133. löggjafarþing — 51. fundur,  15. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[20:00]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (frh.):

Hæstv. forseti. Þar var komið í ræðu minni að ég var að fjalla um frétt úr Fréttablaðinu í morgun þar sem rætt var við Ástráð Haraldsson hæstaréttarlögmann sem hefur gert í nokkuð ítarlegu máli grein fyrir ákveðnum athugasemdum og efasemdum sem hann hefur um frumvarp þetta. Ég var þar komin í máli mínu að Ástráður gerir athugasemdir við það að í frumvarpinu skuli segja að skilja eigi fjárreiður þeirrar starfsemi sem skilgreind er sem útvarpsþjónusta í almannaþágu frá þeirri starfsemi sem teljist til samkeppnisrekstrar. Í því felst eins og kunnugt er að þær tekjur sem fást með afnotagjöldum eða nefskatti, eins og gert er ráð fyrir að verði komið á með frumvarpinu, megi ekki nota til að greiða niður kostnað vegna annarrar starfsemi. Ástráður segir í fréttinni hugsunina í sjálfu sér vera rétta en telur afar erfitt að sýna fram á að sá hluti rekstrarins sem ekki á að njóta ríkisframlagsins geri það ekki. Orðrétt segir hann, með leyfi forseta:

„Þegar Ríkisútvarpið hefur verið leitt út á eyðihjarn einkarekstrar virðast mér menn vera býsna vopnlausir gagnvart gagn- og samkeppnisaðilum sem mundu kæra til Evrópustofnana. Ég álít að það verði mjög erfitt að verjast slíkum samkeppniskærum.“

Að mati hæstaréttarlögmannsins er ekki nóg að segja í lögunum að halda skuli fjárreiðunum aðskildum. Með tilliti til lagarammans og aðstöðu Ríkisútvarpsins sé ákvæðið í raun óframkvæmanlegt. Þess vegna segist lögmaðurinn óttast, og tekur fram að það sé af því að honum þyki vænt um Ríkisútvarpið og vilji viðhalda því, að þetta verði upphafið að endalokum þess í þeirri mynd sem við þekkjum það.

Þetta eru afar alvarlegar athugasemdir sem hæstaréttarlögmaðurinn hefur, hæstv. forseti. Þær tóna svo sem alveg við áhyggjur Samkeppniseftirlitsins og forstjóra þess en hann hefur eins og komið hefur fram heimsótt menntamálanefnd og hefur í áliti Samkeppniseftirlitsins reifað svipaðar hugmyndir og svipaðar áhyggjur og Ástráður Haraldsson hefur af þessum þætti málsins.

Hverju hafa svo talsmenn stjórnarflokkanna í menntamálanefnd svarað þessum athugasemdum, virðulegi forseti? Þeir hafa reynt að slá þetta út af borðinu með þeirri einföldu og kannski að hluta til barnalegu röksemd að það skipti ekki máli varðandi þennan aðskilnað vegna þess að sérlög gangi framar almennum lögum og við séum hér að fjalla um sérlög um ríkisútvarp og þau gangi þess vegna framar samkeppnislögunum. Það er allt og sumt. Það eru einu rökin sem við höfum heyrt frá stjórnarmeirihlutanum varðandi þessar áhyggjur sem eru þó rökstuddar í umsögn frá Samkeppniseftirlitinu á, ef ég man rétt, tveimur blaðsíðum.

Meiri hlutinn er haldinn þeirri óskhyggju, vil ég meina, að samkeppnislögin nái ekki til Ríkisútvarpsins af því að þau séu sérlög en hæstaréttarlögmaðurinn Ástráður Haraldsson hefur efasemdir um þennan lagaskilning og telur að samkeppnisreglurnar séu með vissum hætti tengdar grunngerð samfélagsins, þeim verði því ekki svo auðveldlega vikið til hliðar. Og orðrétt segir hæstaréttarlögmaðurinn, með leyfi forseta:

„Það eru því veruleg áhöld um að hve miklu leyti hægt er að undanþiggja tiltekna starfsemi þessum reglum og að minnsta kosti verður það aldrei gert nema með því að segja það berum orðum.“

Eins og ég gat um í upphafi máls míns eða fyrr í ræðu minni hef ég talsvert miklar áhyggjur af því að hér sé verið að slíta hlutina svo illa úr samhengi og erfitt sé fyrir okkur að gera þessar breytingar á umhverfi Ríkisútvarpsins, ekki bara af því að hér sé um einkavæðingu að ræða og tilflutning úr opinberum rekstri yfir í einkaréttarlegan rekstur heldur líka vegna þess að ákveðnar kröfur sem settar eru á okkur í gegnum EES-samninginn af hálfu Evrópusambandsins gera ráð fyrir að eftirlit með þessum þáttum, t.d. þessu sem Ástráður Haraldsson nefnir, sé virkt og gengið frá því þannig að það sé gagnsætt og það viti allir eftir hvaða brautum það eftirlit gengur.

Í frumvarpinu segir um þennan eftirlitsþátt á blaðsíðu 34, þ.e. í 6. gr. þjónustusamningsins sem birtur er sem fylgiskjal með frumvarpinu, að Ríkisútvarpinu sé skylt að „láta ríkisendurskoðanda í té upplýsingar til að sannreyna megi gagnsæi og hlutlæga kostnaðargreiningu á almannaþjónustuhlutverki RÚV, byggða á ársreikningi næstliðins árs, að teknu tilliti til tekna að frádregnum kostnaði við þann hluta starfsemi RÚV sem fellur undir samkeppnisrekstur.“

Af þessari setningu einni má ráða að menntamálaráðherra eða þeir sem hafa aðstoðað hæstv. menntamálaráðherra við að semja þennan þjónustusamning átti sig á því að þetta eftirlitshlutverk er mikilvægt og þarf að vera til staðar, þó ekki svo mikilvægt að mati hæstv. ráðherra að það sé sett inn í frumvarpstextann, heldur eingöngu í 6. gr. þjónustusamningsins. Það verður að fá því svarað við 3. umr. hverju það sæti að hæstv. ráðherra telur nægja að setja þetta eftirlitshlutverk inn í 6. gr. þjónustusamningsins, að hæstv. menntamálaráðherra telji nægja að lýsa því svo sem ég hef nú lesið úr 6. gr. á hvern hátt hæstv. ráðherra telji þessa málsgrein uppfylla þær kröfur sem Eftirlitsstofnunin virðist gera til eftirlitsaðilanna og hæstaréttarlögmaðurinn Ástráður Haraldsson virðist vera hjartanlega sammála, og ekki bara hann heldur líka gestur nefndarinnar, Ólafur E. Friðriksson, sem vakti sérstaka athygli nefndarmanna á nákvæmlega þessum þætti. Þekkir hann afar vel til þessara Evrópureglna og þeirra krafna sem gerðar eru til eftirlitsaðilanna.

Það þekkjum við líka sem störfuðum í fjölmiðlanefnd hæstv. menntamálaráðherra. Eitt af því sem við skoðuðum afar vel í því starfi voru einmitt eftirlitsstofnanirnar eða fjölmiðlastofnanirnar sem starfræktar eru í nágrannalöndum okkar. Eins og lesa má í skýrslu nefndarinnar og reyndar í fjölmiðlafrumvarpi hæstv. menntamálaráðherra, á þingskjali 58, sem við ættum auðvitað að ræða samhliða Ríkisútvarpsmálinu, kemur fram að nefndarmenn í fjölmiðlanefnd töldu mikilvægt að stofna einhvers konar fjölmiðlastofnun á Íslandi. Við töldum eðlilegast að Póst- og fjarskiptastofnun tæki að sér það hlutverk. Hins vegar áttuðum við okkur auðvitað á því að um er að ræða málaflokk sem skiptist á milli ráðuneyta og kannski ekki alls kostar viðeigandi að stofnun á borð við Póst- og fjarskiptastofnun sem heyrði undir hæstv. samgönguráðherra hafi með svo mikilvægan þátt í fjölmiðlaflórunni eða fjölmiðlastarfseminni að gera þar sem fjölmiðlamálin heyra undir hæstv. menntamálaráðherra. Sömuleiðis áttuðum við okkur á því að fjölmiðlalög mundu auðvitað þurfa að hluta til að ná yfir prentrétt þar sem dagblöðin heyra undir hann og þar erum við komin inn á lagasvið sem heyrir undir hæstv. dómsmálaráðherra. Þar með erum við með skiptan málaflokk, málaflokk sem heyrir undir þrjú ráðuneyti og þar af leiðandi ekki hægt um vik að setja upp eina stofnun sem ætti að hafa þetta fjölmiðlaeftirlit á hendi því það væri ekki á hreinu undir hvaða ráðuneyti eða ráðherra viðkomandi stofnun ætti þá að heyra ef hún ætti að hafa þetta víðfeðma hlutverk sem okkur virðast erlendar eftirlitsstofnanir hafa.

Lendingin og málamiðlunin var í raun sú sem ég gat um í fyrri hluta ræðu minnar, að útvarpsréttarnefnd var falið þetta verkefni samkvæmt fjölmiðlalögunum en þar sleppir í rauninni að það er óskýrt í þeim á hvern hátt það nýja hlutverk útvarpsréttarnefndar kemur við Ríkisútvarpið.

Varðandi fjölmiðlastofnanir erlendis er í Bretlandi stofnun sem kölluð er Offcom. Hún hefur umsjón og eftirlit með öllum sjónvarpsútsendingum, öllum sjónvarpsstöðvum, öllum útvarpsstöðvum og almennt með fjarskiptum. Verksvið hennar er að hafa eftirlit bæði með veitufyrirtækjum sem veita sjónvarpsrásunum inn á heimili landsmanna og einnig er henni gert að hafa til skoðunar innihald fjölmiðla og leggja mat á það hvort þar er farið að þeim reglum sem í gildi eru og eftir þeim leyfum sem veitt eru til viðkomandi fjölmiðla.

Starfssvið Offcom heyrir undir ólík ráðuneyti í Bretlandi og virðast menn hafa náð ákveðnum sáttum í þeim efnum. Stofnunin er sjálfstæð að flestu leyti en skilar árlega skýrslu til breska þingsins og er hún rædd þar ítarlega af breskum þingmönnum og ævinlega þannig að athygli vekur því að það vekur talsverða eftirtekt þegar farið er yfir athugasemdir sem Offcom gerir um eftirfylgni fjölmiðlalaganna og hvernig þeim er fylgt eftir og farið er eftir þeim af fjölmiðlunum.

Innanríkisráðherra Bretlands svarar fyrir stofnunina á þinginu, lávarðadeildin hefur ekki lögsögu yfir stofnuninni. Það er ekki forstjóri yfir henni, heldur stjórn sem gerir það að verkum að þar er um breitt stjórnvald að ræða sem að mínu mati tryggir ákveðið hlutleysi og víðsýni í umsýslu stofnunarinnar. Ég hefði haldið að full ástæða væri til að skoða það módel sem Bretar hafa komið sér upp með hliðsjón af þeim þörfum sem við teljum okkar fjölmiðlamarkað hafa. Stjórnin hjá þeim í Offcom er, eins og ég segi, svona breitt skipað stjórnvald, hún er hliðstæð stjórnum þeirra fyrirtækja sem stofnunin hefur eftirlit með. Undir hana heyra fleiri en ein nefnd, sumar ráðgefandi fyrir stjórnina um ýmsa þætti í störfum hennar. Sumar hafa fengið ákveðið umboð til að taka ákvarðanir fyrir hönd hennar og má í því sambandi nefna t.d. ákveðna nefnd sem varðar innihald fjölmiðlanna og hins vegar „panel“ áhorfenda, hlustenda eða neytenda, kannski eitthvað í ætt við það sem hv. þm. Mörður Árnason gat um í ræðu sinni og hefur oftar borið á góma hér í þingsölum, þ.e. einhvers konar dagskrárráð eða hlustendaráð sem er til ráðgjafar fyrir þá sem fara með yfirstjórn stofnunar á borð við t.d. ríkisútvarp.

Þessi leið hefur verið farin með góðum árangri í Bretlandi þannig að ekki skortir fyrirmyndirnar sem ég tel að einboðið sé að við reynum að horfa til eða nýta okkur þegar við förum inn í að búa til þetta umhverfi fyrir okkar fjölmiðla.

Hlutverk fjölmiðlastofnunar Bretlands, Offcom, er öðrum þræði og jafnvel öðru fremur að hlúa að afar fjölþættum og fjölbreyttum markaði þar sem fjölræði skiptir verulegu máli. Hún hefur það hlutverk að upplýsa neytendur. Hún tryggir ákveðna áhorfendavernd, sömuleiðis að hlustendur og lesendur fái uppfylltar ákveðnar kröfur varðandi menningarlegan fjölbreytileika eða menningarlegan margbreytileika í fjölmenningarlegu samfélagi eins og Bretland er og á einnig að þjóna hagsmunum neytenda á tímum þeirra breytinga sem bæði eiga sér stað á fjölmiðlamarkaði, í fjölmiðlatækni og sömuleiðis samfélagsbreytinga sem stofnunin þarf að horfa til.

Henni er gert samkvæmt lögum að styðja við nýja aðila á markaði sérstaklega og tryggja að þeir eigi innkomu inn á markaðinn og það sé heiðarleg samkeppni í gangi á markaðnum. Af þessu má sjá að hlutverk slíkrar stofnunar er afar víðfeðmt og veigamikið.

