133. löggjafarþing — 51. fundur,  15. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[22:20]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. forseta fyrir hans ágætu fundarstjórn hér í dag. Þetta hafa verið eftirtektarverðar umræður (Gripið fram í.) sem við höfum fylgst með. Að mörgu leyti er merkilegt að á þessum degi birtist enn forsíðufréttir um efni málsins og nokkurs konar leyniskjöl frá framkvæmdarvaldinu sem ekki hafa verið sýnd hér og gefa auðvitað tilefni til þess að málið sé tekið til gagngerrar umræðu.

Eins og hæstv. forseti veit telur sá sem hér stendur sannarlega hvorki eftir sér að taka þátt í né hlusta á umræður enda málið mikilvægt og sannarlega full ástæða til að ræða það.

Það verður hins vegar ekki fram hjá því litið að það er langt liðið á kvöldið. Eftir því sem forseti hefur upplýst um stendur til að hér hefjist fundur á morgun, eftir liðlega hálfan sólarhring. Í ljósi þess að hér virðist hafa verið lýst yfir einhvers konar herlögum og öll dagskrá þingsins tekin undir þetta mál þangað til því er lokið getur ekki verið nein sú neyð eða brýn nauðsyn til að halda þessum fundi áfram, enda hljóta allir sanngjarnir menn að sjá að það er engan veginn boðlegt að halda mönnum að tilefnislausu við umræður fram að eða fram yfir miðnætti þegar þingfundur á að hefjast aftur þegar að morgni.

Ég hvet þess vegna hæstv. forseta til að binda enda á þessa umræðu að sinni og halda einfaldlega áfram á morgun. Við höfum næga daga fram undan til að fjalla um málið og tæma umræðuna í þinginu. Ekki eru efni til annars en að láta hér staðar numið því að eins og hæstv. forseti veit skilar umræðan kannski ekki nægilega miklu þegar komið er fram á þennan tíma sólarhringsins og ræður hafa tilhneigingu til að dragast mjög á langinn sem er heldur til óþurftar fyrir umræðuna og lítill ávinningur í því að halda mikið áfram.

Ég vil líka beina því til forseta að það er algjörlega óviðunandi ef þessi umræða á að bitna á starfi nefnda þingsins. Ég spyr t.d. hvernig við í virðulegri fjárlaganefnd (Forseti hringir.) eigum …