133. löggjafarþing — 52. fundur,  16. jan. 2007.

þinghaldið næstu daga.

[11:40]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka forseta fyrir þau svör sem ég fékk áðan við ræðu minni og fyrirspurnum. Það verður þó að segjast að ég var ekki fyllilega sáttur við öll þau svör því að mér fannst á skorta nokkuð um upplýsingar en ég ætlast ekki til þess af virðulegum forseta að önnur tilraun verði gerð til svara, ég vil aðeins hvetja forseta til að halda fund með þingflokksformönnum hið fyrsta því að mér sýnist hafa bæst í ástæður þess að svo verði gert. Í fyrsta lagi er eiginlega ekki viðeigandi að í þingsal séu hv. þingflokksformenn að ræða saman um hvað þeir telji að hafi verið í samkomulaginu sem gert var fyrir jól. Ég held að það sé eðlilegt að virðulegur forseti kalli þingflokksformenn saman og fari yfir það þannig að reynt verði að samræma út á hvað þetta samkomulag gekk þannig að við í þingflokkunum getum síðan fengið um það upplýsingar frá þingflokksformönnum okkar. Það væri þá ekkert vafamál ef eitthvað þyrfti að rifja upp hvað þarna fór fram. Það er augljóst mál að það eru eitthvað mismunandi skoðanir á því milli nokkurra hv. þingflokksformanna.

Það er annað sem virðulegur forseti sagði einnig sem ég tel eðlilegt að reynt verði að útskýra. Ég ætlast svo sem ekki til að virðulegur forseti geri það af forsetastóli en ég held að þarft væri að það yrði gert á slíkum fundi með þingflokksformönnum, þ.e. orðalagið „eðlilegt samráð“. Ég taldi eðlilegt samráð ekki hafa átt sér stað milli forseta og þingflokksformanna varðandi þinghaldið. Það má skilja það orðalag á mismunandi hátt en ég tel það ekki eðlilegt samráð þegar samráðið felur það eingöngu í sér að virðulegur forseti gefi tilkynningar um það hver fyrirætlun virðulegs forseta sé varðandi þinghaldið en það sé raunverulega engin umræða og ekki komið til móts við þingflokksformenn um hvaða fyrirkomulag er á því haft. Ég hefði haldið að eðlilegt samráð væri þannig að menn reyndu að ná sameiginlegri niðurstöðu. Valdið er hins vegar forsetans ef ekki tekst að úrskurða um hvað skuli gera. Miðað við upplýsingar mínar hefur ekki verið reynt til þrautar að reyna að ná einhverju samkomulagi um a.m.k. rammann á þinghaldinu, heldur virðist þetta vera í tilskipunarstíl sem ég held að sé ekki vænlegur til árangurs.

Ég vil í fullri vinsemd, virðulegi forseti, hvetja til þess að forseti kalli þingflokksformenn til fundar og geri ítrekaða tilraun til að ná utan um málið, bæði það samkomulag sem gert var fyrir áramótin þannig að allir hafi á því sama skilning og reynt verði að fara yfir þinghaldið næstu daga og reynt að ná samkomulagi um t.d. utandagskrárumræður og fyrirspurnatíma þannig að við þurfum ekki að hafa margar senur hér undir fundarstjórn forseta um þessi sömu mál.