133. löggjafarþing — 51. fundur,  15. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[22:15]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég hef einu sinni upplifað það í umræðu um þetta frumvarp eða skylt frumvarp að ganga eftir því við hæstv. forseta að fá upplýsingar um hvenær áætlað væri að ljúka þingfundi. Ég hygg að það hafi verið um þetta leyti sem ég hóf að spyrjast fyrir um lok fundarins, fékk aldrei nein svör og á endanum stóðu þingmenn í ræðustól til klukkan að ganga 6 um morguninn.

Ég held að öllum væri greiði gerður með því að fá skýrar upplýsingar frá hæstv. forseta um hvaða áform hann hafi um að ljúka fundinum, hvenær hann hyggist ljúka honum, hvort það er klukkan 11, korter yfir 11, korter gengin í 12. Lengur tel ég ekki ásættanlegt að halda þessum fundi áfram. Ég óska eftir því að hæstv. forseti þingsins upplýsi okkur um það hve lengi hann hyggist halda þessum fundi áfram.

Hann hefur heyrt sjónarmið stjórnarandstöðunnar. Við teljum mál að linni. Við teljum að æskilegt væri að ljúka umræðunni núna. Ef hann hefur önnur áform sem við höfum heyrt að hann hafi, hve lengi hyggst hann halda þessari umræðu áfram?