133. löggjafarþing — 52. fundur,  16. jan. 2007.

þinghaldið næstu daga.

[11:11]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það er náttúrlega orðin ákaflega athyglisverð fundarstjórn að hér komi upp maður og ræði um fundarstjórn forseta, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, og bölsótist út í annan þingmann fyrir að hafa óskað eftir að fá svör frá nefndarformanni, þ.e. Sigurði. Hann kveðst tala þegar honum sýnist. Síðan eyðir hann síðari hluta ræðu sinnar um fundarstjórn forseta í að kalla til mann sem er ekki staddur hér, ég veit ekki af hvaða sökum, og heimtar að hann tali þegar Sigurði Kára sýnist. Þetta er allt saman um fundarstjórn forseta.

Ég veit ekki nema yfirmenn þessa manns í þingflokki Sjálfstæðisflokksins, sem hefur pýramídaskipulag þannig að varaformaðurinn ræður mestu og væntanlega forseti þingsins næstmestu, eigi að taka þennan þingmann, beygja á honum bakið og kannski veita honum bara refsingu fyrir að haga sér svona á þinginu.

Ég kom hingað til að ræða fundarstjórn forseta. Ég var nú í salnum í allan gærdag og tók ekki á móti pósti en mér barst í gær bréf frá Einari Farestveit, sem er forstöðumaður á nefndasviði, eins og forseti veit. Það er fjölpóstur til þingmanna:

„Vegna tilhögunar þingfunda í þessari viku verða fundir fastanefnda ekki með hefðbundnu sniði. Fastir fundartímar nefnda gilda ekki og nefndarfundir verða haldnir eftir þörfum og boðaðir sérstaklega. Formenn nefnda skipuleggja fundi og fundartíma í samráði við nefndarritara. Með kveðju, Einar.“

Nú geri ég ráð fyrir því að Einar tali í nafni yfirmanns síns, sem er forseti þingsins vegna þess að Einar Farestveit, sem er góður maður og gegn, ræður auðvitað ekki fundartímum nefnda eða skipuleggur nefndarfundi í þessari viku eða öðrum. Hann upplýsir að til sé — það er kannski merkilegast við bréfið — að til sé eitthvað sem heitir tilhögun þingfunda í þessari viku. „Vegna tilhögunar þingfunda í þessari viku“, segir í bréfinu. Þess vegna óska ég eftir því að forseti, sá sem kjörinn er, upplýsi það sem varaforsetar hér á forsetastóli í gær gátu ekki upplýst, hver er tilhögun þingfunda í þessari viku.

Hver er ástæðan fyrir því að forseti hefur sett eins konar herlög á þingið fyrstu vikuna á árinu 2007? Vikan á að fara öll í að ræða þetta einstaka mál. Það verða ekki nefndarfundir og virðist ekki eiga að leyfa utandagskrárumræðu. Fyrirspurnafundur á miðvikudaginn er í uppnámi þó að fyrirspurnir bíði, ekki einungis frá því þingi var lokið í desember heldur margar fyrirspurnir frá því rúmum mánuði frá fyrir þann tíma. (Forseti hringir.) Ég óska eftir því, forseti, að gerð verði grein fyrir því sem greinilega er til, tilhögun þingfunda í þessari viku.