133. löggjafarþing — 52. fundur,  16. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[15:31]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Þá er komið að enn einni umræðunni um Ríkisútvarpið ohf. Við höfum rætt þetta mál nokkrum sinnum áður og ég vildi leggja nokkur orð í belg þó þau verði kannski svipuð og áður hafa fallið hér enda gerir meiri hluti menntamálanefndar ekki miklar breytingartillögur við frumvarpið núna milli 2. og 3. umr. Mér þykir þó mikilvægt að halda stutta ræðu til að koma sjónarmiðum á framfæri og eiga þá kost á skoðanaskiptum við þá sem þess óska.

Eins og við vitum verður Ríkisútvarpið ohf. ríkishlutafélag í almannaeigu. Það er skýrt að félagið verður ekki selt og því verður ekki skipt upp. Í frumvarpinu er skerpt á hlutverkum Ríkisútvarpsins, bæði með ítarlegum ákvæðum í frumvarpinu og í drögum að þjónustusamningi sem fylgir frumvarpinu. Stjórnskipan er tilgreind og það er þingkjörin stjórn sem ræður og, ef til þess kemur, rekur útvarpsstjóra en pólitískt skipuð stjórn mun ekki geta haft afskipti af dagskrárgerð.

Miklar breytingar hafa orðið á efni frumvarpsins frá því að það var fyrst lagt fram á Alþingi fyrir tæpum tveimur árum. Unnið hefur verið að lagfæringum á efni þess í hv. menntamálanefnd Alþingis og einnig af hálfu menntamálaráðuneytis. Núgildandi lög um Ríkisútvarpið eru að stofni til frá árinu 1986. Miklar breytingar hafa orðið á fjölmiðlamarkaði síðan þá. Óeining um breytingar á starfsemi Ríkisútvarpsins hefur hamlað eðlilegri þróun innan þess og er nú svo komið að óvissa um framtíðarskipan hefur haft lamandi áhrif á rekstur. Þess má geta að innan menntamálanefndar töluðu allir nefndarmenn um að gera þyrfti breytingar á Ríkisútvarpinu. Þess vegna er afar brýnt að marka starfseminni skýra lagaumgjörð og veita Ríkisútvarpinu tækifæri til að takast á við gjörbreytt umhverfi.

Framsóknarflokkurinn hefur ávallt lagt áherslu á að hér á landi verði rekinn öflugur ríkisfjölmiðill þar sem meðal annars verði tryggð fjölbreytni og skoðanafrelsi og að hann standi öllum landsmönnum til boða. Með breytingum á lögum um Ríkisútvarpið er verið að festa almannaútvarp í sessi og tekin af öll tvímæli um að ekki skuli einkavæða reksturinn. Einnig verður sjálfstæði Ríkisútvarpsins eflt.

Þau atriði sem framsóknarmenn hafa staðið vörð um eru fyrst og fremst þau að Ríkisútvarpið er ekki til sölu, hlutverk þess verði tryggt, réttindi starfsmanna tryggð og að Ríkisútvarpið fái alla möguleika til að eflast enn frekar á fjölmiðlamarkaði. Við skulum vera minnug þess að framsóknarmenn fóru ekki af fullum krafti af stað í þessa vinnu fyrr en fyrir lá skýr vilji samstarfsflokksins í ríkisstjórn um að Ríkisútvarpið verði áfram almannaeign og fái ramma til að verða öflugt almannaþjónustuútvarp.

Virðulegi forseti. Mönnum hefur verið tíðrætt um mörg atriði er snerta þetta frumvarp og mig langar til að koma inn á nokkur hér. Í fyrsta lagi langar mig að koma stutt inn á nefskattinn en hv. stjórnarandstæðingar hafa talað um að hann sé ósanngjarn og of hár. Sumir hafa lýst því yfir, eins og hv. þm. Björgvin Sigurðsson, að frekar eigi að setja Ríkisútvarpið á fjárlög. Þetta er mjög vandmeðfarið. Við viljum skapa sátt um Ríkisútvarpið. Um það eru allir sammála. Afnotagjöldin hafa verið mjög gagnrýnd og ég tek undir þá gagnrýni. Það hefur í raun verið nokkuð fáránlegt að fylgjast með aðgerðum afnotadeildar, hvernig fólk hefur verið elt uppi og hvernig sumir hafa verið á kafi í feluleik.

Ég er hlynnt nefskatti og um hann hefur verið rætt í mörg ár sem leið til að taka við af afnotagjöldum. Ég held og það er mín skoðun að það mundi ekki skapast sátt um aukin framlög á fjárlögum og það er ekki gott fyrir RÚV að verða slíkt bitbein. Ríkisútvarpið gæti þá ekki gert framtíðaráætlanir vegna þess að fjárlögin eru breytileg milli ára en sveiflur í nefskatti vonandi ekkert miklar. Eins og ég sagði áðan eru um þetta skiptar skoðanir og því miður held ég að við munum ekki ná saman um þetta atriði.

Í öðru lagi, virðulegi forseti, eru það réttindamálin, þ.e. réttindi starfsmanna. Við höfum mikið rætt þann þátt eðlilega. Við teljum að þau séu tryggð. Menn tala um að það sé ekki rétt vegna þess að samningar taki við eftir tvö ár og þá falli ýmislegt í burtu og það er hárrétt. En við getum ekki bundið hendur manna fram yfir samninga. Okkur greinir á um þetta en mér finnst mikilvægt og það sem mikilvægt er er að tryggja réttindi starfsmanna í gegnum þessa formbreytingu sem mun liggja fyrir og síðan treysti ég því að stéttarfélög sem og stjórnendur Ríkisútvarpsins ohf. vinni vel úr því. Við gefum hér veganestið og fordæmið er komið. (Gripið fram í: Hver á að ...?)