Það er eðlilegt að spurt sé hvort stjórnarliðar sem fjallað hafa um málið eða hæstv. menntamálaráðherra sjái fyrir sér að allir þeir þættir sem ég hef nefnt, sem eru hluti af verksviði Offcom í Bretlandi, eigi að vera hluti af eftirlitsskyldu Ríkisendurskoðunar samkvæmt 6. gr. þjónustusamningsins. Ef svo er, þá verð ég að segja, hæstv. forseti, að gera þarf betur grein fyrir því en gert hefur verið hingað til.

Eða ætla menn að bíða eftir því að útvarpsréttarnefnd verði til, þ.e. hin endurnýjaða útvarpsréttarnefnd og hún fái þá það hlutverk sem Offcom hefur í Bretlandi? En hvað á þá að gera frá tímanum sem stjórnarliðar koma þessu ohf.-frumvarpi sínu í gegnum þingið og þangað til að fjölmiðlafrumvarpið fer í gegnum þingið? Þá verður eitthvert gat, tómarúm þar sem í sjálfu sér eins og málin standa nú er ekki vitað hvernig menn sjá fyrir sér. Ég geri ekki ráð fyrir að Ríkisendurskoðun ætli sér að fara út í að gera árlega stjórnsýsluendurskoðun á Ríkisútvarpinu til að uppfylla slíkar skyldur.

Á Norðurlöndunum höfum við sambærilegar stofnanir við Offcom. Það er kannski hver með sínu sniði. Í Svíþjóð höfum við í rauninni svipaða stofnun og okkar Póst- og fjarskiptastofnun. Hún sér um fjarskiptamálin, hún sér um póstmál og hún úthlutar tíðnunum til ljósvakamiðlanna.

Í Noregi og Danmörku eru svipaðar stofnanir. Og síðan er í Finnlandi stofnun sem heitir FICORA, Kommunikationsverket. Hún hefur umsjón með rafrænum samskiptum og á að tryggja samkeppni á samskiptamarkaði og framfylgja stefnumótun í finnska upplýsingasamfélaginu. Hún heyrir undir samskiptamálaráðuneytið í Finnlandi.

Stjórnsýslan í nágrannalöndum okkar er auðvitað hver með sínu sniði. En verksvið finnsku stofnunarinnar er að hafa eftirlit með pósti, fjarskiptum, með fjölmiðlum og með internetinu. Hún á að hafa umsjón með samskiptum í breiðum skilningi. Það er litið svo á í Finnlandi að öll þessi samskipti tengist í raun og veru samruna upplýsingasamfélagsins og því er internetið hluti af verksviði stofnunarinnar. Það er athyglisvert að skoða finnska módelið sérstaklega í ljósi þess hversu mikið Finnar hafa gert í upplýsingatækni sinni og hversu mikið vægi hið svokallaða upplýsingasamfélag hefur haft hjá Finnum og í finnskri löggjöf. Þar hafa fjölmiðlarnir komið inn í og skipað í raun sjálfstæðan sess í því landslagi öllu.

Ég sakna þess að hér skuli ekki hafa farið fram á fyrri stigum meiri umræða um snertifleti þessara tveggja frumvarpa. Þeir eru ekki einungis þessir sem ég hef rakið, þ.e. varðandi eftirlitsaðilann, það eru fleiri þættir. Þar er framtíðarsýn varðandi stafræna fjölmiðlun ofarlega á baugi í huga mínum. Sömuleiðis dreifikerfismál Ríkisútvarpsins sem ég hef oftar en einu sinni hafið máls á í menntamálanefnd. Ég hef ekki fengið önnur svör varðandi áhyggjur mínar af dreifikerfismálum Ríkisútvarpsins en þau að útvarpsstjóri telji eðlilegt að í náinni framtíð sjái einkafyrirtæki eða þau fyrirtæki sem nú stunda einhvers konar veitustarfsemi á þessum ljósvakamarkaði alfarið um að dreifa dagskrám Ríkisútvarpsins til landsins og næstu miða. Ég verð að segja að hæstv. menntamálaráðherra hefur ekki orðað þetta í umræðunni. Ekki skrifað um það greinar, ekki komið að því í ræðum sínum sem hún hefur haldið í þessum umræðum núna í tvö ár hvernig hún sér dreifingu Ríkisútvarpsins fyrir sér í nánustu framtíð.

Er hæstv. menntamálaráðherra sammála útvarpsstjóra um að Orkuveita Reykjavíkur, eða hvert það fyrirtæki sem rekur dreifikerfi, eigi að hafa það á sinni könnu, á sinni ábyrgð að dreifa dagskrá Ríkisútvarpsins, sjónvarps og hljóðvarps, til allra sveita, þorpa og sveitabæja á Íslandi? Ef hæstv. menntamálaráðherra sér það þannig fyrir sér þá þarf hún að koma hingað í þennan ræðustól og segja það. Þetta er einn af þeim veigamiklu þáttum sem ekki hefur verið ræddur eða reifaður í umræðunni.

Hvað segja landsbyggðarþingmenn í þessum efnum? Ég held að menn hafi ekki áttað sig á því hversu veikur hlekkur þetta atriði er í öllum þessum málflutningi og í öllum þessum hugmyndum sem eru afar götóttar og götóttari en góðu hófi gegnir þegar maður fer að rýna ofan í þær og skoða ræturnar.

Í skýrslu fjölmiðlanefndar er sérstakur kafli um fjölmiðla á stafrænum markaði og rætt um það á hvern hátt þessi nýja tækni kemur til með að geta breytt því hvernig fólk notar fjölmiðlana og aðgengi að fjölmiðlunum. En það kemur líka fram að gríðarlegur kostnaður er fólginn í því að breyta t.d. kerfinu sem notað er núna hjá Ríkisútvarpinu, sem er svokallað hliðrænt kerfi, yfir í hið stafræna, bæði hvað varðar innra starf í stofnuninni, þ.e. upptökur og afritanir og annað slíkt, en ekki síður hvað varðar dreifinguna. Við erum að fara úr analogkerfi, hinu hliðræna kerfi, yfir í hið stafræna. Það er gríðarlega stórt skref. Nágrannaþjóðir okkar hafa þurft að taka verulega á við að innleiða hina stafrænu tækni og það hefur kostað gríðarlega fjármuni. Áætlun um þessi fjárútlát liggur ekki fyrir, er ekki til staðar í þeim gögnum sem við höfum haft í umfjöllun um þetta mál. Það er verulegur lapsus. Það er veruleg goðgá að ætla að þetta geti bara gerst á einhvern átómatískan hátt eða eins og af sjálfu sér. Svo er ekki.

Við skulum vera þess minnug að enn eru sveitabæir á Íslandi sem njóta ekki útsendinga frá sjónvarpinu svo mannsæmandi sé, og jafnvel ekki frá hljóðvarpinu. Götin í dreifikerfi okkar eru veruleg nú í dag og veruleg þörf á að við hér í þingsölum fáum einhvers konar tryggingu fyrir því á hvern hátt þau stjórnvöld sem eru að fara hér í gegn með þetta frumvarp sjá fyrir sér að dreifikerfinu verði borgið til frambúðar.

Hæstv. forseti. Einn af þeim þáttum sem gagnrýndir hafa verið í þessari yfirreið allri eru áform hæstv. ríkisstjórnar og meiri hlutans í þingsölum, þingmanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, um að breyta afnotagjöldunum í nefskatt. Mér þóttu það nokkur tíðindi þegar við í menntamálanefnd fengum undir lok nóvember síðastliðinn nýja umsögn frá ríkisskattstjóra sem í raun ítrekaði fyrri umsögn sína en benti okkur jafnframt á ákveðna lapsusa, ákveðnar villur sem væru í frumvarpinu.

Það er auðvitað ekki góður vitnisburður eða gott til afspurnar fyrir þá hv. þingmenn sem fylgt hafa þessu máli eftir í gegnum fleiri umræður í þinginu, að þeir skuli tveimur árum eftir að frumvarpið lítur fyrst dagsins ljós átta sig á því að lapsusa af því tagi sem okkur er bent á í umsögn ríkisskattstjóra er að finna í frumvarpinu. Það er auðvitað ekki rismikið að þurfa að koma með breytingartillögur eins og meiri hlutinn þarf að gera, á þingskjali 708, sem gerir ráð fyrir að breyta þurfi heiti á lögum sem tóku breytingum einhvern tíma á tímabilinu meðan við vorum að fjalla um þetta ríkisútvarpsfrumvarp og gleymst hafði að leiðrétta í texta frumvarpsins.

Umsögn ríkisskattstjóra er að mínu mati ein af þeim athyglisverðari sem við höfum fengið í þessari umfjöllun allri. Við gerðum henni svo sem góð skil, þ.e. gömlu umsögninni sem kom til okkar þann 15. mars 2006 í 2. umr. um málið. En engu að síður er ástæða til að rekja í nokkrum orðum meginatriðin í þeirri umsögn og sömuleiðis í viðbótinni sem við fengum og er dagsett 22. nóvember 2006.

Í þeirri nýju gerir ríkisskattstjóri að umræðuefni ákvæði um tekjustofna í 12. gr. þess frumvarps sem finna má á þingskjali 517 í 401. máli á 132. löggjafarþingi og segir, með leyfi forseta, að í 1. tölulið 1. mgr. í 12. gr. frumvarpsins sé lagt til „að einn tekjustofna Ríkisútvarpsins hf. verði sérstakt gjald sem skattstjórar skuli leggja á samhliða álagningu opinberra gjalda og eftir þeim reglum sem gilda um álagningu þeirra gjalda. Er gjaldskyldu ætlað að ná til allra þeirra er bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi samkvæmt lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, jafnt manna sem lögaðila, með ákveðnum undantekningum þó sem settar eru fram með almennum hætti. Eins og fram kemur í athugasemdum við frumvarpið, bæði IV. kafla almennra athugasemda og í athugasemdum við 12. gr., er með þessu lagt til að hætt verði að fjármagna rekstur Ríkisútvarpsins með afnotagjöldum, en þess í stað fái Ríkisútvarpið tekjur af „nefskatti“. Umrætt gjald er í frumvarpinu sett fram sem skattur og fær ríkisskattstjóri ekki annað séð en að sú framsetning samrýmist fræðilegum skilgreiningum á skatti. Horfir hann þá til þess að ákvörðun gjaldsins er ætlað að vera einhliða ákvörðun ríkisvaldsins eftir efnislegum mælikvarða og án sérgreinds endurgjalds.“

Við 2. mgr. þessarar sömu greinar frumvarpsins, sem er 11. gr. í þessu frumvarpi, er eftirfarandi lagt til varðandi framkvæmd skattheimtunnar. „Við álagningu, innheimtu, eftirlit og viðurlög fer samkvæmt ákvæðum VIII.–XIV. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, að frátöldu ákvæði í 98. gr.“

Það eru þessi lög sem breytt hafa um heiti á tímabilinu þegar við erum að fjalla um málið. Sú breyting tók gildi 31. desember 2005 og gefur augaleið að þessu verður að breyta. Þess vegna er það sem meiri hlutinn leggur fram breytingartillögu sína, eins og ég gerði grein fyrir áðan, í 1. tölulið breytingartillagna á þingskjali 708.

„Þá gerir ríkisskattstjóri athugasemd við þá fyrirætlun að 98. gr. laga nr. 90/2003 sé ekki að nokkru leyti ætlað að eiga við um umrætt gjald. Í 1. mgr. 98. gr. er kveðið á um skyldur skattstjóra til að tilkynna álagningu opinberra gjalda. Samkvæmt ákvæðinu skal m.a. senda hverjum skattaðila tilkynningu um þá skatta sem á hann hafa verið lagðir. Jafnframt skulu skattstjórar auglýsa rækilega, þar með talið í Lögbirtingarblaðinu, að álagningu sé lokið. Þá skulu skattstjórar senda viðkomandi innheimtumönnum ríkissjóðs skrá yfir þá sem á hafa verið lagðir skattar. Samrit þeirrar skrár skal sent ríkisskattstjóra og ríkisendurskoðanda.

Réttaráhrif stjórnvaldsákvarðana markast af birtingu þeirra, samanber 20. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Ljós má því vera nauðsyn þess að birta álagningu umrædds nefskatts þeim er álagningunni sæta. Ákvæði um kærur álagningargjalda í 99. gr. laga nr. 90/2003 er samkvæmt frumvarpinu ætlað að ná til umrædds nefskatts. Auglýsing um lok álagningar samkvæmt 1. mgr. 98. gr. markar upphaf kærufrests. Þá þarf vart að fjölyrða um nauðsyn þess að innheimtumönnum ríkissjóðs sé tilkynnt um álagningu þeirra gjalda sem þeim er ætlað að innheimta, þar með talda álagningu hins fyrirhugaða nefskatts. Að framangreindu virtu sér ríkisskattstjóri ekki ástæðu til annars en að umræddar reglur 1. mgr. 98. gr. laga nr. 90/2003 verði látnar taka til gjalds samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 11. gr. frumvarpsins.“

Það hlýtur að vera eðlilegt að ráðuneytisstarfsmenn sem búnir eru að fylgja málinu úr hlaði aftur og aftur innan nefndarinnar, átti sig á því í grunninn hvað er verið að gera með svona breytingum. En ljóst er að ekki var farið betur ofan í saumana á þeim þáttum í ráðuneytinu en raun ber vitni. Stjórnarliðar eru því reknir hingað inn með breytingartillögu við 11. gr. sem orðist þannig:

„Við álagningu, innheimtu, eftirlit og viðurlög fer samkvæmt ákvæðum VIII.–XIV. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum, eftir því sem við á.“

Auðvitað verður þar með tryggð birting þessarar álagningar eins og eðlilegt hlýtur að vera samkvæmt þeim lögum sem vitnað er til í umsögn skattstjóra.

