133. löggjafarþing — 51. fundur,  15. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[22:03]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það kom fram á fundi með þingflokksformönnum og forseta Alþingis í morgun að rætt yrði um Ríkisútvarpið fram á kvöldið. Nú er klukkan að ganga ellefu og ég vil taka undir með hv. formanni Frjálslynda flokksins, að eðlilegt væri að ljúka þessari umræðu nú.

Hér hafa verið fluttar málefnalegar, fróðlegar og upplýsandi ræður um efnið. Þótt ekki hafi margir þingmenn tekið til máls hefur margt komið fram sem er íhugunar virði. Ég verð líka að segja að eftir því sem meira kemur fram því augljósara verður hve löng þessi umræða kemur til með að verða. Ég er ekki aðeins að vísa til þess sem fram hefur komið í þingsal. Ég vísa m.a. í það sem fram kemur hjá útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins, Páli Magnússyni, í Morgunblaðsgrein í dag. Þar vegur hann harðlega að þeim aðilum sem hafa blandað sér í þessa umræðu. Hann tekur afstöðu með ríkisstjórninni og hæstv. menntamálaráðherra en vegur ómaklega að öðru fólki sem hefur blandað sér í umræðuna og vogað sér að vera á öndverðum meiði við hann og ríkisstjórnina.

Þetta eru hlutir sem við eigum að sjálfsögðu eftir að taka til rækilegrar umræðu í þinginu áður en frá málinu verður gengið. Ég vil minna hæstv. forseta á að þegar liggja fyrir þinginu nokkrar beiðnir um utandagskrárumræðu. Við í stjórnarandstöðunni viljum frá upplýsingar um hvenær þær umræður koma til með að fara fram. Við viljum einnig fá upplýst hvort til stendur að fara að óskum okkar og kröfum um að á miðvikudag verði fyrirspurnir í þinginu eins og efni standa til. Ég veit ekki hve margar fyrirspurnir liggja fyrir þinginu ósvaraðar en við ætlumst til þess að þær komi fyrir þingið í þessari viku. Þetta viljum við fá upplýst, hæstv. forseti.