133. löggjafarþing — 51. fundur,  15. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[18:41]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Eftir nokkra snerru í upphafi þingfundar höfum við hafið 3. umr. um Ríkisútvarpið ohf., þetta umdeilda mál, mál sem ég held að eigi þegar upp verður staðið eftir að verða afar afdrifaríkt fyrir þessa ríkisstjórn. Ég held að fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, Þorsteinn Pálsson, hafi lög að mæla í þeim leiðurum sem hann hefur skrifað um málið og ég kem til með að vitna til í ræðu minni.

Við fórum yfir það í umræðum um störf þingsins í upphafi þingfundar hvernig þessu máli hefði lyktað í menntamálanefnd og hv. þm. Mörður Árnason gerði ágætlega grein fyrir því í sinni ræðu þegar hann fór yfir nefndarálit minni hluta menntamálanefndar. Það er trúa okkar í þessu máli að upplýsingarnar frá ESA, þ.e. upplýsingarnar um það að bréfaskipti hefðu staðið á meðan nefndin fjallaði um málið, bréfaskipti milli ráðuneytis menntamála og ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA, séu þess eðlis að eðlilegt hafi verið að fresta umfjöllun um málið, sérstaklega í ljósi þess að það liggur fyrir að ESA telur sig enn eiga eftir að gefa lokasvar við fyrirspurnum ráðuneytisins. Það er til marks um óöryggi ráðuneytisins og hæstv. menntamálaráðherra í þessu máli hversu mikil þessi bréfaskipti hafa verið og um hvaða atriði þau hafa fjallað. Þau hafa nefnilega fjallað um grundvallaratriði málsins og þar hefur verið tekið á álitamálum sem við höfum haft til umfjöllunar í menntamálanefndinni og höfum þurft að skoða ofan í kjölinn. Þess vegna hefði verið verulegur fengur að því að vita af samskiptum ráðuneytisins og ESA á þeim tíma sem við fjölluðum um málið í nefndinni.

Það er vissulega önugt til þess að vita að starfsmenn ráðuneytisins sem voru í nokkuð nánum samskiptum við menntamálanefnd, bæði fyrir 2. umr. um þetta mál og sömuleiðis núna á milli 2. og 3. umr., skyldu ekki gefa okkur neinar vísbendingar um að enn væri verið að spyrja ESA um almannaþjónustuhlutverk Ríkisútvarpsins. Samkvæmt 3. gr. er það mjög vítt en það er líka að okkar mati afar illa skilgreint og það eru akkúrat hlutir sem Eftirlitsstofnun EFTA hefur verið að gera athugasemdir við í þessum bréfaskiptum. Þegar þau bréfaskipti eru skoðuð kemur í ljós að þar hefur Eftirlitsstofnunin haft svipaðar athugasemdir og við í stjórnarandstöðunni í menntamálanefndinni og sömuleiðis varðandi annað veigamikið atriði sem varðar eftirlitsþáttinn með almannaþjónustuhlutverkinu. Það vita allir sem vita vilja að Evrópusambandið leggur mjög mikið upp úr því þegar annars vegar er um að ræða ríkisrekstur og hins vegar samkeppnisrekstur sem berjast á sama markaði um yfirráð eða um það að ná til neytenda að ekki sé meðgjöf með hinum ríkisstyrkta rekstri, þ.e. að það sé ekki samkeppnishamlandi að ríkið sé á markaðnum. Það þurfa að vera góð rök fyrir því að hið opinbera leggi peninga í rekstur sem jafnframt er rekinn af einkaaðilum og það vita allir sem vita vilja að það hafa verið ákveðin átök í Evrópusambandinu þar sem framkvæmdastjórnin hefur lagt mikið upp úr því að hafi ríkisfjölmiðlar, þótt þeir séu að hluta til á samkeppnismarkaði, menningarlegu hlutverki að gegna — framkvæmdastjórnin hefur pólitískt staðið á bak við ríkisfjölmiðlana í Evrópu á sama tíma og Evrópudómstóllinn hefur reyndar verið hallari undir samkeppnislöggjöfina og samkeppnislögmálin og hefur þess vegna iðulega slegið í brýnu eða verið togstreita á milli framkvæmdastjórnarinnar og hins pólitíska valds í Evrópusambandinu og Evrópudómstólsins sem vill dæma málin út frá samkeppnissjónarmiðunum frekar en hinum menningarlegu skyldum. Þarna er skurðarpunkturinn sem Evrópusambandið er vaklandi í í dag og þess vegna á Eftirlitsstofnunin erfitt með að kveða upp úr með það á hvern hátt eftirliti skuli háttað með þessu almannaþjónustuhlutverki og með því að hinu opinbera fé sé varið í menningarhlutverkið en ekki samkeppnisrekstur.

