133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[12:48]
Hlusta

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni, formanni BSRB, sem líklega er manna fróðastur — a.m.k. einn fróðasti alþingismaðurinn í þessum sölum og á þingi — um vinnurétt og réttindi starfsmanna, fyrir afar hreinskilið svar.

Ég veit að formaður þingflokks Samfylkingarinnar, Össur Skarphéðinsson hefur hlustað á svar hans af athygli. Það varpar dálitlu ljósi á þær veilur sem eru í málflutningi Samfylkingarinnar. En það er sem sagt staðfest af formanni BSRB að verði fallist á tillögur Samfylkingarinnar um að breyta Ríkisútvarpinu í sjálfseignarstofnun þá tryggir það eitt og sér ekki að um starfsmenn slíkrar stofnunar gildi lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna.