133. löggjafarþing — 52. fundur,  16. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[15:54]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagði áðan að ég hefði ekki kynnt mér vel grein Ástráðs Haraldssonar hæstaréttarlögmanns en mig minnir að skjal eftir hann hafi verið fylgiskjal með nefndaráliti stjórnarandstöðunnar við 2. umr. (KolH: Grein.) Grein, já, og það er sérkennileg tilviljun þá að það skuli birtast sem ný frétt á forsíðu Fréttablaðsins daginn sem við förum að ræða málefni Ríkisútvarpsins á hinu háa Alþingi. En það getur vel verið og við vitum það líka þegar svo stór mál eru uppi að skoðanir lögmanna eru oft mismunandi og mismunandi túlkanir þannig að ég læt honum eftir sína skoðun en ég er ekki sammála henni, að þetta verði til þess að brjóta niður undirstöður Ríkisútvarpsins.

Varðandi réttindi starfsmannanna þá sagði ég að við gætum ekki bundið hendur Ríkisútvarpsins fram yfir næstu kjarasamninga.