133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

svör við fyrirspurnum, þingstörfin fram undan o.fl.

[10:35]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon beinir athygli þingsins hér að því að vilji þess er ekki virtur. Ég vil, herra forseti, beina athygli þingmanna að því að lög þingsins eru ekki virt heldur. Hér er allt á tjá og tundri út af þrákelkni ríkisstjórnarinnar við að þrýsta í gegn þessu ólukkufrumvarpi um Ríkisútvarpið. Gott og vel. Við gerðum um það samkomulag í lok þings fyrir jól að þetta mál yrði tekið á dagskrá og að önnur hefðbundin þingmál yrðu ekki sett á dagskrá. Það var ekki skilningur okkar í stjórnarandstöðunni að hér fengist ekki tóm til að svara fyrirspurnum með eðlilegum hætti. Látum það nú vera.

Hitt er alveg ljóst að við þingmenn höfum lögbundinn rétt til að krefjast umræðna utan dagskrár um brýn mál sem upp koma. Við þingmenn Samfylkingarinnar höfum nú dögum saman krafist þess að fá að ræða málefni Byrgisins utan dagskrár á Alþingi Íslendinga. Það hefur ekki enn komið fram af hálfu forseta þingsins hvenær sú umræða á að fara fram. Það liggur alveg ljóst fyrir að við höfum lögbundinn rétt til að krefjast umræðunnar. Við höfum hins vegar ekki fyrr en í morgun fengið formlegar samræður við forseta þingsins um þennan rétt okkar eða um það hvort og hvenær umræðan á að fara fram. Það liggur alveg ljóst fyrir að misfarið hefur verið með fjármuni hins opinbera í tengslum við Byrgið og hver ráðherrann á fætur öðrum skýtur sér undan ábyrgð. Það vekur eftirtekt í fjölmiðlum að allir ráðherrarnir eru á hlaupum undan ábyrgð varðandi Byrgið og enginn vill gangast við henni. Er eitthvað óeðlilegt að þingmenn óski eftir því að fá að ræða þetta sérkennilega mál utan dagskrár og fá skýr svör (Forseti hringir.) við því frá forseta hvenær það eigi að gera? (Forseti hringir.) En það er ekki hægt því að hér er allt á tjá og tundri út af (Forseti hringir.) þessu vitlausa máli ríkisstjórnarinnar um (Forseti hringir.) Ríkisútvarpið.