133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

ummæli forseta í hádegisfréttum.

[13:47]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Það er rétt að taka upp þráðinn þar sem síðasti hv. þingmaður hætti og rifja örlítið upp hina fyrstu ræðu virðulegs forseta, Sólveigar Pétursdóttur, þar sem boðað var aukið samráð milli stjórnar og stjórnarandstöðu, ýmsar breytingar á þingsköpum og störfum í þinginu, fundartímum og öðru slíku. Þetta átti allt að gera í sátt og samlyndi og ég man ekki betur en að fögnuður hafi farið um þingheim við þennan boðskap og allir verið reiðubúnir til að taka þátt í slíkum breytingum. Það verður því að segja í þessu samhengi að það er afar óheppilegt innlegg virðulegs forseta í þá stöðu sem nú er í þingi þessa dagana að mæta í opinberan fjölmiðil og viðhafa þau ummæli sem hér hafa verið rifjuð upp. Það er auðvitað ekki í samhengi við eitt eða neitt og allra síst í samhengi við það hlutverk forseta að reyna að ná sáttum og reyna að halda sæmilegum aga á þingstörfum í fullu samráði við stjórnarandstöðuflokkana, að bera það á borð fyrir alþjóð að eini vandinn nú sé þetta vandræðaákvæði í þingsköpum um að stjórnarandstaðan hafi ótakmarkað málfrelsi, það sé meginvandamálið. Ég held með fullri virðingu fyrir virðulegum forseta að það sé eðlilegt að þeim skilaboðum sé komið á framfæri, að í þessari stöðu væri líklega nær fyrir virðulegan forseta að líta örlítið í eigin barm og velta því fyrir sér hvort framkoma og framgangur forseta í þessu öllu saman ætti ekki að vera annar og hvort það sé ekki hlutverk forseta að líta svo á að það sé meginverkið að halda þingheimi saman og hafa fullt samráð við þingheim en láta ekki framkvæmdarvaldið stýra hér öllu og stjórna. Það sé nóg að það sé einn ráðherra — sem við að vísu fengum upplýsingar um í þingsölum í gær að væri ekki alveg venjulegur virðulegur ráðherra heldur varaformaður í flokki og samkvæmt ummælum formanns menntamálanefndar virðist varaformaður í flokki þeirra sjálfstæðismanna hafa það meginhlutverk að vera yfir öllum þingmönnum og stýra þeim og stjórna væntanlega öllum og það er vitanlega alvarlegt umhugsunarefni ef virðulegur forseti þingsins lítur þannig á málið einnig, þ.e. að það sé varaformaður Sjálfstæðisflokksins sem taki ákvarðanir um það hvernig þinghaldi skuli háttað.

Ég held að það sé alveg nauðsynlegt, virðulegur forseti, að við fáum tækifæri einhvern tíma í dag þegar við getum aftur tekið upp umræður um fundarstjórn forseta að virðulegur forseti verði viðstaddur þannig að það megi eiga orðastað um þessa hluti því það er auðvitað lykilatriði til að koma skikki á þinghaldið að virðulegur forseti átti sig á hlutverki sínu.