133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

ummæli forseta í hádegisfréttum.

[13:40]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hef ekki tölur um fjölda þingmála sem afgreidd eru sem lög frá Alþingi á ári hverju að jafnaði, en ég hygg að þau kunni að skipta hundruðum, þingmálin sem eru afgreidd, sum í góðri sátt og því betur sem málin eru unnin, þeim mun meiri sátt sem um þau er, því greiðlegar gengur umræðan.

Frá því að ég tók setu á Alþingi árið 1995 eru örfá mál sem hafa leitt til mjög mikillar umræðu í þinginu. Ég minnist breytinga á húsnæðislöggjöfinni sem var mjög afdrifarík og varð til þess að láglaunafólk átti erfiðara um vik en áður var að eignast húsnæði og því var þannig þröngvað út á mjög erfiðan leigumarkað. Við börðumst hér í þingsal til að reyna að fá því breytt, ef ekki afstýrt.

Ég minnist breytinga á vinnulöggjöfinni 1996 þar sem gert var ráð fyrir breyttum vinnureglum á vinnumarkaði. Þau lög hafa aldrei gengið eftir vegna þess að um þau ríkti ósátt. Um þau var mikið rætt í þingsal. Ég minnist breytinga á lífeyrislöggjöf, einnig á árinu 1996, sem á endanum tókst að færa út úr þingsalnum og inn á samningsborð í þjóðfélaginu, skapa sátt og samstöðu um kerfi sem ég held að allir séu núna nokkuð sáttir með.

Ég nefni Kárahnjúka, ég minnist þeirra, einkavæðingar Landssímans, ásetning ríkisstjórnarinnar um að veita fyrirtæki, deCode, ríkisábyrgð upp á 20–30 milljarða og ég minnist núna Ríkisútvarpsins.

Þetta eru málin sem kallað hafa á langa umræðu í þinginu. Er það slæmt að slík umræða skuli hafa farið fram? Eigum við ekki að beina sjónum okkar að því sem vel er gert í þinginu? Margt er vel gert á Alþingi Íslendinga, hér eru afgreidd þingmál í stríðum straumum í samstöðu og með góðum vinnubrögðum. Er það ekki hlutverk forseta Alþingis að beina sjónum sínum að þessu og reyna síðan innan þingsins, á þeim vettvangi sem við höfum hér, að finna leiðir til lausnar á þeim brotalömum sem kunna að vera uppi?

Þær eru ýmsar, það er alveg rétt, en að vilja greiða götu ríkisstjórnarvaldsins í umdeildum málum með því að takmarka málfrelsi alþingismanna er að mínum dómi fyrir neðan allar hellur og þá tek ég undir það sem aðrir hafa sagt: Skoðum málin þá heildstætt, en veikjum ekki stöðu stjórnarandstöðunnar eins og mér heyrist að gefið hafi verið til kynna í ummælum forseta þingsins í útvarpi. (Forseti hringir.) Ég heyrði sjálfur ekki ummælin en hef hlustað á umræðurnar hér.