133. löggjafarþing — 51. fundur,  15. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[22:27]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs til að ræða um fundarstjórn forseta að gefnu tilefni. Hæstv. forseti hefur ítrekað verið spurður hversu lengi standi til að halda þessum „kvöldfundi“ áfram. Það hefur verið stungið upp á tímum eins og kannski til 11. 15 mínútur yfir 11 væri kannski forsvaranlegt en mikið lengra inn í síðkvöldið og nóttina væri ekki skynsamlegt að fara með fundinn.

Það vill svo til, herra forseti, að ég er á mælendaskrá og ætti að fara að koma að mér fljótlega. Ég held að tveir hv. þingmenn séu á undan mér á mælendaskránni. Ég er einmitt að semja ræðu þessa stundina og hún verður alltaf lengri og lengri og ítarlegri eftir því sem ég fæ meiri tíma til að semja.

Ég átta mig stöðugt betur á því að þetta mál er hreinasta vitleysa frá upphafi til enda. Bara það að hér leggur Sjálfstæðisflokkurinn upp með að breyta ríkisútvarpinu okkar í eitthvert sf. sem síðan er breytt í hf. segir sína sögu. Þriðja útgáfan er hið frábæra orð og ending ohf. sem ég vissi sjálfur ekki að væri til fyrr en fyrir nokkrum mánuðum. Það kom reyndar vel í ljós einmitt í jólaleyfinu, þá meitlaðist þetta hugtak, ohf., inn í huga manns því að þegar maður kveikti á útvarpinu var oft verið að fjalla um merkilegt fyrirtæki sem heitir Flugstoðir ohf. (Forseti hringir.)

(Forseti (BÁ): Forseti vekur athygli hv. þingmanns á því að hann tók til máls um fundarstjórn forseta.)

Það er hárrétt og góð athugasemd. Ég ætlaði einmitt að koma að því aftur af því ég á nú 30 sekúndur eftir af dýrmætum ræðutíma að ég óska eftir því, svo hæstv. forseti þurfi ekki stöðugt að sitja undir sömu spurningunni, að hann gefi nú svar við henni: Hversu lengi á að halda áfram inn í nóttina? Það hlýtur að vera hægt. Á öllum venjulegum vinnustöðum er ekki hægt að segja bara: Þú átt að vinna áfram um sinn, heldur er sagt: Við stefnum að því að hætta klukkan 11 eða eitthvað svoleiðis. Það getur auðvitað dregist um nokkrar mínútur en ég vona að það verði ekki mjög mikið, virðulegi forseti.