133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

svör við fyrirspurnum, þingstörfin fram undan o.fl.

[10:32]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Þannig háttar til að á þskj. 327 lagði ég fram fyrirspurn til forsætisráðherra um stuðning við smá og meðalstór fyrirtæki. Fyrirspurnin var svohljóðandi:

Hvenær er þess að vænta að ríkisstjórnin leggi fyrir Alþingi framkvæmdaáætlun um aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri í smáum og meðalstórum fyrirtækjum, sbr. ályktun Alþingis frá 16. mars 2004?

Forsaga málsins er sú að þann dag samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu um aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri í smáum og meðalstórum fyrirtækjum sem flutt var af þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Í síðasta málslið tillögunnar segir að framkvæmdaáætlunin skuli lögð fyrir Alþingi til staðfestingar haustið 2005 og þinginu síðan gerð grein fyrir framvindu mála með skýrslu á tveggja ára fresti. Alþingi lýsti þarna sem sagt ótvíræðum vilja sínum til þess að framkvæmdarvaldið ynni slíka framkvæmdaáætlun, legði hana fyrir þingið þar sem fjallað yrði um hana og hún staðfest og síðan yrði málinu fylgt eftir með greinargerð á tveggja ára fresti.

Þegar leið á haustið 2005 og fram eftir vetri 2006 og ekkert bólaði á þessari skýrslu fór ég að grennslast fyrir um hvar málið væri statt og kom í ljós að það hafði lent í nokkrum töfum. Þegar enn bólaði ekkert á því í haust, ári seinna en til stóð, lagði ég fram þessa fyrirspurn. Það var síðan nokkrum dögum fyrir jól, ef ég veit rétt, sem hér birtist sú skýrsla sem forsætisráðherra hefur nú lagt fram um aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri í smáum og meðalstórum fyrirtækjum.

Skýrslan er, þótt ágæt sé svo langt sem hún nær, á engan hátt sú framkvæmdaáætlun um aðgerðir á þessu sviði sem Alþingi hafði falið framkvæmdarvaldinu að gera. Það er því að mínu mati óhjákvæmilegt að taka málið hér til umræðu og fá skýringar á því frá ríkisstjórn af hverju vilji Alþingis er ekki virtur í ríkari mæli en raun ber vitni og af hverju það hefur dregist í meira en ár að leggja þetta fyrir þingið og þá skuli það vera jafnveiklað og raun ber vitni. Ég óska því eftir því, herra forseti, að málið komi til umræðu, helst í formi greinargerðar frá forsætisráðherra, ellegar í formi utandagskrárumræðu (Forseti hringir.) sem ég mundi þá biðja um en afturkalla hins vegar (Forseti hringir.) fyrirspurn mína á þskj. 327 þar sem segja má að efni hennar sé úr gildi fallið.

(Forseti (BÁ): Þessari athugasemd hv. þingmanns verður komið á framfæri og tekið til athugunar hvernig við henni verði brugðist.)