133. löggjafarþing — 52. fundur,  16. jan. 2007.

ummæli útvarpsstjóra.

[10:45]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ríkisútvarpið á að gæta hlutleysis. Ég vil beina þeim spurningum til hæstv. ráðherra, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, hvort hún líti svo á að forstjóri Ríkisútvarpsins gæti þess hlutleysishlutverks sem hann á að sjá um að stofnun hans fari eftir eða er búið að aflétta því að gætt sé hlutleysis af hálfu Ríkisútvarpsins um umfjöllun mála? Er það svo að fréttamenn Ríkisútvarpsins eða þeir sem þar starfa séu þá líka komnir á þann vettvang að geta tjáð skoðanir sínar fram og til baka? Mega þeir gera það á vegum Ríkisútvarpsins eða mega þeir bara gera það í blöðum?

Ég hef hingað til litið svo á, hæstv. forseti, að hlutleysishlutverk Ríkisútvarpsins væri starfsskylda á því fólki sem þar vinnur, ekki síst útvarpsstjóra sjálfum. Þess vegna spyr ég hæstv. menntamálaráðherra hvernig hún líti á þessi skrif, hvort hún telji þetta samræmast hlutleysishlutverki Ríkisútvarpsins sem stofnunar og hvort það sé túlkun hennar, ef svo er, að þetta séu algjörlega eðlileg afskipti, nái þá til allra starfsmanna Ríkisútvarpsins. Eigum við þá von á að fjöldi greina komi frá (Forseti hringir.) starfsmönnum um þetta mál?