Um þessa þætti eru menn að kalsa í bréfunum sem ganga á milli ráðuneytisins og ESA á nákvæmlega sama tíma og ríkisstjórnin leggur áherslu á og setur kraft í að reyna að ná málinu í gegn eins og við urðum áþreifanlega vör við fyrir jól í þessum þingsölum. Það er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og ég sé ekki að menntamálaráðherra hafi nokkur rök fyrir því hvers vegna þessi mikli þrýstingur var á að málið færi í gegn fyrir jól þegar jafnmörg mál og raun ber vitni voru óútkljáð milli ráðuneytisins og ESA. Það er alvarleg staðreynd að síðasta bréfið skuli hafa farið frá fjármálaráðuneytinu varðandi þessi mál til Eftirlitsstofnunarinnar 9. janúar sl. Þetta er slíkur áfellisdómur yfir meðferð málsins og mér þykir dapurlegt að hæstv. forseti skyldi ekki hlusta á rök þingflokksformanna stjórnarandstöðunnar þegar þess var farið á leit með bréfi sem dagsett er 11. janúar sl. og hlutast til um að afgreiðslufundi nefndarinnar vegna þessara bréfa yrði frestað og stjórnarandstöðunni gefið eðlilegt ráðrúm til að kynna sér þau gögn sem fyrir lágu. Það er alltaf alvarlegt þegar það kemur upp að gögnum sé haldið frá þingnefndum og það er deginum ljósara að menntamálaráðherra er í erfiðu máli hér hvað þetta varðar. Það hefði verið veruleg skynsemi í því fólgin af stjórn þessa þings að fara að óskum okkar í stjórnarandstöðunni sem við settum fram í bréfaformi þann 11. janúar eins og ég nefndi. Það var ekki gert og inn í þessa umræðu erum við komin vitandi það að samskipti ESA og íslenskra stjórnvalda eru enn yfirstandandi.

Þessi samskipti eru rakin í minnisblaði sem sent var til menntamálanefndar fyrir örfáum dögum, rétt fyrir helgina, og þar eru rakin þessi samskipti fram að þeim degi. Það sem mér finnst athyglisverðast er að málefnin sem við erum að fjalla um í menntamálanefnd eru öll uppi á borðinu. Í þessu minnisblaði ráðuneytisins til nefndarinnar kemur fram að á fundi ESA með fulltrúum fjármálaráðuneytisins og menntamálaráðuneytisins fyrir um það bil ári hafi frumvarpið um RÚV hf. verið kynnt fyrir fulltrúum ESA og síðan hafi verið gerð grein fyrir því með hvaða hætti ákvörðun væri tekin um almannaþjónustuhlutverk Ríkisútvarpsins með hliðsjón af þeim skilyrðum sem lýst væri í ákveðnum kafla í ríkisstyrktarreglum Eftirlitsstofnunar EFTA. Jafnframt var á þessum tíma spurt um tilhögun eftirlits með almannaþjónustuhlutverki Ríkisútvarpsins. Það var fjallað um aðskilnað í bókhaldi Ríkisútvarpsins á milli almannaþjónustuhluta og samkeppnishluta starfseminnar. Það var fjallað um ákvörðun um fjárhæð afnotagjaldanna eða nefskattinn eins og fyrirhugað er að breyta afnotagjöldunum í. Það var fjallað um ráðstafanir til að sporna við undirboðum og samkeppnishamlandi athöfnum Ríkisútvarpsins á markaði og í framhaldinu var síðan gerð nánari grein fyrir athugasemdum stofnunarinnar þar sem ESA brást við þessum þreifingum starfsmanna íslenskra ráðuneyta.

Það er alveg ljóst þegar minnisblað ráðuneytisins er skoðað ofan í kjölinn hversu mikils óöryggis virðist hafa gætt hjá stjórnvöldum, hjá starfsmönnum ráðuneytisins, með þau atriði frumvarpsins sem hafa síðan valdið mestum deilum og mestum umræðum hér heima og sýnist sitt hverjum í þessum efnum. Auðvitað andmæla aðilar sem reka stöðvar á markaði, útvarpsstöðvar og sjónvarpsstöðvar, ekki þessu frumvarpi á sömu forsendum og við þingmenn stjórnarandstöðunnar, það er alveg ljóst. Þar er himinn og haf á milli. Það má segja að menn séu staddir hvor sínum megin á ásnum í gagnrýni sinni á stjórnvöld í þessum efnum og þess vegna hefur það verið verulega þungur róður fyrir starfsmenn stjórnvalda, þeirra sem reka erindi stjórnvalda fyrir ESA, að átta sig á því eða gera sér fulla grein fyrir því hver væri besta leiðin til að hægt væri að fallast á að Ríkisútvarpinu yrði breytt í hlutafélag og á sama tíma yrðu allar reglur ESA og Evrópusambandsins uppfylltar. Þetta er verulega flókið efni og það kemur fram í þeim gögnum sem við höfum frá Eftirlitsstofnuninni og frá menntamálaráðuneytinu varðandi samskiptin við hana.

Í bréfinu, sem skrifað var þann 9. janúar sl., fyrir örfáum dögum, er gerð grein fyrir því með hvaða hætti íslensk stjórnvöld hyggjast standa að ákveðnu mati, því sem kallað hefur verið fyrirframmat, þ.e. áður en ákvörðun er tekin um upptöku nýrrar þjónustu innan skilgreiningar útvarpsþjónustu í almannaþágu eins og henni er lýst í 3. gr. frumvarpsins og í 2. gr. þjónustusamningsins sem var bein afleiðing af umkvörtunum ESA á sínum tíma. Ekki fylgdi þjónustusamningur með frumvarpi ríkisstjórnarinnar um Ríkisútvarpið hf. og ekki fylgdi uppkast að þjónustusamningi með frumvarpi ríkisstjórnarinnar um Ríkisútvarpið sf. Það er ekki fyrr en með frumvarpi ríkisstjórnarinnar um Ríkisútvarpið ohf. sem þjónustusamningurinn lítur dagsins ljós og er þar fyrir áeggjan og kröfu frá Eftirlitsstofnuninni.