Hitt bendir ríkisskattstjóri okkur einnig á að í 3. mgr. umsagnar fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, sem fylgir frumvarpinu á þskj. 56, sé gert ráð fyrir því að „tekjur af sérstökum skatti, útvarpsgjaldi, sem ráðherra staðfestir að fengnum tillögum útvarpsstjóra“ fari með ákveðnum hætti og ríkisskattstjóri gerir athugasemd við það. Hann leggur ekki þann skilning í ákvæði 1. töluliðar 1. mgr. 11. gr. frumvarpsins að því er varðar aðkomu ráðherra og útvarpsstjóra sem fram kemur í tilvitnuðum orðum. Það gætir því ákveðins misskilnings í umsögn fjárlagaskrifstofunnar að mati ríkisskattstjóra hvað þetta atriði varðar. Ríkisskattstjóri segist ekki sjá „að til þurfi að koma atbeini ráðherra og útvarpsstjóra við ákvörðun gjaldfjárhæðar. Öðru máli gegnir um gjöld fyrir útvarpsafnot fram til 31. desember 2008“ — þ.e. þangað til nefskatturinn tekur gildi sem gera má ráð fyrir að verði lagt til að menntamálaráðherra skuli staðfesta. „Í því ákvæði frumvarpsins er lagt til að menntamálaráðherra skuli staðfesta útvarpsgjöld að fengnum tillögum útvarpsstjóra.“

Ríkisskattstjóri sér ekki ástæðu til frekari umfjöllunar, segir í umsögn hans, um efni frumvarpsins á þingskjalinu en hann minnir síðan á fyrri umsögn sína sem ég gat um áðan og fjallar fyrst og fremst um þær efasemdir sem ríkisskattstjóri hefur um þessar nýju hugmyndir, þ.e. að lagður sé á nefskattur, sem skattstjóri telur að sé fremur neikvæður, hafi fáa kosti en marga galla. Helstu rökin með honum séu framkvæmdalegs eðlis, þ.e. hann sé einfaldur í framkvæmd og auðveldur í eftirliti en sé litið til þeirra röksemda og jafnframt gengið út frá því að æskilegt sé að rekstur Ríkisútvarpsins sé kostaður með sömu fjárhæð úr hendi hvers manns þá bendir ríkisskattstjóri okkur á að einfaldara væri að lækka persónuafslátt manna sem næmi gjaldfjárhæðinni og lögbinda framlag til Ríkisútvarpsins sem næmi hinni sömu fjárhæð á mann. Að mati ríkisskattstjóra væru skattaleg áhrif af slíkri aðferð mikið til hin sömu, gallarnir færri og framkvæmdin einfaldari.

Ég verð að segja, frú forseti, að mér þykja þessi rök afar góð, mér finnast þau skynsamleg og ég hefði viljað að þau hefðu fengið meiri umfjöllun, bæði í umræðunni í þingsal hingað til og ekki síður í hv. menntamálanefnd þar sem þeim í sjálfu sér var ýtt út af borðinu eins og svo mörgum öðrum góðum hugmyndum og rökum sem hafa komið upp í viðtölum nefndarinnar við gesti og eins og kom fram í viðræðum okkar við ríkisskattstjóra.

Ríkisskattstjóri gerir verulegar athugasemdir við að ekki skuli færð nein sérstök rök fyrir þeirri breytingu að leggja eigi skattinn á lögaðila jafnt sem einstaklinga og segir að skattur á fyrirtæki sem ekki eru tengd hagnaði þeirra hafi verið á undanhaldi og hér sé snúið af þeirri braut. Því er eðlilegt að hæstv. menntamálaráðherra skýri hvers vegna farið sé út af þeirri braut sem menn hafa verið að marka hvað þetta varðar með ærinni fyrirhöfn hingað til.

Ég vil líka minna á það sem ég hef svo sem vikið að áður að þó svo Ríkisútvarpið komi til með að spara kostnaðinn við innheimtudeildina er alveg ljóst að með yfirfærslu afnotagjalda yfir í nefskattsform er ekki þar með sagt að kostnaður við innheimtu hverfi, hann flyst einungis til. Hann kemur til með að lenda eftir þessa breytingu á ríkisskattstjóra, embætti hans, sem áður lenti á innheimtudeild Ríkisútvarpsins. Ekki hafa verið lagðir fram neinir sannfærandi útreikningar í menntamálanefnd um að sá kostnaður verði eitthvað svo mikið minni þegar innheimtukostnaðurinn er kominn undir embætti ríkisskattstjóra en hann er í dag meðan hann er undir hatti Ríkisútvarpsins í formi innheimtudeildarinnar. Hér er enn eitt atriðið sem mér sýnist við vera að fara inn á afar vafasama braut, braut sem stríðir líka gegn þeim meginsjónarmiðum sem þjóð á borð við Breta hefur komist að í gegnum allar sínar athuganir á afnotagjöldum tengdum BBC. Ég vil bara rifja það upp að menn í Bretlandi hafa oftar en einu sinni farið í verulegan leiðangur við að reyna að skoða hvort til væri eitthvert það form gjalda vegna ríkisútvarpsins, BBC, og sjónvarpsins þar sem gæti orðið vinsælla eða væri betur til þess fallið að sætta fólk við það heldur en afnotagjöldin. Niðurstaða þeirra rannsókna hefur ævinlega verið sú hin sama, að afnotagjöldin þó þau séu umdeild og þó að tekist sé á um þau, þá sé ekkert sem færir mönnum heim sanninn um það að eitthvert annað form á slíkri innheimtu sé æskilegra eða heppilegra. Nákvæmlega það sama á við hér. Hér er verið að gera breytingu breytingarinnar vegna. Nefskatturinn á ekki eftir að verða vinsælli en afnotagjöldin og nefskatturinn gerir annað sem mér finnst afar vafasamt. Hann rýfur sambandið á milli eigenda stofnunarinnar, eigenda Ríkisútvarpsins og stofnunarinnar sjálfrar. Ég er sannfærð um að þetta þykir mjög mörgum notendum, hlustendum og áhorfendum Ríkisútvarpsins og eigendum þess afar miður. Ég heyri það á eldra fólki í kringum mig að það hreinlega vilji finna fyrir því í hverjum mánuði að það greiði sína föstu upphæð til Ríkisútvarpsins, það vilji sjá það á mánaðarlegu kostnaðaryfirliti sínu að það greiði sinn hlut. Þannig finni það betur fyrir því að þetta sé stofnunin þess, að það eigi sinn hlut í þeirri stofnun, hafi þess vegna eitthvað um það að segja hvernig hennar „performance“ er, hvernig hún sinnir hlutverki sínu og hvernig hún stendur undir nafni. Þessi tengsl verða algerlega rofin með nefskattinum án þess að menn hafi stutt það sannfærandi rökum, eins og ríkisskattstjóri bendir á í umsögn sinni.

Eitt sem ríkisskattstjóri bendir á í umsögnum sínum og kom sérstaklega fram í máli hans núna í þessari lotu hjá menntamálanefnd, er það að skatturinn kemur til með að leggjast á lögaðila, þar með talin félög eða fyrirtæki sem má segja að séu sofandi, þ.e. félög og fyrirtæki sem hafa enga starfsemi með höndum, eru ekki að afla tekna en hafa kennitölur engu að síður. Skattstjóri gaf okkur upp hversu mikill fjöldi félaga þetta væri. Þetta eru 13 þúsund félög samkvæmt skattskrá sem segja má að séu sofandi félög. Þessi skattur kemur til með að leggjast á þau, tæpar 15.000 kr. á ári eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu að skatturinn verði til að byrja með. Þegar svona sofandi félög verða farin að safna skuldum verður erfiðara að slíta þeim vegna þess að ekki er hægt að slíta félögum sem skulda nema gengið sé frá skuldunum fyrst. Hér er því verið að leggja ákveðna snöru fyrir þau félög sem eru til staðar í skattskrá, hafa kannski á tímabilum verið sofandi, hafa viljað viðhalda sér án þess að hafa tekjur eða starfsemi. Hvernig ætlast menn þá til að slík félög standi undir nefskattinum? Þykir mönnum þetta sanngjarnt, að lögaðilar séu skattlagðir á þennan hátt og að lögaðilum sem jafnvel vilja þá slíta starfsemi sinni sé gert það jafnerfitt og skuldasöfnun af þessu tagi kemur til með að gera? Mér hafa fundist þetta afar athyglisverðar ábendingar hjá ríkisskattstjóra og ég auglýsi eftir því við þessa umræðu að við fáum hæstv. menntamálaráðherra til þess að tjá sig um athugasemdir ríkisskattstjóra og segja á hvern hátt hún metur stöðuna í ljósi t.d. þessara 13 þúsund aðila sem eru sofandi og koma til með að fá þessa skattlagningu.

Ríkisskattstjóri segir að ekki sé fjallað um afleiðingar þess hvaða áhrif þessi nýja innheimta komi til með að hafa. Ég minni líka á að við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum sett fram hugmyndir um aðra leið í þessum efnum, þá leið að afnotagjaldið sé tengt við fasteignir. Það er leið sem hefur verið reynd með ágætum árangri og ég tel að ekki hafi verið skoðuð á sómasamlegan hátt í umfjöllun Alþingis varðandi þessar breytingar og er enn eitt dæmið til vitnis um það áhugaleysi sem í sjálfu sér hefur verið til staðar hjá stjórnvöldum sem ætla sér í þráhyggjukasti sínu að koma þessu máli í gegn hvað sem tautar og raular. Málefnalega hefur ekki verið farið nægilega ofan í saumana á þeim athugasemdum sem komið hafa og þar af leiðandi sitjum við uppi með frumvarp sem búið er að stagbæta milli umræðna aftur og aftur og enn skortir á að ákveðnum grundvallaratriðum sé svarað eða fólki sé gerð grein fyrir á hvern hátt ríkisstjórnin sér fyrir sér að ákveðnir þættir þessara mála þróist í náinni framtíð.

Af því að ég var með breytingartillöguplagg meiri hlutans fyrir andartaki er ástæða til að fara nokkrum orðum um aðra breytingartillögu en þá sem leiðir af athugasemdum ríkisskattstjóra. Þar á ég við breytingartillöguna sem varðar gildistökuákvæðið. Enn einu sinni er gildistöku þessara laga frestað, eðlilega. Ekki er hægt að setja frumvarpið þannig í gegn í miðjum janúar eða segjum bara um 20. janúar og ætla að láta lögin taka gildi tíu dögum síðar eða 1. febrúar, eins og gert er ráð fyrir í þeirri gerð frumvarpsins sem er á þingskjali 56. Nei, það er verið að breyta gildistökunni og í stað 1. febrúar 2007 komi það sem hv. þm. Mörður Árnason kallaði plat- og gabbdaginn mikla, 1. apríl. Og það er mikið rétt, það er kaldhæðni örlaganna að meiri hluti menntamálanefndar skuli einmitt hafa valið þennan plat- og gabbdag sem gildistökudag laganna sem eru með þessum ólíkindum orðin til og hafa þróast á þennan ótrúlega máta.

En það er annað sem er athyglisvert við það að plat- og gabbdagurinn 1. apríl skuli verða fyrir valinu og ekki er minni kaldhæðni í því. Það var 1. apríl fyrir tæpum tveimur árum sem Auðun Georg Ólafsson kom og fór. (Gripið fram í: Já.) Það var 1. apríl. Þetta verður því sögulegur dagur í sögu Ríkisútvarpsins ef þetta nær fram að ganga. (MÁ: Hann kemur þá aftur, er það ekki, 1. apríl?) (Gripið fram í.) Þetta er því allt í miklu plati og eins og ég segi, stjórnarliðar afar óheppnir í þessum efnum. Má svo sem draga þá sundur og saman í háði eins og ég sé að hv. þingmenn í salnum hafa löngun til að gera þegar þeim er bent á þetta, að stjórnarþingmennirnir skulu akkúrat hafa valið þennan dag, daginn sem Auðun Georg Ólafsson kom og fór. (SKK: Honum til dýrðar.) Já, honum til dýrðar, segir hv. formaður menntamálanefndar.

Það er svo sem ástæða til að fara sérstaklega yfir auglýsingamál Ríkisútvarpsins og umsagnir þær sem við höfum fengið í þessari lotu í þeim efnum. Þar ber að geta sérstakrar umfjöllunar frá Ara Edwald sem skrifar nefndinni tæplega þriggja síðna bréf eða sendir okkur svona pistil sem skiptir verulegu máli varðandi auglýsingamálin, en ég hygg að ég spari mér það í bili, virðulegi forseti, að fara mjög djúpt ofan í saumana á því, tel að hér séu jafnvel aðrir mér færari eða hafi meiri áhuga á einmitt þeim þætti málsins. Ég ætla því að láta bréf Ara Edwalds aðeins til hliðar svo ég hafi betri tíma til að fjalla um aðra þá þætti sem ég hef áhuga á að fara í saumana á í þessari ræðu minni.

Mig langar til að nefna athyglisverðan punkt sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson kom með í umræðunni áðan þegar við ræddum um störf þingsins og hvernig málið stendur akkúrat núna. Hv. þingmaður sagði fyrr í dag að hann teldi skorta rökræna niðurstöðu um af hverju ekki er pósitíft ákvæði í þessu frumvarpi um að Ríkisútvarpið verði undanþegið samkeppnislögunum eins og gert er í búvörulögum.

