133. löggjafarþing — 52. fundur,  16. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[13:33]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (frh.):

Virðulegi forseti. Ég var kominn í seinni hlutann í ræðu minni í þetta fimmta skipti sem við fjöllum um Ríkisútvarpið í umræðum í þinginu á þessu kjörtímabili. Ég hef farið um víðan völl og síðast fór ég nokkuð yfir það af hverju og hvað varð til þess að sá hemill sem var að finna gagnvart hlutafélagavæðingunni í Framsóknarflokknum brast. Ég fór yfir nokkrar ályktanir frá bæði ungum og eldri framsóknarmönnum og af sjálfu flokksþinginu 2003 þar sem því var hafnað afdráttarlaust að Ríkisútvarpið yrði gert að hlutafélagi og sjálfseignarstofnun væri það sem breyta ætti því í. Til dæmis hvetur Samband ungra framsóknarmanna þingmenn sína í ályktun í byrjun desember 2006 til að samþykkja ekki fyrirliggjandi frumvarp en leggja þess í stað fyrir menntamálaráðherra að hefja undirbúning að því að breyta útvarpinu í sjálfseignarstofnun sem hafi að fyrirmynd hið breska BBC.

Það er hægt að geta sér til um að það sé nokkuð almenn sátt í þjóðfélaginu um þá leið að breyta RÚV í sjálfseignarstofnun. Ég hugsa að hin almenna skoðun sé sú að ríkið eigi að halda úti ljósvakamiðlun í formi útvarps og sjónvarps þótt, eins og ég sagði í upphafi máls míns fyrr í morgun, að það sé aldrei sjálfgefið að ríkið haldi úti eða standi í fjölmiðlastarfsemi. Það er ekkert sjálfgefið að ríkið haldi úti útvarpi og sjónvarpi frekar en dagblaði og tímaritum. Var mikið gantast með þá hugmynd hér fyrir næstum 20 árum þegar þáverandi þingmaður Alþýðubandalagsins, Guðrún Helgadóttir, stakk upp á því að ríkið færi að reka dagblað. Það þótti fáránleg hugmynd og fráleit.

Ég held að það séu brýnar pólitískar ástæður fyrir því að hið opinbera haldi úti fjölmiðli. Þess vegna er það viðtekið um alla Evrópu að ríkisvaldið haldi úti fjölmiðli. Þróunin hefur verið í átt til þess, held ég og vona að svo sé sem víðast, sem er að finna hjá þeim fjölmiðli sem gnæfir yfir fjölmiðla heimsins, BBC, að umfang þess miðils á auglýsingamarkaði er mjög takmarkað. Um reksturinn er mikil sátt meðal Breta og það er engin umræða í landinu um að breyta því í einhvers konar hlutafélag eða selja það. Þó eru Bretar býsna róttækir að mörgu leyti í því að fara ótroðnar slóðir í almannaþjónustu hvers konar hvað varðar eignarhald og rekstrarform en það hefur aldrei hvarflað að þeim að hrófla við BBC. Ég held að það sé mjög víðtæk og almenn sátt um það á Íslandi að fara sömu leið, að þorri þjóðarinnar vilji að ríkisvaldið og hið opinbera haldi úti öflugum almannamiðli sem standi undir kröfum og væntingum um lýðræðislegt og menningarlegt hlutverk og samfélagslegt hlutverk almannamiðilsins, hann eigi ekki að selja, hann eigi að hafa afmörkuð verkefni og afmarkað svigrúm á auglýsingamarkaði þannig að einkarekin fjölmiðlun á ljósvakamarkaði fái þrifist og ráðrúm til að þrífast.

Í umræðunni um þessa miðla hefur oft gætt svolítið undarlegrar andúðar eða fjandskapar í garð einkareknu ljósvakamiðlanna sem er algjörlega fráleitt. Þetta eru í sjálfu sér gífurlega mikilvægir fjölmiðlar ekki síður en Ríkisútvarpið sjálft eða blöðin og það besta sem gerist í annarri fjölmiðlun. Frá því að Stöð 2 og Bylgjan fóru í loftið fyrir 20 árum hafa þessir fjölmiðlar markað mjög jákvæð spor í sögu Íslendinga. Þeir miðla léttu dægur- og skemmtiefni sem léttir fólki lífið og gerir það skemmtilegra. Þeir búa líka til margs konar vandað og gott og fjölbreytt fjölmiðlaefni. Þeir hafa framleitt mikið af leiknu efni, mikið magn af samræðu- og samfélagsefni, eins og Ísland í dag, Silfur Egils, 19:19, 19:20 og slíkir þættir og aðdragandinn allur. Þetta eru allt skemmtilegir og merkilegir þættir og fjölmiðlun ekkert síður en hin ríkisrekna.