Í bréfinu frá 9. janúar er gerð grein fyrir því að Ríkisútvarpið ohf. eða menntamálaráðuneytið kunni að hafa frumkvæði að því að óska eftir að nýrri þjónustu sé bætt við þjónustusamninginn. Þá ósk beri að birta opinberlega með sex mánaða fyrirvara áður en fyrirhugað er að veita þjónustuna og við mat á nýrri þjónustu beri að leggja mat á hvort þjónustan falli innan undantekningar 2. mgr. 59. gr. EES-samningsins, hvort hún falli utan við almannaþjónustuhlutverk Ríkisútvarpsins eins og það er skilgreint í 3. gr. frumvarpsins að teknu tilliti til viðeigandi markaðar fyrir umrætt efni og fyrirhugaða miðlunaraðferð. Matið á að vera í höndum menntamálaráðuneytisins sem gert er ráð fyrir að kalli þá á aðstoð sérfræðinga frá Samkeppniseftirlitinu, Póst- og fjarskiptastofnun og útvarpsréttarnefnd eftir því sem þörf krefur. Í svari íslenskra stjórnvalda er matsferlinu lýst nánar þannig að lagt sé mat á menningarlega, lýðræðislega og félagslega þörf á hinni nýju þjónustu eins og slíkar þarfir eru skilgreindar samkvæmt 3. gr. frumvarpsins. Svo getum við farið út í það hvort þær eru þannig skilgreindar að það sé nægilega yfirgripsmikið eða gagnsætt þannig að menn viti við hvað er átt. Stjórnvöld gera ráð fyrir því að við matið skuli horft til þess hversu margir notendur verði að umræddri þjónustu, það skuli litið til kostnaðar sem fylgi því að bjóða upp á hana og hversu frábrugðin hún sé þeirri almannaþjónustu sem RÚV býður upp á í dag. Ráðuneytið lýsir því yfir að það muni jafnframt leggja mat á að hve miklu leyti hin nýja þjónusta feli í sér útvíkkun á fyrri almannaþjónustu og að hve miklu leyti sé um algerlega nýja þjónustu að ræða. Það er horft til þess af stjórnvöldum að niðurstöður matsins geti orðið þrenns konar, í fyrsta lagi að þjónusta sem óskað er að taka upp falli þegar undir almannaþjónustuhlutverk Ríkisútvarpsins eins og það er skilgreint í 2. gr. fyrirliggjandi þjónustusamnings, í öðru lagi að þjónustan falli utan samningsins en sé engu að síður innan 3. gr. frumvarpsins og í þriðja lagi að fyrirhuguð þjónusta falli utan 3. gr. frumvarpsins. Ef mat leiðir til niðurstöðu sem nefnd var í fyrsta lagi gera menn ráð fyrir að ekki þurfi að breyta samningnum. Ef mat leiði hins vegar til niðurstöðunnar sem getið var um í öðru lagi ætti að vera nægilegt að breyta samningnum og ef matið leiðir til niðurstöðu c, þ.e. síðustu niðurstöðunnar, að fyrirhuguð þjónusta falli fyrir utan 3. gr. frumvarpsins, telji stjórnvöld nauðsynlegt að breyta almannahlutverki Ríkisútvarpsins eins og það er skilgreint í lögunum áður en hin nýja þjónusta er tekin upp.

Í framhaldi af því sem hér er getið og því mati sem hér er um fjallað og fram komnum athugasemdum hagsmunaaðila og keppinauta Ríkisútvarpsins er gert ráð fyrir því að ráðherra taki ákvörðun um hvort hin nýja þjónusta geti hafist eður ei. Um þessi atriði er fjallað í síðasta bréfi stjórnvalda til Eftirlitsstofnunar EFTA og eins og ég sagði áðan vitum við enn ekki hver niðurstaðan af þessu öllu verður, hvort Eftirlitsstofnunin á eftir að gera einhverjar lokaathugasemdir eða hvort hún leggur blessun sína yfir þá leið sem hér er farin.

Sem sagt, það hefði verið ærin ástæða til að láta hér við sitja og taka fram fyrir þetta mál önnur brýn mál sem Alþingi hefur á dagskrá, brýn mál sem ríkisstjórnin vill koma í gegn og ætlar sér auðvitað að koma í gegn á þessu stutta vorþingi og hef ég þar nefnt til sögunnar mál sem er full ástæða til að vinna vel og koma sem fyrst í gegnum Alþingi og gera að lögum. Þar nefndi ég Vatnajökulsþjóðgarð, Náttúrufræðistofnun Íslands og Náttúruminjasafnið, þ.e. stofnun eins af höfuðsöfnum íslensku þjóðarinnar, náttúruminjasafns. Ég nefndi sameiningu Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands sem er eitt af þeim málum sem hæstv. menntamálaráðherra hefur lagt mikla áherslu á. Það mætti enn fremur nefna vegáætlun og fleiri mál sem liggja í nefndum og eru að verða tilbúin til 2. umr. og sömuleiðis mál sem stjórnarliðar og ráðherrar hafa lagt fram til 1. umr.

Ríkisstjórnin kýs að setja undir sig hausinn í þessu máli og fara þá leið að setja þingið af stað með umræðum um Ríkisútvarpið, þetta vonlausa, stagbætta frumvarp sem Eftirlitsstofnun EFTA hefur gert athugasemdir við allt fram á þennan dag, frumvarp sem mikil óeining ríkir um úti í samfélaginu, frumvarp sem beinlínis fer gegn ákveðnum meginreglum sem við höfum reynt að vinna eftir í samfélaginu hvað varðar t.d. réttindi starfsmanna hins opinbera og þar fram eftir götunum.

Það hefur verið haft á orði í þessari umræðu nú þegar að hér geti verið í uppsiglingu verulegt slys verði þetta frumvarp að lögum.

