sérstaklega á að 4. gr. frumvarpsins sé óvarlega víðtæk. Enn skrýtnara orðalag en í 4. gr. fann Ólafur svo í athugasemdum við 4. gr. í þessu þingmáli. Til að geta gert okkur grein fyrir þessu þarf ég að lesa hluta af athugasemdunum um 4. gr. sem fjallar — af því að menn þekkja nú ekki allir greinatölurnar í frumvarpinu — um annan rekstur en þann sem er á almannaútvarpssviði eða um samkeppnisreksturinn svokallaða. Fyrsti hluti athugasemdanna um 4. gr. er svona:

„Ákvæði 4. gr. er nýmæli. Í 1. mgr. greinarinnar er mælt fyrir um heimild til handa Ríkisútvarpinu ohf. til þess að standa að annarri starfsemi sem tengist aðalstarfsemi fyrirtækisins. Getur félagið gert þetta hvort sem er innan eigin vébanda eða með því að standa að öðrum fyrirtækjum í þessu skyni sem félagið á eitt eða með öðrum aðilum. Undir ákvæði þessarar greinar fellur m.a. hvers konar nýsköpunarstarf“ — ég endurtek: hvers konar nýsköpunarstarf — „sem ekki fellur undir skilgreiningu 3. gr. um útvarp í almannaþágu. Þótt aðalstarfsemi Ríkisútvarpsins ohf. sé útvarp í almannaþágu er sú krafa í vaxandi mæli gerð til fyrirtækja, sem reka útvarp af því tagi, að þau séu sem best rekin, veiti öðrum útvarpsstöðvum á markaðnum samkeppni og aðhald og skili jafnvel hagnaði. Þess vegna er nauðsynlegt að veita Ríkisútvarpinu ohf. heimild til að reka starfsemi sem ekki fellur undir skilgreiningu 3. gr. en með fjárhagslegum aðskilnaði frá hinni hefðbundnu starfsemi Ríkisútvarpsins ohf., sbr. 5. gr.“

Hér er rætt um nýsköpunarstarf og um það sem sérstakt hlutverk RÚV að veita öðrum fyrirtækjum á markaðnum ekki bara aðhald, sem ég er í sjálfu sér sammála, heldur líka beina samkeppni. Það er jafnvel talið sérstaklega æskilegt að RÚV skili hagnaði. Það er nefnt sem vaxandi krafa og í þeim búningi að það sé alþjóðleg krafa, ein af þessum kröfum sem enginn kemst hjá að taka undir af því að annað er ekki nógu smart.

Um þetta sagði Ólafur E. Friðriksson að hann hafi ekki skilið reglur Evrópuréttarins á þessa leið og hann taldi að hér væri sennilega um grundvallarmisskilning að ræða. Ólafur gerði þá tillögu að um viðbót við lagagreinina um samkeppnisreksturinn, aðra starfsemi, yrði það tiltekið að sú starfsemi tengdist almannaþjónustuhlutverki Ríkisútvarpsins. Það stendur ekki í núverandi 4. gr. frumvarpsins heldur það eitt að önnur starfsemi skuli tengjast starfsemi félagsins á sviði dagskrárgerðar eða til nýtingar á tæknibúnaði þess, sérþekkingu þess, starfsmanna þess og aðstöðu þess að öðru leyti.

Ólafur gerir þetta ekki að tillögu sinni út af engu heldur vegna þess að þetta mundi þó a.m.k. tryggja örlítið skárra samhengi við Evrópuréttinn en nú er. Í raun þyrfti betra og ákveðnara orðalag til þess að stilla þetta rétt af, talað er um bein tengsl eða skýrt samhengi sem tæki til þess sem menn eru nokkuð sammála um að Ríkisútvarpið eigi að gera samkvæmt þessum lið, það geti t.d. stofnað fyrirtæki um leikmyndir og búninga eins og útvarpsstjóri hefur ýjað að, að fyrirtækið geti selt framleiðslu eins og Stiklur Ómars, eða annað fínt efni, og haft af því tekjur í samkeppni, sem væri heiðarleg, við aðra framleiðendur á slíku efni, samkeppni sem t.d. gerði ráð fyrir því umfram það sem nú er að sá samkeppnishluti Ríkisútvarpsins, á hátíðlegu máli, sú deild þess sem sæi um að selja myndböndin borgaði fyrir auglýsingar í Ríkisútvarpinu í þeirri samkeppni sem sú deild stendur í við aðra myndbandaframleiðendur, bókaframleiðendur o.s.frv.

Þessi grein getur líka með þessum tengslum innifalið í sér þátttöku Ríkisútvarpsins í vænlegum kvikmyndaverkefnum sem margir vilja sjá að Ríkisútvarpið geti, ef það vill, lagt áhættufé í kvikmyndaverkefni sem geta riðið baggamuninn fyrir framleiðendur og tryggt Ríkisútvarpinu ákveðinn rétt til sýninga. Ég hygg að þetta sé eðlilega innan þeirrar starfsemi sem við tölum um hér en ekki það sem stendur utan um hana. Ekki t.d. þess sem ég spurði um á nefndarfundum í fyrra, ég spurði þá fulltrúa menntamálaráðuneytisins og/eða, liggur mér við að segja, a.m.k. annan af frumvarpshöfundum, Sigurbjörn Magnússon, hvort Ríkisútvarpið gæti með þessari grein stofnað útvarpsstöð sem færi í samkeppni við stöðvar á almenna markaðnum með dagskrárframboði sem miðaðist við hagsmuni auglýsenda og kostenda. Hann játaði því, að það væri ekkert því til fyrirstöðu að gera það og það skýrðist sterklega af því að meiri hluti nefndarinnar setti þá um vorið inn þá breytingartillögu að Ríkisútvarpið mætti að sönnu ekki stofna slíka ljósvakastöð með öðrum, Ríkisútvarpið mætti ekki stofna til útvarpssendinga með öðrum til þess að koma í veg fyrir að Ríkisútvarpið væri með bein afskipti af samkeppni á markaðnum í þeim stíl að taka saman við einn og berjast gegn öðrum. Þessi grein hefði varla verið sett svona inn nema vegna þess að meiri hlutinn túlkar þessi ákvæði frumvarpsins þannig að ríkisstjórninni sé einni sér heimilt að stofna slíka stöð.

Þá er kannski kominn tími til að líta til danskrar sjónvarpsstöðvar sem heitir TV2 en það var ríkisstöð sem fór mikinn, átti ýmsar dótturstöðvar og starfaði með átta svæðisstöðvum, held ég. Til að gera langa sögu stutta var þessi stöð úrskurðuð árið 2002 í miklar sektir vegna þess að hún hefði misnotað heimild sína til að þiggja ríkisframlag meira en góðu hófi gegndi. Vissulega var sú stöð þannig að þar var eiginlega allt að, það voru ekki bara hinar sérstöku undirstöðvar sem þurfti að fást við og svæðisstöðvarnar heldur var ríkisframlagið miklu meira en þeir gátu nokkurn tíma gert grein fyrir. En þetta var auðvitað líka í tengslum við það að hér var um auglýsingastöð að ræða sem var þess vegna í miklu beinni samkeppni við stöðvarnar á almenna markaðnum en gamla, góða ríkisútvarpið í Danmörku sem heitir í hljóðvarpi og sjónvarpi DR.

Þetta dæmi þarf að íhuga og hefði verið fróðlegt að sjá þessa getið í athugasemdum við frumvarpið og í framsöguræðum um það. Það var þó ekki gert en við höfum í 4. gr. opna leið til þess að búa til íslenskt TV2 eða einhvers konar „RÚV-Sirkus“, vegna þess að annar rekstur, samkeppnisreksturinn, hefur svo lauslega tengingu við meginhlutverkið sem í orði kveðnu er sagt hér Ríkisútvarpsins. Menn hafa ekki neitað þessum möguleika um „RÚV-Sirkus“ eða TV2 á vegum Ríkisútvarpsins og þess vegna hljóta að vakna þær spurningar til menntamálaráðherra og stjórnarmeirihlutans hvort stjórnarliðið telur að slík stöð sé á verksviði ríkisins eða einhvers konar bíórás eða, ef maður tekur enn raunhæfara dæmi, sérstök íþróttastöð sem hefur auglýsingar, keppir á auglýsingamarkaði með Formúluna og segjum enska boltann á lofti eða box svipað og Sýn. Er það pólitískur vilji menntamálaráðherrans og stjórnarmeirihlutans, hv. formanns menntamálanefndar t.d., að slíkar stöðvar komist upp á vegum Ríkisútvarpsins? Í öðru lagi þarf að svara því, sem ekki hefur verið gert, hvort og hvernig rekstur slíkrar stöðvar eða slíkra stöðva stenst samkeppnislög og Evrópurétt. Hér er óvissa sem ekki er skorið úr og hér er víti til að varast sem heitir TV2 í Danmörku.

