133. löggjafarþing — 52. fundur,  16. jan. 2007.

ummæli útvarpsstjóra.

[10:47]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Rétt er að undirstrika að það er ekki einsdæmi varðandi meðferð þingmála að forstöðumenn hinna ýmsu ríkisstofnana hafi skoðanir á þingmálum. (Gripið fram í.) Stundum eru þeir sammála og stundum eru þeir ósammála. Oftar en ekki hefur maður heyrt stjórnarandstöðuna einmitt vitna til orða forstöðumanna ríkisstofnana þegar þeir eru ekki sammála þeim stjórnarfrumvörpum sem fjallað er um hverju sinni.

Ég hef líka lesið og það haft eftir Páli Magnússyni útvarpsstjóra að hann telji það vera skyldu sína að styðja við þau mál sem hann telur að verði Ríkisútvarpinu til framdráttar. Það er skoðun hans að breyting á lagaramma og lagaumgjörð Ríkisútvarpsins í þá veru sem við erum að gera núna og ræða á hinu háa Alþingi sé Ríkisútvarpinu til framdráttar. Ef forstöðumenn ríkisstofnana eiga ekki að starfa samkvæmt samvisku sinni, eftir hverju eiga þeir þá að starfa? (Gripið fram í: Lögum.) Að sjálfsögðu eftir lögum, meðal annars, en líka eftir samvisku sinni. Það er í rauninni alveg makalaust að heyra talsmenn Samfylkingarinnar í þessu máli, hv. þm. Mörð Árnason, saka útvarpsstjóra um að vera blaðafulltrúa ríkisstjórnarinnar af því að útvarpsstjórinn hefur skoðun á málum, skoðun á máli sem er akkúrat á öndverðum meiði við hv. þm. Mörð Árnason. Síðan kemur formaður BSRB, hv. þm. Ögmundur Jónasson, og talar um misnotkun. Heyr á endemi. Þegar forstöðumenn ríkisstofnana koma fram og setja málflutning sinn fram með þeim hætti að þeir telja það þjóna hagsmunum stofnunarinnar, af hverju gagnrýna menn þá það?

Síðan er rétt að draga það fram að í grein útvarpsstjóra, Páls Magnússonar, ræðir hann m.a. Gallup-könnun sem hv. þm. Ögmundur Jónasson er sífellt að agnúast út í. Hann á að vita að það er hluti af almannaþjónustuhlutverki Ríkisútvarpsins að gera skoðanakannanir. Þetta er reglubundin könnun sem er gerð á tveggja ára fresti (Gripið fram í.) og þá er verið að kanna viðhorf (Gripið fram í.) almennings til þjónustu Ríkisútvarpsins. (Gripið fram í.) Í þetta sinn (Forseti hringir.) var kannað viðhorf landsmanna til breytinga á Ríkisútvarpinu og það vill svo til að niðurstaðan er ekki hagfelld hv. þm. Ögmundi Jónassyni því að meiri hluti landsmanna er fylgjandi breytingu á Ríkisútvarpinu í ohf. (Gripið fram í: Nei.)