Ríkisútvarpið er afar sérstök stofnun í hugum þjóðarinnar. Hún hefur verið umdeild á ákveðnum tímum, oft hefur slegið í brýnu milli okkar stjórnmálamanna vegna málefna sem tengd eru stofnuninni, en þegar saga Ríkisútvarpsins er skoðuð er hún samfelld saga menningarstofnunar sem borið hefur uppi framleiðslu á menningu, þ.e. sköpun þess menningararfs sem við státum okkur af í dag. Eitt af veigamestu hlutverkum þessarar stofnunar hefur verið, er og verður, að halda áfram að tryggja það að menningararfur á öldum ljósvakans verði til, að hann verði unninn af fagmennsku, trúmennsku og afli og að hans verði gætt, að hann verði varðveittur til langrar framtíðar fyrir komandi kynslóðir til að rýna í og máta sig við og skilja þá sögu sem þessi þjóð hefur skilið eftir sig, þau spor sem mörkuð hafa verið af þeim sem gengið hafa þessa slóð, þessa braut, og borið hafa uppi menningu þjóðarinnar, þann kúltúr og það samfélag sem við höfum komið á laggirnar og höfum nært hér og fóstrað.

Ríkisútvarpið er, hefur verið og þarf áfram að vera einn af máttarstólpum menningar þjóðarinnar, máttarstólpi sem þjóðin er stolt af og vill umfram allt að haldi áfram að vera öflugur málsvari íslenskrar menningar. Það eru efasemdir meðal okkar stjórnarandstæðinga, meðal þjóðarinnar og meðal stjórnmálamanna um alla Evrópu um að það sé í lagi að senda allt það hlutverk sem ríkisfjölmiðill hefur sinnt á undangengnum árum og áratugum út á markað til að láta einkastöðvarnar berjast um það.

Eins og ég hef margoft sagt í umræðum um Ríkisútvarpið er ég svo sannarlega ekki mótfallin því að einkaaðilar fái að reka stöðvar, hvort sem það eru sjónvarpsstöðvar eða útvarpsstöðvar, úti á frjálsum markaði því að það hefur sýnt sig og margoft verið sannað og komið í ljós að það er gott að hafa sterka samkeppni, sterka keppinauta úti á markaðnum, en ég hef alltaf verið því fylgjandi að Ríkisútvarpið beri skyldur umfram einkastöðvarnar og trúi því og hef stutt það rökum einlæglega að það sé þannig sem stjórnmálaöfl í Evrópu hafi séð ríkisútvarp og ríkisfjölmiðlana fyrir sér, þ.e. að það sé skylda okkar að standa vörð um þessa máttarstólpa menningar á sama hátt og eining hefur verið um það meðal stjórnmálaafla vítt um lönd að reknar séu öflugar stofnanir sem haldi utan um sögu þjóðarinnar í formi safna, t.d. þjóðminjasöfn. Við þekkjum það sjálf hversu mikilvægt Þjóðminjasafnið okkar er. Við þekkjum líka hversu mikilvægt er að halda utan um menningu okkar á Þjóðskjalasafninu og Landsbókasafninu, í Þjóðleikhúsinu og fleiri sambærilegum stofnunum. Undir þetta net heyrir sterkur ríkisfjölmiðill sem framleiðir menningarefni á öldum ljósvakans fyrir hljóðvarp og sjónvarp og varðveitir þennan menningararf og sér um að miðla honum áfram til komandi kynslóða.

Við eigum öll einhverjar minningar og einhverjar sögur í farteskinu um það sem Ríkisútvarpið hefur haft fram að færa til þjóðarinnar og um það hlutverk sem það hefur gegnt. Sjálf minnist ég þess að móðir mín sagði mér af Eimreiðinni, tímaritinu sem tengdist upphafsárum Ríkisútvarpsins, sagði mér sögurnar af honum afa mínum sem eignaðist að ég held eitt fyrsta útvarp í Rauðasandshreppi, hvernig hann lokaði sig af til að hlusta á allt sem sent var út í útvarpinu, allar fréttir og hljóp svo um alla sveit til að segja fréttirnar áfram til þess að allir gætu notið þess sem hann heyrði í útvarpinu.

Gunnar Stefánsson hefur auðvitað manna best rakið þessar sögur allar í bók sinni um upphafsárin í sögu Ríkisútvarpsins, þ.e. árin frá 1930–1960, og mér segir svo hugur um að einhvers staðar sé í smíðum áframhald þeirrar sögu, a.m.k. sögunnar fram til 1985 þegar útvarpsrekstur var gefinn frjáls á Íslandi. Það er mikill fengur að þessari bók Gunnars Stefánssonar og ég er sannfærð um að þeir sem eru í þessum sal og hafa verið að sinna málefnum Ríkisútvarpsins, starfsmenn Ríkisútvarpsins, áhugafólk um Ríkisútvarpið og framtíð þess, hafa gluggað í bókina, hafi hreinlega látið umræðuna hvetja sig til þess að glugga í þessa bók og rifja upp þessa gömlu tíma og það hvaðan Ríkisútvarpið er sprottið, upp úr hvaða jarðvegi, hvaðan þessi þörf okkar fyrir sameiningartákn er komin, og hvernig Ríkisútvarpinu vegnaði síðan á fyrstu áratugum ævi sinnar.