Forseti. Ég vík nú aftur að nefndarálitinu og þeim kafla þess sem ber nafnið Tilmæli Evrópuráðsins. Ég sé að félagar mínir í þingsal glotta nokkuð vegna þess að ég þyki hafa verið einhver hollasti vinur þess ráðs — a.m.k. af þeim þingmönnum sem aldrei hafa í því starfað — sem uppi hefur verið a.m.k. á þessu kjörtímabili (Gripið fram í: Og sér ekki fyrir endann á.) og sér ekki fyrir endann á. Ég beini því nú til þeirra þingmanna sem hér sitja að það væri auðvitað ráð að senda þennan vin Evrópuráðsins í Evrópuráðið sjálft til þess að hann geti náð hinum fullkomna fögnuði í samfélaginu við það.

Það er rétt að ég met Evrópuráðið mikils og ég hef frá upphafi, og við stjórnarandstæðingar, farið fram á að þetta frumvarp og hin fyrri séu borin saman við texta Evrópuráðsins um almannaútvarp.

Eftir 2. umræðu nú í þinghléinu var enn einu sinni farið fram á það að frumvarpið yrði sent fjölmiðlaskrifstofu Evrópuráðsins — ég er kominn í nefndarálitið, forseti kær — til umsagnar eða annarrar þeirrar yfirferðar sem kostur gæfist á. Frá því umfjöllun hófst í menntamálanefnd hafa fulltrúar stjórnarandstöðunnar í nefndinni farið fram á að frumvarpstextinn sé borinn saman við ítarlegar ályktanir Evrópuráðsins um almannaútvarp, einkum frá 1994 (samþykkt 4. ráðherrafundar Evrópuráðsins um fjölmiðlastefnu, Prag 1994 og frá 1996 (tilmæli R (96) 10 um að tryggja sjálfstæði almannaútvarps). Þessari beiðni var hafnað, nú á þeim forsendum að ekki væri vaninn að spyrja alþjóðastofnanir um íslensk þingmál.

Það svar hv. formanns menntamálanefndar skýtur nokkuð skökku við þegar höfð eru í huga mikils háttar samskipti tveggja íslenskra ráðuneyta við Eftirlitsstofnun EFTA, aðra alþjóðastofnun, með bréfasendingum og ferðalögum. Hitt skiptir þó meira máli að Íslendingar eru þátttakendur í Evrópuráðinu og íslensk stjórnvöld samþykktu báða þá texta sem hér er einkum um að ræða og eru siðferðilega bundin af þeim. Þá er fjölmiðlaskrifstofa ráðsins öðrum þræði rekin sem ráðgjafarstofa aðildarríkjanna um fjölmiðlamál og hafa nýfrjálsu ríkin í Mið- og Austur-Evrópu nýtt sér óspart þá ráðgjöf.

Samanburður frumvarpanna við texta Evrópuráðsins virðist sérstaklega þarfur á tveimur sviðum. Annars vegar væri fróðlegt að fá álit sérfræðinganna á hinum pólitísku áhrifum sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu frá ríkisstjórn á hverjum tíma með því að ríkisstjórnarmeirihluti tekur allar rekstrarákvarðanir í nýju útvarpsráði og ræður og rekur útvarpsstjóra sem hefur öll völd um dagskrá og innri málefni. Menntamálaráðherrann í ríkisstjórninni gerir síðan þjónustusamning við útvarpsstjórann sem ríkisstjórnarmeirihlutinn í útvarpsráðinu réð og getur rekið þegar honum sýnist.

Hins vegar er athyglisvert að láta sérfræðingana skoða frumvarpið í ljósi leiðbeininga Evrópuráðsins um svokallað „eftirlitsráð“ sem þátt í stjórnskipan almannaútvarps til hliðar við rekstrarstjórn og útvarpsstjóra, einkum í ljósi hugmynda hér um „akademíu“ eða „hlustendaþing“ sem geti sinnt eftirlits- og stefnumótunarhlutverki í Ríkisútvarpinu fyrir hönd hlustenda og áhorfenda.

Fulltrúum stjórnarandstöðunnar í menntamálanefnd þykir miður að stjórnarliðar treysta ekki frumvarpi sínu betur en svo að þeir hafa aftur og aftur komið í veg fyrir að sérfræðingar Evrópuráðsins skili um það áliti. Í því efni er þingmönnunum að vísu nokkur vorkunn — segir hér í nefndarálitinu og ég tel rétt að víkja aðeins nánar að Evrópuráðinu en þar er gert.

Reglur Evrópusambandsins um ríkisútvarp og ríkisstyrki, sem aðeins var minnst á áðan, miðast við það meginhlutverk Evrópusambandsins að vera rammi um sameiginlegan markað. Evrópusambandið lítur fyrst og fremst á viðskiptaleg álitaefni. Það leiðir af grundvelli þess sem samnings um sameiginlegan markað eftir upphaf þessa sambands sem tollabandalags og enn áður fríverslunarsamtaka um kol og stál eftir heimsstyrjöldina síðari.

Þess vegna þarf Evrópusambandið að skilgreina almennt menningarstarf þegar það rekur á fjörur Evrópusambandsins eða vekur áhuga ríkisstjórna þess svo sem eins og með almannaútvarp sem þjónustu með almenna efnahagslega þýðingu, frasi sem margir þekkja. Þess vegna tekur pólitísk afstaða Evrópusambandsins með almannaútvarpi og þar af leiðandi líka afstaða Eftirlitsstofnunar EFTA í Brussel, ESA, á sig það form að skoða einkum samkeppnisþættina. Evrópusambandið og ESA spyrja: Hvernig er háttað um samkeppnisrekstur sem hér kynni að vera á ferðinni en fulltrúar sambandsins og stofnunarinnar gera hins vegar ekki miklar athugasemdir í sjálfu sér við skipan almannaútvarpsins eða reglurnar um það. ESB- og ESA-menn spyrja um alla nýsköpun í ríkisútvörpum í Evrópu: Er með þessu lagafrumvarpi eða þeirri tilhögun sem menn vilja hafa hér með verið að brjóta þær reglur sem eiga að gilda um samkeppni á þessu sviði? Er almannaútvarpið með einhverjum hætti að þrengja að markaðsstöðvunum, að þeim stöðvum sem ekki njóta ríkisstyrkja og eru reknar á venjulegum viðskiptaforsendum?

Evrópuráðið tekur ekki þessa afstöðu sem leiðir af grundvelli Evrópusambandsins. Evrópuráðið eru samtök Evrópuríkja sem fyrst og fremst beina starfi sínu, eins og þeir þekkja sem hafa verið í þinglegu samstarfi á vegum ráðsins, að mannréttindamálum og lýðræðismálum. Evrópuráðið var lengi mönnum nokkuð dulið í Evrópu, öðrum en þeim sem voru þar á ferðinni á fundum, en það má segja að Evrópuráðið hafi svo sannarlega fengið uppreisn æru og viðreisn í starfi þegar Austur-Evrópa og hluti af Mið-Evrópu varð frjáls undan oki kommúnismans í Sovétríkjunum vegna þess að Evrópuráðið hefur öðrum stofnunum fremur, held ég sé hægt að segja, hjálpað til við að móta nýjar lýðræðishefðir og koma mannréttindamálum eystra í það lag sem til frambúðar getur gengið.

Þess vegna var það alveg sjálfsagt að gera hvort tveggja, ekki bara að standa í einhvers konar samningum eins og menntamálaráðuneytið og fjármálaráðuneytið eða fulltrúar þessara tveggja ráðherra sem þar ráða töldu sig vera að gera við ESA og þá helst án þess að láta þingið nokkuð af því vita, heldur þurfti auðvitað líka að athuga það þegar við erum að breyta meira en þriggja aldarfjórðunga gömlum grunnreglum um Ríkisútvarpið hvernig hinar nýju tillögur stæðust þær hugmyndir sem eru orðnar viðurkenndar í Evrópu um tilhögun almannaútvarps, ekki bara viðurkenndar í Evrópu heldur líka hluti af samþykktum Íslendinga sem eiga aðild að Evrópuráðinu og sóttu þá fundi sem um er rætt þar sem þessi tilmæli og samþykktir voru búnar til.

