133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

beiðni um utandagskrárumræðu o.fl.

[11:08]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Herra forseti. Hér eru greinilega mjög deildar meiningar um eitthvert samkomulag sem gert var fyrir jól. Í mínum huga er þetta samkomulag mjög auðskiljanlegt. Hv. þm. Ögmundur Jónasson sem var á þeim fundi og tók þátt í samkomulaginu hefur skýrt mjög vel út hvað það fól í sér, að hefja þing einum degi fyrr eftir jólahlé og að fyrsta mál á dagskrá yrði (Gripið fram í.) einkavæðingartilraun Sjálfstæðisflokksins á Ríkisútvarpinu, mál sem liggur svo þungt, herra forseti, á hjarta hæstv. menntamálaráðherra að það er bara orðið sorglegt. Það er orðið sorglegt hvernig það mál er að fara með jafnágætan þingmann og ráðherra og menntamálaráðherra er. Það var í raun og veru sorglegt líka að verða vitni að því í Kastljósinu í gær hvernig hæstv. menntamálaráðherra missti sig gersamlega. Það eru ekki bara frammíköll hér í þinginu, heldur er eins og að hér sé á ferðinni eitthvert grundvallarprinsippmál fyrir hæstv. menntamálaráðherra. Það er auðvitað mjög skrýtið og sérstakt rannsóknarverkefni að skoða af hverju þetta mál liggur svona á sálinni á Sjálfstæðisflokknum.

Ég fer fram á það, herra forseti, í allri auðmýkt að forseti útskýri fyrir þingheimi dagskrána, þó að það væri ekki nema hvernig dagskráin á að líta út í dag. (Gripið fram í.) Hér eiga að vera þingflokksfundir kl. 16, (GÓJ: Tvö mál á dagskrá.) er leyfilegt að rúlla yfir þingflokksfundi? Spyr sá sem ekki veit. Ég þekki ekki þingsköpin svo gjörla. (Gripið fram í.) Ég er að spyrja um það, herra yfirgjammari. Það er þingmaður hér í salnum …

(Forseti (BÁ): Forseti vill taka fram að ræðumaður, hv. þingmaður, verður að fá tækifæri til að ljúka máli sínu og eru aðrir þingmenn beðnir um að stilla sig. Jafnframt beinir forseti því til ræðumanna að gæta orða sinna.)

Þakka þér fyrir, herra forseti. Ég skal gæta orða minna. Ég tek fram að þegar ég notaði orðið yfirgjammari átti ég við hv. þm. Guðjón Ólaf Jónsson, hv. 7. þm. Reykv. n., þingmann Framsóknarflokksins, Framsóknarflokksins sem ég get ekki annað en (Forseti hringir.) vorkennt í dag, Guðjón Ólaf (Forseti hringir.) Jónsson, samvisku Framsóknarflokksins. (Forseti hringir.)

(Forseti (BÁ): Forseti ítrekar það sem áður var sagt um að hann biður þingmenn að gæta orða sinna í þessari umræðu. Jafnframt biður hann hv. þingmenn að gefa ræðumanni tækifæri til að flytja mál sitt ótruflað.)