133. löggjafarþing — 51. fundur,  15. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[22:47]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég er nú vanur að standa vaktir en þær vaktir sem ég hef staðið hafa yfirleitt haft eitthvert skipulag. Þegar hefur þurft á því að halda að taka svefntíma af mönnum þá hefur þeim verið sagt fyrir fram hversu lengi yrði farið fram á að þeir ynnu af frítíma sínum.

Það virðist ekki vera hægt að ná því upp úr hæstv. forseta hvað hann á við því hann talar eins og véfrétt. Halda fram fundi um sinn. Ekki ræna þingmenn svefntíma öllum o.s.frv.

Síðan er okkur ætlað, þeim þingmönnum sem í salnum eru, að ráða í það hvað af orðum forseta megi draga um hvernig þinghaldinu verði fram haldið í kvöld.

Orð hæstv. forseta eru ákaflega teygjanleg, að taka ekki svefntímann allan af þingmönnum. Með góðum vilja væri því haldið fram að svefntími nætur teldist ekki hafa verið rændur allur ef menn gætu hafið svefn klukkan 5 og náð honum svona fram á 7 eða 7.30. Þá þurfa menn að vakna til að aka til vinnu sinnar og mæta t.d. á fund í samgöngunefnd sem er í fyrramálið kl. 8.30, eins og sá sem hér stendur á að gera, og síðan á fund í stjórnarskrárnefnd upp úr kl. 9. Síðan held ég að búið sé að boða sérstakan fund í hádeginu sem ég þarf sennilega að hlaupa inn í líka, um málefni innflytjenda. Ég veit því nokkurn veginn hvernig morgundagurinn lítur út, þ.e. upp úr 7 þegar ég mun vakna.

En mér er það ekki ljóst af svörum hæstv. forseta, hvort hann á við að við munum hætta hér störfum fyrir miðnætti, eftir miðnætti, kl. 3, kl. 4 eða kl. 5.

Hvað merkja orð hæstv. forseta um að hann muni ekki ræna þingmenn nætursvefni öllum? Ég vil fara fram á það, hæstv. forseti, að hér séu orð skýrð þannig út að menn skilji. Það hlýtur að vera algjört lágmark hér í hv. Alþingi að menn skilji skilaboð forseta. Við eigum ekki að þurfa að sitja hér og ráða í þau.

Þannig að ég vænti þess að hæstv. forseti geti svarað því hvað hann á nákvæmlega við um að fundi ljúki hér? Er það kl. 1, 2, 3, 4, eða 5?