133. löggjafarþing — 51. fundur,  15. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[22:09]
Hlusta

Frsm. minni hluta menntmn. (Mörður Árnason) (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Við lok haustþings tókst samkomulag milli forseta Alþingis og formanna þingflokkanna, eðli málsins samkvæmt einkum formanna þingflokka stjórnarandstöðunnar, um hvernig ætti að ljúka störfum þingsins. Í því samkomulagi var af hálfu stjórnarandstöðunnar fallist á að hún sýndi hófsemi og stytti mál sitt mjög við 2. umr. um málið sem hér er um að ræða, þ.e. frumvarp um Ríkisútvarpið ohf.

Sú umræða stóð að mig minnir aðeins einn dag, nokkuð fram á kvöldið að vísu en ég held að það hafi ekki verið lengur. Kannski var hún einn og hálfan dag, hún stóð a.m.k. ekki lengur. Af hálfu stjórnarandstöðunnar var fullkomlega staðið við samkomulagið af virðingu við forsetann og þingið. Að auki var fallist á að vorþingið hæfist mánudaginn 15. janúar en ekki þriðjudaginn 16. janúar, hvað þá miðvikudaginn 17. janúar, sem hefði verið viðeigandi því það er afmælisdagur Davíðs Oddssonar, fyrrverandi forsætisráðherra. Hefði verið vel við hæfi að hefja fundi þá. (ÖS: Þriðja heimastjórnin.) Punktur, punktur.

Við höfum ekki mótmælt því með nokkrum hætti í dag að fundur hefjist klukkan 13.30 á mánudegi þótt þá sé hefðbundinn þingflokksfundartími á þinginu. Við höfum ekki farið fram á neins konar aðra umræðu í dag, utandagskrárumræðu eða neitt því um líkt. Þessum degi var vissulega lofað. Það þurfti hins vegar að ræða um störf þingsins vegna viðburða sem komu upp og allir menntamálanefndarmenn voru með í og varaformaður nefndarinnar talaði t.d. sérstaklega um. Það þurfti líka að ræða fundarstjórn forseta á eftir varðandi tiltekin mál. Því var eðlilegt að upphaf umræðunnar drægist.

Það sem ég vil spyrja forseta um er: Þegar við ljúkum nú þessum óvenjulega degi, þessum umsamda degi til umræðunnar sem ríkisstjórnarmeirihlutinn vildi nýta til að ræða Ríkisútvarpið, er þá meiningin að þingið fari aftur í sinn hefðbundna gang eða er meiningin að hér verði einhvers konar herlög í gildi? Ríkir einhvers konar neyðarástand á landinu sem kemur í veg fyrir að (Gripið fram í.) mál séu rædd eins og fara gerir á Alþingi Íslendinga?