133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

ummæli forseta í hádegisfréttum.

[13:44]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég tek undir með þeim sem talað hafa á undan mér í því að lýsa undrun á ummælum hæstv. forseta Alþingis í fréttatíma í hádeginu í dag þar sem vandamálið virtist vera í hennar huga það að stjórnarandstaðan talaði of mikið og menn þyrftu að fara að velta fyrir sér að takmarka ræðutíma til að taka þetta vopn af stjórnarandstöðunni. Það gengi ekki að stjórnarandstaðan gæti talað og talað út í eitt, og ekki nokkur leið að koma á hana böndum. Ef ég man rétt sagði hæstv. forseti að þetta þekktist ekki í neinu öðru þjóðþingi.

Það er ansi margt á þessu þingi sem þekkist ekki í öðrum þjóðþingum. Mér er til efs að í mörgum þjóðþingum sé þannig haldið á málum að það sé nánast regla að frumvörp og þingsályktunartillögur sem stjórnarandstöðuþingmenn leggja fram komist varla á dagskrá þingsins. Ef þannig verður að þau komast á dagskrána er það algjör regla, nánast án undantekningar, að þau koma ekki úr nefnd og til 2. umr.

Virðing sem þessum þingmálum stjórnarandstöðunnar er sýnd hér á Alþingi er engin. Hvernig í ósköpunum eiga þingmenn stjórnarandstöðu sem búa við svona starfsskilyrði á þinginu — til hvaða ráða geta þeir gripið þegar verið er að reyna að koma í gegn málum sem engan veginn er hægt að fella sig við?

Við horfum á það núna að búið er að setja herlög á þinginu. Búið er að ryðja í burtu öllu sem átti hér að vera og í raun, eins og fram hefur komið í málum þeirra þingmanna sem hér hafa talað á undan, hafa lögin um þingsköp verið hunsuð og allar hefðir og venjur eru settar til hliðar vegna þráhyggju eins ráðherra við að koma einu lagafrumvarpi í gegn.

Er hæstv. forseta kunnugt um hvort hæstv. aðalforseti þingsins, Sólveig Pétursdóttir, vissi af þessari umræðu? (Gripið fram í: Já, það kom fram.)

(Forseti (RG): Forseti vill taka fram að vegna skyldustarfa á forsetastóli heyrði forseti engar fréttir og þá ekki þessa sem vísað hefur verið til í þessari umræðu. Forseti veit einungis það sem hv. þm. Mörður Árnason gat um í upphafi umræðu, að hann óskaði eftir viðveru forseta, Sólveigar Pétursdóttur, og að hún hefði verið fjarverandi. Því miður hefur forseti ekki aðrar upplýsingar.)

Þakka þér fyrir, frú forseti. Það kemur sem sagt í ljós, ég heyrði það ekki í framsögu hjá hv. þm. Merði Árnasyni, að hann hafi látið hæstv. forseta vita af þessari umræðu en það sýnir kannski enn og aftur virðingu hæstv. forseta við stjórnarandstöðuþingmenn, forseta sem sagði hér þegar hún tók við sem forseti þingsins að hún væri forseti allra þingmanna og ætlaði að hafa (Forseti hringir.) hér víðtækt samráð.