Auðvitað höfum við í stjórnarandstöðunni ekki dregið neina dul á það að margt má betur fara í rekstri Ríkisútvarpsins og eins og ég sagði áðan hefur iðulega gustað um það. Við sem störfum hér á vegum stjórnarandstöðunnar í umboði kjósenda okkar höfum verið þess fýsandi að málefni Ríkisútvarpsins séu tekin föstum tökum og reynt sé að leita ákveðinna sátta um þau. Við höfum lagt fram ýmsar tillögur, bæði við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og hv. þingmenn Samfylkingarinnar eins og Mörður Árnason hv. þm. gerði grein fyrir í máli sínu áðan, við höfum komið fram með þingmál sem hafa dregið upp mynd af framtíð fyrir þessa stofnun sem við sjáum sem áhugaverða og ákjósanlega. Því miður hafa stjórnarliðar í þessum sal og hæstv. ráðherrar ekki viljað gefa því undir fótinn eða ljá því nokkurn stuðning að við settumst saman við borðið og ræddum þessi ólíku sjónarmið okkar og prjónuðum saman einhvers konar niðurstöðu, kæmumst að einhvers konar niðurstöðu um það með sátt og í samlyndi ólíkra sjónarmiða að við næðum fram einhverri lausn á þessum málum sem tryggði viðgang og vöxt þessarar stofnunar til langrar framtíðar. Það er mjög miður.

Ég minnist nú umræðunnar og átakanna sem urðu í fjölmiðlanefndinni sem skilaði af sér merkri skýrslu, eins og menn þekkja, fyrir tæpum tveimur árum síðan. Þar var uppi mjög merkileg umræða, mjög yfirgripsmikil umræða um málefni fjölmiðla almennt, en vegna þvermóðsku ríkisstjórnarinnar og hæstv. menntamálaráðherra var nefndinni ekki heimilað að fjalla um málefni Ríkisútvarpsins. Engu að síður sátu þar við sama borð fulltrúar frá öllum stjórnmálaflokkum sem eiga fulltrúa á Alþingi. Við sátum í mesta bróðerni og tókumst á um mjög erfið álitamál varðandi stöðu fjölmiðla almennt, fórum djúpt ofan í saumana á málum en urðum alltaf að stoppa þegar kom að málefnum Ríkisútvarpsins. Við fengum aldrei að máta hugmyndir okkar um ríkisútvarp inn í þá heildarmynd sem við þó vorum að reyna að skapa við þetta nefndarborð. Er það verulega til vansa fyrir ríkisstjórnina og þann hæstv. menntamálaráðherra sem haldið hefur hér á málum að ekki skyldi hafa verið heimilað á þeim tíma að við færum sameiginlega í það að skapa framtíð fyrir Ríkisútvarpið, framtíð sem hefði getað orðið sátt um, breið sátt. Þau tækifæri sem hæstv. menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, hefur haft til að ná þeim sáttum hefur hún öll látið sér úr greipum renna og er það mjög miður.

Bókunin sem við undirrituðum, fulltrúar stjórnarandstöðunnar í fjölmiðlanefndinni, 7. apríl 2005, gekk út á það að lýsa yfir eða teikna upp á hvern hátt við hefðum séð þetta geta átt sér stað og sögðum við frá því að alveg frá því að starf nefndarinnar fór af stað, haustið 2004, þá gerðum við athugasemdir, allir flokkar stjórnarandstöðunnar, við þá ákvörðun menntamálaráðherra að takmarka svigrúm nefndarinnar á þennan hátt til að fjalla um málefni Ríkisútvarpsins. Formenn þingflokka stjórnarandstöðunnar skrifuðu bréf um þau mál strax og nefndin tók til starfa og gerðu kröfu um að Ríkisútvarpið félli undir verksvið nefndarinnar. Við töluðum um það í bókun okkar frá 7. apríl að við værum þeirrar skoðunar að mikilvægt væri að ná sátt um samræmda heildarsýn fyrir íslenska fjölmiðla sem tæki bæði til Ríkisútvarpsins og hinna einkareknu fjölmiðla og að við teldum slíkt einungis mögulegt ef vinnan við lagasetningu um Ríkisútvarpið færi fram samhliða vinnunni við hina almennu löggjöf. Við höfum verið þessarar skoðunar æ síðan og höfum haldið okkur við þann málflutning.

Ég tel að í síðustu umfjöllun menntamálanefndar um Ríkisútvarpið hafi það kannski komið enn betur fram í dagsljósið en áður hversu mikil þörf hefði verið á að fjalla um Ríkisútvarpið í tengslum við þá sýn sem hæstv. menntamálaráðherra eða fjölmiðlanefndin varpaði upp í skýrslu sinni þannig að eitthvert vit hefði verið í hlutunum. Ég vil fá að nefna, virðulegi forseti, eitt dæmi þessu sjónarmiði mínu til stuðnings.

Í frumvarpinu um Ríkisútvarpið, sem er á þskj. 56, er gert ráð fyrir að Ríkisendurskoðun hafi ákveðnu hlutverki að gegna varðandi eftirlit með Ríkisútvarpinu — nú finn ég ekki í fljótu bragði greinina sem fjallar um hlutverk Ríkisendurskoðunar en það er alla vega gert ráð fyrir að Ríkisendurskoðun fari yfir reikninga Ríkisútvarpsins en ekki getið um það að hún skuli vera einhvers konar eftirlitsaðili að öðru leyti, t.d. með stjórnsýslu eða því að farið sé að lögunum. Það vantar vissulega að segja frá því eða skýra það í frumvarpinu á hvern hátt gert er ráð fyrir að Ríkisendurskoðun komi að málefnum Ríkisútvarpsins. Varla getur það verið ætlun hæstv. menntamálaráðherra eða þeirra sem sömdu frumvarpið að Ríkisendurskoðun geri beinlínis stjórnsýsluúttekt á stofnuninni á hverju einasta ári. Við lesum frumvarpið þannig að einungis sé ætlast til þess að Ríkisendurskoðun skoði reikninga og bókhald og það sem heyrir undir almennan rekstur Ríkisútvarpsins en sjáum ekki á frumvarpinu að gert sé ráð fyrir því að Ríkisendurskoðun fari ofan í saumana á eftirfylgni laganna eða að stjórnsýsluhlutverk eða almannaþjónustuhlutverk ríkisins sé skoðað reglulega og þar fram eftir götunum.