Þess vegna er svo mikilvægt að gæta að hinu viðkvæma samspili ríkisreksturs og einkareksturs á fjölmiðlamarkaði. Ég og við í Samfylkingunni viljum halda úti ríkisreknum almannamiðli á ljósvakanum. Hann þarf hins vegar að hafa skýrt afmarkað umboð og það þarf að frelsa hann frá pólitísku kverkataki stjórnarmeirihlutans hverju sinni. Það þarf að gæta hófs og sanngirni gagnvart einkareknu fjölmiðlunum á markaði, gefa þeim andrými og svigrúm til að hægt sé að reka þá o.s.frv. Þetta legg ég mikla áherslu á og hef gert í öllum umræðunum um RÚV, stigvaxandi þó, sérstaklega fyrir áramótin þegar ég taldi mig sjá glytta í það hjá formanni menntamálanefndar, hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni, og fleirum úr stjórnarliðinu að það kæmi til greina að fara einhverja slíka leið og gera þannig þetta hörmulega frumvarp aðeins skárra. Sú leið var ekki farin, það var enginn raunverulegur pólitískur vilji til þess hvað í ósköpunum veldur því og hvað í ósköpunum hæstv. menntamálaráðherra gengur til með þessu frumvarpi, einhverju klaufalegasta og misheppnaðasta stjórnarfrumvarpi þessa kjörtímabils a.m.k. ef frá eru talin fjölmiðlalögin hin fyrstu. Þau voru þó keyrð til enda. Hér er stanslaust verið að hopa og hörfa og alltaf versnar málið. Ráðherrann er sakaður um og uppvís að því að leyna tilvist upplýsinga o.s.frv., o.s.frv.

Eftir að hafa fært fyrir því mjög ítarleg efnisleg rök höfum við lagt fram rökstudda frávísunartillögu við þetta mál og ætla ég að stikla aðeins á henni, með leyfi forseta:

„Í ljósi þess sem að framan greinir eiga fulltrúar minni hlutans ekki annars úrkosti en að flytja eftirfarandi tillögu:“ — Við fluttum þessa tillögu við 2. umr.

„Þar sem

a. fram hafa komið veigamiklar athugasemdir um að sams konar frumvarp um Ríkisútvarpið og fjölmiðlafrumvarpið kunni að brjóta í bága við stjórnarskrá,

b. vafi leikur á um hvort ákvæði frumvarpsins stenst reglur Evrópuréttar,

c. ekki er ljóst í frumvarpinu með hvaða hætti Ríkisútvarpið á að sinna hlutverki sínu sem almannaútvarp og hver eiga að vera skil milli starfssviðs þess og annarra útvarpsstöðva,

d. með ákvæðum um tekjur af auglýsingum og kostun er gert ráð fyrir að Ríkisútvarpið verði áfram á auglýsinga- og kostunarmarkaði án þess að ljóst sé um sérstakt hlutverk þess umfram aðrar stöðvar,

e. tillögur frumvarpsins um kjör stjórnar og ráðningu útvarpsstjóra eru ekki til þess fallnar að hefja fagleg sjónarmið til vegs og virðingar og losa Ríkisútvarpið undan flokkspólitískum ítökum,

f. ekki er í frumvarpinu gert ráð fyrir eftirlitsráði, t.d. í formi „akademíu“ með tilnefningum frá almannasamtökum, samanber m.a. leiðbeiningar Evrópuráðsins um verkaskiptingu stjórnar annars vegar og eftirlitsráðs hins vegar,

g. óvíst er hvernig háttað verður um innlent efni í dagskrá Ríkisútvarpsins til frambúðar,

h. ákvæði í frumvarpinu um „a.m.k. eina hljóðvarps- og sjónvarpsdagskrá“ virðist ætlað að auðvelda afnám Rásar 2,

i. ekki hefur í frumvarpinu eða í tengslum við það verið gengið með fullnægjandi hætti frá réttindamálum núverandi starfsmanna og óljóst er um starfskjör og samningamál í framtíðinni,

