133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

beiðni um utandagskrárumræðu o.fl.

[11:02]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ein lítil leiðrétting sem nauðsynlegt er að fram komi. Það er ósatt að um það hafi verið gert samkomulag að frumvarp um hlutafélagsvæðingu Ríkisútvarpsins skuli gert að lögum núna, að við höfum gert samkomulag um að ljúka því máli, það er ósatt. (Gripið fram í: Hvað með ... ?) Það er ósatt. Okkur var kunnugur ásetningur ríkisstjórnarinnar þar að lútandi. Rétt skal vera rétt. (Gripið fram í.) Við vitum það og vissum þá að ríkisstjórnin hafði bitið það í sig að ljúka þessu máli eins fljótt og unnt væri. Við vissum það. Við vissum líka að það væri ásetningur ríkisstjórnarinnar, og við gengum ekki að því gruflandi, að hafa þetta mál aleitt á dagskrá. Okkur var ekki kunnugt um að öðrum málum og hefðbundnum liðum í starfi þingsins yrði vikið til hliðar. Þar vísa ég til fyrirspurna. Í dag er fyrirspurnadagur samkvæmt hefð og venju á Alþingi og hefði verið eðlilegt að við hefðum haldið okkur við það. Við gengum út frá því að þessa daga yrðu utandagskrárumræður á Alþingi. Menn höfðu reiknað með því. Menn þekktu hins vegar þann ásetning ríkisstjórnarinnar að keyra frumvarpið um Ríkisútvarpið áfram. En hvers vegna í ósköpunum ættu menn sem vilja þetta frumvarp út af borðinu, að það verði ekki að lögum, að semja um þessa lagasetningu? Það er fráleitt enda kom það fram bæði á þinginu, (Menntmrh.: Er það lýðræði?) opinberlega af minni hálfu — ég er bara að gera grein fyrir því hvað er rétt í þessu máli — að nú vaknaði sú von í brjósti að sú ómynd sem þetta frumvarp er yrði aldrei að landslögum. Þetta er bara sannleikurinn í málinu, hv. formaður menntamálanefndar. Það hefur ekki verið gert neitt samkomulag um að ljúka þessu máli.

Hins vegar hefur komið fram, og ég bið menn um að taka eftir því, í máli hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur að hér hefur verið beðið um upplýsingar um fjárhagsstöðu Ríkisútvarpsins. Það var gert í desembermánuði og samkvæmt þingskapalögum eins og hún gat réttilega um á að svara slíkum fyrirspurnum innan 10 daga. Það hefur ekki verið gert. Þessar upplýsingar snúa að því máli sem við erum að ræða nú og þar finnst mér komin upp málefnaleg staða til að íhuga hvort ekki sé rétt að fresta þessari umræðu þar til farið hefur verið að lögum hvað þetta snertir og þessar upplýsingar (Forseti hringir.) færðar inn í umræðuna.