Hann færir búvörulögin inn í umræðuna. Þau eru sérlög og ganga framar almennum lögum, framar samkeppnislögunum og er beinlínis tekið fram í þeim að búvörulögin séu undanþegin samkeppnislögunum. Það hefði getað verið ákveðin lausn á þeirri auglýsingaklemmu sem stjórnvöld setja sig í með þeim breytingum sem hér eru lagðar til. Það gæti kannski leyst að einhverju leyti úr þeim vanda sem Ari Edwald bendir á í bréfi sínu til nefndarinnar. Það er nauðsynlegt að við þessa umræðu komi fram svar við þeirri spurningu sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson bar upp varðandi þetta atriði búvörulaganna. Hvers vegna töldu stjórnarliðar, menntamálaráðherra eða ráðuneytisstarfsmenn, ekki fært að setja inn pósitíft ákvæði af þessu tagi í frumvarpið?

Í nefndaráliti minni hluta menntamálanefndar er sérstakur kafli sem varðar hagræðingaráform stofnunarinnar. Ríkisútvarpinu hefur verið gert að skoða á hvern hátt megi hagræða hjá stofnuninni. Við förum yfir það í nokkuð ítarlegu máli í umsögn okkar hvað gert er ráð fyrir að verði notað í hagræðinguna sem á að vera upp á 1.566 millj. kr., þ.e. að 6% hagræðing sé krafan til að menn hafi eitthvert fjármagn til að sinna hinum títtnefnda þjónustusamningi. Það á fyrst og síðast að gerast með hagræðingu sem gerð er grein fyrir í hinni merku skýrslu matsnefndarinnar sem sett var á laggirnar vegna stofnefnahagsreiknings Ríkisútvarpsins. Það er eitt af því sem menn áttuðu sig á að yrði að vera til staðar þegar þeim hafði ítarlega og rækilega verið bent á það af hálfu Eftirlitsstofnunar EFTA.

Við bárum fram þá ósk að fá afrit af bréfaskiptum menntamálaráðuneytisins og útvarpsstjóra vegna rekstraráætlunar sem þessi efnahagsreikningur byggir á, fyrir tímabilið 2007–2016 og við fengum þau frá Ríkisendurskoðun. Við báðum einnig um að útskýrt yrði samhengið á milli þjónustusamningsins og rekstraráætlunarinnar, einkum og sér í lagi hvernig hægt væri, að mati nefndarinnar sem reiknaði hana út, að auka dagskrárgerðina um 400 millj. kr. á árabilinu 2011–2012, á sama tíma og hagræða þyrfti um 200 millj. kr.

Í minnisblaði Ríkisendurskoðunar segir, með leyfi forseta:

„Eins og fram kemur í drögum að þjónustusamningi milli menntamálaráðuneytisins og RÚV ohf. er gert ráð fyrir að auka dagskrárefni á samningstímanum. Hérna er fyrst og fremst átt við innlent dagskrárefni, bæði eigin framleiðslu og aðkeypt efni. Er þannig mælt fyrir um það í samningnum að hlutfall íslensks efnis á kjörtíma aukist um tæp 50% á samningstímanum.

Heildardagskrárkostnaður RÚV nam tæpum 2,4 milljörðum kr. árið 2005. Þar af var kostnaður við innlenda dagskrárdeild sjónvarps 432 millj. kr. En þjónustusamningurinn mun einkum hafa áhrif á kostnað hennar. Annar dagskrárkostnaður, bæði innlendur og erlendur var um 2 milljarðar kr. Þar af var kostnaður fréttasviðsins um 450 millj., íþróttadeildarinnar um 158 millj., Rásar 1 203 millj. Rásar 2 84 millj., og landshlutaútvarpa 116 millj. Annar rekstrarkostnaður, ótilgreindur en vegna dagskrár, nam 928 millj. kr.“

Í niðurlagi minnisblaðsins segir, með leyfi forseta:

„Það var skilningur matsnefndarinnar að það sé ætlun stjórnenda hins nýja félags að hagræða í öllum þáttum starfseminnar til að uppfylla megi ákvæði þjónustusamningsins um aukið innlent dagskrárefni. Eins og gefur að skilja mun þetta m.a. hafa í för með sér að minna rými verður fyrir erlent dagskrárefni, einkum á kjörtíma. Nefndinni er hins vegar ekki kunnugt um að nákvæmlega hafi verið ákveðið með hvaða hætti slík breyting verði útfærð og hversu mikil skerðing muni verða á kaupum erlends dagskrárefnis.“

Það er alveg ljóst, og gengur enginn að því gruflandi, að erlend kaup koma til með að dragast verulega saman ef allt þetta gengur eftir. Það liggur ekki fyrir, samkvæmt þeim gögnum sem við höfum fengið í menntamálanefnd, á hvern hátt menn sjá fyrir sér þennan samdrátt í kaupum á erlendu efni. Það liggur ekki fyrir á hvern hátt menn sjá fyrir sér öfluga, innlenda dagskrárdeild og hvernig verði hægt að nurla saman nægilega miklum fjármunum til þess að standa straum af þeim kostnaði sem gert er ráð fyrir til að framleiða það efni sem þjónustusamningurinn gerir ráð fyrir og hæstv. menntamálaráðherra hefur lýst yfir að þurfi að setja fram.

Samkvæmt þjónustusamningnum sem slíkum er gert ráð fyrir því að Ríkisútvarpið verði vettvangur nýsköpunar í dagskrárgerð, það eigi að styrkja og efla sjónvarpsþátta-, kvikmynda- og heimildamyndagerð með því að kaupa og sýna efni frá sjálfstæðum framleiðendum. Ríkisútvarpið eigi að gerast kaupandi eða meðframleiðandi að leiknu sjónvarpsefni, að kvikmyndum, að heimildamyndum eða öðru sjónvarpsefni og verja til þess að lágmarki 150 millj. kr. á ári frá og með árinu 2008. Árið 2009 er gert ráð fyrir að upphæðin hækki í 200 millj. kr. Í lok samningstímabilsins á hún að vera um 250 millj. kr. Þetta eru þær skyldur sem þjónustusamningurinn leggur á herðar stofnuninni varðandi hina innlendu dagskrárdeild og dagskrárframleiðslu.

Ég er er þeirrar skoðunar, frú forseti, að í þessu geti falist veruleg tímamót. Ég minni á að við stjórnarandstöðuþingmenn höfum ævinlega haldið því fram að efla þurfi innlenda dagskrárdeild til muna. Við höfum líka haldið því fram að gera þyrfti um það áætlun sem lögð yrði fram þannig að menn sæju á hvern hátt væri hægt að fylgja metnaðarfullum hugmyndum á því sviði, stig af stigi og skref fyrir skref.

Eftir langa mæðu líta dagsins ljós drög að þessum þjónustusamningi og hann er lagður fram sem fylgiskjal loksins með þessu frumvarpi um Ríkisútvarpið ohf. Það er af hinu góða. Við skulum halda því til haga að það var verulegur fengur að því að fá slíkan samning. Við erum betur í stakk búin til að ræða þessa einstöku þætti hinnar meintu eflingar innlendrar dagskrárdeildar með því að hafa hann jafnítarlegan og raun ber vitni.

En þótt við sjáum fram á að opnaðir verða möguleikar til að Ríkisútvarpið geti varið margfalt hærri upphæðum til kaupa, forkaupa eða meðframleiðslu á verkum sjálfstæðra framleiðenda heldur en nokkru sinni hefur verið áður þá verðum við líka að óska þess að áætlanagerðin varðandi þetta mál sé trúverðug. Kvikmyndagerðarmenn og aðrir þeir sem framleiða sjónvarpsefni þurfa að hafa trú á að eftirfylgnin verði eins og upphaflega er lagt af stað með.

Í tilefni af þessu langar mig að geta sérstaklega mjög athyglisverðrar umsagnar sem okkur barst í umfjöllun nefndarinnar á milli 2. og 3. umr. frá leikstjóra og handritshöfundi, Önnu Th. Rögnvaldsdóttur. Hún skrifaði okkur bréf sem barst 23. nóvember. Þar gerir hún ákveðnar tillögur um á hvern hátt beri að framkvæma þær hugmyndir sem gert er grein fyrir í 3. gr. þjónustusamningsins. Tillögur Önnu Rögnvaldsdóttur eru þess eðlis að ég tel eðlilegt að þeirra sé getið í þessari umræðu. Ég tel að þær séu innlegg í umræðuna um á hvern hátt við getum styrkt og eflt innlenda dagskrárgerð, sérstaklega í sjónvarpinu, eins og tillögur Önnu Th. Rögnvaldsdóttur gera ráð fyrir.

Hún gerir í fyrsta lagi athugasemd við það og beinir sjónum okkar að því að í 1. málsgrein 3. gr. sé talað um það að Ríkisútvarpið eigi að vera vettvangur nýsköpunar í dagskrárgerð. Anna telur að það sé ákveðinn galli á annars ágætu ákvæði að ekkert skuli sagt um á hvern hátt menn telji að nýsköpun eigi að vera sinnt eða hvað þetta þýði, vettvangur nýsköpunar. Hún setur fram sína túlkun á því hvað það þýði út frá því samhengi sem setningin eða málsgreinin kemur fyrir í 3. gr. Anna gerir ráð fyrir því að ef Ríkisútvarpið verji megninu af þessu eyrnamerkta fjármagni í greiðslur til verktaka, þ.e. fari út í það í ríkari mæli að fela sjálfstæðum framleiðendum að framleiða fyrir sig sjónvarpsefni fremur en að láta starfsmenn sína innan stofnunarinnar annast, þá sé það ekki nýsköpun heldur sams konar dagskrárgerð og viðhöfð hefur verið, bara framkvæmd af öðrum.

Ef Ríkisútvarpið tekur tilmæli um að vera vettvangur nýsköpunar í dagskrárgerð alvarlega þá þarf Ríkisútvarpið að setja á stofnun innkaupa- eða meðframleiðsludeild leikins efni, eða einhvers konar dramadeild eins og Anna kallar það í umsögn sinni, utan um þetta eyrnamerkta fé. Jafnframt þurfi svo að ráða starfskraft sem hafi reynslu af þróun og framleiðslu kvikmynda og sjónvarpsefnis til að veita þessari deild forstöðu. Þá sér Anna fyrir sér að við getum farið að tala um nýsköpun en ekki bara sams konar dagskrárgerð og við höfum stundað hingað til, þ.e. framleidda utan stofnunar. Þá telur hún að sé kominn vettvangur fyrir nýsköpun í innlendu efni og innlendri dagskrárgerð.

Allir sem hafa snert á listsköpun eða framleiðslu á menningu hvers konar vita að það er veruleg þörf á nýsköpuninni. Það er veruleg þörf á að sinna sprotunum, þeim sem eru að gera tilraunirnar. Sem þenja formið og eru að leita nýrra leiða. Það þekkjum við úr umræðu á Alþingi í fjárlagagerð þegar verið að fjalla um starfsemi sjálfstæðra atvinnuleikhópa og t.d. úr umræðum um safnamál, þegar fram koma ný, framsækin söfn sem bætast í flóru safnanna. Við höfum talið það gott vegna þess að þar eru sprotar og þar er nýsköpun í gangi. Við þurfum að horfa á þetta sömu augum, þ.e. tryggja að hér verði nýsköpun. Ef það stendur nýsköpun þá verðum við að meina nýsköpun. Þá verðum við líka að sjá fyrir á hvern hátt það geti orðið. Ný framleiðsla og sprotastarfsemi geta átt sér stað í dagskrárgerðinni en er ekki bara einhver tilfærsla á þeirri dagskrárgerð sem nú þegar er til staðar.

Þess vegna leggur Anna Rögnvaldsdóttir áherslu á að þessi þjónustusamningur sé skoðaður í víðara samhengi. Hún leggur til að það verði gert, t.d. í tengslum við nýlegt samkomulag um ríflega áttföldun á framlögum ríkisins til sjónvarpssjóðs KMÍ sem einmitt styrkir gerð leikins sjónvarpsefni, og ef til vill líka í tengslum við ný lög um hækkun hlutfalls endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar, sem gildir líka fyrir stór leikin sjónvarpsverkefni.

Ég verð að segja að mér finnst þetta eðlileg og sjálfsögð ábending frá Önnu, að ríkisstjórnin hefur aukið verulega fjármuni til þessara þátta og óeðlilegt að við skoðum ekki í þessari umræðu samspil ríkissjónvarpsins og þeirra sjóða annarra sem úthluta fjármunum til leikins efnis sem gert er ráð fyrir að verði sýnt í sjónvarpi. Anna telur að þessar aðgerðir eigi að vera samverkandi til þess þær verði markvissar og raunhæfar. Það telur hún einungis geta orðið ef að stofnuð yrði dramadeild hjá sjónvarpinu til þess að samræma verksviðið og tryggja nýsköpun innan stofnunarinnar.

Það er líka athyglisvert að í umsögn sinni bendir hún okkur á að Ríkisútvarpinu hafi aldrei verið skylt samkvæmt lögum að bjóða áheyrendum sínum upp á leikið innlent efni sem meðal annars skýrir það af hverju leikið efni hefur alltaf verið afgangsstærð hjá sjónvarpinu. Af þessum sökum segir Anna að lítill sem enginn infrastrúktúr sé fyrir hendi hjá stofnuninni til þess að sinna leiknu sjónvarpsefni og enn síður til að vinna með sjálfstæðum framleiðendum í tengslum við kaup og meðframleiðslu á sjónvarpsefni. Eigi að síður sé RÚV falið það verkefni samkvæmt þjónustusamningnum að vera í ákveðinni forustu í nýsköpun og þess vegna sé svo mikilvægt að það sé tekið fram í þjónustusamningnum að dramadeild skuli starfa við stofnunina.

