133. löggjafarþing — 51. fundur,  15. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[21:59]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Við höfum rætt þetta mál síðan klukkan hálftvö í dag. Ég vildi þess vegna inna hæstv. forseta eftir því hversu lengi hann hygðist halda áfram þessum fundi.

Það er ljóst að þeirri umræðu sem hér er hafin um Ríkisútvarpið ohf. er ekkert að ljúka. Henni mun ekki ljúka á morgun og sennilega ekki dagana þar á eftir. Reyndar hefur ekki verið ráðgast við okkur í Frjálslynda flokknum um það en eftir því sem ég best veit á að hefjast þingfundur í fyrramálið klukkan hálfellefu þar sem áfram verður rætt um þetta mál og búið að ýta ýmsum öðrum störfum til hliðar, t.d. nefndastörfum.

Ég vil inna hæstv. forseta eftir því hvort nú sé ekki prýðilega tímabært að hætta þessum fundi og ganga aftur til verka í fyrramálið, sé það vilji hæstv. forseta Alþingis að hefja fund í fyrramálið um sama mál. Ég held að það standi prýðilega á, hæstv. forseti, eftir ágæta ræðu sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir flutti, að láta staðar numið. Ég tel að það mundi sýna mikla skynsemi hæstv. forseta sem nú situr á ræðustóli ef hann hagaði verkum þannig.

Ég vildi mælast til þess að hæstv. forseti upplýsti okkur um framhald er þessarar umræðu og hvort það sé rétt ályktað hjá mér að þannig verði fundum hagað næstu daga, að hér verði alltaf byrjað klukkan hálfellefu uns umræðu lýkur.

Er líka gert ráð fyrir fundum annað kvöld, hæstv. forseti, og jafnvel kvöldið þar á eftir? Hvernig á að haga þessari umræðu yfirleitt? Ég veit ekki til þess að um það hafi verið gert samkomulag, a.m.k. ekki við okkur í þingflokki Frjálslynda flokksins.