133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

beiðni um utandagskrárumræðu o.fl.

[11:31]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Herra forseti. Í tilefni þessara ummæla formanns menntamálanefndar vil ég taka fram, þó honum sé gjarnt að vitna í uppáhaldsfjölmiðilinn sinn, visir.is, þá held ég að þar hafi ekki staðið neitt um grímulaust málþóf, en það er bein tilvitnun einmitt í orð hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar. Hann talaði hér ítrekað um grímulaust málþóf. Ég skildi það þannig að það væru hans orð en ekki frá hinum frábæra fjölmiðli visir.is, sem reyndar hv. dómsmálaráðherra kallar alltaf einn af Baugsmiðlunum með mikilli fyrirlitningu. Það er alveg nýtt að þingmenn Sjálfstæðisflokksins séu farnir að hefja þann fjölmiðil upp til skýjanna þó það væri auðvitað eðlilegt því ritstjóri á einum þeirra miðla er fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, Þorsteinn Pálsson.

Herra forseti. Ég ítreka þá beiðni mína að það verði útskýrt fyrir okkur hér í þinginu hvernig standi til að haga fundum í dag. Á að tala áfram inn í nóttina? Verður gert þinghlé þegar þingflokksfundir eru? Þetta eru hlutir sem ég vil og tel eðlilegt að þingheimur fái á hreint.

Á að leyfa fyrirspurnatíma? Eða er það virkilega svo að enn eigi að geyma fyrirspurnir, eins og hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir benti á, sem hafa verið á biðlista í meira en 17 vikur? Það stendur skýrt í þingsköpum að ein eða tvær vikur eigi að duga ráðherrum til að svara. Látum nú vera að þær séu þrjár, eins og stundum er, en að það séu orðnar 17 vikur sem ráðherra hefur haft til að svara málum en ekki gert, gengur ekki. Þetta er allt sett á ís, herra forseti.

Ég óska eftir því að fá einu sinni skýr svör frá hæstv. forseta um þessi mál.