Við hér í þessum sal sem höfum fjallað um þetta mál oftar en einu sinni höfum vikið að því hversu mikilvægt sé að innlenda dagskrárgerðin sé ekki bara viðtöl við fólk eða einhverjar myndir teknar eru vítt og breitt um landið, úti í mannlífinu. Það skiptir okkur verulegu máli að framleitt sé leikið efni og framleiddar heimildarmyndir séu gerðar. En það er einmitt þar sem kostnaðurinn fer að skipta máli svo um munar. Það er dýrt að framleiða efni af þessu tagi. En á endanum er þetta kannski veigamesti þátturinn í þeim menningararfi sem verið er að skapa á degi hverjum og ein af meginröksemdunum fyrir því að við viljum hafa ríkissjónvarp, ríkisfjölmiðil sem hefur bolmagn til að tryggja að innlend framleiðsla vegi þungt, sé vönduð, til hennar séu kallaðir fagmenn af öllum sviðum. Við vitum að við gerð leikins efnis koma listamenn úr öllum listgreinum að. Það er margslungið verkefni að framleiða metnaðarfullt sjónvarpsefni eða leikið efni. Til þess þarf kunnáttufólk í stjórnun og skipulagningu og það þarf til þess smiði og iðnaðarmenn sem kunna að smíða leikmyndir og saumakonur sem kunna að sauma búningana. Þetta er verulega atvinnuskapandi vinna á mjög breiðu sviði þannig að menningarlega hefur þetta víðtæk áhrif í samfélagi okkar og tryggir um leið að við séum að framleiða menningararf sem við getum verið stolt af. Nægir að nefna BBC í þessum efnum. Þegar við tölum um metnaðarfullt leikið efni fyrir sjónvarp þá hvarflar hugur okkar allra til BBC sem hefur sett í forgang metnaðarfulla leikna framleiðslu.

Ég ætla að stikla á stóru til loka í umsögn Önnu Th. Rögnvaldsdóttur. Ég var búin að nefna um dramadeildina. En hún gerir það líka að tillögu sinni að í þjónustusamningnum verði sett fram skýrt skilgreint markmið, eitt eða fleiri, um magn þess efnis sem gert er ráð fyrir að sjónvarpið framleiði samkvæmt samningnum. Hún leggur til að það skuli sett einhver klukkutímatala beinlínis á að það séu gerðir svo og svo margir klukkutímar af leiknu sjónvarpsefni á ári næstu fimm árin eða að sjónvarpið skuli auka framboð sitt á leiknu efni jafnt og þétt á samningstímanum úr einhverri ákveðinni tölu upp í einhverja ákveðna tölu. Hún telur mjög raunhæft að gera slíka áætlun. Ég minni á að Anna Th. Rögnvaldsdóttir er kvikmyndaframleiðandi. Hún hefur reynslu af því að framleiða leikið efni, hvort sem það eru bíómyndir eða sjónvarpsefni. Hún veit mjög vel um hvað hún er að tala. Þess vegna tel ég svo mikinn feng að því að hafa fengið umsögn frá henni þar sem hún skýrir það fyrir okkur hvers sé ábótavant í þessum þjónustusamningi sem við höfum hér verið að lesa með okkar gleraugum. Hún ljær okkur sín gleraugu og við sjáum þetta þar af leiðandi mun skýrar en við ella hefðum gert.

Aðeins nánar um rök Önnu með þessari tillögu varðandi það að magnbinda eigi framleiðsluna samkvæmt þjónustusamningnum. Hún segir að orðalagið í ákvæðinu sé fremur óheppilegt vegna þess að það megi misskilja það eða mislesa það þannig að aðalmarkmiðið samkvæmt samningnum sé að styrkja sjálfstæða framleiðendur. Aðalmarkmiðið er auðvitað ekki að styrkja sjálfstæða framleiðendur, eða hvað? Er það kannski það sem hæstv. menntamálaráðherra vill? Þetta er kannski athyglisverður punktur og hæstv. menntamálaráðherra ætti kannski að svara því. Skiptir það mestu máli að setja framleiðsluna í hendur sjálfstæðra aðila? Það hvarflar að manni að svo geti verið. En þá vil ég líka að það komi hér yfirlýsing í þessari umræðu um það. En Anna segir að aðalmarkmiðið sé auðvitað — og ég er henni sammála — að auka framboð á vönduðu innlendu sjónvarpsefni á kjörtíma. Það hlýtur að vera aðalmarkmiðið, ekki hver framleiðir það.

Það er tiltekið í þjónustusamningnum hversu háum upphæðum skuli verja til að kaupa eða meðframleiða efni. En hvað er því til fyrirstöðu að magnsetja það? Anna telur að það þurfi að koma fram hvað þetta eigi að skila áheyrendum, hvers konar lágmarksárangri sé verið að stefna að.

Síðan nefnir hún að framleiðsla á leiknu sjónvarpsefni sé kostnaðarsöm og sjónvarpsstöðvarnar hneigist til að verja peningum frekar í ódýrari framleiðslu eða ódýrari tegundir dagskrárefnis. Ef það er ætlunin með þessum þjónustusamningi, segir Anna, að knýja á um að Ríkisútvarpið leggi meiri áherslu á leikið efni og taki upp þá stefnu að bjóða upp á slíkt efni reglulega þá þarf í rauninni að taka það skýrt fram og setja fram magntölurnar. Öðruvísi er svo einfalt að fara bara inn í ódýra framleiðslu.

Niðurlag umsagnar Önnu varðar þriðja ákvæði þjónustusamningsins þar sem hún endurskrifar það út frá sínum sjónarmiðum eða sínum hugmyndum sem ég hef gert grein fyrir í mínu máli. Í meðförum Önnu kæmi 3. gr. þjónustusamningsins sem fjallar um nýsköpun í dagskrárgerð til með að hljóma svona, með leyfi forseta:

„RÚV skal vera vettvangur nýsköpunar í dagskrárgerð.

Árið 2008 skal RÚV sýna að lágmarki tvær klukkustundir af leiknu sjónvarpsefni á kjörtíma; árið 2009 fjórar klukkustundir að lágmarki; árið 2010 fjórar klukkustundir að lágmarki og árið 2011 fimm klukkustundir að lágmarki.

Í RÚV skal vera deild eða svið til þess að framfylgja markmiðum um aukningu á hlut leikins sjónvarpsefnis og skipuleggja meðframleiðslu og innkaup á kvikmyndum og leiknu sjónvarpsefni af sjálfstæðum framleiðendum.

RÚV skal styðja innlenda framleiðslu á kvikmynda- og sjónvarpsefni og stuðla að fjölbreytni með því að kaupa og sýna efni frá sjálfstæðum framleiðendum.

RÚV skal gerast kaupandi, forkaupandi eða meðframleiðandi að leiknu sjónvarpsefni, kvikmyndum, heimildarmyndum eða öðru sjónvarpsefni og verja til þess að lágmarki 150 millj. kr. á ári frá og með árinu 2008. Árið 2009 hækkar upphæðin í 200 millj. kr. og verður við lok samningstímabilsins 250 millj. kr.“

Virðulegi forseti. Ég lýsi því hér yfir að mér finnst þetta afar skynsamlegar hugmyndir sem Anna kemur með fram í umsögn sinni og hefði talið verulegan feng að því að fá viðbrögð við þessum hugmyndum og því beinlínis hvort ekki væri rétt að skoða þær í því ljósi að þeim verði bætt inn í drögin að þjónustusamningnum.

Ég vona að hæstv. menntamálaráðherra hafi kynnt sér hugmyndir Önnu Th. Rögnvaldsdóttur varðandi þetta og að hún láti okkur heyra í sínum ræðum, sem hún á efalaust á eftir að flytja hér síðast í umræðunni, hvernig henni líst á þessi meginsjónarmið.

Þessu langaði mig til að bæta við það sem sagt er um þjónustusamninginn og rekstraráætlunina í skýrslu matsnefndar vegna stofnefnahagsreikningsins og undirstrika með þessu mín sjónarmið og mína skoðun á því hvers konar sjónvarp ríkissjónvarpið eigi að vera, hvers konar framleiðsla eigi að vera þar og hvernig við getum tryggt að sú framleiðsla sem kemur frá stofnuninni verði slík að við finnum fyrir henni, að hún vigti þungt og að hún sé metnaðarfull.

Þá er ég komin að þeim kafla í ræðu minni, virðulegi forseti, sem lýtur að — þetta er nú eiginlega síðari kaflinn um einkaréttarlega umhverfið versus hið opinbera, sem sagt hinn opinbera rekstur.

Hv. þm. Mörður Árnason minntist í ræðu sinni á viðtal sem Gunnar Gunnarsson, fréttamaður á Ríkisútvarpinu, tók við Arnar Þór Másson þann 1. nóvember síðastliðinn í Spegli Ríkisútvarpsins varðandi þær breytingar sem fyrir dyrum standa nái þetta frumvarp fram að ganga. Arnar Þór Másson hafði þá skömmu áður, í októbermánuði, fjallað um rekstrarformsbreytinguna á ráðstefnu sem haldin var á vegum Stofnunar stjórnsýslufræða í lok október. Gott ef það var ekki bara síðasta dag októbermánaðar. Arnar Þór Másson er kennari í stjórnmálafræði og hann er sérfræðingur hjá fjármálaráðuneytinu.

Hann talaði í innleggi sínu á þessari ráðstefnu um nauðsyn breytinga. En setti jafnframt fram ákveðnar efasemdir um að nauðsynlegt væri að nota hlutafélagaformið til að koma ríkisstofnun í takt við tímann, eins og hann orðaði það.

Hann er sammála hæstaréttarlögmanninum Ástráði Haraldssyni, sem ég vitnaði til áðan, að mörgu leyti. Mér þykir nauðsynlegt að gera í nokkrum orðum nánari grein fyrir sjónarmiðum Arnars Þórs, kannski vegna þess hversu mikið skortir á að rök stjórnarmeirihlutans fyrir hlutafélagavæðingunni, fyrir einkavæðingunni, komi fram.

Arnar Þór segir í viðtalinu við Gunnar Gunnarsson að í frumvarpinu sé reyndar tekið fram að upplýsingalög og stjórnsýslulög eigi að einhverju leyti að gilda um starfsemina. En annars sé verið að hverfa frá þeim sérreglum sem gilda um ríkisrekstur og verið sé að færa rekstrarumhverfið úr opinberu formi yfir í einkaform og einkamarkaðsform. Hann gefur lítið fyrir að það sé kallað opinbert hlutafélag, þetta nýja félag, en ekki einfaldlega hlutafélag, því munurinn sé í raun og veru enginn, þar sem breytingin sem gerð var á hlutafélagalögunum á Alþingi á síðasta ári hafi ekki falið í sér neinar efnislegar breytingar.

Athyglisvert er að stjórnmálafræðingur og sérfræðingur hjá fjármálaráðuneytinu skuli segja þetta, að breytingarnar á hlutafélagalögunum séu í raun svo veikar og litlar að þær feli í sér sáralitlar efnislegar breytingar í þessum efnum.

Hverjar voru þær breytingar? Hvað var það sem í raun og veru var innleitt? Jú. Ákvæði um að birta þurfi starfsreglur stjórnar á netinu. Ákvæði um að ákveðið jafnrétti kynjanna skuli vera í stjórnum opinberra hlutafélaga. Og síðast en ekki síst að fjölmiðlar hafi ákveðinn rétt til að koma með fyrirspurnir á aðalfundum.

Í rauninni voru það bara þessi þrjú atriði sem breytt var, það er því bitamunur en ekki fjár hvort Ríkisútvarpið er sett inn í hlutafélagaform, hreint og klárlega, eða í eitthvert fyrirbæri sem heitir opinbert hlutafélag. Með öðrum orðum, sérfræðingur segir okkur að þær breytingar sem gerðar hafa verið, þ.e. breyta úr hlutafélagi yfir í opinbert hlutafélag, skipti í raun engu máli.

Hann vill meina, og mér finnst það athyglisvert, því það hljómar algerlega við það sem ég hef áður sagt í umræðunni, að hægt sé að gera breytingar á rekstri Ríkisútvarpsins innan þess lagaramma sem gildir um það í dag. Mér þykir þetta skipta verulegu máli því við stjórnarandstöðuþingmenn höfum öll lýst því yfir að við séum viljug til að gera breytingar. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum lagt fram frumvarp um að gera breytingar sem gerðar eru innan þess lagaramma sem gildir í dag.

Sérfræðingurinn Arnar Þór Másson styður í raun og veru þær hugmyndir sem við höfum reifað og haldið fram hvað þetta varðar. Hann segir að sveigjanleiki B-hluta stofnunar eins og Ríkisútvarpið er, sé talsvert meiri en hjá A-hluta stofnunum sem eru þessar hefðbundnu ríkisstofnanir. Hann segir að sá sveigjanleiki sem nú gildi um B-hluta stofnanir geri það að verkum að hægt sé að eignfæra og afskrifa og annað þess háttar sem ekki er hægt að gera hjá A-hluta stofnunum. Svo nefnir hann starfsmannalögin til sögunnar.

