133. löggjafarþing — 52. fundur,  16. jan. 2007.

þinghaldið næstu daga.

[11:37]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég kem í ræðustól, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, til að hvetja menn til að greiða fyrir þingstörfum (ÖS: Ég ætla að gera það.) og minna á það samkomulag sem gert var fyrir áramótin um að við mundum taka fyrir þetta frumvarp. Ég vil bara staðfesta að í mínum huga er ekki nokkur vafi um þann ásetning hv. þm. Ögmundar Jónassonar að koma frumvarpinu út af borðinu eins og hann orðar það. Ég leyfi mér að efast um að nokkrum einasta manni dyljist að þarna er mjög harður ásetningur og við megum búast við því að hann hagi þingstörfum sínum með þeim hætti að gera sitt besta til þess að svo megi verða. Við velkjumst ekki í neinum vafa.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson tekur það fram að hann hafi heyrt af þeim ásetningi að við mundum ætla að ræða þetta mál. Það þýðir, a.m.k. í mínum huga, að hann vissi af þessum ásetningi, hann vissi hvernig við ætluðum að haga störfunum og að hér stæði þá til að klára þetta þingmál. Það var ásetningur okkar og að mínu viti það sem þetta samkomulag innihélt. Það að taka ekki fyrir önnur þingmál þýðir líka að fyrirspurnir sem eru þingmál yrðu þá ekki á dagskrá fyrr en þessu máli væri lokið. Ég tel að hér sé fullkomlega eðlilega að málum staðið og að við eigum að halda okkur við það að einbeita okkur að þessu merka máli, draga fram öll góð sjónarmið þannig að allt sé rætt í þaula hvað varðar þetta merka frumvarp og eigum að halda okkur við það vinnulag þangað til því er lokið.

Svo er rétt að benda á að menn hafa auðvitað lagt mikið á sig hér eins og hv. þm. Hlynur Hallsson tók fram, hér var fundað í menntamálanefnd þannig að þar voru líka dregin fram öll þau hugsanlegu sjónarmið sem hægt er að draga fram í einu máli. Hér hefur verið mjög vel að verki staðið af hálfu allra þeirra þingmanna sem að þessu máli hafa komið. Eins og ég segi, ég hvet okkur til að halda áfram með málefnalega umræðu um málið.