Við erum bundin af þessum samþykktum og það er algjörlega eðlilegt að bera tillögur okkar saman við þær á sama hátt og við berum okkur saman við Evrópusambandið þótt vissulega komi ekki til málsóknar af hálfu Evrópuráðsins sem var ein af fyrri ástæðum hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar, formanns menntamálanefndar, til þess að hafna því að frumvarpið yrði borið undir fjölmiðlaskrifstofu Evrópuráðsins.

Að lokum kemur auðvitað að því að Evrópuráðið eða starfsmenn þess fara með einhverjum hætti yfir þau lög sem gilda um Ríkisútvarpið sem almannaútvarp. Við erum heppin að Evrópuráðið skuli ekki hafa gert það hingað til vegna þess að Páll Þórhallsson — sem starfaði reyndar við Evrópuráðið á sínum tíma en er nú starfsmaður í forsætisráðuneytinu — benti á það í grein sem hann skrifaði fyrir þremur árum, að ég hygg, að það væri ósennilegt að þáverandi og núverandi skipulag Ríkisútvarpsins og starfshættir þess stæðust tilmæli og samþykktir þær sem hér voru nefndar frá 1994 og 1996.

Ég hef, eins og ég sagði áðan, allt frá 1. umr. um fyrsta frumvarpið um Ríkisútvarpið hér af hálfu menntamálaráðherra talað um Evrópuráðið og tilmæli þess og samþykktir en sá málflutningur hefur aldrei borið þann árangur að menntamálaráðherra eða fylgismenn hennar hér hafi svarað því efnislega. Það er reyndar óvíst og rétt að spyrja að því, og ósennilegt þar að auki, að textar Evrópuráðsins hafi nokkurn tíma verið kannaðir af hálfu menntamálaráðherra eða stjórnarliða. Það er a.m.k. aðeins einu sinni minnst á Evrópuráðið í athugasemdum við frumvarpið um Ríkisútvarpið ohf. og það er í almenna kaflanum um stöðu ríkisútvarps í Evrópu en þar segir, með leyfi forseta:

„Til að mynda ítrekaði ráðherranefnd Evrópuráðsins á fundi sínum 11. september 1996“ — sem er annað af þeim plöggum sem hér er vitnað til — „álit sitt um hið nauðsynlega hlutverk útvarps í almannaþágu sem afgerandi þáttar í fjölhyggju í fjölmiðlun sem sé aðgengileg fyrir alla, bæði á landsgrundvelli og svæðisbundið, með því að séð sé fyrir víðtækri dagskrárþjónustu er nái til upplýsingar, menntunar, menningar og afþreyingar.“

Ég óska menntamálaráðherra til hamingju með að þetta ráð skuli hafa uppgötvast í ráðuneyti hans og samþykkt þess frá 1996, þó að hún komi ekki betur fram en þetta, sem nánast lítur út eins og þýðing af stubbi um þetta fyrirbrigði, fjölmiðlareglur Evrópuráðsins, í alfræðitexta svo sem eins og hinum ágætu Wikipedíu-textum á netinu.

Svo er auðvitað áleitin skýring, sem ég ætla nú ekki að koma hér með, að vissulega þekki menn í ráðuneytinu og ofan til í Sjálfstæðisflokknum þessa texta vegna þess að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa sést á þessum fundum en kæri sig ósköp einfaldlega ekkert um að bera þá saman við frumvarpið.

Það er mikilvægt að bera frumvarpið og aðrar tillögur allar um tilhögun almannaútvarps á Íslandi og framtíð Ríkisútvarpsins saman við skilgreiningu Evrópuráðsins á almannaútvarpi og ég vísa til hennar í Prag-samþykktinni frá 1994 sem fylgir í íslenskri þýðingu sem þingið og starfsmenn þess önnuðust, sem ég þakka þeim fyrir, í tillögu okkar samfylkingarmanna um Ríkisútvarpið sem almannaútvarp á þarsíðasta þingi.

Það er að sjálfsögðu líka fróðlegt að bera þessar skilgreiningar í 3. gr. hjá okkur í frumvarpinu saman við aðrar skilgreiningar á almannaútvarpi, t.d. skilgreiningu breska útvarpsrannsóknarráðsins sem má finna í endurskoðun starfshóps á útvarpslögum frá 1996, merkri skýrslu sem ég hvorki var né er ákaflega sammála en hef haft margt gagn af að lesa. Í þá skýrslu var mikið vitnað í umræðu um fjölmiðlalögin hér um árið.

Breska ráðið — það er rétt að það komi fram — segir í stuttu máli að almannaútvarp verði að ná til allra landsmanna, það þurfi að byggjast á almennum viðhorfum og áhugamálum en taka tillit til minnihlutahópa, að slíkt útvarp eigi að leggja rækt við þjóðerni og þjóðarsál, að dagskrár slíkra stöðva þurfi að miðast við gæði eða umfram áhorfslíkur og að almannaútvarpið verði að fá fjármagn sitt frá notendunum, þ.e. ekki fyrst og fremst frá auglýsendum. Þá leggja Bretarnir mikla áherslu á að almannaútvarp sé óháð viðskipta- og stjórnmálahagsmunum og að starfsmenn njóti ritstjórnarlegs sjálfstæðis og þeir sem hafa hlýtt á þessa ræðu, hafa fylgst með málflutningi okkar í Samfylkingunni og stjórnarandstæðinga allra hygg ég um almannaútvarp og forsendur þess kinka hér kolli og þekkja aftur röksemdir sem þar hafa komið fram.

Ég ætla ekki að fjalla frekar, geymi mér það, um reglur Evrópuráðsins um þetta en þó verð ég að minnast að lokum á tilmæli Evrópuráðsins um eftirlitsráð sem svo er kallað á heldur fráhrindandi máli en er auðvitað þýðing á einhverri ensku eða frönsku í Evrópuráðinu sem ég man nú ekki í svipinn. Í tilmælunum frá 1996 segir að reglur um stöðu þessa ráðs skuli þannig orðaðar að ekki sé hætta á stjórnmálalegum afskiptum eða annars konar íhlutun og að fulltrúar eða ráðsmenn í þessum eftirlitsráðum séu skipaðir á opinn og fjölræðislegan hátt. Þeir gæti almennra hagsmuna samfélagsins, þeir megi ekki taka við umboði eða fyrirmælum frá öðrum en þeim sem skipaði þá með fyrirvara um önnur ákvæði laga í sérstökum tilvikum. Þá megi ekki reka eða segja upp af neinum öðrum en þeim sem skipaði þá og þeir mega ekki hafa hagsmuna að gæta í fyrirtækjum eða öðrum stofnunum í fjölmiðlun, taka við þóknun í þeim eða álíka sem gæti leitt til hagsmunaárekstra í störfum þeirra fyrir eftirlitsráðið.

Það er skemmst frá því að segja að þrátt fyrir tilmælin um eftirlitsráðið um hvernig setumenn þar eiga að vera og hvaða hlutverk það á að hafa þá er ekki gert ráð fyrir neinu slíku ráði í þessu frumvarpi og hefur aldrei verið gert. Hlutverk pólitísku stjórnarinnar í okkar frumvarpi sem við erum hér með tekur vissulega til ákveðinna starfshátta eftirlitsráðsins en meginatriði þess eru algjörlega skilin eftir og í frumvarpinu er engin trygging gefin til neytenda og starfsmanna sem gert er ráð fyrir í tilmælum Evrópuráðsins og það er engin sú valdtemprun í skipulagi Ríkisútvarpsins eða frumvarpinu sem væri í samræmi við andann í tilmælum ráðsins. Ráðið er að vísu þekkt í menntamálaráðuneytinu, það kemur fram í athugasemdum við frumvarpið, en enginn virðist hafa kannað tilmæli þess eða texta á fjölmiðlasviði umfram þá ákaflega almennu hluti sem tilgreindir eru í athugasemdunum og einhver hefur fundið í Wikipedíu-stubbi á netinu, að því er ég get mér til, fullkomlega óábyrgt en af mikilli hæversku.

Forseti. Næsti kafli í nefndarálitinu sem ég ætla að lesa heitir Um hlutafélög og opinberan rekstur og hljóðar svo:

Frumvarp þetta snýst m.a. um að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi. Löngu er komið fram að til þess rekur ekki nauður vegna ákvæða Evrópuréttar heldur hefur Sjálfstæðisflokkurinn fengið hér framgengt gömlu áhugamáli sínu. Um leið eru þessi áform angi af þeim plagsið eða tísku sem undanfarið hefur gengið um löndin að breyta opinberum þjónustustofnunum í hlutafélög. Slíkar ákvarðanir hafa oft verið umdeildar og árangurinn stundum lítill eða enginn.