Hann vill meina að ástæða fyrir því að ríkisreksturinn sé öðruvísi en einkareksturinn, þar sem verið er að nota almannafé til rekstrarins, sé vegna þess að það sé verið að uppfylla ákveðið hlutverk sem varði t.d. réttaröryggi og öryggi, jafnvel almannaþjónustuhlutverk. Það sé eðlilegt að slíkt hlutverk sé í stofnun sem er rekin af opinberu fé og að þarna sé ákveðið hlutverk sem sé í sjálfu sér eðli málsins samkvæmt rétt að sé í ríkisrekstri en ekki í rekstri sem lýtur lögmálum einkaréttar.

Hann segir í viðtalinu að það sem hægt væri að gera í dag, ef ekki væri farið inn í hlutafélagavæðinguna, þá væri hægt að fara þá leið að breyta sérlögum um stofnunina, sem er nákvæmlega það sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum lagt til, að útvarpslögunum verði breytt, lögum um Ríkisútvarpið verði breytt til þess að tryggja ákveðna þætti sem við teljum að þurfi að vera til staðar og líka til þess að vernda stofnunina fyrir þeim áhrifum, fyrir þeim pólitísku áhrifum, sem stjórnarmeirihlutinn hefur ítrekað tíðkað í tíð stofnunarinnar og eru sannarlega til vansa og mál að linni í þeim efnum.

Arnar Þór segir að það trúi því í raun enginn — þetta eru orðin sem hv. þingmaður Mörður Árnason, vitnaði til áðan — að ríkið sé að reka hlutafélag eins og önnur hlutafélög á markaði.

Í þessu viðtali segir Arnar Þór Másson, með leyfi forseta:

„Það trúir því til dæmis enginn að ríkið láti hlutafélag t.d. fara á hausinn ef illa gengur. Það trúir því enginn að stjórnarmenn beri raunverulega ábyrgð eins og stjórnarmenn í félögum á markaði“ — og að því leyti til þá verði þetta, eins og hann orðar það — „ekki mjög mikil breyting.“

Þessi tilhneiging ríkisins til að breyta fyrirtækjum sínum í opinber hlutafélög, virðulegi forseti, telur Arnar Þór að stafi af því að rekstrarfyrirkomulag ríkisfyrirtækja hafi ekki þróast nægilega, að þau svari ekki kröfum tímans. En hann er ekki hlynntur því að hlutafélagaformið sé notað fyrir ríkisfyrirtæki. Hann vill miklu frekar kalla ríkisfyrirtækin áfram ríkisfyrirtæki eða stofnanir, en laga formið á þeim að þeim kröfum sem til þeirra eru gerðar.

Hann telur að hlutafélagaformið sé eitthvað sem menn séu að stökkva á af því það sé til staðar. Ég hef tilhneigingu til þess að taka undir það. Þetta er svona „af því bara“-ákvörðun. Það sé skynsamlegra að reyna að þróa rekstrarform ríkisins almennt, taka það besta úr hlutafélagaumhverfinu, það sem getur gagnast í ríkisrekstri og í að búa til ákveðinn sveigjanleika, sem er það sem menn eru að kalla eftir. En það sé engin þörf á því að nota endilega hlutafélagaformið sem slíkt því það dragi úr kostum þess að setja alls konar klásúlur inn í sérlög um að þetta gildi ekki og þetta gildi í staðinn og segir að hér sé farin mikil fjallabaksleið í þessum efnum.

Þannig að ég orða þetta hér, virðulegi forseti, til þess að það sé á hreinu að það er ekki bara Ástráður Haraldsson, hæstaréttarlögmaður, sem gerir málefnalegar athugasemdir við að það skuli vera hlaupið í hlutafélagaformið, það eru fleiri sérfræðingar sem hafa hreyft þessu máli í fjölmiðlum og á opinberum vettvangi með rökum sem hníga í sömu átt.

Það var auðvitað mjög miður að okkur í menntamálanefndinni skyldi að ekki lánast að fá einhvern sérfræðing sem var tilbúinn til þess að koma og fara vel yfir þessi mál með okkur. Við gerðum tilraunir til þess, eins og ég held að hafi komið fram í máli hv. þm. Marðar Árnasonar áðan. (Gripið fram í.) Jú, við fengum hana, það er alveg rétt. En það var kannski ekki nægjanlega mikið á því að græða. Ég held að við höfum verið sammála um það í nefndinni að okkur skorti hæfan sérfræðing til að fjalla nákvæmlega um þessi álitamál.

Við gerðum tilraun til þess í minni hluta nefndarinnar að leggja fram ákveðnar spurningar sem við töldum að slíkir sérfræðingar gætu svarað. Við töluðum t.d. um þörfina á því að skoðað væri sérstaklega eða spurt sérstaklega út í samhengi samkeppnisréttarins og Evrópuréttar um ríkisútvarp. Við vildum vita meira um hvaða gildi umsögn Samkeppniseftirlitsins hefði í raun og hvað gerðist ef Samkeppniseftirlitið beitti sér í málunum og gripi til einhverra þeirra úrræða sem það hefði samkvæmt lögum. Við vildum gjarnan máta ákveðna þætti við sérfræðinga í fjölmiðlum, t.d. hvort rekstrarformið skipti máli varðandi kærur sem gætu mögulega komið frá samkeppnisaðilum vegna samkeppni á auglýsingamarkaði. Hvort það skipti máli hver hlutdeild Ríkisútvarpsins væri á ljósvaka- eða auglýsingamarkaði eða hvort sú hlutdeild væri takmörkuð með einhverjum formlegum hætti. Hvort það skipti máli hversu skýrt Ríkisútvarpið væri skilgreint sem almannaútvarp eða hlutverk þess væri skilgreint samkvæmt 3. gr. og fleira í þessum dúr. Hv. þm. Mörður Árnason hefur haft forgöngu um að leggja áherslu á að málið yrði sent til fjölmiðlaskrifstofu Evrópuráðsins. Því hefur þráfaldlega verið hafnað af meiri hluta nefndarinnar.

En úr því að svo var var sýnu meiri ástæða til þess að reyna til þrautar að fá innlenda sérfræðinga til að fara yfir þessi mál. Þegar á endanum komu svör frá þeim sérfræðingi sem leitað var til þá kom náttúrlega í ljós að vinna af því tagi sem slíkir sérfræðingar eru beðnir um af nefndarmönnum er talsverð og útheimtir talsverðan tíma og talsverða fyrirhöfn. Það er verulega til athugunar hvort nefndirnar eigi ekki að hafa meira svigrúm, fjárhagslegt svigrúm, til þess að ráða til sín sérfræðinga til að skrifa greinargerðir um ákveðna, afmarkaða þætti svona flókinna mála eins og það sem hér um ræðir.

Ég tek sannarlega undir að það er veruleg þörf á því að nefndirnar eigi þennan möguleika, sérstaklega þegar um álitamál er að ræða þar sem kannski örfáir sérfræðingar hafa það á færi sínu eða valdi, að gefa efnismiklar umsagnir. Þá er það auðvitað eðlilegt að fyrir slíkt sé greitt og að sanngjörn gjöld komi fyrir.

En sem sagt, þarna vantar okkur kannski aðeins upp á dýptina í umfjölluninni, við hefðum getað farið lengra og hefðum þurft að komast til botns í ákveðnum atriðum sem við verðum í sjálfu sér að skilja eftir og ég tel það vera talsvert miður.

Hæstv. forseti. Þá verða næst fyrir mér í mínum pappírum tveir leiðarar sem fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins hefur skrifað í Fréttablaðið. Sá fyrri birtist þann 3. desember og sá síðari í gær, 14. janúar 2007.

Það er auðvitað mjög athyglisvert þegar fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, Þorsteinn Pálsson, kemur inn í umræðuna með þeim hætti sem hann hefur gert og að hann skuli orða það svo að það virðist vera að stjórnarflokkarnir hafi verið slegnir einhvers konar blindu við framlagningu þessa máls.

Það er eðlilegt að það veki talsverða athygli þegar maður hafandi gegnt þeirri stöðu sem Þorsteinn Pálsson hefur gegnt, segir í miðli sínum að frumvarpið um Ríkisútvarpið ohf. séu einu leifarnar sem eftir séu af þeim gamla vanda stjórnarflokkanna sem blindan orsakaði þegar þeir fóru fjallabaksleiðina við að styðja innrásina inn í Írak. Hann segir að það sé athyglisvert að þessir stjórnarflokkar hafi ákveðið að færa stjórnarandstöðunni þessar leifar sem eins konar forgjöf í komandi kosningabaráttu. Orðrétt segir hann, með leyfi forseta:

„Í manntafli lýsir forgjöf að sönnu stórmennsku. En stundum getur skákin teflst þannig að jafnvel snjöllustu menn hafa ekki nægjanlegt vald á stöðunni til þess að hafa efni á forgjöf. Það á einfaldlega eftir að koma í ljós hvort báðir stjórnarflokkarnir hafa pólitískan styrk til þessarar forgjafar. Kosningarnar skera úr því.

Stjórnarandstöðuflokkarnir hafa ákveðið að ræða myndun ríkisstjórnar fái þeir til þess nægjanlegt afl eftir kosningar. Fram til þessa hafa þeir helst náð samhljómi um eitt mál sem fengið hefur almennan hljómgrunn meðal fólksins. Það er útvarpsmálið.“

Nú er Þorsteinn Pálsson glöggskyggn maður. Ég verð að segja að mér þótti það ákveðið fagnaðarefni að hann skyldi koma inn í umræðuna á þeim nótum sem hann gerði. Hann vekur athygli á því að það sé ákveðin pólitísk þverstæða eða þversögn sem ríkisstjórnin býr til í frumvarpinu um Ríkisútvarpið sem felist í því að verið sé að hafna varðstöðu um menningarlega öflugt og opinbert útvarp, eins og hann kallar það, þar sem jafnframt sé virtur réttur markaðarins til þess að halda uppi almannaþjónustu á því sviði á heiðarlegum samkeppnisforsendum.

Hann segir að höfuðmarkmiðið með nýju ríkisútvarpslögunum sé að nota skattpeninga almennings til þess að koma hælkróki á þá aðila sem stunda sams konar almannaþjónustu á markaðsgrundvelli. Það minni á gamaldags og úrelt sjónarmið í pólitík sem flestir vinstri menn hafi kastað fyrir róða.

Þetta eru auðvitað athyglisverð orð af munni Þorsteins Pálssonar. Í niðurlagi þessa leiðara frá því 3. desember í Fréttablaðinu segir, með leyfi forseta:

„Óhætt er að fullyrða að mikill meiri hluti landsmanna vill hins vegar umhverfi þar sem bæði þessi form á almannaþjónustu í útvarpi og sjónvarpi fá að njóta sín. Ríkisstjórnin hefur nú gefið vinstri flokkunum tækifæri til þess að ganga til kosninga sem einu málsvarar hófsamra skynsemissjónarmiða á þessu sviði. Þeir geta nú hagnýtt sér það. Fylgishrun Framsóknarflokksins er helsta ástæðan fyrir því að litlar líkur eru á að stjórnarflokkarnir haldi velli.“

Svo kemur Þorsteinn Pálsson inn á framgöngu formanns Framsóknarflokksins í þessum efnum og segir að hann hafi reynt fyrir viku að opna dyr fyrir þá sem horfið hafa á önnur mið í stjórnmálum. En nú hafi hann ákveðið að loka þeim dyrum aftur með því að standa að ríkisútvarpsfrumvarpinu efnislega óbreyttu.

Niðurlagið með þessum orðum er, með leyfi forseta:

„Engin önnur þingmál á þessum vetri hafa pólitískt gildi fyrir Framsóknarflokkinn í þeim tilgangi að kalla til baka þá sem hafa yfirgefið hann. Vegna veikrar stöðu Framsóknarflokksins er áræðni hans að nota þetta mál í forgjöf til stjórnarandstöðunnar því miklu meiri en Sjálfstæðisflokksins sem staðið hefur vel að vígi undangengið ár.“

Þarna dregur Þorsteinn Pálsson fram í dagsljósið hlut Framsóknarflokksins í þessu máli öllu. Sá hlutur er vægast sagt afar dapurlegur. Skyldi engan undra þó að Framsóknarflokkurinn komi jafnilla út úr skoðanakönnunum sem gerðar eru um þessar mundir og raun ber vitni. Ég leyfi mér að halda því fram að ríkisútvarpsmálið eigi þar talsverðan hlut og er í þeim efnum hjartanlega sammála Þorsteini Pálssyni.

Framsóknarflokkurinn gerði á árum áður fjöldann allan af ályktunum á flokksþingum sínum sem vörðuðu Ríkisútvarpið. Forusta Framsóknarflokksins hefur vikið öllum þeim ályktunum til hliðar í þessu máli. Sumir mundu orða það að verið sé að gera lítið úr þeim flokksmönnum sem gengið hafa götu Framsóknarflokksins. Staðið hafa í baklandi þeirra sem hafa starfað á Alþingi, þ.e. liðið sem vinnur hina eiginlegu vinnu og styður við þingmennina, að það hafi verið svikið af þeim forustumönnum sem ákváðu að fara í þessa vegferð með Sjálfstæðisflokknum.

Ég tel alveg nauðsynlegt, virðulegi forseti, að Framsóknarflokkurinn sé kallaður fram úr skugganum í þessari umræðu og að við fáum virkilega samræðu um það hvers vegna Framsóknarflokkurinn hefur skipt um skoðun í þessum efnum.

Það stríðir gegn meginhugmyndafræði Framsóknarflokksins að mínu mati, að yfirgefa þær flokksályktanir sem gerðar hafa verið í gegnum tíðina varðandi Ríkisútvarpið. Ekki bara kjósendur Framsóknarflokksins eiga rétt á að vita skýringuna, það er eðlilegt að við sem störfum með þingmönnunum hv. á löggjafarsamkundunni fáum þeirra sjónarmið fram.

