133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[12:53]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég geri allt til að halda uppi góðum starfsaga. Ég er reiðubúinn til að stytta andsvör mín ef það má vera til að greiða fyrir þingstörfum. Ég er sammála hv. þingmanni um að staða Framsóknarflokksins í þessu máli er aumkunarverð. Ég hef fulla samúð með þingmönnum Framsóknarflokksins í þessu máli og græt örlög þeirra. Mér finnst þeir eiga betra skilið.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur ekki verið sá maður sem mestan kærleika hefur borið til Evrópusambandsins. En hann gerir sér væntanlega grein fyrir því að við þurfum, vegna þeirra skuldbindinga sem við höfum axlað, að standa okkur gagnvart tilteknum lagaramma sem við höfum samþykkt. Hann er mér sammála um það, ekki satt, að út af þessum skuldbindingum er ákaflega líklegt að Ríkisútvarpið ohf. muni þurfa að sæta miklu þrengri skoðun og nánari heldur en í núverandi formi.