Meðal fræðimanna og áhugamanna um stjórnsýslu færast í vöxt efasemdir um slíka hlutafélagsvæðingu nema í ákveðnum tilvikum, svo sem þegar stefnt er að sölu opinberrar þjónustustofnunar eða -fyrirtækis, sem reyndar hefur verið endirinn á flestum hérlendum háeffunum, hvaða tilgangur sem auglýstur var í upphafi um þær, eða svo háttar til að opinbera fyrirtækið býr að flestu leyti við markaðsforsendur í starfi sínu.

Að tillögu stjórnarandstæðinga var reynt að fá fræðimenn hér til að gefa menntamálanefnd yfirsýn um helstu rök í þessari umræðu um hlutafélög og opinberan rekstur. Það tókst því miður ekki á þeim tíma sem til umráða var — en ég skal taka hér fram að þar er ekki hægt að sakast við formann menntamálanefndar, hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson, heldur þá fremur það litla svigrúm sem nefndinni var gefið til þessarar athugunar. Einkum skal harmað að Arnar Þór Másson, sérfræðingur hjá fjármálaráðuneytinu og kennari í stjórnmálafræði, sá sér ekki fært að ræða við nefndarmenn. Arnar Þór var málsvari gagnrýnna sjónarmiða á fundi á vegum Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála, eins og hún heitir, í Háskóla Íslands í lok október í haust.

Arnar Þór lýsir meginefni fyrirlestrar síns í viðtali við Gunnar Gunnarsson fréttamann í Speglinum 1. nóvember en Spegillinn er þáttur í Ríkisútvarpinu á Rás 1. Þar rekur Arnar Þór m.a. ástæður fyrir því að opinber rekstur fyrir almannafé lýtur öðrum reglum en einkarekstur. Meðal annars skipti máli að tempra stærð ríkisins á markaði og möguleika þess til óeðlilegra áhrifa. Þótt margt þurfi að bæta í opinberum rekstri sé hann eðlilegur kostur fyrir ríki og sveitarfélög. Við blasi hins vegar siðferðilegur vandi þegar ríkisfyrirtæki er breytt í hlutafélag. Hér kemur bein tilvitnun úr Speglinum:

„Það trúir því t.d. enginn að ríkið láti hlutafélag fara á hausinn ef illa gengur. Það trúir því enginn að stjórnarmenn beri raunverulega ábyrgð eins og stjórnarmenn í félögum á markaði. Kjörnir fulltrúar og aðrir halda að hlutafélagið sé í raun ríkisstofnun, og ég tel,“ segir Arnar Þór, „að þetta geti leitt til þess að það verði ekki mikil breyting. Kjörnir fulltrúar og ráðherrar vilja hafa áhrif áfram í gegnum stjórnir og þess háttar. …

Ég held að hlutafélagsformið sé nokkuð sem menn stökkva á af því að það er til staðar. Skynsamlegra væri að reyna að þróa rekstrarform ríkisins almennt, og þá út í ríkisfyrirtæki þar sem væri tekið það besta úr hlutafélagalögunum sem gagnast til að gera ríkisreksturinn sveigjanlegri, en að við séum ekki að nota hlutafélagsformið og draga um leið úr kostum þess með því að setja inn í sérlög alls konar klásúlur um að þetta gildi ekki og að þetta gildi í staðinn.“

Í nefndarálitinu er gerð grein fyrir því að hér er farið eftir útskrift sem nokkuð var hnikað til í ritmálsátt eins og eðlilegt er þegar skrifað er upp talmál af þessu tagi.

Þessi stjórnsýslufræðilegu sjónarmið eru afar athyglisverð viðbót við mikla gagnrýni sem áður hefur komið fram á hlutafélagsvæðingu Ríkisútvarpsins. Því miður fékk menntamálanefnd ekki ráðrúm til að fjalla um þau á fundi sínum núna í þinghléinu.

Ég vil bæta við þennan kafla nokkrum orðum og spyrja enn einu sinni í 7. umr. um frumvarp menntamálaráðherra um Ríkisútvarpið. Til hvers hlutafélag? Þeirri spurningu hefur í raun og veru aldrei verið svarað nema með því einu að hlutafélagið sé prýðilegt rekstrarform. Menn þekki það svo vel. Menn séu svo vanir að haga sér í hlutafélagi, viti hvað við á.

Þá spyr maður auðvitað, m.a. í ljósi ummæla Arnar Þórs Mássonar um ýmiss konar klásúlur sem séu settar inn í sérlögin um ríkishlutafélög, um að þetta gildi ekki og þetta gildi í staðinn, hvað stendur eftir af því hlutafélagi um Ríkisútvarpið sem í fyrstu var svo auðvelt að haga sér í samkvæmt hf. lögum?

Nú er það þannig, forseti, með Ríkisútvarpið ohf. samkvæmt þessu frumvarpi, að stjórn þess hlutafélags á að kjósa árlega á Alþingi. Það á að kjósa hana pólitískt. Passar það við venjulega stjórnarhætti í hlutafélögum?

Það er þannig að í hlutafélaginu er aðeins einn hluthafi. Það er í raun menntamálaráðherra.

Það er þannig að til grundvallarmeginstarfsemi þessa félags er gerður þjónustusamningur milli menntamálaráðherra og félagsins. Þetta er ekki beinlínis vaninn í venjulegum hlutafélagamarkaði. Menn þekkja þetta ekki mjög vel. Þetta er ekki hluti af því góða og venjulega rekstrarformi sem hlutafélagið á að vera.

Það er þannig að hlutafélagið sem hér á að stofna má ekki eiga í öðrum hlutafélögum sem hafa sama markmið með sínu starfi. En hlutafélögum er talið það einna helst til tekna hvað þau geta verið liðugt form einmitt til að eignarhlutir renni til fram og aftur og menn geti verið fljótir að skipa seglum á mörgum skútum í einu eins og hentar eftir byr og veðri.

Það er heldur ekki þannig að hægt að sé að auka hlutafé í félaginu með venjulegum hætti, hlutafjárútboði eða þvílíku. Heldur er hlutaféð tiltekið í frumvarpinu og er 5 millj. kr., það stendur að vísu a.m.k. Má minnast þess af því að tiltekinn hv. þingmaður er hér í framboði í kjördæmi sínu að hann trúði ekki þessum 5 millj. Um er að ræða Hjálmar Árnason, góðan mann, og hélt að hér væri um að ræða 5 milljarða kr. sem auðvitað var miklu nær. Það er honum til mikils hróss að hafa talið þetta. Hjálmar varð auðvitað sem von var, heldur lúpulegur þegar hann uppgötvaði að þetta voru ekki 5 milljarðar heldur 5 millj.

Það er líka þannig að hlutafélaginu sem hér um ræðir er skipt. Það góða rekstrarform sem hér er á ferðinni er þannig að hlutafélaginu er skipt í tvennt. Það er fjárhagslegur aðskilnaður í hlutafélaginu. Annars vegar er almannaþjónustuhlutinn samkvæmt sérstökum lagagreinum og hins vegar er sérstakur hluti af þessu hlutafélagi í samkeppnisrekstri samkvæmt öðrum sérstökum lagagreinum. Enn er það svo, sem betur fer, eins og við getum sagt um mörg þessi frávik frá hlutafélagalögunum, að sem betur fer eru þau sjálfsögð. Og enn er það svo að vegna snarprar gagnrýni okkar á frumvarpið eins og það leit út í upphafi var því bætt við. Ég vil hrósa bæði meiri hluta menntamálanefndar og menntamálaráðherra fyrir það, þannig að þau fái nú það hrós sem þau eiga skilið, að sett voru inn ákvæði um að upplýsingalög giltu um hlutafélagið. Það er sennilega eina hlutafélagið á landinu, ef það verður að veruleika, sem upplýsingalögin gilda um.

Á móti því er það haft alla jafna í hlutafélögum á markaði að það séu einkum stjórnendur og hluthafar sjálfir sem eigi að hafa þann trúnað sem eðlilegur er um rekstur hlutafélagsins. En hér eiga sem sé að gilda upplýsingalög sem ég tel fullkomlega eðlilegt en er auðvitað allt, allt annað en það sem þeir meina með tali sínu um að hlutafélagsformið sé svo gott.

