133. löggjafarþing — 52. fundur,  16. jan. 2007.

ummæli útvarpsstjóra.

[10:38]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Þakka þér fyrir að hafa gefið mér orðið. Ég átti von á því að menntamálaráðherra yrði hleypt hér að eins og gerist oft með ráðherra og ósjaldan að röðinni er vikið til svo að ráðherrar komist að en nú hefur forseti ákveðið að hafa menntamálaráðherra væntanlega í lokin til að hún geti átt sitt hefðbundna síðasta orð.

Sú spurning sem vaknar auðvitað um þetta mál er hvort Páll Magnússon er heldur í nafni þjóðarinnar yfirmaður dagskrár og fréttaflutnings á Ríkisútvarpinu eða hvort Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra sem enn hefur ekki talað hér — og okkur gefst væntanlega ekki færi á að tala við vegna þess hvernig forseti skipuleggur umræðurnar — hefur ráðið hann sem blaðafulltrúa sinn á Ríkisútvarpið. Það er sérkennilegt með Pál Magnússon að í einkasamræðu og á nefndafundum er hann allur annar en í opinberum málflutningi af þessu tagi. Í Morgunblaðsgreininni, sem hann getur auðvitað skrifað jafnmargar og hann vill, kemur hann fram sem flokksmaður í stjórnarflokkunum, sem blaðafulltrúi, upplýsingafulltrúi fyrir ríkisstjórnina. Þegar rætt er hins vegar við hann einkalega eða á nefndafundi hér um daginn er það allt annað. Þegar hann var spurður þar af hverju hann fylgi þessu hlutafélagi segir hann: Nei, hlutafélagsmálið og rekstrarformsheitið skiptir mig engu máli. Ríkisútvarpið getur heitið, eins og ég rakti hér í gær, Ríkisútvarpið KFUM fyrir mér, mér er alveg sama hvaða skammstöfun er á bak við. Það sem ég vil eru þrír tilteknir efnisþættir, segir Páll, um stjórnarhætti, um skiptingu ábyrgðar og valda og um mannaforráð á Ríkisútvarpinu og ég er honum að mörgu leyti sammála um það.

Hann hefur greinilega fengið stöðu sína í þeim krafti og með því skilyrði að vera blaðafulltrúi Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur þegar á hana hallar og það er sérkennilegt og það er það sem ráðherra þarf að skýra hér út hvort sem forseti vill hjálpa henni til þess eða ekki.