133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

svör við fyrirspurnum, þingstörfin fram undan o.fl.

[10:45]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir að það er dapurlegt að fylgjast með þeirri upplausn sem Sjálfstæðisflokkurinn er að tefla störfum Alþingis inn í núna. Þegar innan við 30 starfsdagar eru eftir af fundatíma Alþingis þar til þing verður rofið þann 15. mars næstkomandi er Sjálfstæðisflokkurinn með hæstv. menntamálaráðherra í fararbroddi að tefla störfum þingsins í upplausn út af þráhyggju hæstv. ráðherra um að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið (Gripið fram í.) út af einhverri misheppnuðustu málafylgju seinni ára á Alþingi, sem er ríkisútvarpsmálið. Mál sem hefur hrakist inn og út úr þinginu aftur og aftur og er nú að koma út úr nefnd í fimmta sinn, allt út af þráhyggju eins ráðherra við að stíga skref í átt að einkavæðingu Ríkisútvarpsins. (Gripið fram í: Hvort var það ríkisvæðing eða einkavæðing?) Það er bókstaflega hörmulegt að fylgjast með því og ekki síst hvernig (Gripið fram í: Úllen, dúllen …) Framsóknarflokkurinn lætur Sjálfstæðisflokkinn (Gripið fram í.) teyma sig inn í þessa niðurlægingu einu sinni enn, flokkurinn sem samþykkti það á landsfundi árið 2003 að það kæmi ekki til greina að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið, sjálfseignarstofnun skyldi það vera. (Gripið fram í.) Hún er nákvæmlega sú að breyta Ríkisútvarpinu í sjálfseignarstofnun. (Gripið fram í: Er það ríkisvæðing eða einkavæðing?) Þannig er Sjálfstæðisflokkurinn með Framsóknarflokkinn eins og viljalausan hund í bandi að koma í veg fyrir eðlileg störf Alþingis, eins og að ræða brýn mál eins og málefni Byrgisins, málefni þjóðlendunefndarinnar, sem ég hef óskað eftir að ræða hér utan dagskrár, og fjöldamörg önnur mál sem meira að segja hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson gæti tekið þátt í þó að hann hafi flúið út úr þingsölum í gær þegar ræða átti málefni Ríkisútvarpsins og ítrekað var kallað eftir skoðunum (Forseti hringir.) Framsóknarflokksins í þeirri umræðu.