Sérákvæðunum hefur sífellt fjölgað. Það sýnir best að á sama hátt og Ríkisútvarpið er ekki venjuleg ríkisstofnun núna, þá getur Ríkisútvarpið sem slíkt, ef það á að fá að vera ríkisútvarp/almannaútvarp, ekki verið venjulegt fyrirtæki. Það getur ekki verið venjulegt hlutafélag í venjulegum samkeppnisrekstri með hið venjulega hagnaðarmarkmið hlutafélaga að leiðarljósi, heldur þarf Ríkisútvarpið, hvað sem menn vilja gera úr því, hvað sem það á að heita, sameignarstofnun, B-hluta ríkisstofnun eða hlutafélag, e-, o-, eða hvað menn vilja, -hf., sérstakan lagaramma. Það þarf sérstök starfsskilyrði. Það þarf sérstakan rekstrargrundvöll. Það þarf að skilgreina með ítarlegum hætti hvernig réttindi og skyldur stjórnar eiga að vera. Hver markmið félagsins eigi að vera. Hvernig eigi að hafa eftirlit með gerðum stjórnarinnar. Hvar eigi að fá féð og hvernig eigi að veita það áfram.

Það má segja að hlutafélagalögin sem eru góð og gegn fyrir fyrirtæki í venjulegum markaðsgrunni og rekin í hagnaðarskyni, þau ganga ekki upp fyrir Ríkisútvarpið. Það hefur menntamálaráðherra og stjórnarliðar í menntamálanefnd viðurkennt með öllum þeim breytingum frá hlutafélagarammanum sem þau hafa gert nauðug viljug vegna þrýstings frá Evrópureglum, frá stjórnarandstöðunni, frá almenningi, frá keppinautunum, frá fræðimönnum og fjölmiðlamönnum.

Enn er spurt: Hvers vegna þá hlutafélag? Ég held að svarið sé í stuttu máli þetta. Í fyrsta lagi vegna þess að það er auðveldara að selja það sem hlutafélag. Þar hef ég fyrir mér sjálfan hv. þm. og málvin minn Pétur Blöndal, sem sagði það í atkvæðagreiðslu hér um árið, sem frægt er, að honum væri að vísu meinilla við þetta frumvarp enda hefði hann og aðrir í sölunefnd Sjálfstæðisflokksins, þeir hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, sem gengur nú um salinn, og Birgir Ármannsson, gert tillögu um að selja Ríkisútvarpið og var þess vegna óánægður með það. En þetta væri þó skárra en ekkert því þetta auðveldaði söluna.

Í öðru lagi kynni skýringin að vera sú að það ætti að efla Ríkisútvarpið að minnsta kosti fram að sölu í samkeppni við aðrar stöðvar. Hreinlega af því að ráðamönnum líki ekki aðrar stöðvar eða þá til að auka markaðsgildi þess, eins og þegar hv. þingmaður og fyrrverandi ráðherra, Halldór Blöndal, var að selja Símann og veitti honum nánast öll þau forréttindi sem hugsanlegt var á þeim tíma sem leið frá hlutafélagsvæðingunni, sem var þó reyndar ekki auglýst sem sölumál, og yfir í hina endanlegu sölu. Það áttu að vera þeir hagsmunir að þjóðin fengi meira fyrir fyrirtækið og hún fékk vissulega mikla peninga fyrir fyrirtækið.

Þriðja ástæðan kynni að vera sú að miklu skipti og á ríði að færa starfsmenn yfir á almennan vinnumarkað. Þeir séu ekki nógu þægir og það þurfi að hafa yfir þeim betri stjórn en þá sem núna er hægt að beita af því þeir vinna innan opinbera rammans á opinberum vinnumarkaði og hafa ýmis þau réttindi sem mér og okkur stjórnarandstæðingum þykja sjálfsögð um menn sem eru á vegum þjóðarinnar í almannaþjónustu þó svo að ég hafi lýst því áður yfir að ég sé tilbúinn að skoða í samráði við starfsmenn þær breytingar sem æskilegar væru vegna þess að þessi stofnun vinnur að sjálfsögðu á fjölmiðlamarkaði ásamt hinum almennu störfum.

Ég held að það sé í fjórða eða fimmta lagi, það skiptir ekki máli, en að lokum þessarar upptalningar, sem ekki er tæmandi, held ég að hlutafélagsformið hafi orðið fyrir valinu vegna þess að eitt gátu hlutafélagslögin veitt ríkisstjórnarmeirihlutanum og menntamálaráðherranum og það var skipulag sem að vísu er algjörlega á skjön við það hlutverk sem almannaútvarpið hefur en tryggir það, ef strangt er farið eftir því, eini hlutinn af öllum hlutafélagspakkanum sem strangt er farið eftir, að menn eru lausir við alla valdtemprun í stjórnskipan í skipulagi og stjórnarháttum Ríkisútvarpsins og af þeim ástæðum geta menn innleitt nýtt skipulag sem gefur pólitískum áhrifum áfram lausan tauminn.

Það er best ég fari yfir það enn einu sinni. Það á að vera þannig að á hverju ári kýs Alþingi menn í stjórn þessa fyrirtækis. Það verða flokksfulltrúar. Þeir eru reyndar kosnir árlega sem þýðir það að flokkarnir hafa meira tangarhald á þeim, ef þeir vilja, en á þeim fulltrúum sem nú eru þó kosnir á fjögurra ára fresti og hafa þess vegna ákveðið svigrúm á milli þeirra kosninga og sitja kannski fæstir nema einu sinni.

Þessi stjórn myndast þannig á útvarpinu að í henni verður ríkisstjórnarmeirihluti. Það er engin ástæða til að ætla annað en það verði hverju sinni svo og ráð er fyrir því gert. Sá ríkisstjórnarmeirihluti á að vísu ekki, eins og útvarpsráðið nú, að stjórna dagskrá eða mannahaldi beint, en getur að vísu haft mikil óbein áhrif með því að taka mikilvægar rekstrarákvarðanir. En hann á að ráða útvarpsstjórann. Pólitískur meiri hluti í stjórninni ræður útvarpsstjórann og það sem meira er, það eru engin ákvæði, hlutafélagalögin eru svo heppileg fyrir þennan ásetning stjórnarmeirihlutans og hæstv. menntamálaráðherra að það eru engin ákvæði um það að ráðning hans sé tímabundin, þ.e. bundin í tíma, eða að hún skuli fara fram með einhverjum þeim hætti sem gæti forðað því að hann sé pólitískt ráðinn. Og hún rekur hann líka hvenær sem er.

Ríkisútvarpinu ber að gera þjónustusamning beint við menntamálaráðherra. Samninginn gerir útvarpsstjóri væntanlega einn þótt ekkert sé tiltekið um það í lögunum. Þó að ekki spillti nú fyrir að hinn pólitíski meiri hluti færi yfir hann líka. Á hinn vænginn er það bara menntamálaráðherra sem gerir þennan þjónustusamning. Þessi mikilvægi grundvallarsamningur fer því fram á milli stjórnmálamannsins í stóli menntamálaráðherra og fulltrúa stjórnarflokkanna í ríkisstjórnarmeirihluta hinnar nýju stjórnar Ríkisútvarpsins.

Ég vona sannarlega að það takist vel ef þetta frumvarp verður að lögum. En það er engin trygging fyrir því. Það er í raun og veru beinlínis opnað á að það takist illa. Það er opnað á að þeir siðir haldi áfram sem hingað til hafa því miður ríkt að allmiklu leyti, að Sjálfstæðisflokkurinn telji sig eiga skilið einhvers konar tangarhald á Ríkisútvarpinu og fari þar fram með þeim hætti sem er ótrúlegt að skuli líðast í vestrænu lýðræðisríki á 21. öld.

Forseti. Næsti kafli nefndarálitsins heitir Óskýrð hagræðing upp á 1.566 þús. millj. kr. Hann hljóðar svo:

Á síðustu dögum umfjöllunar menntamálanefndar um málið fyrir 2. umr. var lögð fyrir nefndina skýrsla matsnefndar vegna stofnefnahagsreiknings, dagsett 28. nóvember. Sú skýrsla og plögg sem þar koma fram vöktu ýmsar áleitnar spurningar sem ekki varð svarað vegna þess hvað stjórnarmeirihlutanum lá mikið á að koma málinu úr nefndinni í það sinnið.

Í skýrslunni er m.a. birt rekstraráætlun Ríkisútvarpsins fyrir árin 2007–2016. Fram hefur komið að matsnefndin hefur ekki lagt sjálfstætt mat á forsendur þessarar áætlunar heldur kemur hún í heilu lagi frá Ríkisútvarpinu með blessun menntamálaráðuneytisins. Athyglisverðasti hluti þessarar rekstraráætlunar er greinargerð um kostnað við þjónustusamning eins og þar segir. Þar er gert ráð fyrir því að það kosti Ríkisútvarpið 3,1 milljarð kr. á þessum tíu árum að efna ákvæði þjónustusamnings við menntamálaráðherra, en drög að samningnum voru sem kunnugt er kynnt á veglegum blaðamannafundi í Útvarpshúsinu við Efstaleiti í september. Af þessari upphæð á bróðurparturinn, 2.780 millj. kr., að renna til aukins innlends efnis á kjörtíma.

