133. löggjafarþing — 52. fundur,  16. jan. 2007.

þinghaldið næstu daga.

[11:27]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hér er vísað í samkomulag sem gert hafi verið fyrir jól, í desember þegar við gerðum hlé á þinghaldinu. Ég kom að þessu samkomulagi beint. Það snerist um það að fresta 3. umr. um Ríkisútvarpið (Gripið fram í: Fram yfir áramót.) fram yfir áramót. Það snerist um það að við mundum greiða fyrir þingstörfum varðandi önnur þingmál sem þá lágu fyrir þinginu. Við féllumst auk þess á að þingið kæmi saman degi fyrr en til hafði staðið. Lengra náði þetta samkomulag ekki. Við heyrðum hins vegar þann ásetning ríkisstjórnarinnar að reyna að afgreiða frumvarpið um Ríkisútvarpið hið allra fyrsta. Gera menn sér ekki grein fyrir því að við viljum þetta frumvarp út af borðinu? Ímynda menn sér að við höfum samið um að klára málið? Hvers konar rugl er þetta? Ég lýsti því yfir þá í ræðustól og í fjölmiðlum að nú vaknaði sú von í brjósti að þessi ómynd yrði aldrei að landslögum. Þetta var öllum ljóst og við gerðum ekkert samkomulag um aðra þætti. Við heyrðum þann ásetning ríkisstjórnarinnar, hæstv. menntamálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra, að málinu yrði lokið á fáeinum dögum. Við hlustuðum á þann ásetning. Við sömdum um ekkert í þeim efnum. Það er staðreynd og ég neita því að slíkt sé borið upp á okkur því að það er rangt, það var ekki svo. Við féllumst á þá þætti sem ég þegar hef nefnt og ekkert annað.

Varðandi samráð og samstarf við þingflokksformenn hefur það verið ágætt við hæstv. forseta þingsins. Hins vegar þurfum við að gæta okkar á því að gefa ekki orðum rangt innihald þegar talað er um samráð um það sem nú er að gerast. Við höfum hlýtt á boðskap hæstv. forseta og vilja ríkisstjórnar landsins og stjórnarmeirihlutans. Við höfum haft við það að athuga að hér yrðu ekki fyrirspurnir á morgun. Við höfum óskað eftir því að fram fari utandagskrárumræður þessa viku og við stöndum fast á þeirri ósk að svo verði gert. Ég hef nú þegar sett fram þá ósk að hlé verði gert á þessum þingfundi og að við komum saman til að ræða nákvæmlega þessi efni, fyrirspurnatímann á morgun og utandagskrárumræður á komandi dögum.