133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

beiðni um utandagskrárumræðu o.fl.

[11:34]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Herra forseti. Vegna umræðunnar um vinnubrögðin í þinginu og þeirrar gagnrýni sem kom fram í máli mínu í upphafi um störf þingsins get ég ekki látið hjá líða að koma aðeins inn á athugasemd hv. þm. Dagnýjar Jónsdóttur þar sem hún benti á eina af þeim fyrirspurnum sem eru orðnar fjögurra mánaða gamlar og ráðherrar hefðu átt að vera búnir að svara fyrir margt löngu, a.m.k. átt að svara viku eftir að þær voru lagðar fram í upphafi þings, þegar þing kom saman að loknu sumarleyfi. Hún nefndi búsetumál geðfatlaðra í Reykjavík sem ég hafði beint til félagsmálaráðherra fyrir þremur og hálfum mánuði.

Það er alveg rétt að hæstv. félagsmálaráðherra lýsti því yfir að hann gæti svarað þeirri fyrirspurn í nóvember en það var á degi sem ég var að sinna öðrum störfum fyrir þingið. Ég hafði því ekki tök á að koma á fyrirspurnaþingfund þá.

En síðan eru liðnir næstum því, hvað eigum við að segja, tveir og hálfur mánuður. Ég er að gagnrýna það að þótt hæstv. félagsmálaráðherra hafi getað svarað einni af þessum fimm fyrirspurnum sem eru að verða fjögurra mánaða gamlar, fyrir tveimur og hálfum mánuði, þá hefur fyrirspurnin ekki komist á dagskrá síðan. Ég veit ekki hvenær þessar fyrirspurnir komast á dagskrá. Fróðlegt væri að heyra það frá hæstv. forseta, hvenær hann telur að þær fyrirspurnir sem hafa beðið svara frá ráðherra allan þennan tíma muni komast á dagskrá.

Það átti að vera fyrirspurnatími í dag. Maður gerði auðvitað ráð fyrir að fá a.m.k. að eiga orðastað við einhverja af þeim ráðherrum sem eiga eftir að svara fyrirspurnum sem hafa legið svona lengi fyrir einmitt í dag, á þessum fundi. En svo er ekki.

Mig langar líka til að benda á að ein af þeim fyrirspurnum, sem er að verða fjögurra mánaða gömul, er um þjónustu á hjúkrunarheimilum, og þar er beiðni um skriflegt svar, fyrirspurn sem var dreift á fyrsta degi þingsins, í upphafi þings í haust. Það skriflega svar hefur ekki borist. Hæstv. heilbrigðisráðherra átti að hafa tíu daga til að svara þeirri fyrirspurn. Ég verð því að segja að ég er orðin ansi langeyg eftir svörum ráðherranna og langeyg eftir því að þessi mál komist á dagskrá.

Það er réttur þingmanna að fá svör við fyrirspurnum innan ákveðins tíma en nú eru komnir þrír og hálfur til fjórir mánuðir frá því að þær komu fram. Ég bið hæstv. forseta um að svara því, hvenær telur hann að fyrirspurnirnar muni komast á dagskrá miðað við vinnubrögðin.

(Forseti (BÁ): Forseti getur ekki svarað því að svo stöddu og mun ekki gera tilraun til þess.)