133. löggjafarþing — 52. fundur,  16. jan. 2007.

Ríkisútvarpið og samkeppnislög.

[10:55]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég verð að gera þá játningu í byrjun að yfirleitt er ég mikill aðdáandi fundarstjórnar þess hæstv. forseta sem nú situr í forsetastóli. Ég hef þráfaldlega leitað atbeina hennar til að geta greitt fyrir umræðu. Ég fékk til að mynda leyfi hjá hæstv. forseta í gær til að ræða um framvindu fundarins þegar ég vakti athygli á því að ég hefði varpað fram fyrirspurn til bæði hæstv. menntamálaráðherra og hv. formanns menntamálanefndar um mjög mikilvæga þætti sem ég tel grundvallarþætti í umræðunni, og varðar samkeppnisþáttinn. Ég varpaði tiltekinni spurningu til hv. formanns menntamálanefndar um samkeppnisþátt og sérstaklega, frú forseti, af hverju ekki væri pósitíft ákvæði í frumvarpinu sem undanþægi þá Ríkisútvarpið ohf. samkeppnislögum. Ég færði rök fyrir því í máli mínu þá, frú forseti, að ég teldi að þetta bryti gegn Evrópureglum og gæti leitt til mikilla vandræða fyrir Ríkisútvarpið í framhaldinu. Ég spurði þess vegna hæstv. ráðherra og síðan formann menntamálanefndar út í þetta.

Hv. formaður menntamálanefndar gaf mér þá það loforð að til að greiða fyrir umræðunni mundi hann koma og halda ræðu um málið. Ég beið eftir henni í allan gærdag og enn er hv. formaður menntamálanefndar ekki kominn á mælendaskrá. Hæstv. menntamálaráðherra hefur heldur ekki tjáð sig um þetta tiltekna atriði sem mér þykir miklu varða. Ég vildi þess vegna benda á, frú forseti, af því að við erum sammála um það, sá sem hér stendur og forsetinn, að mikilvægt sé að draga fram lykilþætti í málinu til að hægt sé að ljúka umræðunni einhvern tímann. Þetta er lykilþáttur og þessari umræðu verður ekki af minni hálfu lokið fyrr en svör hafa fengist um þetta. Sérstaklega er það mikilvægt eftir að í ljós kom í umræðum í gær að hv. formaður menntamálanefndar lýsti því yfir að hann teldi að starfsemi Ríkisútvarpsins, áður en hún verður gerð að opinberu hlutafélagi, brjóti í bága við samkeppnisumræðuumhverfi Evrópuréttarins. Þetta er grundvallaryfirlýsing því að ef það er rétt hjá honum er alveg ljóst að það rekstrarform sem núna er lagt til þverbrýtur það miðað við yfirlýsingu formannsins.

Þess vegna þurfum við að fá þetta fram og ég vek eftirtekt á þessu, forseti, vegna þess að ef hv. formaður menntamálanefndar mundi kveðja sér hljóðs og leggja rök sín á borðið mundi það örugglega flýta umræðunni.