Við þingmenn sem störfum í menntamálanefnd héldum það á tímabili a.m.k., að Framsóknarflokkurinn væri að átta sig í málinu þegar hv. þm. Sæunn Stefánsdóttir, 11. þm. Reykv. n., gekk fram fyrir skjöldu í fjölmiðlum rétt fyrir áramótin og lýsti því yfir að að hennar mati yrði ekkert af því þetta frumvarp um Ríkisútvarpið ohf. færi í gegn fyrr en ljóst væri hvernig málefnum flugumferðarstjóra sem var verið að reyna að fá til starfa yfir Flugstoðir ohf. reiddi af.

Síðan kom upp málið með Matís ohf. þar sem ljóst var að ákveðinn fjöldi starfsmanna þriggja opinberra rannsóknastofnana í matvælaiðnaði ætlaði sér ekki að gera samninga við Matís ohf. vegna þess að verið væri að ganga á réttindi þeirra. Þá töldum við að Framsóknarflokkurinn mundi enn herðast í þeim sjónarmiðum sem Sæunn hafði lýst í fréttaviðtali. En svo var því miður ekki. Framsóknarflokkurinn sem í gegnum Sæunni hafði látið örla á einhverjum mótbárum og efasemdum, dró aftur í land. Það er ekki að vita nema Sæunn hafi verið tekið á teppið, eins og maður segir. Í öllu falli lét hún ekki mikið bera á þessum efasemdum sínum í starfi nefndarinnar þegar við tókum málið inn á milli 2. og 3. umr. Því miður.

Því ég hefði talið verulegan feng að því, og ég hefði jafnvel talið að Framsóknarflokkurinn hefði getað lyft sér upp á því, án þess að ég sé að útlista það sem mína ósk að hann næði því að lyfta sér upp í skoðanakönnunum, ef hann hefði ákveðið að standa nú í lappirnar og segja hingað og ekki lengra í þessu vonda máli. Standa með baklandinu sínu. Standa með þeim ályktunum sem landsþing og ýmsar stofnanir Framsóknarflokksins hafa í gegnum árin samþykkt. En því miður brugðust þær vonir nú illa.

Eitt af því sem hinn almenni flokksmaður í Framsóknarflokknum hefur ævinlega haldið fram og hefur verið ályktað um á flokksþingum er t.d. það að Rás 2 eigi að fá að lifa. Framsóknarmenn hafa rökstutt það með því móti að það sé ein vinsælasta útvarpsstöðin á landsbyggðinni. Það þarf ekki að styðja það miklum rökum að Framsóknarflokkurinn hefur átt mikið fylgi á landsbyggðinni. Þar eru hans sterkustu vígi. Fólk í flokknum hefur haldið því fram og flokksþing ályktað þar um að það eigi að tryggja rekstur Rásar 2 áfram og það skipti máli að hún verði ekki einkavædd. En með þessu frumvarpi er stoðunum kippt undan Rás 2 eins og við vitum þar sem það verður ekki lengur lagaskylda að reka tvær útvarpsrásir, heldur aðeins eina. Það sjá það allir í hendi sér að Rás 2 verður auðvitað látin fjúka. Hún verður sett inn í samkeppnisreksturinn og að öllum líkindum mjög fljótlega seld út úr rekstrinum.

Þannig að framsóknarmenn missa Rás 2 fyrr en þá grunar með þessu. Það vita þeir auðvitað og þess vegna er óánægja þeirra orðin nokkuð kraumandi. Við erum farin að verða vör við það að bakland þessara framsóknarþingmanna sem hér er nú er farið að ókyrrast mjög, menn eru farnir að yfirgefa flokkinn og leita á önnur mið.

Það er eins og ég segi, ekki slæmt í sjálfu sér. En það er samt sem áður eðlilegt að við krefjum Framsóknarflokkinn svara, hvers vegna ákveðið var að hverfa frá meginstefnu Framsóknarflokksins í málefnum Ríkisútvarpsins og fara inn á þá braut sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur leitt hann.

Enda spyr Þorsteinn Pálsson í nýjum leiðara sínum sem birtist í Fréttablaðinu í gær: Hvers vegna? Það er fyrirsögn leiðarans. Hann segir að einhverra hluta vegna hafi stjórnarflokkarnir sammælst um að rjúfa þá sæmilegu sátt sem verið hafi um Ríkisútvarpið. Ríkisstjórnin hafi misboðið þeim sem vilji standa vörð um menningarlegt útvarp á vegum ríkisins. Og um leið hafi hún gefið hinum langt nef sem vilji styrkja jafnræði á almennum markaði útvarpsstarfsemi.

Hann segir að stefna ríkisstjórnarflokkanna í útvarpsmálum eigi hvergi formælendur. Hún verði ekki skýrð með neinum skynsamlegum rökum. Og þeir duldu hagsmunir sem búi að baki áformum þeirra hljóti að vera æðiríkir fyrst þeir séu reiðubúnir til að veikja annars allgóða málefnastöðu í aðdraganda kosninga fyrir slíkan málstað.

Þannig að Þorsteinn Pálsson sér ástæðu til þess að endurtaka allt sem hann sagði fyrir rúmum mánuði síðan. Undirstrika það enn frekar. Það hlýtur að verða að spyrja um það hér. Eru sjálfstæðismenn í þessum sal ekkert órólegir yfir því að fyrrum leiðtogi þeirra skuli tala með þeim hætti sem hann gerir í leiðurunum? (Gripið fram í.)

Eru menn í Sjálfstæðisflokknum, þingmenn hér, það er enginn sjálfstæðismaður í salnum, er okkur bent á hérna. Það er raunar rétt. En við erum nokkuð viss um að þeir sitja allir á skrifstofum sínum og hlusta á ræður stjórnarandstöðuþingmanna héðan úr ræðustóli. Ég geri því ráð fyrir að menn séu að punkta hjá sér þær spurningar sem héðan er varpað til þeirra og þeir komi síðan og geri grein fyrir málum sínum.

Eins og ég segi. Ókyrrast þeir ekkert yfir þessum ávirðingum fyrrum leiðtoga síns? Úr því að þær eru svo skýrt orðaðar hjá ritstjóra Fréttablaðsins, Þorsteini Pálssyni, þá hljóta þær að vera nokkuð háværar í baklandi þeirra þingmanna sem eru að reyna að ýta málinu í gegn.

Þannig að ég segi enn og aftur. Mér er það gjörsamlega óskiljanlegt hvað rekur menn áfram í þessum leiðangri. Hvað rekur hv. formann menntamálanefndar áfram í þessum leiðangri? Er það hans meginsjónarmið í málefnum Ríkisútvarpsins, sem okkur er öllum kunn, þ.e. að hann ætli sér að selja stofnunina úr ríkiseigu? Er það mótorinn? Er það eldsneytið sem knýr sjálfstæðismenn áfram í þessari sókn eða þessum leiðangri sem hefur verið líkt við þráhyggju? Auðvitað finnst okkur sem höfum tekið þátt í umræðunni alllengi að þar sé hið eiginlega afl, hið eiginlega eldsneyti, sem keyrir þetta fólk áfram.

Mér finnst þetta afar miður. Mér finnst þetta allt svo dapurlegt, virðulegi forseti, að það tekur eiginlega ekki nokkru tali. Mér þykir svo skrýtið að menn skuli ekki láta sér segjast þegar fyrrum leiðtogar þeirra tala jafntæpitungulaust og Þorsteinn Pálsson talar nú til sjálfstæðismanna.

Virðulegi forseti. Það rak á fjörur mínar í dag eina af mjög mörgum skýrslum sem gerðar hafa verið á síðustu árum um endurskoðun á lögum um Ríkisútvarp. Sennilega sú eina sem ég hef ekki lesið spjaldanna á milli. Það er 96-skýrslan. Hún er afskaplega athyglisverð að mjög mörgu leyti. Og ég heiti því og gef þá yfirlýsingu hér úr þessum ræðustóli að nú tek ég til við að lesa þessa ágætu skýrslu sem ég sótti á bókasafn Alþingis í dag.

Mér nægði að líta á formála og inngang skýrslunnar. Inngangurinn eða formálinn er undirritaður af fjögurra manna nefnd þann 8. mars 1996. Í honum kemur fram að í júlílok 1995 hafi þáverandi hæstv. menntamálaráðherra, Björn Bjarnason, ákveðið að setja á laggirnar starfshóp til að gera tillögur um breytingar á útvarpslögum, m.a. með tilliti til breyttra aðstæðna á íslenska ljósvakanum, fjölgunar ljósvakamiðla, aukinnar samkeppni, tæknibreytinga og annarra atriða sem komið hafi til sögunnar frá því að útvarpslög tóku gildi árið 1985.

Það fyrsta sem mér finnst athyglisvert í þessum inngangi eða formála er dagsetningin. Í júlílok 1995 er nýtekið við annað ráðuneyti Davíðs Oddssonar, fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra, og Björn Bjarnason þar með nýtekinn við embætti hæstv. menntamálaráðherra af Ólafi G. Einarssyni, sem gegndi embættinu á árunum 1991–1995.

Sem sagt, strax eftir að annað ráðuneyti Davíðs Oddssonar sest í ráðherrastólana þá er tekið til við hið merka verkefni að endurskoða lögin um Ríkisútvarp. Hverja skipaði hæstv. þáverandi menntamálaráðherra Björn Bjarnason í þessa nefnd? Hann skipaði eftirtalda:

Gunnlaug Sævar Gunnlaugsson, framkvæmdastjóra, sem formann eða þann sem stýra átti störfum hans. Aðrir sem ráðherrann skipaði í hópinn voru Tómas Ingi Olrich, alþingismaður, Ásdís Halla Bragadóttir, aðstoðarmaður ráðherra og Páll Magnússon, sjónvarpsstjóri Stöðvar 2.

Það verður að segjast, virðulegi forseti, að það er afar athyglisvert að lesa þetta, eins og ég segi, ég er búin að hlaupa á hundavaði yfir kaflann sem greinir tillögur og niðurstöður nefndarinnar. Þar er fjölmargt sem kemur kunnuglega fyrir sjónir þegar maður þekkir frumvarpið um Ríkisútvarpið ohf. jafn vel og ég geri nú. Mér sýnist að téður nefndarmaður, Páll Magnússon, fyrrum sjónvarpsstjóri Stöðvar 2, sé í sjálfu sér bara kominn með kyndilinn sem kannski hefur verið undirbúið 1995 að hann mundi taka í fyllingu tímans, að fylgja eftir niðurstöðum nefndarinnar sem Björn Bjarnason skipaði, því ótrúlega margt í frumvarpinu sem við fjöllum nú um er keimlíkt þeim tillögum sem hér eru bornar fram. (GAK: Það eru fleiri Trójuhestar í sögunni.) Það eru fleiri Trójuhestar í sögunni, segir hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson. Það er alveg rétt.

Það er athyglisvert að mörgu leyti að lesa þessa skýrslu. Tómas Ingi Olrich segir sig frá henni að ákveðnu marki, talsvert veigamiklir þættir sem hann gerir athugasemdir við sem ég held að væri rétt fyrir sjálfstæðismenn að skoða í dag. Það er t.d. það sem varðar auglýsingamálin. (Gripið fram í.)

En það er sem sagt eins og ég segi að þarna strax í árdaga ríkisstjórnarinnar var stofnaður starfshópur sem hafði það tiltekna hlutverk að móta tillögur um íslenska ljósvakamarkaðinn og málefni Ríkisútvarpsins. Þetta er spaugilegt í ljósi þess sem síðan gerist.

Við þekkjum öll atlögu Davíðs Oddssonar að fjölmiðlum á Íslandi þegar hið merka fjölmiðlafrumvarpi sem forseti Íslands neitaði staðfestingar, var sett fram. Við þekkjum þrautagöngu sjálfstæðismanna við að koma Ríkisútvarpinu úr opinberum rekstri inn í einkarekstur. Einkavæðingu þess með þremur tilraunum á tveimur árum. Fyrst að breyta rekstrarforminu í sf., síðan í hf. og loks að breyta því í ohf. Þannig að þegar maður les þessa skýrslu sem þó er ekki eldri en þetta, hún er 10, 11 ára gömul, þá verður þessi þrautaganga þeirra nokkuð spaugileg. Leyfir maður sér að brosa stöku sinnum, ekki bara út í annað, heldur út í bæði, þegar þetta er lesið.

Í samantekt fremst í skýrslunni kemur fram að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sé lögð áhersla á ýmsa afar veigamikla hluti. Það er ástæða til að tíunda það hér í nokkrum orðum, að þeir lögðu áherslu, þessir háu herrar, á varðveislu íslenskrar tungu, þjóðmenningar og að stuðla beri að öflugu lista- og menningarlífi og í verkefnaáætlun menntamálaráðuneytisins sagði á þessum árum orðrétt, með leyfi forseta:

„Á þeim 10 árum, sem liðin eru frá því að einokun ríkisins á sjónvarps- og útvarpsrekstri var afnumin, hafa öflugir keppinautar við Ríkisútvarpið komið til sögunnar. Á þessu sviði eins og öðrum verður samkeppni að vera með þeim hætti að einkafyrirtæki standi jafnfætis opinberum.“

Og eilítið síðar í verkefnaáætlun menntamálaráðuneytisins segir:

„Útvarpslög hafa verið í endurskoðun um nokkurt árabil. Ljóst er, að þau verður að móta af víðsýni eigi ákvæði þeirra að standast tímans tönn og taka mið af örum tæknibreytingum.“

Og í samantektinni segir síðan áfram: Að Íslendingum hafi á skömmum tíma verið svipt inn í alþjóðlega veröld ljósvakans. Þessa þróun megi bæði merkja á grósku innlenda ljósvakamarkaðarins sem og á auknum aðgangi landsmanna að erlendum gervihnattarásum. Aukin samkeppni innan lands hafi getið af sér fjölgun stöðva og lengingu útsendingartíma. En um leið hærra hlutfall erlends efnis, bæði í hljóðvarpi og sjónvarpi. Á sama tíma sé ljóst að ljósvakamiðlarnir hafi mikilvægu hlutverki að gegna í mótun og varðveislu íslenskrar menningar, samkenndar og sérstöðu þjóðarinnar.

