133. löggjafarþing — 51. fundur,  15. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[22:05]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það gengur erfiðlega að fá að taka til máls um fundarstjórn forseta en ég þakka hæstv. forseta fyrir að hafa hleypt mér að.

Við viljum fá upplýsingar, þingmenn sem viðstaddir eru þessa umræðu, hversu lengi á að halda fundi áfram. Ég verð að rifja upp fyrir hæstv. forseta, að á fundi með formönnum þingflokka í morgun sagði hæstv. forseti Alþingis, Sólveig Pétursdóttir, að í þessari viku mætti búast við fundum, löngum og ströngum, frá hálfellefu að morgni og kvöldfundum. Við gerðum í sjálfu sér engar athugasemdir við það. En við töldum að þegar liði á dag yrði rætt við formenn þingflokka um þinghaldið, þessa dags og á morgun.

Það liggur ljóst fyrir að hæstv. forseti hefur lýst því yfir við okkur að það verði kvöldfundur í dag. Þess vegna kemur mér nokkuð spánskt fyrir sjónir, í ljósi þess að samkvæmt því sem ég best veit er löngu komið kvöld, að hæstv. forseti sem nú situr í forsetastóli, Birgir Ármannsson, hann hafi lýst því yfir að enn skuli fundi haldið fram um sinn. Ég er viss um það að jafnsnjall forseti og hann hefur einhvern tíma gert reka að því að kanna og grafast fyrir um skilning íslenskrar tungu á orðinu kvöld. Þetta er nefnilega ekki í fyrsta skipti sem viðkomandi hæstv. forseti hefur verið inntur eftir því hvenær sleppi kvöldi og hvenær það hefjist. Er ekki að koma nótt innan tíðar?

Í öllu falli, herra forseti, finnst mér sanngjarnt og eðlilegt af okkur að fara fram á að hæstv. forseti geri okkur grein fyrir því hversu lengi hann hyggst halda fundi fram á kvöld, hvort það er til klukkan hálfellefu eða ellefu eða jafnvel til hálftólf. Ég get nú ekki ímyndað mér að hæstv. forseti geti með nokkru móti rökstutt að kvöldið nái lengra en fram að þeim tíma.

Í annan stað liggur það alveg ljóst fyrir að þingmenn hafa lögvarðan rétt til þess að krefjast þess að rætt verði utan dagskrár um tiltekin mál sem upp hafa komið og þykja brýn til umræðu.

Ég vek eftirtekt á því, eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson gerði áðan, að flokkar stjórnarandstöðunnar hafa lagt fram óskir um að ræða tiltekin mál, m.a. efnahagsmál utan dagskrár. Mér sýndist af viðræðum við hæstv. fjármálaráðherra Árna Mathiesen í sjónvarpinu í kvöld að ekki væri vanþörf á að upplýsa þessa ríkisstjórn um ákveðin grundvallaratriði á því sviði.

En hvenær ætlar hæstv. forseti að hafa fund með formönnum þingflokka til að ræða þessi mál? (Forseti hringir.)