133. löggjafarþing — 52. fundur,  16. jan. 2007.

þinghaldið næstu daga.

[11:25]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Hér er eitthvað málum blandið, bæði í því sem hæstv. forseti segir og því sem hv. þingflokksformaður sjálfstæðismanna segir í ræðustóli. Samkomulagið sem gert var við stjórnarandstöðuflokkana fyrir áramót hljóðaði upp á það að Ríkisútvarpið yrði fyrsta og eina málið á dagskrá í þessari þingviku og við mundum búa til rými á mánudeginum sem ekki var gert ráð fyrir í starfsáætluninni að yrði vinnudagur þingsins. Það var ekkert í samkomulaginu um það að allir þingfundir ættu að byrja kl. hálfellefu. Það var ekkert í samkomulaginu um það að fyrirspurnafundur á miðvikudegi skyldi rjúka út í veður og vind. Það var ekkert í samkomulaginu um það að nefndastarf yrði sett í uppnám og nefndafundum frestað.

Ég vil að hér séu hlutirnir rétt eftir hafðir og ég spyr hæstv. forseta: Er þetta misskilningur í mér? Ég kom sjálf að þessu samkomulagi. (ArnbS: Fyrirspurnir eru þingmál.) Fyrirspurnir eru þingmál, kallar hv. þingflokksformaður sjálfstæðismanna fram í. Í mínum huga eru fyrirspurnirnar ekki þingmál. Það er bara ákveðinn dagur í starfsáætlun þingsins sem er alltaf ætlaður undir fyrirspurnir og mér hefði fundist eðlilegt að við tækjum það þá fram ef gert hefði verið ráð fyrir því í samkomulaginu að sá dagur fyki og það yrði rætt um Ríkisútvarpið á miðvikudeginum.

Í öllu falli var ekki innifalið í samkomulaginu að nefndarfundir lægju niðri. Það var ekki innifalið í samkomulaginu að unnið yrði til miðnættis eða fram á nætur alla þessa daga. Það var ekki innifalið að byrjað yrði kl. hálfellefu hvern einasta dag. Ég vil að hæstv. forseti staðfesti þetta sem ég hef nú sagt.