133. löggjafarþing — 52. fundur,  16. jan. 2007.

Ríkisútvarpið og samkeppnislög.

[11:01]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Bara til að hv. þingmaður skilji stöðu þingflokksformanns í Samfylkingunni þá er það svo að hann lítur á sig sem þjón allra þingmanna. Hann er þar af leiðandi undirmaður allra þingmanna og hefur það hlutverk að ná fram hagsmunum þeirra allra og flokksins. Þannig lít ég á og nálgast mitt hlutverk. (Gripið fram í: Hann er auðmjúkur.)

Frú forseti. Ég hef útskrift af ræðum hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar frá í gær. Þar lýsir hann því yfir án nokkurs fyrirvara að hann muni ekki halda eina ræðu heldur tvær um samkeppnisþátt málsins sem er lykilþáttur. Nú er hv. þingmaður að draga í land með þetta. Því geri ég þetta að umræðuefni, frú forseti, að ég færði rök fyrir því í gær í andsvari að ég teldi frumvarpið, verði það samþykkt og Ríkisútvarpið gert að opinberu hlutafélagi, færa stofnunina nær því sem sumir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa kallað gráa svæðið í samkeppnislegu tilliti. Þegar útvarpið er farið að nýta sér ávinning hlutafélagsins verður það líka að sæta þeim stífu takmörkunum sem samkeppnisrétturinn setur bæði á Íslandi en líka í Evrópu. Tvenns konar grundvallarmisskilningur hefur komið fram í skilningi lögfræðingsins, hv. formanns menntamálanefndar, á því með hvaða hætti Ríkisútvarpið tengist Evrópuréttinum og samanburði hans á ýmsum öðrum atvinnugreinum sem ýmist eru undir eða undanþegnar Evrópurétti. Þetta er lykilskilningur á málinu.

Ég beið eftir því að hv. formaður nefndarinnar mundi ræða þetta í framsögu sinni, sem er einhver snautlegasta framsaga sem ég hef heyrt. Hún stóð í fjórar mínútur og er þó hv. þingmaður þekktur að því að geta fjallað af nokkurri þekkingu um lögfræðileg málefni. En þetta vill hann ekki ræða vegna þess að síðar í umræðunni kom í ljós að hann telur að Ríkisútvarpið sé að brjóta samkeppnisreglur núna, hann lýsti því yfir að svo væri. Með þessu frumvarpi herðir hann fremur á því broti í staðinn fyrir að hann ætti að reyna að vinna gegn því. Þess vegna þora hann og hæstv. ráðherra ekki í þessa umræðu, sem er náttúrlega grátlegt, að hv. formaður menntamálanefndar skuli ganga gegn loforðum sínum til stjórnarandstöðunnar um að skýra samkeppnisþáttinn. Það er ekki hægt að draga aðra ályktun en þá að hann geti ekki skýrt það. Hann veit að hann mælir vitandi vits fyrir vondum málstað. Hugsanlega vilja sumir í Sjálfstæðisflokknum hafa þetta svona vegna þess að þetta mun mola undirstöður Ríkisútvarpsins þegar farið verður í dómsmál út af þessu. Hann var búinn að gefa sér niðurstöðuna í gær.

(Forseti (SP): Forseti vill áminna hv. þingmenn um að undir liðnum um fundarstjórn forseta haldi þeir sig við það efni.)