133. löggjafarþing — 52. fundur,  16. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[15:57]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta voru margar spurningar á einni mínútu hjá hv. þingmanni. Ég sagði í framsögu minni að réttindi starfsmanna væru tryggð í gegnum þessa breytingu og ekki væri hægt að tryggja réttindin fram yfir samninga. Við vitum ekkert hvað þessir samningar munu fela í sér. Vonandi munu þeir fela enn þá betri tíð fyrir starfsfólk Ríkisútvarpsins, ég hef alla vega trú á því og vona það svo innilega, enda hafa fulltrúar stéttarfélaganna verið hér með skörulega framkomu.

Varðandi ESA og varðandi framhald Ríkisútvarpsins er það í minnisblaði frá menntamálaráðuneytinu sem við fengum, að þeir eru alls ekki sammála því að samkeppnisþátturinn muni ekki standast fyrir Evrópuréttinum. Ég er sammála þeim og fór yfir það í máli mínu áðan og það hefur komið fram hjá hæstv. menntamálaráðherra að ESA hefur núna, þegar þeir hafa farið yfir öll gögn í málinu, ekki frekari athugasemdir við málið.