133. löggjafarþing — 51. fundur,  15. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[22:30]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég hygg að ég hafi rökstutt það ágætlega í fyrri ræðu minni hvers vegna öll rök hníga til þess að láta hér nótt sem nemur. Ég held að engum blandist hugur um að það sé líka praktískt talað skynsamlegt að gera það. Eins held ég að það skipti máli fyrir virðingu þingsins að hér sé hægt að hafa efnismikla og málefnalega umræðu um mál án þess að það kalli á næturfundi eða einhverjar neyðarráðstafanir, heldur haldi menn fundum áfram dag eftir dag og þeirri umræðu sem hér þarf að fara fram án þess að setja á næturfundi.

En ég kom ekki til að ítreka það heldur til að ræða um störf nefnda í vikunni, því að eftir því sem ég heyri virðast störf nefnda eiga að víkja með einhverjum hætti fyrir þessari umræðu. Þannig er til að mynda félagsmálanefnd ekki boðuð saman á venjulegum tíma í þessari viku heldur í hálftíma í hádegishléi á morgun til þess að fara í gegnum stefnumótun í málefnum innflytjenda á 30 mínútum vegna þess að hér á allt að leggjast undir umræðuna um RÚV. Ég geri athugasemdir við það að þó að þessi dagur hafi sérstaklega verið tekinn undir alla umræðuna séu jafnbrýn málefni eins og til að mynda innflytjendamálefni, sem brenna mjög á þjóðinni, látin víkja með öllu fyrir umfjöllun um þetta einstaka mál.

Þá vek ég athygli á því að til stendur að fjárlaganefnd fjalli um þau mál sem komið hafa upp í tengslum við rekstur Byrgisins, bæði fagleg og fjárhagsleg málefni sem þar hafa, því miður að því er virðist, farið á hinn versta veg og mun funda um það mál eftir því sem fregnir herma á fimmtudag. Það getur ekki með nokkru móti gengið að þingfundur hefjist klukkan hálfellefu ef fjárlaganefnd Alþingis á að fara yfir á þeim sama degi jafnalvarlegt og víðtækt mál sem haft hefur jafnskelfilegar afleiðingar og raun ber vitni og hlýtur að kalla á umfjöllun og umræðu um eftirlit með ríkisútgjöldum almennt og yfir höfuð.

Ég treysti því að jafnbrýn málefni í nefndum þingsins verði ekki látin sitja á hakanum fyrir einhvers konar þráhyggju um það að hér þurfi á nóttu sem degi að leggja landið allt undir þetta hugðarefni hæstv. menntamálaráðherra sem er breyting á rekstrarformi Ríkisútvarpsins, sem til allrar guðslukku verður vonandi snúið við þegar hinn 12. maí nk. og varðar því í sjálfu sér litlu.