Kostnaðartölunum fylgir áætlun um liðinn Hagræðing. Þessi „hagræðing“ nemur samtals 1.566 millj. kr., hálfum öðrum milljarði, og jafngildir tæpum 6% af árlegum rekstrarkostnaði (árið 2007 15 millj. kr., 2008 66 millj. kr., 2009 121 millj. kr., 2010 115 millj. kr., 2011 249 millj. kr., 2012 234 millj. kr. og 2013–2016 219 millj. kr. á ári). Vegna þessa lækkar hinn reiknaði kostnaður við að uppfylla þjónustusamninginn 2007–2016 úr 3.105 millj. kr. í 1.539 millj. kr.

Þessari hagræðingu, 1.539 millj. kr., á að ná smám saman, einkum með hækkandi tekjum af nefskatti á þessum árum „vegna fólksfjölgunar“ og með lægri gjöldum þar sem innheimtudeildin leggst af og tengsl rofna við Sinfóníuhljómsveitina. Mundi sumum þykja þetta nokkuð glannaleg áætlun, en hún er þó í gögnum frá matsnefnd vegna stofnefnahagsreiknings sem ríkisendurskoðandi fer fyrir. Hann ber hins vegar ekki ábyrgð á þessari áætlun, forseti, en vísar henni frá sér og segir að nefndin hafi ekki lagt neitt mat á þetta. Þetta komi frá ríkisstjórninni og menntamálaráðuneytinu.

Nefndarmenn spurðu um hagræðingartölurnar á þeim tíma sem til þess gafst fyrir 2. umr. og fengu síðan annað tækifæri til þess nú í þinghléinu. Niðurstaðan er sú að umfram frómar óskir er ekkert handfast um þessar hagræðingarráðstafanir. Svör ríkisendurskoðanda voru að matsnefnd hans hefði ekki lagt sjálfstætt mat á þessar tölur. Þetta væri „ósk eigandans“ og tölurnar komnar frá Ríkisútvarpinu og ráðuneytinu. Svör útvarpsstjórans voru að þetta væri ekki ákveðið. Eitthvað mundi sparast við að fólk segði sjálft upp störfum sem ekki yrði ráðið í aftur. Þá væru uppi hugmyndir um að stofna fyrirtæki ásamt öðrum um leikmyndir og búninga, og gæti einhver hagræðing orðið af því. Svör fulltrúa menntamálaráðherra voru engin, þessar tölur kæmu frá Ríkisútvarpinu. Svör framkvæmdastjóra fjármálasviðs Ríkisútvarpsins voru þau að ekki lægi fyrir hvernig þetta yrði gert. Hagræðingin væri fyrst og fremst „markmið“.

Hagræðingin á að nema tæpum 6% rekstrarkostnaðar á ári og er því umfangsmikið verkefni við rekstur Ríkisútvarpsins fram til 2016. Á þessari hagræðingu byggjast niðurstöður forstöðumanna Ríkisútvarpsins og embættismanna menntamálaráðherra um „kostnað við þjónustusamning“ en sá kostnaður er ein af helstu grunntölum í rekstraráætluninni fyrir 2007–2016. Þó veit enginn hvernig á að ná fram hagræðingu fyrir 1.566 millj. kr., sem nema um 56% af því fé sem þessi ár á að renna til innlends dagskrárefnis. Ég endurtek: Þessar 1.566 millj. kr., sem nema um 56% af því fé sem þessi ár á að renna til innlends dagskrárefnis, þess innlenda dagskrárefnis sem hæstv. menntamálaráðherra hrósaði sér sem mest af á hinum fræga blaðamannafundi í fréttasettinu í útvarpshúsinu í Efstaleiti í september sl. — Ég sé, forseti, að menntamálaráðherra brosir sælubrosi ljúfrar minningar um þá fréttatíma sem þar fylgdu í kjölfarið og hefur ekki gerst annað eins fyrr en hún fór að hella út peningum, sem hún á að vísu ekki fyrir sjálf, sem við í stjórnarandstöðunni þurfum að borga fyrir eftir 12. maí. En verði henni að góðu því að a.m.k. síðustu fjárveitingar með þessari góðu gúmmílykt voru alveg í samræmi við stefnu þeirrar ríkisstjórnar sem hér tekur við eftir kosningarnar 12. maí. Ég skrúfa mig aftur inn í nefndarálitið, forseti, eftir þennan útúrdúr:

Eftir spurningar um þessi efni í menntamálanefnd barst nefndinni minnisblað frá ríkisendurskoðanda, formanni matsnefndarinnar, ásamt ýmsum umbeðnum gögnum. Þar segir þetta um hagræðinguna:

„Það var skilningur nefndarinnar að það sé ætlun stjórnenda hins nýja félags að hagræða í öllum þáttum starfseminnar til að uppfylla megi ákvæði þjónustusamningsins um aukið innlent dagskrárefni. Eins og gefur að skilja mun þetta m.a. hafa í för með sér að minna rými verður fyrir erlent dagskrárefni, einkum á kjörtíma. Nefndinni er hins vegar ekki kunnugt um að nákvæmlega hafi verið ákveðið með hvaða hætti slík breyting verður útfærð og hversu mikil skerðing mun verða á kaupum erlends dagskrárefnis.“ Þetta er tilvitnun í formann matsnefndarinnar, ríkisendurskoðanda.

Þetta er í raun eina vísbendingin sem nefndin hefur fengið um þetta tíu ára hagræðingarstarf, fyrir utan ummæli útvarpsstjóra um starfslok án nýráðningar og hugsanlegt fyrirtæki upp úr stoðdeildum. Matsnefndin vekur hér upp lykilspurningu. Eigi að skera niður erlent efni, „einkum á kjörtíma“, skiptir máli hvaða efni verður skorið niður. Ljóst er að Ríkisútvarpið á áfram að fá a.m.k. þriðjung heildartekna sinna af auglýsingum og kostun. Mestur hluti auglýsinga í sjónvarpinu raðast kringum erlent efni af ákveðnu tagi, sápur og spennuþætti. Er ætlunin að skera niður það efni? Eða á niðurskurðurinn að bitna á öðru erlendu efni en því sem auglýsendur sækja í — efni sem oftast er mun meira virði fyrir almannaútvarpsstöð? Hér er augljóslega eitthvað vanreiknað eða vanhugsað.

Fráleitt er að leggja trúnað á þá húsagarðakenningu að til sé einhvers konar leynileg áætlun um þessa hagræðingu, sem þingmenn, starfsmenn Ríkisútvarpsins og almenningur fái ekki að vita um, og byggist á að leggja niður tilteknar deildir, reka fólk og skera niður í dagskrá í sjónvarpi og til dæmis á Rás 1. Þess vegna er erfitt að komast að annarri niðurstöðu í þessu efni en þeirri að rekstraráætlunin, tölurnar um kostnað við þjónustusamning og meginefni sjálfra þjónustusamningsdraganna sé fyrst og fremst áróðursframleiðsla sem ætlað er að hressa upp á trúverðugleik frumvarpsins.

Höfuðatriðið er þetta: Til að efna fyrirheit þjónustusamningsdraganna um aukið innlent efni, meiri textun, varðveislu safnefnis og fleira virðist þurfa annaðhvort, að skera verulega niður annars staðar í starfsemi Ríkisútvarpsins eða afla meiri tekna, og þá væntanlega með auglýsingum og kostun því ekki stendur til að auka ríkisstuðning til þess arna. Svör um þetta hafa engin fengist hjá embættismönnum menntamálaráðherra, yfirmönnum Ríkisútvarpsins eða fulltrúum matsnefndarinnar.

