133. löggjafarþing — 52. fundur,  16. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[15:50]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hlutur Framsóknarflokksins í öllu þessu máli er dapurlegur, vægast sagt. Framsóknarflokkurinn hefur haft ákveðna stefnu í málefnum Ríkisútvarpsins sem búið er að kasta fyrir róða og maður heyrir það á gamalgrónum framsóknarmönnum sem hafa tjáð sig um þessi mál að þeir eru sárgramir yfir þessari framgöngu þingmanna Framsóknarflokksins í málinu. Hv. þingmaður hefur ofurtrú á 1. gr. frumvarpsins um að Ríkisútvarpið verði ekki selt, en ég vil fá að spyrja hv. þingmann: Hvernig lítur hún á ummæli Ástráðs Haraldssonar hæstaréttarlögmanns sem heldur því fram fullum fetum og staðfestir þar með sjónarmið stjórnarandstöðunnar að hér sé um einkavæðingu að ræða, enda sé verið að flytja Ríkisútvarpið alfarið úr umhverfi opinbers réttar inn í umhverfi sem er einkaréttarlegs eðlis. Hér eru framsóknarmenn því að einkavæða Ríkisútvarpið. Hvað segir hv. varaformaður menntamálanefndar við kjósendur sína, sér til varnar í þeim efnum.