133. löggjafarþing — 52. fundur,  16. jan. 2007.

þinghaldið næstu daga.

[11:30]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Áðan var úr forsetastóli rætt um samkomulag. Því miður var forseti ekki viðstödd umræður í gær þegar einnig var rætt um þetta samkomulag. Þá var varaforseti hér Birgir Ármannsson og tjáði sig sem betur fer ekki mikið um þetta samkomulag.

Eins og mér var sagt frá þessu og ég skildi það opinberlega og frá mínum þingflokksformanni var samkomulagið þannig að þingflokksformenn stjórnarandstöðunnar féllust á það góðfúslega að þingið hæfist einum degi fyrr en áætlað var á starfsáætlun þeirri sem forseti Alþingis dreifði í haust. Mönnum skildist að forseti ætlaði sér að nýta þennan eina dag, mánudaginn í gær, 15. janúar, til að taka á dagskrá frumvarp menntamálaráðherra um Ríkisútvarpið ohf. og hefja 3. umr. Á það var fallist og látið gott heita. Það þýddi auðvitað að í gær var hafin umræða kl. 13.30 á hefðbundnum þingflokksfundatíma á mánudegi og haldið áfram í gær án þess að nokkrir aðrir liðir þvældust fyrir. Venjulega er það þannig, forseti, til upplýsingar að á mánudögum er ekki hafist handa við þingfundi kl. 13.30, heldur eru þingflokksfundir þá og síðan hefst þingið annan hvern mánudag á því að ráðherrar svara óundirbúnum fyrirspurnum. Ekkert samkomulag var mér vitanlega, og það staðfestist í orðum síðasta hv. ræðumanns, Ögmundar Jónassonar, gert um það að þingið væri sett í einhvers konar neyðarástand, uppi væru höfð einhvers konar herlög í staðinn fyrir venjulega dagskrá samkvæmt þingsköpum.

Allra fráleitast er það ef forseti ætlar sér að sleppa á morgun fyrirspurnatíma sem er góður og gildur liður í dagskrá þingsins og getur einmitt m.a. hjálpað til við að skýra mál sem eru á dagskrá. Þannig er t.d. háttað að ég sendi inn í fyrra, ég hygg að það hafi verið í október, tvær mjög mikilvægar fyrirspurnir sem varða efni þjónustusamningsdraganna sem við erum að tala um í þessari umræðu. Önnur er um skilgreininguna á innlendu efni og hin um skilgreininguna á sjálfstæðum framleiðanda. Ég hef fengið svar við annarri þessara fyrirspurna en ekki við hinni. Ég gerði það af ásettu ráði í gær í framsöguræðu minni sem talsmaður minni hluta menntamálanefndar að láta þetta eiga sig vegna þess að ég bjóst við að þessari fyrirspurn yrði svarað (Forseti hringir.) og þess vegna gæfist tækifæri til að tala um hana síðar í umræðunni. Ég vonast til þess að forseti sjái til þess að sú fyrirspurn komist á dagskrá og henni verði svarað (Forseti hringir.) því að það mundi einmitt hjálpa til við að greiða úr því máli sem hér er til umræðu.