133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

svör við fyrirspurnum, þingstörfin fram undan o.fl.

[10:39]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég ætla að ræða störf þingsins og gagnrýna það hvernig reglur eru ekki virtar í þinginu hvað varðar vinnubrögð. Þar ætla ég að vekja athygli á fyrirspurnum og svörum frá ráðherra við fyrirspurnum sem þingmenn hafa lagt fram. Á annan tug fyrirspurna bara frá mér liggur fyrir og hefur ekki verið svarað. Elstu fyrirspurnirnar eru að verða fjögurra mánaða gamlar, voru lagðar fram í byrjun október þegar þing kom saman. Ráðherrar hafa viku til að svara munnlegum fyrirspurnum og 10 daga til að svara skriflegum fyrirspurnum. Ég nefni það dæmi að í byrjun október spurði ég um málefni barna- og unglingageðdeildarinnar, það eru rúmir þrír mánuðir síðan, og hafa nú málefni barna- og unglingageðdeildarinnar heldur betur verið rædd í fjölmiðlum. Hins vegar hefur ekki fengist svar við þeim fyrirspurnum sem ég lagði fram í byrjun október og átti að svara viku síðar.

Hið sama snýr að þjónustu- og hjúkrunarheimilum. Það er líka fyrirspurn frá því í október, þriggja mánaða gömul. Og síðan búsetumál geðfatlaðra sem ráðherrar hafa barið sér á brjóst fyrir að hafa komið í ágætislag. Svo er reyndar ekki eftir því sem ég veit best. Það er þriggja mánaða gömul fyrirspurn sem átti að svara í byrjun nóvember miðað við reglur þingsins og ekkert heyrist frá ráðherranum. Ég vil vekja athygli á því hvernig ástandið er. Hér er mörgum tuga fyrirspurna ósvarað, að ég tali ekki um utandagskrárumræður og önnur brýn mál sem væri full ástæða til að taka hér fyrir þegar þing kemur saman að loknu jólahléi. (Gripið fram í.)