Því er við að bæta í umfjöllun um fyrirheitin í þjónustusamningsdrögunum um aukið innlent efni að nefndin fékk á fund sinn Baltasar Kormák, formann Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda. Hann staðfesti að enn væri ekkert samkomulag eða skilningur milli innlendra framleiðenda og Ríkisútvarpsins um skilgreiningu hugtakanna „innlent efni“ og „sjálfstæður framleiðandi“. Til að meta ákvæðin í þjónustusamningsdrögunum þarf þó að vita hvað átt er nákvæmlega við með þessum orðum. Að nokkru hefur menntamálaráðherra bætt úr með svari við fyrirspurn þingmanns — átt er við þingmanninn Mörð Árnason — (þskj. 485) á þessu þingi, en samkvæmt því er innlent dagskrárefni „allt það efni sem framleitt er innan lands af sjónvarpinu sjálfu eða sjálfstæðum framleiðendum. Jafnframt telst efni innlent þegar efni af erlendum uppruna er fellt inn í innlenda þætti og það hefur verið talsett, textað og tilreitt sem innlent efni. Fréttir eru til að mynda innlent efni, en innan þeirra eru fréttamyndir teknar erlendis. Sama gildir um aðra samsetta dagskrá, íþróttir, Stundina okkar, Nýjustu tækni og vísindi, Kastljósið og aðra samsetta þætti.“

Hér er komin nokkur mynd á það innlenda efni sem ætlað er að fylla kjörtíma sjónvarpsins daglega í framtíðinni en framleiðslukostnaður þess á að nema um 1 millj. kr. á klukkutíma. Má segja að betur megi ef duga skal við að skapa metnaðarfulla innlenda dagskrá á almannasjónvarpsstöðinni næstu áratugina.

Næsti kafli fjallar um réttindi starfsmanna. Meðan fjallað var um þetta mál í nefndinni stóðu yfir miklar deilur milli flugumferðarstjóra og Flugstoða ohf. um réttindamál sem rekja mátti til rekstrarformsbreytinga á starfsemi sem áður var rekin í ríkisstofnuninni Flugmálastjórn Íslands. Þeim deilum lyktaði loks með samkomulagi í janúar. Á sama tíma fréttist af uppsögnum starfsmanna þriggja opinberra rannsóknarstofa í matvælaiðnaði sem sameinaðar höfðu verði í Matís ohf. Á annan tug starfsmanna ákvað að ráða sig ekki til hins nýja félags vegna réttinda- og kjaramála. Deilur af þessu tagi hafa ævinlega risið þegar opinberum stofnunum sem sinna stjórnsýsluverkefnum hefur verið breytt í hlutafélög, og nokkuð ljóst að stjórnvöld bjóða slíkum átökum heim í ríkum mæli við þær breytingar sem hlutafélagsvæðing Ríkisútvarpsins hefur í för með sér.

Gunnar Björnsson, skrifstofustjóri starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, var gestur nefndarinnar ásamt Halldóru Friðjónsdóttur, formanni BHM, og Árna Stefáni Jónssyni, varaformanni BSRB. Fram kom í máli Gunnars að bagalegt væri hversu mismunandi leiðir hefðu verið farnar við rekstrarformsbreytingar opinberra stofnana á liðnum árum. Æskilegt hefði verið að setja rammalöggjöf sem segði fyrir um almennar leikreglur við slíka framkvæmd, og ef slíkri löggjöf væri til að dreifa mætti gera ráð fyrir færri árekstrum við starfsmenn meðan á breytingunum stæði. Ljóst væri af reynslunni að breytingar af þessu tagi þyrftu ekki að valda teljandi óánægju meðal starfsmanna, og nefndi Gunnar dæmi um það.

Ásetningur ríkisstjórnarinnar um Ríkisútvarpið virðist vera sá að koma stofnuninni úr opinberu rekstrarumhverfi í umhverfi einkarekstrar. Það hefur í för með sér endurskilgreiningu á ábyrgð og skyldum starfsmanna. Slík endurskilgreining hefur ekki farið fram, enda ekki verið farin sú leið að setja almennan lagaramma um einkarekstur í opinberri eigu. Ætlunin er að láta ófullkomin lög um opinber hlutafélög nægja. Enn er gert ráð fyrir að starfsmenn Ríkisútvarpsins hafi með höndum verkefni og ábyrgð sem talist getur eðlilegt að sinnt sé af hálfu opinberra aðila, eins og öryggis- og almannavarnahlutverk ásamt því að skrá, framleiða og varðveita menningararf þjóðarinnar að hluta, sem er ekki ósvipað hlutverk og starfsmenn Þjóðminjasafns, Þjóðskjalasafns og Þjóðleikhúss gegna. Það er mat minni hluta nefndarinnar að lögin um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, nái til starfa af því tagi sem um ræðir og ekki sé tilefni til að breyta þeirri umgjörð á þann veg sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu, yfir í umgjörð einkarekstrar. Til stuðnings þessu sjónarmiði er sú staðreynd að nágrannaþjóðir okkar hafa ekki hlutafélagavætt ríkisstofnanir sínar í sama mæli og hér hefur gerst.

Ekkert þeirra atriða sem gerð var athugasemd við í fyrra nefndaráliti minni hlutans hefur tekið breytingum í þessari síðustu umfjöllun í nefndinni. Þannig standa óbreytt áform um að fella niður réttindi á borð við andmælarétt, áminningarskyldu, skriflegan rökstuðning fyrir uppsögn, auglýsingaskyldu um laus störf, aðgang almennings að upplýsingum um nöfn og starfsheiti umsækjenda, uppsagnarfrest, þagnarskyldu, skyldu um að hlíta breytingum á störfum og verksviði. Einnig stendur óbreytt sú staðreynd að starfsmenn hins nýja félags njóta ekki jafnræðisreglu, andmælaréttar, rannsóknarreglu eða meðalhófsreglu. Ekkert liggur heldur fyrir um áform hins nýja félags um nýjan kjarasamning. Þó er ljóst að nýir starfsmenn Ríkisútvarpsins ohf. munu ekki njóta þeirra réttinda sem þeir hefðu notið sem nýir starfsmenn Ríkisútvarpsins eins og það er nú. Biðlaunaréttur, sem heyrir undir eignarréttarvernd stjórnarskrárinnar, verður skertur og réttur til upplýsinga og samráðs, sem starfsmenn Ríkisútvarpsins eiga samkvæmt lögum nr. 72/2002, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, verður ekki virtur.

Eftir standa kröfur stéttarfélaganna og Félags fréttamanna um fjölda breytinga sem þyrfti að gera á frumvarpinu ætti það að geta talist ásættanlegt fyrir starfsmenn, núverandi sem og nýráðna. Það er mat minni hlutans að hér sé farið svo langt út fyrir sjálfsagðar leikreglur að ekki verið við unað.

Næsti kafli fjallar um tengslin við fjölmiðlafrumvarpið.

Minnt skal á úr fyrra nefndaráliti að snemma á þessu þingi lagði menntamálaráðherra auk ríkisútvarpsfrumvarpsins fram frumvarp um almenna fjölmiðla, 58. mál á þskj. 58. Það frumvarp er í megindráttum byggt á tillögum nefndar sem í sátu fulltrúar allra þingflokka og skilaði skýrslu 7. apríl 2005. Þvert á fyrirheit ráðherra hefur ekki verið reynt í nefndinni að fjalla í samhengi um þessi tvö mál, og enn hefur fjölmiðlafrumvarpið ekki komið á dagskrá nefndarinnar nema í því skyni að senda það til umsagnar.

Af þessu tilefni er rétt að minna á bókun sem fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Frjálslynda flokksins lögðu fram þegar áðurnefnd fjölmiðlanefnd skilaði af sér. Fulltrúarnir sögðu m.a., með leyfi forseta:

„Við erum þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að ná sátt um samræmda heildarsýn fyrir íslenska fjölmiðla sem taki bæði til Ríkisútvarpsins og einkarekinna fjölmiðla. Slíkt er einungis mögulegt ef vinnan við lagasetningu um Ríkisútvarpið fer fram samhliða vinnunni við hina almennu löggjöf.“

Það var enn fremur mat þeirra að slík sátt næðist aðeins með því að, með leyfi forseta:

„... tryggja faglegt og rekstrarlegt sjálfstæði Ríkisútvarpsins gagnvart stjórnvöldum og varðveita það traust sem ríkir á milli stofnunarinnar og eigenda hennar, þ.e. þjóðarinnar.“

Fulltrúar flokkanna þriggja lýstu því yfir að lokum að þeir skrifuðu undir hina sameiginlegu skýrslu fjölmiðlanefndarinnar í því trausti, með leyfi forseta:

„... að ásættanleg niðurstaða [næðist] um framtíðarskipan Ríkisútvarpsins.“

Þótt stjórnarmeirihlutinn hafi nú breytt upphaflegu frumvarpi sjö sinnum — við lok þingstarfa vorið 2005, sumarið 2005 þegar sameignarformið vék fyrir háeffun, við lok 2. umræðu á síðasta þingi með breytingartillögum meiri hluta menntamálanefndar, með nýjum breytingartillögum meiri hlutans við 3. umræðu málsins í vor, með smávægilegum lagfæringum síðasta sumar, með breytingartillögum meiri hluta menntamálanefndar fyrir 2. umræðu nú í haust og loks með breytingartillögum sínum nýframkomnum fyrir 3. umræðu — er enn langt frá því að slík ásættanleg niðurstaða hafi náðst, hvorki milli stjórnmálaflokkanna, meðal almennings né við aðrar útvarpsstöðvar.