Hins vegar ef við skoðum fjölmiðlafrumvarpið á þskj. 58, sem liggur einnig fyrir þinginu, frumvarp til laga um breytingu á útvarpslögum, lögum um prentrétt, og samkeppnislögum, sjáum við að þar er gert ráð fyrir að ákveðinn eftirlitsmekanismi verði til staðar með einkareknu fjölmiðlunum. Hans er getið strax í 2. gr. þessa frumvarps og er settur samkvæmt 2. gr. frumvarpsins á herðar útvarpsréttarnefndar.

Rétt er að fara aðeins yfir það hvernig fjölmiðlanefndin sá fyrir sér, og hæstv. menntamálaráðherra hefur í raun og veru lýst stuðningi við með því að setja það inn í þingmál sitt á þskj. 58, að þetta ætti að fara fram. Þar segir að menntamálaráðherra skipi útvarpsréttarnefndina og til hversu langs tíma viðkomandi nefnd eigi að sitja, hún fái að ráða sér framkvæmdastjóra og annað starfslið. Útvarpsréttarnefnd á að vera heimilt að fela framkvæmdastjóra að afgreiða ákveðna málaflokka, hún á að fylgjast með því að reglum samkvæmt útvarpsleyfum sé fylgt og hafa að öðru leyti eftirlit með framkvæmd laga þessara, þar á meðal eftirlit með öllum útvarpssendingum er lúta íslenskri lögsögu, skv. 2. og 3. gr. þessa frumvarps. Útvarpsréttarnefnd getur samkvæmt frumvarpinu áskilið að faggilt skoðunarstofa staðfesti upplýsingar sjónvarpsstöðva um útsendingu á t.d. evrópsku dagskrárefni og um sýningu efnis sem framleitt er af sjálfstæðum framleiðendum. Síðan er gert ráð fyrir að Póst- og fjarskiptastofnun hafi eftirlit með tæknilegum eiginleikum útsendinganna.

Það er líka lagt á herðar útvarpsréttarnefndar samkvæmt þessu frumvarpi að safna tölfræðilegum upplýsingum um stöðu og þróun á fjölmiðlamarkaði. Útvarpsstöðvum, fjarskiptafyrirtækjum og dagblöðum er skylt að veita útvarpsréttarnefnd upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að mæla stöðu og þróun á markaði svo sem um hlutfall íslensks og erlends efnis í sjónvarpi, upplagstölur dagblaða og upplýsingar um tekjuskiptingu og fleira. Og menntamálaráðherra er svo gert að setja reglugerð þar sem mælt er nánar fyrir um hvaða upplýsingar skuli veita, tíðni og fyrirkomulagi upplýsingagjafarinnar og úrvinnslu upplýsinganna.

Svo segir hér að útvarpsréttarnefnd sé heimilt að gera samning við Hagstofu Íslands sem annast ákveðna söfnun upplýsinga og úrvinnslu þeirra. Líka að hún skuli gera samstarfssamning við Póst- og fjarskiptastofnun og Samkeppniseftirlitið um mál sem geta varðað starfsrétt þessara tveggja stofnana. Og loks kemur fram að ákvæði um útvarpsrétt samkvæmt þessu frumvarpi eigi að vera fullnaðarlausnir á stjórnsýslusviði og sæti ekki stjórnsýsluákæru.

Þetta segi ég, virðulegi forseti, í ljósi þess að fjölmiðlanefndin velti þessum málum mjög ítarlega fyrir sér og lagði á það áherslu að Ríkisútvarpið ætti að heyra undir þetta eftirlit útvarpsréttarnefndar.

En með því að skilja frumvörpin að eins og gert hefur verið þá leiðir það af sjálfu sér að Ríkisútvarpið ohf., ef það verður stofnað samkvæmt því lagafrumvarpi sem hér er til umræðu, er ekki undir neinum eftirlitsaðila nema Ríkisendurskoðun. Ég sé ekki að Ríkisendurskoðun hafi það bolmagn að hún geti — og ekki heldur það „mandat“ að hún eigi að fara inn í það hlutverk sem lýst er í fjölmiðlafrumvarpinu að útvarpsréttarnefnd eigi að gera.

Í mínum huga er þetta því talandi dæmi um það hvers vegna þessi mál hefðu átt að fylgjast að í gegnum þingsalinn, í gegnum þessa umræðu og í gegnum umfjöllun menntamálanefndar. Mér hefur fundist það deginum ljósara frá upphafi þessa máls að hér sé verið að fara miklar villur vegar með því að skilja þessi tvö mál að.

Í bókun fjölmiðlanefndarinnar frá 7. apríl gátum við fulltrúar stjórnarandstöðunnar í nefndinni þess, og lögðum mikla áherslu á að sjálfstætt almannaútvarp stuðlaði að pólitískri og menningarlegri fjölbreytni og væri forsenda þess að fjölmiðlar gætu gegnt aðhaldshlutverki sínu í samfélaginu og verið trúverðugir útverðir lýðræðis í samfélaginu. Við lýstum því yfir að það væri mat okkar að það ætti að nást sátt í samfélaginu um almenna rammalöggjöf um fjölmiðla sem liggur fyrir í fjölmiðlafrumvarpi menntamálaráðherra núna, að þá þurfi að tryggja faglegt og rekstrarlegt sjálfstæði Ríkisútvarpsins um leið gagnvart stjórnvöldum og gagnvart viðskiptaaðilum á markaði. Það þyrfti að varðveita það traust sem ríkir nú milli stofnunarinnar og eigenda hennar, og hverjir eru þeir? Það er þjóðin.

