133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

beiðni um utandagskrárumræðu o.fl.

[11:14]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það þyrfti að fara að rannsaka þátttöku stjórnarþingmanna í þessum umræðum því að þeir standast ekki á, jafnvel yfirmenn og undirmenn í þingflokkum tala hvor með sinni tungunni. Einn segir málþóf og annar segir að það eigi að gefa stjórnarandstöðunni færi til ítarlegra og mikilla umræðna um merkileg mál. Málþóf, segir hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson og vitnar í Vísi.is og segir að bragð sé að þá barnið finni. Þó að gests augun tali best er þetta þannig að í þeim áróðurslega undirbúningi sem stjórnarliðið hefur haft fyrir þessa umræðu og fyrir þetta upphaf þings hefur verið hrópað málþóf, málþóf, og það er von að menn glepjist á að trúa stjórnarþingmönnum og fólki á þeirra vegum.

Það er rétt að fara yfir það hvernig þetta þing hófst. Við áttum í menntamálanefndinni — Arnbjörg Sveinsdóttir virðist t.d. ekki hafa heyrt það og Sigurður Kári Kristjánsson hefur einhverja brenglaða mynd af því hvernig þetta gekk fyrir sig — ágæta fundi í þinghléinu þangað til eftir áramót að upp kom í dagblaði hér í bæ að allt árið 2006 hefðu verið í gangi samskipti milli alþjóðastofnunar sem við þekkjum öll og tveggja ráðuneyta hér innan lands um mál sem snertir það frumvarp sem hér er til umfjöllunar og snertir það frumvarp sem varð sjálfdautt úti í haga á fyrra þingi. Allt árið. Níu bréf, þegar búið var að draga þau upp, urðu þau að lokum. Vegna þess að mikið lá á að hefja þingið á réttum tíma var brugðið á það ráð, þegar beðið var um að þessi bréf yrðu birt, að fleygja þeim í hólf að kvöldi til, halda fund daginn eftir og ljúka málinu. Ef eitthvað er ólýðræðislegt og ómálefnalegt og heimskulegt að gera er það einmitt þetta. Ég veit að það er ekki við formann menntamálanefndar að eiga í málinu vegna þess að hann var auðvitað undir hreinum skipunum og hótunum frá menntamálaráðherra og væntanlega yfirmanni sínum í þingflokki, hinum beina yfirmanni Arnbjörgu Sveinsdóttur, formanni þingflokks sjálfstæðismanna, að gera þetta. Þetta var ákveðin forsögn um hvernig á málinu yrði tekið á þinginu.

Það sem gerðist fyrsta daginn — úr því að Sigurður Kári Kristjánsson var að ræða það bið ég hann að koma hér aftur og segja það enn einu sinni, hv. þingmann, að hér hafi verið málþóf. Hvaða málþóf var það? Var það ræða mín? (SKK: Hún var löng.) Hún var löng, já, hún var um mál sem skipti miklu máli. Var það ræða Kolbrúnar Halldórsdóttur eða Einars Más Sigurðarsonar, fulltrúa í menntamálanefnd? Ég bið þingmanninn að gæta orða sinna þegar hann ræðir um mál annarra manna. (Gripið fram í.)

(Forseti (BÁ): Forseti vill minna hv. ræðumenn á að gæta þess að ávarpa aðra þingmenn með hefðbundnum og viðhlítandi hætti en það vill stundum farast fyrir í hita leiksins.)