Síðasti kafli fyrir niðurstöðukafla þessa nefndarálits heitir Sáttaboð.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar í menntamálanefnd hafa unnið að frumvörpunum um Ríkisútvarpið með sömu markmið að leiðarljósi og fulltrúar flokkanna í fjölmiðlanefndinni lýsa í bókun sinni.

Eins og rakið var í fyrra nefndaráliti okkar um þetta frumvarp nú fyrir áramót hafa þingmenn stjórnarandstöðunnar allt frá því fyrsta ríkisútvarpsfrumvarp menntamálaráðherra kom fram verið áfram um að reyna sættir í þessu mikilvæga máli. Eftir að samkomulag tókst um að ljúka 2. umræðu um frumvarpið á síðasta þingi sendu fulltrúar stjórnarandstöðunnar formanni menntamálanefndar, að höfðu samráði við forustumenn flokka sinna, bréf, dagsett 24. apríl 2006, þar sem sett var fram tilboð um verklag til að ná sáttum í málinu. Í því fólst að frumvarpið yrði ekki afgreitt á því þingi en strax að því loknu sett niður nefnd með fulltrúum allra flokka með það að markmiði að lagasetningu yrði lokið fyrir áramót, nefnilega þau sem nýliðin eru. Lagt var til að þessi nefnd kannaði sérstaklega þann möguleika að Ríkisútvarpið yrði gert að sjálfseignarstofnun í atvinnurekstri. Í frumvarpsdrögum nefndarinnar yrði þess gætt að halda sem allra flestum kostum hlutafélagsformsins fyrir Ríkisútvarpið sem almannaútvarp en sniðnir af helstu ókostir þess. Þá voru í bréfinu settar fram í átta liðum efnislegar ábendingar um úrbætur að öðru leyti á frumvarpinu um Ríkisútvarpið hf. Rétt er að taka fram í þessu sambandi að enginn heildstæður samanburður hefur enn verið gerður á rekstri Ríkisútvarpsins með breytingum innan núverandi lagaramma og hlutafélagsforminu eða öðru eignarformi. Horft hefur verið fram hjá því að Ríkisútvarpið er nú B-hlutastofnun sem getur haft bæði fullt sjálfstæði og mikinn sveigjanleika. Á fyrsta fundi menntamálanefndar eftir 2. umræðu á síðasta þingi hafnaði formaður menntamálanefndar þessu boði fyrir hönd stjórnarflokkanna. Svo fór þó að frumvarpið var ekki afgreitt á vorþinginu.

Í 1. umræðu um það frumvarp sem nú liggur fyrir var svipað sáttaboð ítrekað. Bæði Steingrímur J. Sigfússon og Mörður Árnason lýstu því yfir fyrir hönd flokka sinna að ef ráðherrann og stjórnarmeirihlutinn væru til viðræðu um annað eignarform en hlutafélagsformið stæði ekki á flokkunum að taka málið gjörvallt til skoðunar á ný með það fyrir augum að reyna til þrautar sættir um framtíð Ríkisútvarpsins. Hvorki menntamálaráðherra, formaður menntamálanefndar né varaformaður hennar úr Framsóknarflokki virtu þetta sáttaboð svars.

Í nefndarstörfum nú í þinghléi var þetta tilboð ítrekað. Þá bentu fulltrúar stjórnarandstöðunnar á að aðeins nokkrir mánuðir lifðu af kjörtímabilinu. Verði frumvarpið að lögum gengur það í gildi aðeins sex vikum fyrir kjördag, 12. maí. Þess var óskað að formaður menntamálanefndar kannaði hvort ekki þætti skynsamlegt að fresta málinu öllu til næsta þings, hugsanlega með því móti að flokkarnir byndust samtökum um að ljúka afgreiðslu frumvarps um nýskipan Ríkisútvarpsins fyrir tiltekinn tíma, til dæmis vorið 2008. Einnig var hreyft þeirri hugmynd að samþykkja á þessu þingi þær breytingar sem þokkaleg samstaða næðist um en fresta ágreiningsmálum þar til eftir kosningar. Þau mætti þá leggja í dóm kjósenda, en sá ágreiningur kæmi ekki í veg fyrir að hægt væri að hefjast handa strax við ýmsa nýsköpun á Ríkisútvarpinu, svo sem um aðra skipan valda og ábyrgðar, og um að dagskrár- og ráðningarvald væri með öllu fært frá útvarpsráði eða rekstrarstjórn, svo dæmi séu tekin.

Er skemmst frá því að segja að þessum boðum og hugmyndum var hafnað. Er það því miður í samræmi við fyrri vinnubrögð menntamálaráðherra og stjórnarliða í þessu máli.

Frávísunartillaga er flutt í lok nefndarálitsins. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Í ljósi þess sem að framan greinir og áður hefur komið fram í nefndaráliti minni hluta menntamálanefndar fyrir 2. umræðu málsins, eiga stjórnarandstæðingar í nefndinni ekki annars úrkosti en að flytja eftirfarandi tillögu:

Þar sem

a. fram hafa komið veigamiklar athugasemdir um að sams konar frumvarp um Ríkisútvarpið og fjölmiðlafrumvarpið kunni að brjóta í bága við stjórnarskrá,

b. vafi leikur á um hvort ákvæði frumvarpsins stenst reglur Evrópuréttar,

c. ekki er ljóst í frumvarpinu með hvaða hætti Ríkisútvarpið á að sinna hlutverki sínu sem almannaútvarp og hver eiga að vera skil milli starfssviðs þess og annarra útvarpsstöðva,

d. með ákvæðum um tekjur af auglýsingum og kostun er gert ráð fyrir að Ríkisútvarpið verði áfram á auglýsinga- og kostunarmarkaði án þess að ljóst sé um sérstakt hlutverk þess umfram aðrar stöðvar,

e. tillögur frumvarpsins um kjör stjórnar og ráðningu útvarpsstjóra eru ekki til þess fallnar að hefja fagleg sjónarmið til vegs og virðingar og losa Ríkisútvarpið undan flokkspólitískum ítökum,

f. ekki er í frumvarpinu gert ráð fyrir eftirlitsráði, t.d. í formi „akademíu“ með tilnefningum frá almannasamtökum, samanber m.a. leiðbeiningar Evrópuráðsins um verkaskiptingu stjórnar annars vegar og eftirlitsráðs hins vegar,

g. óvíst er hvernig háttað verður um innlent efni í dagskrá Ríkisútvarpsins til frambúðar, og innihald þjónustusamningsdraga er óljóst,

h. ákvæði í frumvarpinu um „a.m.k. eina hljóðvarps- og sjónvarpsdagskrá“ virðist ætlað að auðvelda afnám Rásar 2,

i. ekki hefur í frumvarpinu eða í tengslum við það verið gengið með fullnægjandi hætti frá réttindamálum núverandi starfsmanna og óljóst er um starfskjör og samningamál í framtíðinni,

j. nefskattur, sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu, er ekki heppileg leið til fjármögnunar, byggist á árlegri ákvörðun þingmeirihluta og felur í sér mismunun milli gjaldenda,

k. við blasir að frumvarpið ylli, ef það verður að lögum, málaferlum bæði hérlendis og á EES-vettvangi,

l. og hvorki menntamálaráðherra né meiri hluti menntamálanefndar hafa reynt að ná samstöðu um framtíð Ríkisútvarpsins, sem er einhver helsta lýðræðis- og menningarstofnun í íslensku samfélagi, leggur minni hlutinn til að frumvarpinu verði vísað frá með svofelldri rökstuddri dagskrá:

Með vísan til framangreinds samþykkir Alþingi að vísa málinu frá og taka fyrir næsta mál á dagskrá.“

Tekið er fram í nefndarálitinu að Magnús Þór Hafsteinsson hafi setið fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og sé samþykkur þessu nefndaráliti.

Undir það skrifa: Mörður Árnason, framsögumaður, Björgvin G. Sigurðsson, Einar Már Sigurðarson og Kolbrún Halldórsdóttir.

Ég tel mér skylt, þótt ég hafi margt fleira að segja, að gefa öðrum þingmönnum kost á að halda áfram þessari umræðu þannig að hún sé í sæmilegu samhengi. Ég nýt þess sem framsögumaður nefndarinnar að geta komið hér tvisvar enn. Ég hyggst notfæra mér það og lýk því máli mínu hér með.