j. nefskattur, sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu, er ekki heppileg leið til fjármögnunar, byggist á árlegri ákvörðun þingmeirihluta og felur í sér mismunun milli gjaldenda,

k. við blasir að frumvarpið ylli, ef það verður að lögum, málaferlum bæði hérlendis og á EES-vettvangi,

l. og hvorki menntamálaráðherra né meiri hluti menntamálanefndar hafa reynt að ná samstöðu um framtíð Ríkisútvarpsins, sem er einhver helsta lýðræðis- og menningarstofnun í íslensku samfélagi, leggur minni hlutinn til að frumvarpinu verði vísað frá.“

Er þetta nokkuð tæmandi yfirlit yfir helstu ágallana á þessu máli um Ríkisútvarpið sem menntamálaráðherra kemur með inn í þingið einu sinni enn. Pólitísk ítök eru því áfram og þau eru hert ef eitthvað er. Umfangið á auglýsingamarkaði er ekki er takmarkað. Hlutverk hins nýja almannamiðils er í rauninni ekki skilgreint upp á nýtt, það er mjög almennt, og versta hugsanlega leiðin er valin til fjármögnunar sem er nefskattur, sem ég er viss um að á eftir að valda miklum deilum um útvarpið. Hann veldur því líka að það er erfiðara að gæta jöfnuðar gagnvart gjaldendum, einstök heimili munu borga himinhá gjöld til Ríkisútvarpsins. Ég er viss um að þegar nefskatturinn kemur til framkvæmda á hann eftir að ala á ófriði um Ríkisútvarpið, auka á ósættið um það og valda margvíslegum skaða. Ég er mjög ósáttur við að sú leið sé farin.

Meginatriðið í okkar máli er að stjórnarandstaðan náði samstöðu og hefur stillt saman strengi sína í þessu máli, sem er mjög jákvætt. Stjórnarandstaðan hefur lagt fram raunhæfa og sanngjarna sáttaleið út úr þessum pólitísku ógöngum sem hæstv. menntamálaráðherra hefur ratað í vegna hinnar óútskýrðu þráhyggju að gera eigi Ríkisútvarpið að hlutafélagi. Sú þráhyggja verður vart útskýrð með öðru en að það sé fyrsta skrefið í átt að einkavæðingu og sölu.

Við teljum að með frumvarpi þessu sé ekki skapaður sá starfsrammi sem hæfir Ríkisútvarpinu til frambúðar. Þar með næst ekki sá starfsfriður sem Ríkisútvarpinu er nauðsynlegur. Það er líklegt að frumvarpið leiði til meiri deilna en áður um stöðu útvarpsins á fjölmiðlavettvangi og jafnvel til málaferla út af samkeppnismálum, bæði heima og erlendis. Ríkisútvarpinu er stefnt í ófrið og átök í stað þess að skapa sátt og samstöðu um nýjan almannamiðil inn í framtíðina. Með því að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag teljum við að stigið sé varhugavert skref sem í sambærilegum tilvikum hefur oftast leitt til sölu viðkomandi stofnunar og fyrirtækis. Sporin hræða og af því að engin rök hafa verið lögð fram fyrir þráhyggjunni í hæstv. menntamálaráðherra út af hlutafélagavæðingunni þá hlýtur eitthvað slíkt að liggja að baki. Sé litið til hins pólitíska baklands Sjálfstæðisflokksins þá er viljinn til einkavæðingar og sölu þar ríkur og raddirnar háværar.

Stjórnarhættir þeir sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu eru einn versti ágallinn á frumvarpinu fyrir utan rekstrarformið. Þar er gert ráð fyrir pólitísku kverkataki sem Sjálfstæðisflokkurinn hyggst herða að Ríkisútvarpinu. Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki sleppt. Stjórnarhættirnir opna leið til áframhaldandi pólitískra ítaka og inngripa. Um það erum við algjörlega sannfærð og það er leitt. En það sem skiptir mestu máli er að losa Ríkisútvarpið eins og kostur er undan pólitískum hæl meiri hlutans hverju sinni, það er gert með því að kjósa ekki alla stjórnina árlega. Það er gert með því að starfsmenn Ríkisútvarpsins eigi fulltrúa í stjórninni þannig að ríkisstjórnarmeirihluti hverju sinni sé ekki í stjórninni og Alþingi geti ekki árlega hreinsað út óþægu stjórnarmennina o.s.frv. Það er hægt að gera með margvíslegum hætti.