Við erum hér með í höndunum einn af máttarstólpum menningar í landinu. Við erum að skilja Ríkisútvarpið frá markaðnum sem engu að síður er búinn að sjá á spil ríkisstjórnarinnar í fjölmiðlafrumvarpinu og þar af leiðandi, eins og ég segi, erum við að skekkja þá mynd ef þetta frumvarp um Ríkisútvarpið ohf. verður að lögum án fjölmiðlafrumvarpsins. Þá er mun verr af stað farið en heima setið. Þetta er enn ein af ástæðunum fyrir því að þetta frumvarp um Ríkisútvarpið ohf. á ekki erindi í þeim búningi sem það er í núna.

Ekki bar nú ríkisstjórnin gæfu til þess að hlusta á stjórnarandstöðuna vorið 2005 og þó að við höfum klifað á sjónarmiðum okkar hingað til þá hefur það ekki nægt til að opna augu ríkisstjórnarinnar fyrir skynseminni sem í orðum okkar er fólgin hvað þetta varðar.

Hver eru svo rök ríkisstjórnarmeirihlutans fyrir því að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag? Þau eru vægast sagt á afar veikum grunni reist. Þau eru í grunninn einungis þau að það þurfi að auka eitthvað sem stjórnarmeirihlutinn kallar svigrúm og sveigjanleika í rekstri stofnunarinnar. Hvernig er því svigrúmi og þeim sveigjanleika síðan náð fram?

Samkvæmt því sem lesa má og skilja má af ræðum stjórnarþingmanna í þessum sal þá er það fyrst og síðast með sveigjanleika og svigrúm í ráðningum starfsmanna. Það þýðir á mannamáli að Ríkisútvarpið þurfi öðru fremur mest á því að halda að geta rekið starfsmenn að vild og ráðið að vild með þeim kjörum sem útvarpsstjóra sýnist í það og það skiptið. Útvarpsstjóranum sem samkvæmt þessu frumvarpi verður einráður um málefni stofnunarinnar. Útvarpsstjóranum sem samkvæmt þessu frumvarpi kemur til með að starfa í skjóli menntamálaráðherra. Útvarpsstjóra sem ekki er sannfærandi að geti orðið það óumdeilda akkeri sem t.d. útvarpsstjórar í árdaga Ríkisútvarpsins voru.

Af því að ég var að nefna bók Gunnars Stefánssonar um fyrstu 30 árin í sögu Ríkisútvarpsins, þá er athyglisvert að lesa þar frásagnir af fyrstu útvarpsstjórunum og hversu mikil sátt ríkti um störf þeirra og hversu mikil trú var bundin við þá einstaklinga og víðsýni þeirra, skarpskyggni og trúmennsku. Ég teldi því að það væri verulega mikill fengur í því að skoða hlutverk útvarpsstjóra samkvæmt þessu frumvarpi upp á nýtt og máta það inn í annan heim en núverandi stjórnarmeirihluti sér fyrir sér hvað varðar framtíð Ríkisútvarpsins. Rökin fyrir því að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag eru sem sé afar veik.

Í mínum huga eru þau að hluta til, eða bera það með sér að stjórnarmeirihlutinn eigi þá von fólgna í brjósti sér að félagaformið, þ.e. hlutafélagsformið, komi í sjálfu sér í veg fyrir að Ríkisútvarpið geti orðið það sjálfstæða, sterka afl sem við í stjórnarandstöðunni höfum einróma viljað að það verði. Sjálfstætt almannaútvarp sem stuðlar að pólitískri og menningarlegri fjölbreytni og er forsenda þess að fjölmiðlar geti gegnt aðhaldshlutverki í samfélaginu og verið útverðir lýðræðis í samfélagi okkar.

Við erum þeirrar skoðunar að stjórnarmeirihlutinn hér á þingi og hæstv. menntamálaráðherra sé einhvers staðar ekki kannski svo djúpt inni fyrir, heldur svona rétt undir yfirborðinu, að óska þess að Ríkisútvarpið verði einhvers konar stofnun sem framleiðir eitthvert menningarefni sem virðist vera að menn álíti að sé ekki vel fallið til vinsælda. En það sé heldur ekki vinsælt að segja að Ríkisútvarpið eigi ekki að framleiða slíkt efni. Það virðist vera vilji manna að efla innlenda dagskrárgerð, að minnsta kosti í orði kveðnu, þó það sé ákveðið álitamál í þeim efnum varðandi fjármunina sem til ráðstöfunar verða í það verkefni. Það megi sannarlega draga það í efa að hin öfluga dagskrárgerð sem lýst er í þjónustusamningnum verði eða fái byr undir vængina með auknu fjármagni. Því eins og hv. þm. Mörður Árnason vék hér að í nefndaráliti okkar um hagræðinguna, þá er það nú afar óljóst hvaðan þeir fjármunir eiga að koma. Það liggur sannarlega ekki á borðinu að sú öfluga, innlenda dagskrárgerð sem menn þykjast sjá fyrir sér geti orðið að veruleika þegar það allt er skoðað.

Hver eru rök meiri hlutans fyrir því að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag? Eins og ég sagði áðan eru þau að mínu mati afskaplega veik og hafa verið gagnrýnd núna nýverið af hæstaréttarlögmanni, Ástráði Haraldssyni, sem hefur skrifað grein um einkavæðingu Ríkisútvarpsins, sem hann kallar svo, og við höfum, a.m.k. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs leyft okkur að kalla þetta svo einnig. Nú á síðustu dögum, það var reyndar í dag, mánudaginn 15. janúar, birtist Ástráður Haraldsson enn á ný í fjölmiðlum og heldur því fram að einkavæðingin sem farið er fram á að eigi sér stað með þessu frumvarpi, verði upphafið að endalokum Ríkisútvarpsins í þeirri mynd sem það er í dag. Það er nú hvorki meira né minna en svo djúpt tekið í árinni af hæstaréttarlögmanninum.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að ég óttast nákvæmlega það sama. Að þetta feigðarflan ríkisstjórnarinnar eigi eftir að veikja Ríkisútvarpið svo að það verði upphafið að endalokum þess í þeirri mynd sem það er í dag.