Í upphafi starfsins hafi þessi starfshópur mótað það viðmið að meginviðfangsefnið væri að hyggja sérstaklega að hlut innlendrar dagskrárgerðar í ljósvakanum og leita leiða til að efla hlut þess þáttar í starfsemi ljósvakamiðla, bæði einkarekinna og Ríkisútvarpsins. Grunntónninn í skýrslunni sem hér fer á eftir endurspeglar þetta.

Þetta er, eins og ég segi, síðan áframhaldandi lesning sem kemur manni nokkuð kunnuglega fyrir sjónir með ákveðnum ákvæðum varðandi kostun og auglýsingar og að Ríkisútvarpið verði áfram rekið sem fyrirtæki í eigu íslenska ríkisins og það skilgreint sem opinber þjónustustofnun og felld niður sú skylda Ríkisútvarpsins að senda út til alls landsins og næstu miða. Það er dálítið athyglisvert. Sem ríkismiðli beri RÚV að keppa við aðra ljósvakamiðla um hlustun eða áhorf á forsendum opinberrar þjónustustofnunar og það er einkar mikilvægt að sú meginregla gildi í rekstri Ríkisútvarpsins að starfsemi þess skuli aðeins bundin við þá þætti sem verður ekki komið við annars staðar. Úr því að einkaaðilar geta það á Ríkisútvarpið ekki að vera neitt að þvælast í því. Útvarpsráð átti að sjálfsögðu að verða lagt niður og það átti að vera skipuð rekstrarstjórn, það átti að koma á fót dagskrárráði íslenskra útvarpsstöðva, það átti að breyta afnotagjöldunum í nefskatt. Reyndar var gert ráð fyrir þeim möguleika að Ríkisútvarpið yrði flutt frá B-hluta yfir í A-hluta ríkisreiknings þannig að rekstur stofnunarinnar byggðist á framlagi fjárveitingavaldsins samkvæmt samþykkt fjárlaga hverju sinni ef ekki yrði farin leið nefskattsins og þar fram eftir götum. Eins og ég segi, hér er fjöldinn allur af afar kunnuglegum stefjum sem við þekkjum svo vel úr þeim frumvörpum sem hér hafa verið til umfjöllunar.

Virðulegi forseti. Ég er kannski farin að nálgast niðurlag ræðu minnar. Það eru þó enn nokkuð mörg atriði sem ég gæti haft mörg orð um en ætla að spara mér ákveðna þætti til síðari ræðu minnar. Ég held að ég flytji í fullri lengd kaflann um Framsóknarflokkinn í síðari ræðu minni en mig langar til að geta hér í nokkrum orðum stofnunar sem mér er afar kær og finnst skipta verulegu máli í menningarflóru okkar. Það er Sinfóníuhljómsveit Íslands. Umræða um Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur ekki verið fyrirferðarmikil í þessari umræðu en þó eru fyrirhugaðar breytingar á henni.

Ríkisútvarpið og Sinfóníuhljómsveit Íslands hafa unnið mjög náið saman og mér hefur alltaf þótt það styrkleikamerki að þessar stofnanir séu tengdar með þeim hætti sem þær hafa verið hingað til. Mér hefur alltaf þótt gagn að því fyrir báðar stofnanirnar að tengingin skuli hafa verið svo áþreifanleg sem raun ber vitni og beinlínis skrifuð inn í lög. Ég hef því ævinlega sett mig upp á móti því að sú leið sé farin sem hér er lögð til, að þessi tengsl verði slitin.

Nú höfum við orðið þess áskynja í umfjöllun menntamálanefndar um málefni Sinfóníuhljómsveitarinnar að uppi er álitamál sem ég tel mikilvægt að verði greitt úr og við fáum áður en þessi umræða klárast útskýrt vel af stjórnarliðum sem eru áfram um þessa breytingu. Ég er að tala um þá staðreynd að þeir fjármunir sem hingað til hafa verið reiknaðir sem kostnaður Ríkisútvarpsins við að reka Sinfóníuhljómsveitina eiga nú að koma í gegnum ríkissjóð til Sinfóníuhljómsveitarinnar en stjórnarliðar og hæstv. menntamálaráðherra virðast gera ráð fyrir því að Sinfóníuhljómsveitin fái engu að síður inni í dagskrá Ríkisútvarpsins fyrir alla sína tónleika án þess að Ríkisútvarpið greiði nokkuð þar fyrir.

Nú er ekki ljóst hvort rekstraraðilar Sinfóníuhljómsveitar Íslands, framkvæmdastjóri og stjórn Sinfóníunnar, líti á málið eins og stjórnarmeirihlutinn og hæstv. menntamálaráðherra virðast gera í þessum efnum. Það liggur ekki ljóst fyrir hvort Sinfóníuhljómsveit Íslands sætti sig við það að láta Ríkisútvarpinu ohf. í té fjöldann allan af klukkutímum af vönduðu dagskrárefni í hverjum einasta mánuði án þess að Ríkisútvarpið ohf. þurfi að greiðan nokkurn skapaðan hlut fyrir það. Það er sem sagt gert ráð fyrir því og gengið út frá því í þessum sal af þeim stjórnarliðum sem ætla að samþykkja þetta frumvarp að það verði með þessum hætti, að Ríkisútvarpið ohf. þurfi ekki að greiða neitt fyrir alla sinfóníutónleika sem fara inn í dagskrána. Mér finnst verulega mikill lapsus í þessum málum að við skulum ekki vera komin til botns í þessu álitamáli og ég hefði þess vegna talið nauðsynlegt að hér fengjum við skoðanaskipti um þetta atriði sem ég tel verulega þörf á. Mér finnst líka alvarlegt að Viðskiptaráð Íslands sem oft og tíðum er sammála stjórnarliðum í þessum sal varðandi ýmsa þætti, enda aðhyllist Viðskiptaráð Íslands svipaða stefnu í ýmsum þáttum og Sjálfstæðisflokkurinn gerir, skuli sjá ástæðu til þess þann 28. nóvember sl. að senda menntamálanefnd sérstaka umsögn um frumvarpið sem ætlað er að breyta lögum um Sinfóníuhljómsveit Íslands. Ég taldi áhugavert fyrir þingmenn að fá að heyra umsögn Viðskiptaráðsins því að ég held að hún segi meira en mörg orð um afstöðu sjálfstæðismanna í þessum sal og það sem þeir raunverulega vilja. Ég held nefnilega að sjálfstæðismenn í salnum séu ekki fullkomlega einlægir í þeim breytingum sem hér eru að verða, þ.e. að ríkissjóður eigi að fjármagna Sinfóníuhljómsveit Íslands. Við skulum heyra hvernig Viðskiptaráð Íslands mundi vilja hafa þetta. Í umsögninni segir, með leyfi forseta:

„Í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytis um frumvarpið kemur fram að útgjöld ríkisins muni aukast um 138 milljónir króna, nái það fram að ganga. Í raun er hér því um auknar fjárveitingar til Ríkisútvarpsins um 138 milljónir að ræða. Viðskiptaráð minnir á að Ríkisútvarpið er í samkeppni við einkaaðila um áhorfendur og auglýsendur. Sú samkeppnisstaða er verulega skekkt með framlögum ríkisins auk lögboðnum afnotagjöldum. Viðskiptaráð telur eðlilegt að ríkið hætti rekstri Ríkisútvarpsins. Að minnsta kosti ætti að vera hægt að gera þá lágmarkskröfu að framlög til stofnunarinnar séu ekki aukin. Aukinheldur telur ráðið að fjármunum ríkissjóðs væri betur varið til að lækka skatta eða borga niður skuldir í stað þess að starfrækja Sinfóníuhljómsveit.

Viðskiptaráð leggur því til að frumvarpið nái ekki fram að ganga.“

Viðskiptaráð Íslands lýsir því á afar einarðan hátt í þessari stuttu umsögn að það vilji ekki að hið opinbera starfræki sinfóníuhljómsveit, það vilji ekki að opinberum fjármunum sé varið í það að halda úti hljómsveit sem getur unnið það afrek sem Sinfóníuhljómsveitin okkar vann í október sl. þegar hún flutti á Norrænum músíkdögum í Háskólabíói í fyrsta skipti í fullri lengd Eddu 1, tónverk Jóns Leifs. Það er tónverk og flutningur sem hefur hlotið einróma lof allra gagnrýnenda og fært hróður sveitarinnar á erlendum vettvangi mun víðar en okkur hefði grunað, flutningur sem var svo áhrifamikill að sjaldan hefur annað eins heyrst eða sést í sölum Háskólabíós á tónleikum sveitarinnar.

Hátíðartónleikarnir sem um ræðir þegar Edda 1 var frumflutt mörkuðu að mati tónlistargagnrýnanda Morgunblaðsins, Ríkarðs Ö. Pálssonar, tímamót í tónlistarsögu okkar, hvorki meira né minna, því að „ekki kom hér aðeins fyrir almenningseyru ein stærsta tónsmíð að umfangi sem til þessa hafði verið flutt eftir Íslending lífs eða liðinn, heldur einnig líklega viðamesta verkið sem samið hefur verið við elsta kveðskap Norðurlanda allt frá því er Wagner lauk Niflungahring sínum fyrir 140 árum,“ segir Ríkarður Örn Pálsson í umsögn sinni í Morgunblaðinu 16. október 2006, með leyfi forseta. Enn fremur: „Það var sérkennileg tilfinning að setjast í nærri fullsetnu Háskólabíói til að heyra þetta 67 ára gamla skúffuverk við texta Völuspár og annarra fornkvæða vakna til fyrsta lífs. Ekki síst eftir undangengna níu tónleika með nýjustu framúrstefnuverkum bræðraþjóðanna. Óneitanlega var maður sumpart mótaður af fordómum í garð einfarans sem fyrst fór að verða kunnur utan landsteina nærri 30 árum eftir sinn dag og sem margir hafa kennt við „prímítívisma“ í tóntaki.“ Að lokum segir tónlistargagnrýnandi Morgunblaðsins í umsögn sinni að þrátt fyrir stórkostlega upplifun hafi við háværustu kafla verksins brugðið fyrir svo áhrifamiklum og bráðfallegum stöðum að fáu sé til jafnað. Hann segir að kórinn sem söng í verkinu hafi trúlega farið með glæsilegustu frammistöðu kvöldsins þó að einsöngvararnir hafi staðið sig vel. Hið sama hafi gilt um hljómsveitina sem lék undantekningalítið með glæsilegri norrænni snerpu, fornri undir vandvirkri stjórn og þar fram eftir götum. Flutningur þessa verks var þvílíkur sigur fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands að það er unun að eiga í minningunni þessar tilfinningar og þá upplifun sem tónleikarnir færðu okkur. Það að eiga hljómsveit af því tagi sem Sinfóníuhljómsveitin er orðin núna og af því kalíberi, svo að ég leyfi mér að sletta, er verulegur fjársjóður fyrir íslenska þjóð. Það skiptir okkur verulegu máli að Sinfóníuhljómsveit Íslands haldi áfram að blómstra.

Mín kenning er sú að með því frumvarpi sem hér liggur fyrir sé verið að veikja grunn Sinfóníuhljómsveitarinnar ótæpilega, gera grundvöll hennar ótryggan og háðan pólitískum sveiflum og stefnum og straumum og kannski óæskilegum áhrifum manna á Alþingi sem eru sama sinnis og Viðskiptaráð Íslands, áhrifum manna sem vilja ekki að Sinfóníuhljómsveit sé rekin af opinberu fé. Einkavæðing Ríkisútvarpsins sem hér er lögð til samkvæmt þessu frumvarpi gerir margan usla og m.a. þann að veikja stöðu Sinfóníuhljómsveitar Íslands sem á allt annað skilið frá okkur sem hér störfum á löggjafarsamkundunni, hún á það skilið vegna afreka sinna að við fylkjum okkur að baki henni, stöndum með henni gegnum þykkt og þunnt og tökum metnaðarfulla ákvörðun um að hún fái áfram að blómstra. Það vill þessi stjórnarmeirihluti ekki með þeim breytingum sem hér er verið að gera. Með því að vilja ekki fara almennilega inn í að ræða málefni sveitarinnar fljótum við sofandi að feigðarósi og eins og ég segi hvet ég þá þingmenn sem hér eiga eftir að koma upp í umræðunni að fara nokkrum orðum um Sinfóníuhljómsveit Íslands og nauðsyn þess að hún verði áfram rekin á metnaðarfullan hátt af okkur, af þjóðinni. Til svo mikils sóma hefur hún verið hingað til.

Læt ég þar með fyrri ræðu minni lokið, hæstv. forseti, en leyfi mér að eiga inni síðari ræðu síðar í umræðunni.