133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

svör við fyrirspurnum, þingstörfin fram undan o.fl.

[10:50]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Í gær var spurt úr þessum ræðustóli hverju það sætti að það giltu eins konar herlög á Alþingi Íslendinga í fyrstu starfsviku þingsins 2007. Forsetavaldinu er beitt af talsverðri hörku og ég vil meina af óbilgirni. Eitt er það að stjórnarandstaðan taki þeim tökum á því máli sem nú er til umfjöllunar þar sem við höfum beitt okkur með því eina vopni sem við höfum þegar við reynum að leiða stjórnarliðum fyrir sjónir hvaða vitleysu stefnt er í með einkavæðingu einnar merkustu menningarstofnunar þjóðarinnar. Hitt er svo annað með hvaða hætti forseti Alþingis kýs að stjórna þessari lýðræðislega kjörnu löggjafarsamkundu í gengum þann brimskafl. Það er ekki nokkur bragur á því með hvaða hætti verið er að gera það hér og nú. Það er auðvitað opinbert allri þjóðinni hvílík óbilgirni ríkir hér í stjórn þingsins. Við erum ekki að kveinka okkur undan því að ræða hér málefnalega í löngu máli erfitt mál sem miklar deilur eru um og eðlilegt er að taki mikinn tíma og eðlilegt er að sett sé í forgang. Það höfum við gert og það var ekki erfitt að fá okkur til að samþykkja það fyrir áramótin en það er erfitt að fá stjórnarandstöðuna til að samþykkja það að leggja öll sín réttindi önnur til hliðar á meðan.

Ég á sjálf verulega áríðandi fyrirspurn og aðkallandi inni í pípunum hjá ráðherra, hjá hæstv. menntamálaráðherra, sem varðar það mál sem við erum að ræða hér, Ríkisútvarpið, fjárhagsstöðu þess um síðustu áramót. Ég lagði hana fram fyrir meira en mánuði síðan. Hæstv. ráðherra á að hafa tíu virka daga til að svara henni, það hefur hún ekki gert. Og ég spyr: Er það vegna þess að málefnið er Ríkisútvarpið og upplýsingarnar sem ég á von á að fá í gegnum hæstv. ráðherra þoli ekki dagsljósið inn í þá umræðu sem nú stendur?