Það kemur fram í frétt Fréttablaðsins og í viðtali við Ástráð að hann telji ákvæði um fjárhagslegan aðskilnað starfsemi í almannaþágu og samkeppnisreksturs vera óframkvæmanlegan. Hann gagnrýnir að ekki sé kveðið sérstaklega á um að lögin eigi að ganga framar sérlögum og að lög um opinber hlutafélög dugi alls ekki utan um þá starfsemi sem Ríkisútvarpinu ohf. sé ætlað að sinna.

Þetta eru áhersluatriði sem við stjórnarandstöðuþingmenn höfum rætt í nefndinni. Við höfum reynt að fá stjórnarmeirihlutann til að opna augu sín fyrir að þessi atriði séu í ákveðinni klemmu eða það séu vísbendingar um að hér sé verið að stefna inn í meiri háttar slys. En ekki höfum við fengið hljómgrunn fyrir þessum áhyggjum okkar eða hljómgrunn með athugasemdir okkar hjá stjórnarliðum.

Í fréttinni í Fréttablaðinu segir Ástráður að í skilningi laga sé starfsemi annaðhvort opinbers réttar eðlis eða einkaréttarlegs eðlis og það sé ekki til neitt millistig en það virðist ákveðin þörf hjá stjórnarmeirihlutanum á Alþingi að finna einhvers konar millistig og menn séu að reyna að formúlera sig inn á það að hér sé verið að búa til eitthvert millistig milli opinbers réttar og einkaréttar. En svo ég vitni beint til orða Ástráðar þá segir hann, með leyfi forseta:

„Um leið og starfsemi er færð í form hlutafélags verður hún einkaréttar eðlis og það er mikilvægt að menn átti sig á að frumvarpið fjallar því í reynd um einkavæðingu Ríkisútvarpsins.“

Það er einmitt mergurinn málsins að þingmenn stjórnarliðsins sem hafa sumir hverjir, jafnvel hv. formaður nefndarinnar, eins og hér hefur verið gert að umtalsefni oftar en einu sinni, lýst þeim vilja sínum að þeir vilji einkavæða Ríkisútvarpið og selja það. Hér er óvefengjanlega að mati hæstaréttarlögmanns, sem maður skyldi ætla að hafi vit á málunum, tekið svo djúpt í árinni að hér sé um einkavæðingu að ræða með þessari breytingu á hinu lagalega umhverfi stofnunarinnar og þar með sér þjóðin að næsta skref er auðtekið og liggur beint við. Og hvert væri það? Sala hins einkavædda félags, af sjálfu sér leiðir.

Ástráður segir að nýleg lög um opinber hlutafélög — við vitum að hlutafélagalögunum hefur verið breytt og sett inn ákveðin ákvæði um opinber hlutafélög — séu það veik að þau dugi alls ekki til þess að ná sómasamlega utan um hlutverk Ríkisútvarpsins eða þá starfsemi sem Ríkisútvarpinu er lögð á herðar. Þau fjalli aðeins um takmarkaðar undanþágur opinberra hlutafélaga frá almennum reglum um hlutafélög. Svo ég vitni beint í orð Ástráðar segir hann, með leyfi forseta:

„Frumvarpið ber vott um viðleitni til að skapa einhvers konar millistig á milli opinbers rekstrar og einkarekstrar en ég tel gjörsamlega ómögulegt að gera það með stagbættum frumvörpum um einkavæðingu Ríkisútvarpsins. Til að búa þetta millistig til þarf að setja um það almenn lög og færa svo starfsemina í þann ramma.“

Það væri auðvitað fengur að því að fá hv. stjórnarliða, og af því að varaformaður menntamálanefndar, Dagný Jónsdóttir, er í salnum og ég veit að hún er á mælendaskrá á eftir, þá væri fengur að fá viðbrögð við sjónarmiðum Ástráðs. Hæstv. menntamálaráðherra á eflaust eftir að víkja eitthvað að því í þeim ræðum sem hún á eftir að flytja síðar í umræðunni, hvernig hún svarar ábendingum hæstaréttarlögmannsins. Ég tel því eðlilegt að hér fari fram talsverð umræða um nákvæmlega þau atriði sem hér er getið um og það væri fróðlegt að vita hvernig þingmenn Framsóknarflokksins bregðast við þessum athugasemdum, sérstaklega í ljósi þess sem á undan er gengið varðandi rekstrarformsbreytinguna innan Framsóknarflokksins sjálfs og á ég eftir að koma frekar að því síðar í ræðu minni.

Í frétt Fréttablaðsins í dag er sagt frá því … (Forseti hringir.)

(Forseti (BÁ): Forseti vill spyrja hv. þingmann hvort hún telji að langt sé eftir af ræðu hennar.)

Já, ég er bara komin vel inn í innganginn, virðulegi forseti.

(Forseti (BÁ): Forseti óskar þá eftir að hv. þingmaður geri hlé á ræðu sinni þannig að tækifæri gefist til að gefa matarhlé í hálfa klukkustund.)

Það er alveg sjálfsagt.

(Forseti (BÁ): Fundi er þá frestað til klukkan átta og þá mun hv. 8. þm. Reykv.n. halda ræðu sinni áfram.)