133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

svör við fyrirspurnum, þingstörfin fram undan o.fl.

[10:52]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er hægt að taka undir ýmsar þær athugasemdir sem hér hafa verið færðar fram um störf þingsins. Ég tel það þó ekki eftir mér og hef ekki annað en ánægju af því að eiga hér fundi marga og langa og umræður góðar um málefni Ríkisútvarpsins. Það er út af fyrir sig fullkomlega þess virði en öllu eru þó takmörk sett. Og vegna þess að hæstv. forseti vísaði til þess að fjárlaganefnd fundaði á morgun um það málefni sem hér var nefnt, málefni Byrgisins og grafalvarlegar ásakanir um misnotkun á opinberu fé og skort á eftirliti af hálfu ríkissjóðs og þeirra aðila sem eiga að gæta hagsmuna hans, vil ég spyrja hæstv. forseta um það sem ég hef áður spurt um, að fundur fjárlaganefndar er settur um það efni klukkan hálfníu í fyrramálið og mér er mjög til efs að nefndin geti lokið umfjöllun sinni um svo viðamikið efni og svo mikilvæga rannsókn áður en þingfundur á að hefjast klukkan hálfellefu. Ég vil þess vegna spyrja hæstv. forseta hvort fjárlaganefnd verði veitt það svigrúm að funda á morgun og fara yfir þau alvarlegu mál sem uppi eru í tengslum við Byrgið og þá vanrækslu á eftirliti með starfsemi þess, sem sannarlega hefur verið, og ljúka sinni umfjöllun þar um eða hvort ætlunin sé að fresta fundi fjárlaganefndar og setja hér á þingfund vegna þess að umfjöllun um jafnbrýnt og aðkallandi mál eins og málefni Byrgisins verði að fresta fyrir þessari þráhyggju um Ríkisútvarpið og ohf-væðingu þess.

Ég verð að segja að þó að ég sé tilbúinn til að ræða það málefni dag eftir dag og kvöld eftir kvöld í þinginu (Forseti hringir.) þá þætti mér það allt of langt gengið og nauðsynlegt að fjárlaganefnd fái tækifæri (Forseti hringir.) til þess að hafa fullnægjandi umfjöllun um jafngrafalvarlegt mál og hér um ræðir.