Við höfum einnig lagt mikla áherslu á að réttindi starfsmanna Ríkisútvarpsins eru samkvæmt frumvarpinu í uppnámi. Það er ekki sennilegt að nefskatturinn, sem ætlunin er að taka upp í staðinn fyrir afnotagjöldin, efli samstöðu meðal almennings um Ríkisútvarpið heldur tefli því til ófriðar. Það er afleit birtingarmynd ríkisrekins almannaútvarps gagnvart fólkinu að ósanngjörnum og háum nefskatti, sem endalaust verður deilt um, sé komið á. Það þarf að finna leiðir friðar og sáttar um Ríkisútvarpið. Það er miklu nær, ef það þarf að afnema afnotagjöldin, að skoða það að setja útvarpið á fjárlög. Þá yrði gerður samningur til tíu ára í senn þannig að meiri hlutinn hverju sinni geti ekki alltaf verið að hræra í framlaginu til þess. Það eru margar aðrar leiðir færar, einkum ef dagskrárframboð dregur áfram dám af kröfum auglýsenda og kostenda á svipaðan hátt og hjá markaðsstöðvunum.

Ríkisútvarpið þarf að skilja sig betur frá markaðsstöðvunum að okkar mati. Við viljum efla sérstöðu almannaútvarpsins. Hún er að mörgu leyti til staðar en ef eitthvað er þarf inn í framtíðina, ég held að það sé pólitísk sátt um það líka í Sjálfstæðisflokknum, þ.e. hjá þeim sem ekki slást fyrir því að selja eigi útvarpið.

Ég hef einnig bent á að hann sé nánast rannsóknarefni, hinn dæmalausi hringlandaháttur Framsóknarflokksins í þessu máli öllu. Framsóknarflokkurinn hefur haft fimm skoðanir á Ríkisútvarpinu, eina í hvert sinn sem málið er tekið til umræðu. Sú fyrsta var sú að þeir hrósuðu sér af því að hafa beygt Sjálfstæðisflokkinn í duftið, Ríkisútvarpið yrði aldrei gert að hlutafélagi heldur hefði stefna framsóknar gengið fram og ef eitthvað er mundi því lykta þannig að RÚV yrði gert að sjálfseignarstofnun. Þá tóku þátt í umræðunni frammámenn úr Framsóknarflokki en nú heyrist ekki orð frá þeim. Meira að segja Guðjón Ólafur Jónsson er horfinn úr þingsal. Hann hefur þó ekki hingað til flúið örvadrífuna heldur hefur hann mætt henni og tekið þátt í umræðunni með ýmsum hætti. En í þessu fólki hefur því miður ekkert heyrst. Eins og ég upplýsti hér þá er kveðið á um það í landsfundarsamþykkt Framsóknarflokksins frá 2003, skýrt og afdráttarlaust, að Ríkisútvarpið skuli gert að sjálfseignarstofnun og ekki komi til greina að það verði gert að hlutafélagi. Mörg félög ungra framsóknarmanna hafa, nú síðast í desember, lýst því mjög harkalega yfir og skorað á þingmenn Framsóknar að verða við því að koma í veg fyrir að hlutafélagavæðing Ríkisútvarpsins eigi sér stað. Þau telja að standa eigi vörð um Ríkisútvarpið og breyta því í sjálfseignarstofnun.

Meira ætla ég ekki að taka fyrir í þessari fyrri ræðu minni við 3. umr. en ég harma að hæstv. menntamálaráðherra hafi ekki séð þann kost vænstan að fresta þessu máli, taka í útrétta sáttarhönd stjórnarandstöðunnar og gera nauðsynlegar breytingar sem gera þarf á stjórnarfyrirkomulagi Ríkisútvarpsins, leggja af útvarpsráð, einfalda strúktúrinn, ná saman um slíkar breytingar og láta rekstrarformið í friði. Það mætti taka upp eftir kosningar, í það minnsta ætti að fresta gildistökuákvæði hinna nýju laga fram yfir kosningar en hafa gildistökuna ekki 1. apríl á þessu ári, fimm til sex vikum fyrir kosningarnar 12. maí. Það er andlýðræðislegt. Ég harma það, virðulegi forseti, að hæstv. menntamálaráðherra ætli að ganga svo glannalega fram.