Í þriðja lagi er það sú einkennilega fullyrðing stjórnarandstöðu að til standi að selja Ríkisútvarpið. Ég mótmæli þessu harðlega. Það stendur skýrt í frumvarpinu að Ríkisútvarpið sé ekki til sölu. Enginn pólitískur vilji er til þess að selja Ríkisútvarpið. (ÖS: Framsóknar...) Mönnum hefur verið tíðrætt um stefnu Framsóknarflokksins, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, í þessu máli. Það er ánægjulegt að menn sýni Framsóknarflokknum svo mikla athygli og kynni sér ályktanir og sögu hans vel. Hins vegar dugar ekki að tína til gamlar flokksþingssamþykktir sem hafa fallið úr gildi þegar nýjar hafa tekið við. Það er þannig hjá flokkum og ekki síst hjá elsta stjórnmálaflokki landsins að við þróumst í takt við nýja tíma. (Gripið fram í.) Til að hressa upp á minni ýmissa hv. stjórnarandstæðinga, þó ég hafi gert það ítrekað hér, þá ætla ég að lesa upp stefnu Framsóknarflokksins í þessu máli, með leyfi forseta:

„Mikilvægt er að Ríkisútvarpið verði áfram í þjóðareigu og sjálfstæði þess eflt. Hraða ber endurskoðun laga um Ríkisútvarpið þar sem m.a. stjórnskipulag stofnunarinnar verður endurskilgreint og mið tekið af nýju fjölmiðlaumhverfi. Skoðaðar verði mismunandi leiðir til að standa undir rekstrarkostnaði.“

Hér segir að taka verði tillit til nýs fjölmiðlaumhverfis og það erum við að gera. Vegna þess hve umhverfið hefur breyst hefur myndast sátt um að ríkið eigi að eiga og reka ríkisútvarp. Umhverfið hefur nefnilega breyst síðan við fjölluðum hér fyrst um Ríkisútvarpið. Nú berast margar tilkynningar um ný dagblöð og tímarit og fleiri fjölmiðla og ljóst er að mikil gróska er á markaðnum.

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins koma inn á samkeppnismálin. Þau hafa eðlilega verið fyrirferðarmikil í umfjöllun okkar. Við 2. umr. gerðum við í meiri hluta hv. menntamálanefndar þær breytingar að setja þak á kostun og tókum fyrir það að RÚV gæti auglýst á netinu. Þetta eru atriði sem samkeppnisaðilar gerðu athugasemdir við. Þeir gerðu reyndar athugasemdir við fleiri atriði sem ekki var tekið tillit til.

Menn hafa deilt um hvort þessi leið standist samkeppnislög. Fulltrúar Samkeppnisstofnunar komu sínum sjónarmiðum á framfæri. Þeir komu því einnig á framfæri að löggjafarvaldið, sem er hér, eigi síðasta orðið og að sérlög gangi lengra en almenn lög. Alþingi getur vikið samkeppnislögum til hliðar. Þetta er alveg skýrt í mínum huga og ekki síst vegna þess að bara sú ákvörðun að hafa ríkisútvarp felur í sér mismunun. Við viljum hafa hér almannaþjónustuútvarp og vitum að til þess þarf atbeina ríkisins. Ég býst fastlega við því að Samkeppniseftirlitið muni að sjálfsögðu fylgjast með þróuninni og koma með athugasemdir og benda á vankanta ef það sér ástæðu til og vona ég að þá verði brugðist við því.

Ég tek undir skoðanir formanns menntamálanefndar, hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar um að við séum á þurru landi varðandi samkeppnismálin og þegar menn tala um Evrópureglur og aðgreiningu almannaþjónustuhlutans og afþreyingar- eða samkeppnishlutans þá eru þeir að túlka reglurnar til hins ýtrasta og meira en gerist í framkvæmd í Evrópu. Til að mynda hefur ESA ekki gert einar athugasemdir við BBC þar sem afþreying er hluti af almannaþjónustu og er á dagskrá hjá okkur eins og kemur skýrt fram í þjónustusamningi.

Það er aðallega tvennt varðandi samkeppnismálin sem eitthvað var óljóst í og hefur verið varpað ljósi á það. Það er í fyrsta lagi að RÚV mun ekki vera í samkeppni við önnur fyrirtæki um hringitóna og þess háttar starfsemi. Vefur RÚV verður einungis upplýsingavefur. Einnig er það atriði sem kom fram í ESA-gögnunum frægu sem varðar það hvernig Ríkisútvarpið og ríkið bregðast við ef ný þjónusta kemur upp sem ekki er kveðið á um í þjónustusamningi. Það gæti verið annaðhvort ríkið sem biður um breytingu á samningnum eða RÚV sjálft. Þá færi af stað ferli þar sem þessi þjónusta yrði auglýst og boðið að þetta standi til gagnvart samkeppnisaðilum. Ef þeir vilja þessa þjónustu þá taka þeir hana að sér en annars bætist hún við þjónustusamning. Þarna er tryggt að Ríkisútvarpið tekur ekki upp ýmis ný atriði án þess að leitað verði til samkeppnisaðila. Þetta tel ég mjög af hinu góða og samkvæmt upplýsingum hefur ESA sætt sig við þessar upplýsingar og hefur ekki fleiri athugasemdir fram að færa.

Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til að koma inn á fleiri atriði. Það er ekkert óeðlilegt að svona stórt mál taki svo mörgum breytingum. Ég vonast til þess að við klárum þetta mál enda er það ekki stofnuninni til framdráttar að vera í óvissu og svona miklum deilum lengi.